Hvað verðum við að flýja?
Hvað verðum við að flýja?
„Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði?“ — MATT. 3:7.
1. Nefndu dæmi úr Biblíunni um fólk sem flúði.
HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið „flýja“? Sumir sjá kannski fyrir sér hinn myndarlega Jósef þegar hann flúði undan eiginkonu Pótífars sem reyndi að tæla hann. (1. Mós. 39:7-12) Aðrir hugsa ef til vill um kristna menn sem flúðu frá Jerúsalem árið 66 í samræmi við fyrirmæli Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá . . . flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt.“ — Lúk. 21:20, 21.
2, 3. (a) Útskýrðu hvað Jóhannes skírari átti við þegar hann gagnrýndi trúarleiðtogana. (b) Hvernig styrkja orð Jesú viðvörun Jóhannesar?
2 Í dæmunum hér á undan var um að ræða bókstaflegan flótta. Nú á dögum er áríðandi að kristnir menn, sem búa í nánast öllum löndum heims, flýi á táknrænan hátt. Jóhannes skírari notaði orðið „flýja“ í þessum skilningi. Meðal þeirra sem komu til Jóhannesar voru sjálfumglaðir trúarleiðtogar Gyðinga sem fundu ekki hjá sér neina hvöt til að iðrast. Þeir litu niður á almúgann sem lét skírast til tákns um iðrun. Jóhannes afhjúpaði hræsni þeirra óttalaust: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum!“ — Matt. 3:7, 8.
3 Jóhannes var ekki að tala um bókstaflegan flótta heldur vara við komandi dómi, reiðidegi Guðs. Hann minnti trúarleiðtogana á að þeir þyrftu að sýna iðrun í verki til að komast undan á þessum degi. Seinna fordæmdi Jesús trúarleiðtogana. Hann sagði hispurslaust að grimmd þeirra bæri þess vitni að djöfullinn væri faðir þeirra. (Jóh. 8:44) Hann tók í sama streng og Jóhannes, kallaði þá „nöðrukyn“ og spurði: „Hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm [„dóm Gehenna,“ NW]?“ (Matt. 23:33) Hvað átti Jesús við með orðinu „Gehenna“?
4. Hvað gaf Jesús til kynna þegar hann minntist á Gehenna?
4 Gehenna var dalur fyrir utan múra Jerúsalem þar sem sorp og dýrahræ voru brennd. Jesús notaði Gehenna sem tákn um eilífan dauða. (Sjá bls. 27.) Þegar hann spurði trúarleiðtogana hvernig þeir fengju umflúið Gehenna gaf hann til kynna að þeir sem hópur ættu skilið eilífa eyðingu. — Matt. 5:22, 29, Biblían 1912, neðanmáls.
5. Hvenær og hvernig rættust viðvörunarorð Jóhannesar og Jesú?
5 Trúarleiðtogar Gyðinga juku á syndir sínar með því að ofsækja Jesú og fylgjendur hans. Seinna kom reiðidagur Guðs eins og Jóhannes og Jesús höfðu varað við. Þá takmarkaðist hin „komandi reiði“ við eitt ákveðið svæði, það er að segja Jerúsalem og Júdeu, og því hefði verið hægt að flýja á bókstaflegan hátt. Reiðinni var úthellt þegar rómverskar hersveitir eyddu Jerúsalem og musterinu árið 70. Jerúsalem hafði aldrei áður orðið fyrir þvílíkri ‚þrengingu‘. Margir féllu eða voru teknir til fanga. Þetta vísaði til enn meiri eyðingar sem bíður margra sem segjast vera kristnir eða tilheyra öðrum trúarbrögðum. — Matt. 24:21.
Komandi reiði umflúin
6. Hvaða þróun átti sér stað í frumkristna söfnuðinum?
6 Sumir hinna frumkristnu gerðust fráhvarfsmenn og fengu aðra í lið með sér. (Post. 20:29, 30) Á meðan postular Jesú lifðu héldu þeir fráhvarfinu niðri en eftir dauða þeirra skutu margir falskristnir trúflokkar upp kollinum. Núna segjast hundruð safnaða vera kristnir en kenningar þeirra eru þó gerólíkar. Í Biblíunni var því spáð að prestastétt kristna heimsins myndi eflast. Biblían kallar þennan hóp ‚mann lögleysisins‘ og ‚son glötunarinnar‘ og bætir við: „Drottinn Jesús mun koma og birtast, tortíma honum . . . og gera hann að engu.“ — 2. Þess. 2:3, 6-8.
7. Af hverju er viðeigandi að kalla prestastétt kristna heimsins ‚mann lögleysisins‘?
7 Kalla má prestastétt kristna heimsins ‚löglausa‘ því að hún hefur afvegaleitt milljónir manna með því að samþykkja óguðlega hegðun og halda á lofti kenningum og hátíðum sem stangast á við Biblíuna. Þeir sem tilheyra ‚syni glötunarinnar‘ nú á dögum hljóta eilífa glötun án vonar um upprisu líkt og trúarleiðtogarnir sem Jesús fordæmdi. (2. Þess. 1:6-9) En hvað bíður þeirra sem hafa verið blekktir af prestastétt kristna heimsins eða prestum annarra falstrúarbragða? Til að svara þessari spurningu skulum við skoða atburði sem komu í kjölfar fyrri eyðingar Jerúsalem árið 607 f.Kr.
„Flýið frá Babýlon“
8, 9. (a) Hvaða spádómlega boðskap flutti Jeremía Gyðingunum í Babýlon? (b) Í hvaða skilningi gátu Gyðingar flúið eftir að Medar og Persar sigruðu Babýlon?
8 Jeremía spámaður sagði fyrir að Jerúsalem yrði eytt og orð hans rættust árið 607 f.Kr. Hann sagði að þjóð Guðs yrði herleidd en fengi að snúa aftur til heimalands síns eftir „sjötíu ár“. (Jer. 29:4, 10) Jeremía flutti Gyðingum, sem voru í haldi í Babýlon, mikilvægan boðskap — þeir áttu að halda sér frá þeirri falstrúariðkun sem þar var stunduð. Þá yrðu þeir tilbúnir til að snúa aftur til Jerúsalem og endurreisa sanna tilbeiðslu þegar þar að kæmi. Það gerðist stuttu eftir að Medar og Persar sigruðu Babýlon árið 539 f.Kr. Kýrus 2. Persakonungur gaf fyrirmæli um að Gyðingar mættu snúa heim og endurbyggja musteri Jehóva í Jerúsalem. — Esra. 1:1-4.
9 Þúsundir Gyðinga gripu tækifærið og sneru heim. (Esra. 2:64-67) Þannig uppfylltu þeir spádómleg fyrirmæli Jeremía og flúðu í þeim skilningi að þeir fóru á annan stað. (Lestu Jeremía 51:6, 45, 50.) Vegna aðstæðna sinna gátu ekki allir Gyðingar lagt upp í langferðina til Jerúsalem og Júda. Þeir sem urðu eftir í Babýlon, eins og aldraði spámaðurinn Daníel, gátu notið blessunar Guðs ef þeir studdu sanna tilbeiðslu í Jerúsalem af heilum hug og héldu sér aðgreindum frá falskri tilbeiðslu í Babýlon.
10. Hvaða ‚svívirðum‘ er „Babýlon hin mikla“ ábyrg fyrir?
1. Mós. 11:6-9) Sem heild eru þessi trúarbrögð kölluð „Babýlon hin mikla, móðir alls saurlifnaðar og svívirðu á jörðunni“. (Opinb. 17:5) Fölsk trúarbrögð hafa í aldanna rás stutt pólitíska valdhafa heimsins. Þau eru ábyrg fyrir margs konar ‚svívirðum‘. Sem dæmi má nefna þær mörgu styrjaldir sem hafa leitt til þess að menn hafa verið „drepnir . . . á jörðunni“ í milljónatali. (Opinb. 18:24) Aðrar ‚svívirður‘ eru meðal annars kynferðisofbeldi gegn börnum og annars konar siðleysi sem klerkar hafa drýgt og kirkjuyfirvöld umborið. Er nokkur furða að Jehóva Guð muni bráðum útrýma falstrúarbrögðum af jörðinni? — Opinb. 18:8.
10 Nú á dögum tilheyra milljarðar manna falstrúarbrögðum sem eiga rætur að rekja til Babýlonar fortíðar. (11. Hvað ber sannkristnum mönnum skylda til að gera áður en Babýlon hinni miklu verður eytt?
11 Sannkristnir menn vita þetta og þeim ber skylda til að vara þá við sem tilheyra Babýlon hinni miklu. Þeir gera það meðal annars með því að dreifa biblíum og biblíutengdum ritum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ gefur út, en Jesús fól þessum þjóni að veita andlega fæðu „á réttum tíma“. (Matt. 24:45) Þegar fólk sýnir áhuga á boðskap Biblíunnar bjóðumst við til að aðstoða það við biblíunám. Vonandi sér það nauðsyn þess að flýja frá Babýlon áður en það er um seinan. — Opinb. 18:4.
Flýið skurðgoðadýrkunina
12. Hvað finnst Guði um það þegar menn dýrka skurðgoð og líkneski?
12 Innan Babýlonar hinnar miklu fremja menn enn aðra svívirðu með því að dýrka skurðgoð og líkneski sem Guð kallar ‚viðurstyggilega hjáguði‘. (5. Mós. 29:17) Allir sem vilja þóknast Jehóva verða að forðast skurðgoðadýrkun í samræmi við orð hans: „Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég ekki öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.“ — Jes. 42:8.
13. Hvers konar lúmska skurðgoðadýrkun verðum við að flýja?
13 Orð Guðs afhjúpar líka hvers kyns lúmska skurðgoðadýrkun. Í Biblíunni er ágirnd til dæmis kölluð „skurðgoðadýrkun“. (Kól. 3:5) Að ágirnast þýðir að þrá það sem maður hefur ekki rétt á að fá, eins og til dæmis eigur annarra. (2. Mós. 20:17) Engillinn, sem varð Satan djöfullinn, ól með sér löngun til að verða eins og hinn hæsti og vera tilbeðinn. (Lúk. 4:5-7) Það varð til þess að hann gerði uppreisn gegn Jehóva og fékk Evu til að girnast það sem Guð hafði bannað henni að fá. Í vissum skilningi varð Adam líka sekur um skurðgoðadýrkun með því að leyfa eigingjarnri þrá eftir félagsskap konu sinnar að verða mikilvægari en hlýðni við kærleiksríkan föður sinn á himnum. Allir sem vilja flýja reiðidag Guðs verða því að veita Guði óskipta hollustu og forðast alla ágirnd af þessu tagi.
Flýið saurlifnaðinn
14-16. (a) Hvernig setti Jósef gott fordæmi í siðferðismálum? (b) Hvað ættum við að gera ef við finnum fyrir óviðeigandi kynferðislöngun? (c) Hvernig getum við flúið saurlifnaðinn?
14Lestu 1. Korintubréf 6:18. Þegar eiginkona Pótífars reyndi að tæla Jósef flúði hann frá henni í bókstaflegum skilningi. Hann er kristnum mönnum góð fyrirmynd, hvort sem þeir eru einhleypir eða giftir. Jósef hafði greinilega mótað samvisku sína í samræmi við það sem hann vissi um viðhorf Guðs. Til að hlýða fyrirmælunum um að flýja saurlifnaðinn verðum við að forðast allt sem gæti vakið kynferðislegar langanir sem beinast að öðrum en maka okkar. Okkur er sagt: „Deyðið . . . í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs.“ — Kól. 3:5, 6.
15 Taktu eftir að „reiði Guðs [kemur]“. Margir í heiminum ala með sér óviðeigandi kynferðislanganir og láta undan þeim. Þess vegna verðum við, kristnir menn, að biðja um hjálp Guðs og heilagan anda til að óhreinar langanir stjórni okkur ekki. Auk þess getur biblíunám, boðunarstarf og safnaðarsamkomur hjálpað okkur að ‚lifa í andanum‘ og ‚fullnægja alls ekki girnd holdsins‘. — Gal. 5:16.
16 Ef við horfum á klám erum við vissulega ekki að ‚lifa í andanum‘. Allir kristnir menn verða líka að varast að lesa, horfa á eða hlusta á kynferðislega örvandi efni. Á sama hátt er rangt af „heilögum“ þjónum Guðs að segja klúra brandara eða ræða sín á milli um slík mál á óvirðulegan hátt. (Ef. 5:3, 4) Þannig sýnum við kærleiksríkum föður okkar að við viljum flýja komandi reiði og búa í réttlátum nýjum heimi hans.
Flýið fégirndina
17, 18. Af hverju verðum við að flýja fégirndina?
17 Í fyrra bréfi sínu til Tímóteusar benti Páll á meginreglur sem gátu nýst kristnum þrælum. Sumir þeirra bjuggust kannski við að njóta efnislegra þæginda vegna þess að húsbændur þeirra voru kristnir. Aðrir reyndu ef til vill að nota söfnuðinn í eiginhagsmunaskyni. Páll varaði við því að líta á „trúna sem gróðaveg“. Rót vandans gæti hafa verið „fégirndin“ sem getur haft slæm áhrif á hvern sem er, hvort sem hann er ríkur eða fátækur. — 1. Tím. 6:1, 2, 5, 9, 10.
18 Dettur þér í hug frásagnir í Biblíunni af fólki sem skaðaði samband sitt við Guð vegna ‚fégirndar‘ eða löngunar í óþarfa hluti sem fást fyrir peninga? (Jós. 7:11, 21; 2. Kon. 5:20, 25-27) Páll hvatti Tímóteus: „Þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ (1. Tím. 6:11) Allir sem vilja komast lífs af á reiðidegi Guðs verða að fylgja þessum fyrirmælum.
„Flý þú æskunnar girndir“
19. Á hverju þurfa allir unglingar að halda?
19Lestu Orðskviðina 22:15. ‚Heimska‘ í hjarta unglinga getur auðveldlega leitt þá afvega. En agi byggður á Biblíunni vinnur gegn þessum áhrifum. Margir kristnir unglingar, sem eiga ekki foreldra í trúnni, leggja sig fram um að finna meginreglur í Biblíunni og fylgja þeim. Aðrir njóta góðs af viturlegum leiðbeiningum andlega þroskaðra trúsystkina. Það er unglingum til góðs, bæði núna og í framtíðinni, að fylgja biblíulegum leiðbeiningum sem þeir fá. — Hebr. 12:8-11.
20. Hvað getur hjálpað unglingum að flýja „æskunnar girndir“?
20Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:20-22. Marga unglinga skortir heilnæman aga og þeir hafa leyft samkeppnisanda, ágirnd, saurlifnaði, fégirnd og skemmtanafíkn að leiða sig afvega. Þetta eru „æskunnar girndir“ sem Biblían hvetur okkur til að flýja. Kristnir unglingar flýja þær með því að varast óheilnæm áhrif hvaðan sem þau koma. Það er sérstaklega gagnlegt fyrir þá að fylgja því biblíulega ráði að temja sér góða eiginleika „ásamt þeim sem ákalla Drottin af hreinu hjarta“.
21. Hvaða stórkostlega loforð hefur Jesús Kristur gefið fylgjendum sínum?
21 Hvort sem við erum ung eða gömul ættum við aldrei að hlusta á þá sem reyna að leiða okkur afvega. Þannig sýnum við að við viljum vera meðal sauða Jesú sem „flýja frá . . . raust ókunnugra“. (Jóh. 10:5) En til að komast undan á reiðidegi Guðs verðum við að gera meira en að flýja það sem er skaðlegt. Við verðum líka að leggja rækt við góða eiginleika. Í næstu grein verður fjallað um sjö eiginleika sem við verðum að leggja stund á. Við höfum gilda ástæðu til að skoða þetta efni nánar því að Jesús lofar: „Ég gef [sauðum mínum] eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast og enginn skal slíta þá úr hendi minni.“ — Jóh. 10:28.
Hvert er svarið?
• Við hverju varaði Jesús trúarleiðtogana?
• Frammi fyrir hvaða hættu standa milljónir manna?
• Hvers konar lúmska skurðgoðadýrkun verðum við að flýja?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 8, 9]
Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið „flýja“?