Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónn Jehóva — „særður vegna vorra synda“

Þjónn Jehóva — „særður vegna vorra synda“

Þjónn Jehóva — „særður vegna vorra synda“

„Hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða . . . fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir.“ — JES. 53:5.

1. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við höldum minningarhátíðina og hvaða spádómur hjálpar okkur til þess?

VIÐ höldum minningarhátíðina til að minnast dauða Krists og alls þess sem dauði hans og upprisa áorkaði. Hátíðin minnir okkur á hvernig Jehóva hefur varið drottinvald sitt og helgað nafn sitt. Hún minnir á hvernig vilji hans nær fram að ganga og hvernig hann bjargar mannkyninu. Sennilega er enginn spádómur í Biblíunni sem lýsir betur fórn Krists og því sem hún áorkaði en spádómurinn í Jesaja 53:3-12. Jesaja spáði um þjáningar þjónsins og gaf vissar upplýsingar um dauða hans og þá blessun sem dauði hans myndi hafa í för með sér fyrir andasmurða bræður hans og „aðra sauði“. — Jóh. 10:16.

2. Hvað sannar spádómur Jesaja og hvaða áhrif ætti hann að hafa á okkur?

2 Sjö öldum áður en Jesús fæddist á jörð innblés Jehóva Jesaja að spá um útvalinn þjón sinn sem yrði honum trúr þótt hann yrði reyndur til hins ýtrasta. Þetta sannar að Jehóva treysti fullkomlega á hollustu sonar síns. Þegar við kynnum okkur spádóminn ætti það að vekja þakklæti í hjörtum okkar og styrkja trúna.

Fyrirlitinn og metinn einskis

3. Af hverju hefðu Gyðingar átt að taka Jesú tveim höndum en hvaða viðtökur fékk hann?

3Lestu Jesaja 53:3. Reyndu að gera þér í hugarlund hvað það hefur þýtt fyrir einkason Guðs að afsala sér gleðinni sem fylgdi því að þjóna við hlið föður síns, og koma til jarðar til að fórna lífi sínu og bjarga mannkyni frá synd og dauða. (Fil. 2:5-8) Fórn hans átti að koma því til leiðar að menn fengju raunverulega syndafyrirgefningu en dýrafórnir Móselaganna höfðu aðeins verið fyrirmynd um það. (Hebr. 10:1-4) Hefðu ekki í það minnsta Gyðingar átt að taka honum fagnandi og heiðra hann? Þeir voru nú einu sinni að bíða þess að hinn fyrirheitni Messías kæmi. (Jóh. 6:14) Þess í stað var Jesús „fyrirlitinn“ af Gyðingum og þeir ‚mátu hann einskis‘ rétt eins og Jesaja spáði. Jóhannes postuli skrifaði: „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum.“ (Jóh. 1:11) Pétur postuli sagði Gyðingum: „Guð forfeðra vorra . . . hefur gert þjón sinn, Jesú, dýrlegan, sama Jesú sem þið framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi er hann hafði ályktað að láta hann lausan. Þið afneituðuð hinum heilaga og réttláta.“ — Post. 3:13, 14.

4. Hvernig var Jesús kunnugur sjúkdómum?

4 Jesaja spáði líka að Jesús ætti að vera „kunnugur þjáningum [„sjúkdómum“, NW]“. Jesús varð stundum þreyttur meðan hann starfaði hér á jörð en ekkert bendir til þess að hann hafi nokkurn tíma veikst. (Jóh. 4:6) Hann var hins vegar kunnugur sjúkdómum fólksins sem hann boðaði fagnaðarerindið. Hann kenndi í brjósti um það og læknaði marga. (Mark. 1:32-34) Þannig uppfyllti hann spádóminn þar sem segir: „Vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði.“ — Jes. 53:4a; Matt. 8:16, 17.

Eins og „sleginn . . . af Guði“

5. Hvernig litu margir Gyðingar á dauða Jesú og af hverju jók það á þjáningar hans?

5Lestu Jesaja 53:4b. Margir samtíðarmenn Jesú skildu ekki af hverju hann þjáðist og dó. Þeir héldu að Guð væri að refsa honum, rétt eins og hann legði á hann andstyggilegan sjúkdóm. (Matt. 27:38-44) Gyðingar sökuðu Jesú um guðlast. (Mark. 14:61-64; Jóh. 10:33) Jesús var auðvitað hvorki syndugur né lastmáll. En sökum þess hve heitt hann elskaði föður sinn hlýtur sú hugmynd að hafa aukið á þjáningar hans að hann yrði að deyja sakaður um guðlast. Hann var engu að síður fús til að lúta vilja Jehóva sem þjónn hans. — Matt. 26:39.

6, 7. Í hvaða skilningi ‚kramdi‘ Jehóva trúan þjón sinn og af hverju hafði hann þóknun á því?

6 Við getum skilið hvers vegna fólk hélt að Kristur hefði verið „sleginn . . . af Guði“ eins og það er orðað í spádómi Jesaja. Hins vegar getur það komið mönnum á óvart að þar skuli standa: „Drottni þóknaðist að kremja hann.“ (Jes. 53:10) Nú var Jehóva búinn að segja: „Sjá þjón minn . . . minn útvalda sem ég hef velþóknun á.“ Hvernig gat honum þá ‚þóknast að kremja hann‘? (Jes. 42:1) Í hvaða skilningi gat það verið gleðiefni fyrir Jehóva?

7 Til að skilja þennan hluta spádómsins þurfum við að hafa í huga að þegar Satan ögraði drottinvaldi Jehóva dró hann í efa hollustu allra þjóna Guðs á himni og jörð. (Job. 1:9-11; 2:3-5) Jesús svaraði ögrun Satans fullkomlega með því að vera trúr allt til dauða. Þó að Jehóva hafi leyft óvinum Krists að taka hann af lífi leikur enginn vafi á að það var sárt fyrir hann að sjá útvalinn þjón sinn líflátinn. Hins vegar gladdi það Jehóva ósegjanlega að sjá son sinn fullkomlega trúfastan. (Orðskv. 27:11) Og það var ákaflega ánægjulegt fyrir Jehóva að hugsa til þess að dauði sonar hans myndi verða iðrandi mönnum til mikillar gæfu. — Lúk. 15:7.

„Særður vegna vorra synda“

8, 9. (a) Hvernig var Jesús „særður vegna vorra synda“? (b) Hvernig staðfesti Pétur það?

8Lestu Jesaja 53:6. Syndugir menn hafa eigrað um eins og týndir sauðir í leit að frelsun undan sjúkdómum og undan dauðanum sem þeir erfðu frá Adam. (1. Pét. 2:25) En enginn ófullkominn afkomandi Adams gat endurheimt það sem Adam hafði fyrirgert. (Sálm. 49:8) Í kærleika sínum lét Jehóva „synd vor allra koma niður á honum“, það er að segja ástkærum syni sínum og útvöldum þjóni. Kristur féllst á að hann yrði „særður vegna vorra synda“ og „kraminn vegna vorra misgjörða“ og bar þannig syndir okkar upp á kvalastaurinn og dó í okkar stað.

9 Pétur postuli skrifaði: „Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu.“ Síðan bætir hann við og vitnar í spádóm Jesaja: „Fyrir hans benjar eruð þið læknuð.“ (1. Pét. 2:21, 24; Jes. 53:5) Þar með opnaðist leiðin til að syndarar gætu sæst við Guð eins og Pétur segir síðar í bréfi sínu: „Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs.“ — 1. Pét. 3:18.

Eins og „lamb sem leitt er til slátrunar“

10. (a) Hvernig lýsti Jóhannes skírari Jesú? (b) Af hverju var lýsing Jóhannesar viðeigandi?

10Lestu Jesaja 53:7, 8. Þegar Jóhannes skírari sá Jesú koma til sín sagði hann: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.“ (Jóh. 1:29) Þegar Jóhannes kallaði Jesú lamb er hugsanlegt að hann hafi haft í huga orð Jesaja um „lamb sem leitt er til slátrunar“. (Jes. 53:7) „Hann gaf líf sitt í dauðann,“ spáði Jesaja. (Jes. 53:12) Það er athyglisvert að kvöldið sem Jesús stofnaði til minningarhátíðarinnar um dauða sinn rétti hann postulunum 11, sem voru trúfastir, vínbikar og sagði: „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ — Matt. 26:28.

11, 12. (a) Hvað var hliðstætt með Ísak og Kristi? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast varðandi hinn meiri Abraham, Jehóva Guð, þegar við höldum minningarhátíðina?

11 Líkt og Ísak forðum daga var Jesús tilbúinn til að láta færa sig að fórn. Vilji Jehóva með hann var eins og táknrænt altari sem hann átti að deyja á. (1. Mós. 22:1, 2, 9-13; Hebr. 10:5-10) En þótt Ísak hafi verið fús til að láta fórna sér var það Abraham sem reyndi að færa fórnina. (Hebr. 11:17) Jesús var líka fullkomlega fús til að deyja en það var Jehóva sem ákvað hvernig ætti að greiða lausnargjaldið. Sonarfórnin var merki um djúpan kærleika Jehóva til mannkyns.

12 „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf,“ sagði Jesús. (Jóh. 3:16) Páll postuli skrifaði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:8) Þó að við heiðrum Krist með því að minnast dauða hans megum við aldrei gleyma að það var hinn meiri Abraham, Jehóva Guð, sem sá til þess að lausnargjaldið væri greitt. Við höldum minningarhátíðina honum til lofs.

Þjónninn ‚réttlætir marga‘

13, 14. Hvernig hefur þjónn Jehóva ‚réttlætt marga‘?

13Lestu Jesaja 53:11, 12. Jehóva sagði að útvalinn þjónn sinn myndi „réttlæta marga“. Með hvaða hætti? Við finnum vísbendingu um svarið í lok 12. versins. Þar segir: „[Hann] bað fyrir illræðismönnum.“ Allir afkomendur Adams eru fæddir syndarar eða ‚illræðismenn‘ og hljóta þess vegna „laun syndarinnar“ sem eru dauði. (Rómv. 5:12; 6:23) Það þarf að koma á sáttum milli Jehóva og syndugra manna. Í 53. kafla Jesajabókar er að finna fagra lýsingu á því hvernig Jesús „bað fyrir“ syndugum mönnum eða miðlaði málum milli þeirra og Guðs. Þar segir: „Honum var refsað svo að vér fengjum frið og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir.“ — Jes. 53:5.

14 Kristur ‚réttlætti marga‘ með því að taka á sig syndir okkar og deyja fyrir okkur. Páll skrifaði: „Í honum [Kristi] þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.“ — Kól. 1:19, 20.

15. (a) Við hverja átti Páll þegar hann talaði um það sem er á „himnum“? (b) Hverjir einir eiga rétt á að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni og hvers vegna?

15 Það sem er á „himnum“ eru andasmurðir kristnir menn sem eru kallaðir til að ríkja með Kristi á himnum. Þeim er komið í sátt við Jehóva með úthelltu blóði Jesú. Kristnir menn, sem hafa „fengið köllun til himinsins“, eru lýstir réttlátir og „öðlast líf“. (Hebr. 3:1; Rómv. 5:1, 18) Jehóva viðurkennir þá síðan sem andlega syni. Heilagur andi vitnar með þeim að þeir séu „samarfar Krists“ og þeir séu kallaðir til að verða konungar og prestar í ríki hans á himnum. (Rómv. 8:15-17; Opinb. 5:9, 10) Þeir fá að tilheyra hinum andlega „Ísrael Guðs“ og eignast aðild að ‚nýja sáttmálanum‘. (Jer. 31:31-34; Gal. 6:16) Sem aðilar að sáttmálanum eiga þeir rétt á að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni. Jesús sagði um vínbikarinn: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.“ — Lúk. 22:20.

16. Við hverja átti Páll þegar hann talaði um það sem er „á jörðu“ og að hvaða leyti standa þeir réttlátir frammi fyrir Jehóva?

16 Það sem er „á jörðu“ eru aðrir sauðir Krists sem hafa þá von að lifa að eilífu á jörð. Útvalinn þjónn Jehóva réttlætir þá líka frammi fyrir honum. Þar sem þeir trúa á lausnarfórn Krists og hafa þar með „hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins“ lýsir Jehóva þá réttláta, ekki sem andlega syni heldur sem vini sína. Hann gefur þeim þá unaðslegu von að komast lifandi úr „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:9, 10, 14; Jak. 2:23) Þeir eiga ekki aðild að nýja sáttmálanum og hafa því ekki von um að fara til himna. Þess vegna neyta aðrir sauðir ekki af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni heldur sækja hana sem hæverskir áhorfendur.

Þökk sé Jehóva og þjóninum sem hann hefur velþóknun á

17. Hvernig hefur það búið okkur undir minningarhátíðina að fara yfir spádóma Jesaja um þjóninn?

17 Það hefur verið gott að búa sig undir minningarhátíðina um dauða Krists með því að fara yfir spádóma Jesaja um þjóninn. Það hefur hjálpað okkur að ‚beina sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar‘. (Hebr. 12:2) Við höfum komist að raun um að sonur Guðs streitist ekki á móti föður sínum. Hann viðurkennir Jehóva sem alheimsdrottin og hefur, ólíkt Satan, yndi af því að læra af honum. Við höfum lesið um umhyggju Jesú fyrir þeim sem hann boðaði fagnaðarerindið meðan hann var á jörð. Hann læknaði marga og hjálpaði þeim að eignast samband við Guð. Þannig sýndi hann hvað hann á eftir að gera í nýjum heimi sem Messíasarkonungur þegar hann „hefur grundvallað rétt á jörðu“. (Jes. 42:4) Kostgæfni hans þegar hann boðaði ríki Guðs og var ‚ljós fyrir lýðina‘ minnir fylgjendur hans á að þeir eigi að prédika fagnaðarerindið af kappi út um allan heim. — Jes. 42:6.

18. Af hverju vekja spádómar Jesaja þakklæti í hjörtum okkar til Jehóva og til þjóns hans?

18 Spádómar Jesaja varpa enn skýrara ljósi á þá miklu fórn sem Jehóva færði þegar hann sendi ástkæran son sinn til jarðar til að þjást og deyja fyrir okkur. Jehóva hafði enga ánægju af að sjá son sinn þjást en það gladdi hann að horfa á óhagganlega trúfesti hans allt til dauða. Við ættum að gleðjast með Jehóva og minnast alls þess sem Jesús gerði til að helga nafn hans. Við skulum minnast þess hvernig hann sannaði að Satan væri lygari og sýndi fram á að Jehóva sé réttmætur Drottinn alheims. Auk þess tók Kristur á sig syndir okkar og dó fyrir okkur. Þannig sá hann til þess að lítil hjörð andasmurðra bræðra hans og aðrir sauðir gætu staðið réttlátir frammi fyrir Jehóva. Megi hjörtu okkar vera full þakklætis til Jehóva og þjóns hans þegar við söfnumst saman á minningarhátíðinni.

Til upprifjunar

• Í hvaða skilningi „þóknaðist“ Jehóva að „kremja“ son sinn?

• Hvernig var Jesús „særður vegna vorra synda“?

• Hvernig gat þjónninn ‚réttlætt marga‘?

• Hvernig hefur það búið okkur undir minningarhátíðina að fara yfir spádóma Jesaja um þjóninn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

„Hann var fyrirlitinn . . . og vér mátum hann einskis.“

[Mynd á blaðsíðu 28]

„Hann gaf líf sitt í dauðann.“

[Mynd á blaðsíðu 29]

‚Aðrir sauðir‘ eru viðstaddir minningar- hátíðina sem hæverskir áhorfendur.