Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú gleður Jehóva með því að vera ráðvandur

Þú gleður Jehóva með því að vera ráðvandur

Þú gleður Jehóva með því að vera ráðvandur

„Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“ — ORÐSKV. 27:11.

1, 2. (a) Hvaða ásökun Satans er lýst í Jobsbók? (b) Hvernig vitum við að Satan hélt áfram að smána Jehóva eftir daga Jobs?

JEHÓVA leyfði Satan að reyna ráðvendni Jobs. Það hafði í för með sér að þessi trúi þjónn Guðs missti börn sín, búpening og heilsuna. En þegar Satan véfengdi að Job væri Guði trúr hafði hann ekki aðeins Job í huga. „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt,“ fullyrti Satan. Ásökun hans var ekki bundin við Job einan heldur hefur hann haldið áfram að ásaka þjóna Guðs. — Job. 2:4.

2 Um 600 árum eftir að Job gekk í gegnum prófraunir sínar innblés Jehóva Salómon að skrifa: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“ (Orðskv. 27:11) Ljóst er að Satan var ekki hættur að ásaka Jehóva. Og Jóhannes postuli sá í sýn hvernig Satan ákærði þjóna Guðs eftir að honum hafði verið úthýst af himnum og ríki Guðs stofnsett árið 1914. Enn þann dag í dag, þegar langt er liðið á síðustu daga þessa illa heims, véfengir Satan að þjónar Guðs séu ráðvandir. — Opinb. 12:10.

3. Hvaða dýrmætu lærdóma getum við dregið af Jobsbók?

3 Við skulum nú líta á þrjá mikilvæga lærdóma sem draga má af Jobsbók. Í fyrsta lagi leiða prófraunir Jobs í ljós hver er raunverulegur óvinur mannskyns og hvaðan andstaðan gegn þjónum Jehóva er komin. Óvinurinn er Satan djöfullinn. Í öðru lagi getum við verið ráðvönd ef við eigum náið samband við Guð, og gildir þá einu hvaða prófraunum við lendum í. Í þriðja lagi styður Jehóva okkur þegar við verðum fyrir prófraunum, líkt og hann studdi Job. Nú á tímum notar hann orð sitt, söfnuð og heilagan anda til að hjálpa okkur.

Hafðu hugfast hver óvinurinn er

4. Hver á sökina á ástandinu í heiminum?

4 Margir trúa ekki að Satan sé til. Þeir eru kannski uggandi vegna ástandsins í heiminum en gera sér ekki grein fyrir hver veldur því, það er að segja Satan djöfullinn. Auðvitað er það svo að hörmungar mannanna eru að mörgu leyti sjálfum þeim að kenna. Foreldrar mannkyns, þau Adam og Eva, kusu að vera óháð skapara sínum. Og allar kynslóðir manna hafa hegðað sér mjög óskynsamlega upp frá því. Það var hins vegar Satan sem blekkti Evu með þeim afleiðingum að hún gerði uppreisn gegn Guði. Hann hefur byggt upp meðal ófullkominna og deyjandi manna heimskerfi sem hann stjórnar. Þar sem Satan er „guð þessarar aldar“ sýnir samfélag manna sömu einkenni og hann; það einkennist af stærilæti, öfund, blekkingum, uppreisnarhug, ágirnd og ofsa. (2. Kor. 4:4; 1. Tím. 2:14; 3:6; lestu Jakobsbréfið 3:14, 15.) Þessi einkenni hafa valdið pólitískum og trúarlegum átökum, hatri, spillingu og óreiðu sem á stóran þátt í bágindum mannkyns.

5. Hvernig viljum við nota þá verðmætu þekkingu sem við búum yfir?

5 Við sem þjónum Jehóva búum yfir verðmætri þekkingu. Við vitum hver á sökina á því að ástandið í heiminum fer versnandi. Vekur það ekki sterka löngun með okkur til að boða fagnaðarerindið og upplýsa fólk um það hver sé hinn raunverulegi óvinur? Og erum við ekki ánægð að standa með Jehóva, hinum sanna Guði, og skýra fyrir fólki hvernig hann ætlar að útrýma Satan og binda enda á hörmungar mannanna?

6, 7. (a) Hver ber ábyrgð á því að þjónar Jehóva eru ofsóttir? (b) Hvernig getum við líkt eftir Elíhú?

6 Satan á ekki aðeins sök á mörgum af erfiðleikum mannkyns heldur líka andstöðunni sem þjónar Guðs verða fyrir. Hann er staðráðinn í að láta reyna á ráðvendni okkar. Jesús Kristur sagði við Pétur postula: „Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti.“ (Lúk. 22:31) Allir sem feta í fótspor Jesú verða fyrir prófraunum af einhverju tagi. Pétur sagði að Satan væri eins og „öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt“. Og Páll sagði: „Enda verða allir ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú.“ — 1. Pét. 5:8; 2. Tím. 3:12.

7 Hvernig getum við sýnt að við erum meðvituð um hver óvinurinn er þegar trúsystkini verða fyrir erfiðum prófraunum? Í stað þess að forðast þann sem á bágt líkjum við eftir Elíhú sem talaði við Job eins og sannur vinur. Við styðjum trúsystkini okkar í baráttunni við Satan, sameiginlegan óvin okkar. (Orðskv. 3:27; 1. Þess. 5:25) Markmiðið er að hjálpa bróður okkar eða systur að varðveita ráðvendni sína og gleðja hjarta Jehóva hvað sem á dynur.

8. Af hverju tókst Satan ekki að koma í veg fyrir að Job heiðraði Jehóva?

8 Það fyrsta sem Satan tók frá Job var bústofninn. Þetta voru verðmæt dýr og sennilega hafði hann lífsviðurværi sitt af þeim. En Job notaði þau líka í tilbeiðslu sinni. Eftir að Job hafði helgað börn sín fór hann „snemma á fætur og færði brennifórnir fyrir hvert þeirra því að hann hugsaði: ‚Ef til vill hafa börn mín syndgað og formælt Guði í hjarta sér.‘ Þetta gerði Job í hvert skipti.“ (Job. 1:4, 5) Job færði Jehóva sem sagt dýrafórnir að staðaldri. Þegar þrengingarnar dundu yfir gat hann ekki gert það lengur. Hann átti engar eignir til að heiðra Jehóva með. (Orðskv. 3:9) Hann gat hins vegar heiðrað Jehóva með vörunum og það gerði hann.

Eignastu náið samband við Jehóva

9. Hvað er það dýrmætasta sem við eigum?

9 Hvort sem við erum rík eða fátæk, ung eða öldruð, hraust eða heilsutæp getum við eignast náið samband við Jehóva. Hvað sem öllum prófraunum líður getum við verið ráðvönd og glatt hjarta Jehóva ef við eigum náið samband við hann. Sumir hafa jafnvel sýnt mikið hugrekki og verið ráðvandir þó að þeir hefðu takmarkaða þekkingu á sannleikanum.

10, 11. (a) Hvernig brást ein af systrum okkar við þegar reyndi á ráðvendni hennar? (b) Hvernig svaraði þessi systir ásökunum Satans?

10 Valentína Garnovskaya er ein af mörgum vottum í Rússlandi sem voru ráðvandir í miklum prófraunum líkt og Job hafði verið. Bróðir nokkur vitnaði fyrir henni árið 1945 þegar hún var um tvítugt. Hann heimsótti hana tvisvar í viðbót til að ræða um Biblíuna en hún sá hann aldrei aftur. Þrátt fyrir það tók Valentína að prédika fyrir nágrönnum sínum. Hún var handtekin og dæmd í átta ára vist í fangabúðum. Henni var sleppt úr haldi árið 1953 og hún byrjaði þá strax að prédika á ný. Aftur var hún handtekin og hneppt í fangelsi, nú í tíu ár. Eftir nokkur ár var hún flutt í aðrar fangabúðir. Þar voru nokkrar systur sem áttu biblíu. Dag nokkurn sýndi ein af systrunum Valentínu biblíuna. Þetta var stórkostleg stund fyrir hana. Hugsaðu þér, eina biblían sem hún hafði séð á ævinni var biblía bróðurins sem vitnaði fyrir henni árið 1945!

11 Valentína fékk frelsið á nýjan leik árið 1967 og nú hafði hún loks tækifæri til að láta skírast til tákns um að hún væri vígð Jehóva. Hún notaði frelsið vel til að boða trúna næstu tvö árin. Árið 1969 var hún handtekin aftur og fékk nú þriggja ára fangelsisdóm. En hún hélt ótrauð áfram að prédika. Hún lést árið 2001 og var þá búin að hjálpa 44 að kynnast sannleikanum. Samanlagt hafði hún verið 21 ár í fangelsum og fangabúðum. Hún hafði verið fús til að fórna öllu öðru, þar á meðal frelsinu, til að vera ráðvönd Guði. Hún sagði skömmu áður en hún dó: „Ég átti aldrei eigið heimili. Allar eigur mínar komust fyrir í einni ferðatösku, en ég var alsæl að mega þjóna Jehóva.“ Hvílíkt svar við þeirri ásökun Satans að menn reynist ekki trúir Guði ef á þá reynir! (Job. 1:9-11) Við getum treyst því að hún gladdi hjarta Jehóva. Hann hlakkar örugglega til tímans þegar hann reisir Valentínu upp frá dauðum ásamt öllum öðrum sem hafa dáið trúfastir. — Job. 14:15.

12. Lýstu hvernig samband okkar við Jehóva byggist á kærleika.

12 Vinátta okkar við Jehóva byggist á kærleika til hans. Við dáumst að eiginleikum hans og gerum allt sem við getum til að lifa í samræmi við vilja hans. Gagnstætt því sem Satan fullyrðir elskum við Jehóva innilega og án skilyrða. Þessi kærleikur gefur okkur þann styrk sem þarf til að vera ráðvönd í prófraunum. Og Jehóva „varðveitir veg sinna guðhræddu“. — Orðskv. 2:8; Sálm. 97:10.

13. Hvernig lítur Jehóva á það sem við gerum til að heiðra hann?

13 Kærleikurinn knýr okkur til að heiðra nafn Jehóva, jafnvel þótt okkur finnist við lítils megnug. Hann sér að við gerum það af góðum hvötum og dæmir okkur ekki þó að okkur takist ekki að gera allt sem okkur langar til. Það skiptir ekki aðeins máli hvað við gerum heldur líka hvers vegna. Þó svo að Job væri harmi lostinn og hefði þjáðst mikið talaði hann við ákærendur sína um hve heitt hann elskaði vegi Jehóva. (Lestu Jobsbók 10:12; 28:28.) Í síðasta kafla Jobsbókar lætur Guð í ljós að hann sé reiður þeim Elífasi, Bildad og Sófar fyrir að fara ekki með rétt mál. Hins vegar lýsir hann velþóknun sinni á Job með því að kalla hann fjórum sinnum ‚þjón sinn‘ og segja honum að biðja fyrir þremenningunum. (Job. 42:7-9) Við skulum líka reyna að hegða okkur þannig að Jehóva hafi velþóknun á okkur.

Jehóva styður trúa þjóna sína

14. Hvernig hjálpaði Jehóva Job að leiðrétta viðhorf sín?

14 Job var ráðvandur þótt hann væri ófullkominn. Stundum, þegar álagið var sem mest, sá hann hlutina ekki í réttu ljósi. Hann sagði til dæmis við Jehóva: „Ég hrópa til þín en þú svarar ekki . . . [þú] ræðst gegn mér af alefli.“ Hann lagði of mikla áherslu á að réttlæta sig og sagði: „Ég er ekki sekur“ og „hendur mínar [hafa] ekki flekkast af ofbeldi og bæn mín [er] hrein“. (Job. 10:7; 16:17; 30:20, 21) En Jehóva var mildur við Job og hjálpaði honum með því að bera fram nokkrar spurningar sem beindu athyglinni frá Job. Þær hjálpuðu Job að átta sig betur á hve Guð er hár og maðurinn smár. Job tók leiðbeiningum Guðs og leiðrétti viðhorf sín. — Lestu Jobsbók 40:8; 42:2, 6.

15, 16. Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum nú á tímum?

15 Jehóva leiðbeinir einnig þjónum sínum nú á tímum. Og hann hefur gefið okkur margt fleira. Jesús Kristur færði lausnarfórnina og lagði þar með grunninn að syndafyrirgefningu. Vegna fórnar hans getum við átt náið samband við Guð þó að við séum ófullkomin. (Jak. 4:8; 1. Jóh. 2:1) Þegar við eigum í prófraunum biðjum við Jehóva að gefa okkur heilagan anda sinn til að styðja okkur og styrkja. Við höfum Biblíuna í heild, og ef við lesum hana og hugleiðum efnið búum við okkur undir prófraunir sem trú okkar verður fyrir. Með biblíunámi glöggvum við okkur á deilunni um drottinvald Jehóva og um ráðvendni okkar.

16 Það er líka mikil blessun að tilheyra alþjóðlegu bræðralagi sem fær andlega fæðu frá Jehóva. Þessari fæðu er miðlað til okkar fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. (Matt. 24:45-47) Söfnuðir Votta Jehóva eru um það bil 100.000 og halda samkomur sem fræða okkur og styrkja svo að við getum staðist prófraunir sem kunna að verða á vegi okkar. Sheila kynntist því af eigin raun en hún er vottur á unglingsaldri og býr í Þýskalandi.

17. Lýstu með dæmi hve skynsamlegt það er að fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar eru á safnaðarsamkomum.

17 Dag einn var bekkurinn hennar Sheilu án eftirlits um stund. Bekkjarfélagarnir ákváðu þá að fara í andaglas. Sheila yfirgaf kennslustofuna þegar í stað og var ánægð eftir á að hafa gert það. Meðan nemendurnir voru að fikta við andaglasið fundu sumir þeirra fyrir návist illra anda og forðuðu sér dauðskelkaðir. En af hverju ákvað Sheila að yfirgefa skólastofuna í flýti? „Skömmu áður en þetta gerðist var rætt á samkomu í ríkissalnum hve hættulegt það væri að fara í andaglas. Þess vegna vissi ég hvað ég átti að gera,“ segir hún. „Mig langaði til að gleðja Jehóva eins og segir í Orðskviðunum 27:11.“ Sheila er ánægð að hún skyldi hafa verið á samkomunni og hlustað með athygli.

18. Hvað ætlar þú að gera?

18 Við skulum öll vera staðráðin í að fylgja í hvívetna þeim leiðbeiningum sem við fáum frá söfnuði Jehóva. Með því að sækja samkomur reglulega, vera dugleg að lesa í Biblíunni og biblíunámsritum, vera bænrækin og eiga félagsskap við þroskuð trúsystkini fáum við þá leiðsögn og þann stuðning sem við þurfum á að halda. Jehóva þráir að við séum trúföst og treystir að svo verði. Það er mikill heiður að mega lofa nafn Jehóva, vera ráðvönd og gleðja hjarta hans!

Manstu?

• Hvaða aðstæðum og erfiðleikum ber Satan ábyrgð á?

• Hvað er það dýrmætasta sem við eigum?

• Á hverju byggist vinátta okkar við Jehóva?

• Hvernig styður Jehóva okkur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Hefurðu sterka löngun til að miðla öðrum þeirri dýrmætu þekkingu sem þú hefur?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Við getum hjálpað trúsystkinum að vera ráðvönd.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Valentína var fús til að fórna öllu til að vera ráðvönd Guði.