Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir Jesú og prédikaðu með djörfung

Líktu eftir Jesú og prédikaðu með djörfung

Líktu eftir Jesú og prédikaðu með djörfung

„Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs.“ — 1. ÞESS. 2:2.

1. Af hverju er fagnaðarerindið um ríkið hrífandi frétt?

ÖLLUM þykir gaman að heyra góðar fréttir. Besta frétt, sem hægt er að fá, er fagnaðarerindið um ríki Guðs. Í þessu fagnaðarerindi er fólgið loforð um að þjáningar, sjúkdómar, sársauki, sorg og dauði líði undir lok. Það vekur von um eilíft líf, opinberar fyrirætlun Guðs og sýnir okkur hvernig við getum eignast náið samband við hann. Ætla mætti að allir tækju fagnandi við þessum boðskap sem Jesús flutti mannkyninu. Því miður er raunin önnur.

2. Hvað átti Jesús við þegar hann sagðist kominn til að „valda sundrungu“?

2 Jesús sagði lærisveinum sínum: „Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.“ (Matt.10:34-36) Flestir hafna fagnaðarerindinu í stað þess að taka því opnum örmum. Sumir, jafnvel nánir ættingjar, verða óvinir þeirra sem boða það.

3. Hvað þurfum við að hafa til að bera til að boða fagnaðarerindið?

3 Við boðum sama sannleikann og Jesús, og margir bregðast við boðskapnum með svipuðum hætti og fólk gerði á dögum hans. Það kemur ekki á óvart. Jesús sagði við lærisveinana: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóh. 15:20) Við verðum ekki alls staðar fyrir beinum ofsóknum en víða um lönd mætum við áhugaleysi og fyrirlitningu. Við þurfum þess vegna að hafa sterka trú og hugrekki til að halda ótrauð áfram að boða fagnaðarerindið með djörfung. — Lestu 2. Pétursbréf 1:5-8.

4. Af hverju þurfti Páll að fá djörfung til að prédika?

4 Finnst þér stundum erfitt að fara í boðunarstarfið eða óar þig við einhverjum ákveðnum þáttum þess? Þá ertu ekki einn á báti. Páll postuli var djarfur og hugrakkur prédikari og þekkti sannleikann í þaula. Engu að síður þurfti hann stundum að taka á honum stóra sínum til að boða fagnaðarerindið. Hann skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Ykkur er kunnugt að ég hafði áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí en Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2) Í Filippí höfðu yfirvöld látið húðstrýkja Pál og Sílas, félaga hans, varpa þeim í fangelsi og fella stokk á fætur þeirra. (Post. 16:16-24) En Páll og Sílas fengu djörfung til að halda boðuninni áfram. Hvernig getum við fengið slíka djörfung? Til að svara því skulum við kanna hvað gerði þjónum Guðs á biblíutímanum kleift að flytja sannleikann um Jehóva með djörfung, og skoða hvernig við getum farið að dæmi þeirra.

Þeir þurftu djörfung andspænis fjandskap

5. Af hverju hafa trúir þjónar Jehóva alltaf þurft að vera hugrakkir?

5 Jesús Kristur er auðvitað besta dæmið um djörfung og kjark. En allir dyggir þjónar Jehóva hafa þurft að sýna djörfung allt frá því að mannkynið hóf göngu sína. Af hverju? Eftir uppreisnina í Eden sagði Jehóva að fjandskapur yrði milli þeirra sem þjónuðu honum og þeirra sem þjónuðu Satan. (1. Mós. 3:15) Þessi fjandskapur lét fljótlega á sér kræla því að Kain myrti Abel bróður sinn sem var réttlátur maður. Enok var annar réttlátur maður sem var uppi fyrir flóðið og mátti þola fjandskap umheimsins. Hann spáði að Guð myndi koma með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir óguðlegum mönnum. (Júd. 14, 15) Þetta var ekki vinsæll boðskapur. Fólk hataði Enok og hefði sennilega myrt hann ef Jehóva hefði ekki numið hann burt. Enok var tvímælalaust hugdjarfur maður. — 1. Mós. 5:21-24.

6. Af hverju þurfti Móse að vera hugdjarfur þegar hann gekk fyrir faraó?

6 Móse sýndi líka mikla djörfung þegar hann talaði við faraó, valdhafa Egyptalands. Faraó var ekki bara álitinn fulltrúi guðanna heldur einn af guðunum og sonur sólguðsins Ra. Vera má að hann hafi tilbeðið líkneski af sjálfum sér eins og aðrir faraóar. Orð hans voru lög og hann stjórnaði með tilskipunum. Hann var voldugur, hrokafullur og þrjóskur og var ekki vanur því að aðrir segðu honum fyrir verkum. Móse var óbreyttur fjárhirðir og gekk margsinnis fram fyrir þennan mann — óboðinn og óvelkominn. Hann boðaði faraó skelfilegar plágur og gerði þá kröfu að þrælar faraós, sem skiptu milljónum, fengju að yfirgefa landið. Þurfti Móse að vera hugdjarfur? Svo sannarlega! — 4. Mós. 12:3; Hebr. 11:27.

7, 8. (a) Hvaða prófraunir þurftu trúir þjónar Guðs til forna að standast? (b) Hvað gerði þjónum Guðs til forna kleift að styðja sanna tilbeiðslu af hugrekki?

7 Hugrakkir spámenn og aðrir dyggir þjónar Guðs héldu áfram að taka afstöðu með hreinni tilbeiðslu. Heimur Satans fór ómjúkum höndum um þá. Páll segir: „Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitaskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.“ (Hebr. 11:37) Hvað hjálpaði þessum trúu þjónum Guðs að vera staðfastir? Fyrr í kaflanum bendir Páll á hvað hafi gefið Abel, Abraham, Söru og fleirum styrk til að halda áfram. Hann segir: „Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim.“ (Hebr. 11:13) Spámenn eins og Elía, Jeremía og aðrir trúir þjónar Guðs fyrir daga Krists tóku líka djarfmannlega afstöðu með sannri tilbeiðslu. Eflaust hefur þeim verið mikil hjálp í því að hafa fyrirheit Jehóva skýrt í huga. — Tít. 1:2.

8 Þessir trúföstu þjónar Guðs sáu fram á bjarta og glæsta framtíð. Eftir að þeir verða reistir upp frá dauðum hljóta þeir smám saman fullkomleika. Þeir losna þá úr „ánauð sinni undir hverfulleikanum“ vegna prestsþjónustu Jesú Krists og 144.000 undirpresta hans. (Rómv. 8:21) Jeremía og aðrir hugrakkir þjónar Guðs til forna treystu sömuleiðis á loforðið sem hann fékk frá Guði: „Þeir munu ráðast gegn þér en ekki sigra þig því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn.“ (Jer. 1:19) Við sækjum sömuleiðis styrk í fyrirheit Guðs um framtíðina og loforð hans um að veita okkur andlega vernd. — Orðskv. 2:7; lestu 2. Korintubréf 4:17, 18.

Jesús prédikaði með djörfung því að hann elskaði Guð og náungann

9, 10. Hvernig sýndi Jesús djörfung frammi fyrir (a) trúarleiðtogunum, (b) hópi hermanna, (c) æðstaprestinum og (d) Pílatusi?

9 Jesús, fyrirmynd okkar, sýndi djörfung á ýmsa vegu. Þó að áhrifa- og valdamenn hötuðu hann útvatnaði hann ekki boðskapinn sem Guð sendi hann til að boða. Hann afhjúpaði hiklaust volduga trúarleiðtoga fyrir sjálfumgleði þeirra og falskenningar. Þessir menn voru sjálfdæmdir og Jesús sagði þeim það berum orðum. Einu sinni sagði hann: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis.“ — Matt. 23:27, 28.

10 Jesús sagði óhikað deili á sér frammi fyrir hópi hermanna í Getsemanegarðinum. (Jóh. 18:3-8) Hann var síðan leiddur fyrir æðstaráð Gyðinga þar sem æðstipresturinn yfirheyrði hann. Þó að Jesús vissi að æðstipresturinn væri að leita að átyllu til að fá hann tekinn af lífi staðfesti hann djarfmannlega að hann væri bæði Kristur og sonur Guðs. Hann bætti við að þeir myndu sjá hann „sitja til hægri handar Hins almáttuga og koma í skýjum himins“. (Mark. 14:53, 57-65) Skömmu síðar stóð Jesús í böndum frammi fyrir Pílatusi. Pílatus hafði vald til að láta hann lausan en Jesús þagði og svaraði engu þeim ákærum sem voru bornar á hann. (Mark. 15:1-5) Það útheimti mikinn kjark að gera þetta.

11. Hvernig er djörfung tengd kærleika?

11 Jesús sagði þó við Pílatus: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóh. 18:37) Jehóva hafði falið Jesú að boða fagnaðarerindið, og Jesús hafði yndi af því vegna þess að hann elskaði himneskan föður sinn. (Lúk. 4:18, 19) Jesús bar líka kærleika til mannanna. Hann vissi að þeir áttu erfitt. Við getum sömuleiðis prédikað með djörfung vegna þess að við elskum Guð og náungann. — Matt. 22:36-40.

Heilagur andi gefur okkur kraft til að prédika með djörfung

12. Yfir hverju glöddust lærisveinar Jesú?

12 Skömmu eftir dauða Jesú höfðu lærisveinarnir ástæðu til að fagna þegar Jehóva bætti nýjum lærisveinum við hópinn. Á aðeins einum degi létu skírast hvorki meira né minna 3.000 Gyðingar og trúskiptingar frá ýmsum löndum sem voru staddir í Jerúsalem til að halda hvítasunnu. Þetta hlýtur að hafa vakið mikið umtal í borginni sem var höfuðvígi gyðingdómsins. Í Biblíunni segir svo frá: „Ótta setti að hverjum manni en mörg undur og tákn gerðust fyrir hendur postulanna.“ — Post. 2:41, 43.

13. Af hverju báðu bræðurnir um djörfung og hvernig voru þeir bænheyrðir?

13 Trúarleiðtogarnir voru ævareiðir, létu handtaka Pétur og Jóhannes, héldu þeim í varðhaldi næturlangt og skipuðu þeim að hætta að tala um Jesú. Eftir að þeim var sleppt fóru þeir til félaga sinna og skýrðu þeim frá hvað gerst hafði. Þeir báðust allir fyrir vegna þessarar andstöðu og sögðu í bæn til Jehóva: „Veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ Þeir voru bænheyrðir og „fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung“. — Post. 4:24-31.

14. Hvernig styður heilagur andi okkur þegar við boðum fagnaðarerindið?

14 Við tökum eftir að það var máttugur andi Jehóva sem hjálpaði lærisveinunum að tala orð Guðs með djörfung. Hugrekkið til að flytja öðrum sannleikann, einnig þeim sem eru boðskapnum andsnúnir, kemur ekki frá sjálfum okkur. Jehóva getur gefið okkur heilagan anda og gerir það ef við biðjum hann. Með hjálp hans getum við líka sýnt þá djörfung sem þarf til að standast hvaða andstöðu sem verkast vill. — Lestu Sálm 138:3.

Kristnir menn prédika með djörfung nú á tímum

15. Hvernig skiptist fólk í tvo hópa varðandi sannleikann?

15 Sannleikurinn skiptir fólki í tvo hópa nú á tímum ekki síður en til forna. Sumir taka vel á móti okkur en aðrir hvorki skilja né virða trú okkar og tilbeiðslu. Sumir gagnrýna okkar, spotta eða jafnvel hata eins og Jesús sagði fyrir. (Matt. 10:22) Stundum eru bornar út rangar eða villandi upplýsingar um okkur og við verðum fyrir illgjörnum áróðri í fjölmiðlum. (Sálm. 109:1-3) Hvað sem því líður halda þjónar Jehóva áfram að boða fagnaðarerindið með djörfung út um allan heim.

16. Hvaða dæmi sýnir að hugrekki okkar getur breytt afstöðu þeirra sem við boðum fagnaðarerindið?

16 Hugrekki okkar getur orðið til þess að fólk breyti um afstöðu til fagnaðarerindisins. Systir í Kirgisistan segir svo frá: „Ég var úti í boðunarstarfinu þegar maður nokkur sagði við mig: ‚Ég trúi á Guð en ekki á Guð kristninnar. Ég siga hundinum mínum á þig ef þú kemur aftur að hliðinu!‘ Fyrir aftan hann var stór bolabítur bundinn í keðju. En þegar verið var að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 37, ‚Endalok falstrúarbragða eru í nánd!‘, ákvað ég að fara aftur í þetta hús í von um að hitta einhvern annan úr fjölskyldu þessa manns. En hann kom sjálfur til dyra. Ég bað í flýti til Jehóva og sagði svo: ‚Sæll. Ég man eftir samtali okkar fyrir þrem dögum og ég man líka eftir hundinum þínum. En ég mátti til með að koma við hjá þér vegna þess að ég trúi á hinn eina sanna Guð rétt eins og þú. Guð refsar bráðlega trúarbrögðum sem smána hann. Þú getur aflað þér nánari upplýsinga með því að lesa þetta.‘ Mér til undrunar þáði maðurinn ritið. Ég fór síðan í næsta hús. Nokkrum mínútum síðar kom maðurinn hlaupandi á eftir mér með ritið í hendinni. ‚Ég er búinn að lesa þetta,‘ sagði hann. ‚Hvað þarf ég að gera til að kalla ekki yfir mig reiði Guðs?‘“ Maðurinn þáði biblíunámskeið og byrjaði að sækja safnaðarsamkomur.

17. Hvernig taldi það kjark í biblíunemanda að sjá djarfmannleg viðbrögð systur einnar?

17 Djarfmannleg framkoma okkar getur líka verið öðrum hvatning til að herða upp hugann. Systir í Rússlandi var á ferð með strætisvagni og ákvað að bjóða öðrum farþega blað. Maður, sem var farþegi í vagninum, stökk þá á fætur, hrifsaði blaðið úr höndum systurinnar, vöðlaði því saman og henti í gólfið. Hann formælti henni háum rómi, heimtaði að fá heimilisfangið hennar og varaði hana við að prédika í þorpinu. Systirin bað Jehóva um hjálp og rifjaði upp fyrir sér orð Jesú: „Hræðist ekki þá sem líkamann deyða.“ (Matt. 10:28) Hún stóð upp og sagði stillilega við manninn: „Þú færð ekki heimilisfangið mitt og ég held áfram að prédika í þorpinu.“ Síðan yfirgaf hún vagninn. Systirin vissi hins vegar ekki að einn af biblíunemendum hennar var í vagninum. Þessi kona hafði ekki þorað að sækja safnaðarsamkomur af ótta við menn. Eftir að hafa orðið vitni að djörfung systurinnar ákvað hún aftur á móti að byrja að sækja samkomur.

18. Hvað getur hjálpað þér að prédika með djörfung líkt og Jesús?

18 Það þarf djörfung til að líkja eftir Jesú og boða fagnaðarerindið í þessum guðlausa heimi. Hvað getur hjálpað þér til þess? Hugsaðu um framtíðina. Varðveittu sterkan kærleika til Guðs og náungans. Biddu Jehóva að gefa þér hugrekki. Hafðu hugfast að þú ert aldrei einn á báti því að Jesús er með þér. (Matt. 28:20) Heilagur andi styrkir þig. Og Jehóva mun blessa þig og styðja. Þess vegna getum við verið örugg og sagt: „Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gert mér?“ — Hebr. 13:6.

Hvert er svarið?

• Af hverju þurfa þjónar Guðs að sýna djörfung?

• Hvað getum við lært um djörfung af . . .

trúum þjónum Guðs fyrir daga Krists?

Jesú Kristi?

frumkristnum mönnum?

trúsystkinum okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Jesús afhjúpaði trúarleiðtogana óttalaust.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Jehóva gefur okkur hugrekki til að prédika.