Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Auðgaðu bænir þínar með biblíunámi

Auðgaðu bænir þínar með biblíunámi

Auðgaðu bænir þínar með biblíunámi

„Drottinn, leggðu við hlustir og hlýddu á bæn þjóns þíns.“ — NEHEM. 1:11.

1, 2. Af hverju er gagnlegt að skoða bænir sem er að finna í Biblíunni?

BÆNIR og biblíunám eru ómissandi þættir sannrar tilbeiðslu. (1. Þess. 5:17; 2. Tím. 3:16, 17) Biblían er að vísu ekki bænabók. Engu að síður hefur hún að geyma fjölmargar bænir, þar á meðal í Sálmunum.

2 Þegar þú lest og grúskar í Biblíunni finnurðu líklega dæmi um bænir sem eiga við aðstæður sem þú lendir í. Reyndar er hægt að auðga bænir sínar með því að flétta inn í þær bænarorðum úr Biblíunni. Hvað má læra af þeim sem fengu bænheyrslu þegar þeir ákölluðu Guð og hvaða lærdóma má draga af efni bænanna?

Leitaðu leiðsagnar Guðs og fylgdu henni

3, 4. Hvaða verkefni fékk þjónn Abrahams og hvað má læra af því sem Jehóva gerði?

3 Þú veist af biblíunámi þínu að þú átt alltaf að biðja um leiðsögn Guðs. Lítum til dæmis á það sem gerðist þegar ættfaðirinn Abraham sendi elsta þjón sinn, sennilega Elíeser, til Mesópótamíu til að finna guðhrædda konu handa Ísak. Þjónninn fylgdist með konum sækja vatn í brunn og bað þá: „Drottinn . . . gef þú að stúlkan sem ég segi við: Leyf mér að drekka úr vatnskeri þínu, og svarar: Fáðu þér að drekka og ég skal einnig brynna úlföldum þínum, gef að það sé hún sem þú hefur ákvarðað handa Ísak, þjóni þínum. Þar með veit ég að þú hefur auðsýnt húsbónda mínum miskunn.“ — 1. Mós. 24:12-14.

4 Þjónn Abrahams var bænheyrður þegar Rebekka brynnti úlföldum hans. Skömmu síðar fór hún með honum til Kanaanlands og varð eiginkona Ísaks. Við getum auðvitað ekki ætlast til að Guð gefi okkur sérstök tákn. Hins vegar leiðbeinir hann þér í lífinu ef þú biður hann og ert staðráðinn í að láta anda hans leiða þig. — Gal. 5:18.

Bænir geta dregið úr kvíða

5, 6. Hvað er athyglisvert við bænina sem Jakob bar fram skömmu áður en hann hitti Esaú?

5 Bænir geta dregið úr kvíða. Jakob óttaðist að sér stafaði hætta af Esaú, tvíburabróður sínum. Hann baðst því fyrir: „Drottinn . . . ég er ekki verður allra þeirra velgjörða og allrar þeirrar trúfesti sem þú hefur auðsýnt þjóni þínum . . . Bjargaðu mér nú undan Esaú, bróður mínum, því að ég óttast að hann komi og deyði okkur, konur okkar og börn. Þú hefur sjálfur sagt: Ég mun láta þér farnast vel og gera niðja þína sem sandkorn á sjávarströnd þannig að ekki verði tölu á þá komið.“ — 1. Mós. 32:9-12.

6 Jakob gerði viðeigandi varúðarráðstafanir og var bænheyrður þegar þeir Esaú sættust. (1. Mós. 33:1-4) Ef þú lest bænina vandlega sérðu að Jakob bað ekki bara um hjálp. Hann lét líka í ljós trú á hinn fyrirheitna niðja og lýsti þakklæti sínu fyrir velgjörðir Guðs. Er einhver ‚ótti innra með þér‘? (2. Kor. 7:5) Þá getur innileg bæn Jakobs minnt þig á að bænir geta slegið á kvíða. En þú ættir ekki aðeins að biðja um hjálp heldur einnig tjá trú þína.

Biddu um visku

7. Af hverju bað Móse þess að mega þekkja vegi Jehóva?

7 Löngunin til að þóknast Jehóva ætti að vera þér hvöt til að biðja hann að gefa þér visku. Móse bað að hann mætti þekkja vegi Guðs: „Þú [Jehóva] sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir [frá Egyptalandi] . . . Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi . . . hljóta náð fyrir augum þínum.“ (2. Mós. 33:12, 13) Jehóva bænheyrði Móse og veitti honum ýtarlegri þekkingu á vegum sínum, en það var nauðsynlegt fyrir Móse til að fara með forystu meðal Ísraelsmanna.

8. Af hverju gæti verið gott fyrir þig að hugleiða 1. Konungabók 3:7-14?

8 Davíð sagði einnig í bæn: „Vísa mér vegu þína, Drottinn.“ (Sálm. 25:4) Salómon, sonur Davíðs, bað Guð að gefa sér visku til að geta gegnt skyldum sínum sem konungur Ísraels. Jehóva líkaði vel bæn Salmóns og hann veitti honum ekki aðeins það sem hann bað um heldur einnig auðlegð og heiður. (Lestu 1. Konungabók 3:7-14.) Ef þú færð verkefni í söfnuðinum sem þig óar við skaltu biðja um visku og sýna auðmýkt. Þá færðu hjálp Guðs til að afla þér þekkingar og sýna þá visku sem þarf til að sinna verkefnum þínum vel og á kærleiksríkan hátt.

Biddu af öllu hjarta

9, 10. Af hverju minntist Salómon á hjartað í bæn sinni við vígslu musterisins?

9 Til að Jehóva heyri bænir okkar verða þær að eiga upptök sín í hjartanu. Salómon bar fram innilega bæn í áheyrn mikils mannfjölda við vígslu musteris Jehóva í Jerúsalem árið 1026 f.Kr. Bænin er skráð í 8. kafla 1. Konungabókar. Ský fyllti musterið eftir að sáttmálsörkinni hafði verið komið fyrir í hinu allra helgasta, og Salómon lofaði Guð.

10 Skoðaðu bæn Salómons. Þú tekur eftir að þar er minnst á hjartað. Salómon viðurkennir að Jehóva einn þekki mannshjartað. (1. Kon. 8:38, 39) Í bæninni kemur fram að syndari á sér von ef hann ‚snýr sér aftur til Guðs af öllu hjarta‘. Ef óvinir næðu þjónum Guðs á sitt vald myndi hann heyra áköll þeirra ef hjörtu þeirra væru heil og óskipt gagnvart honum. (1. Kon. 8:48, 58, 61, Biblían 1981) Er ekki ljóst að bænir þínar þurfa að eiga sér upptök í hjartanu?

Sálmarnir geta auðgað bænir þínar

11, 12. Hvað má læra af bænarorðum Levíta nokkurs sem gat ekki heimsótt helgidóm Guðs um tíma?

11 Ef þú skoðar Sálmana vel geturðu auðgað bænir þínar og það getur hjálpað þér að bíða eftir bænheyrslu. Tökum sem dæmi Levíta sem var í útlegð. Hann var þolinmóður. Hann gat ekki heimsótt helgidóm Jehóva um tíma en söng: „Hví ert þú buguð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.“ — Sálm. 42:6, 12; 43:5.

12 Hvað má læra af þessum Levíta? Ef þú værir fangelsaður fyrir réttlætissakir og gætir ekki um stundar sakir sótt samkomur með trúsystkinum ættirðu að bíða þess þolinmóður að Guð skerist í leikinn. (Sálm. 37:5) Hugleiddu gleðilegar stundir, sem þú hefur átt í þjónustu hans, „vona á Guð“ og biddu hann að veita þér þolgæði meðan þú bíður þess að hann gefi þér aftur tækifæri til að umgangast trúsystkini þín.

Biddu í trú

13. Af hverju ættirðu að biðja í trú í samræmi við Jakobsbréfið 1:5-8?

13 Hverjar sem aðstæður þínar eru skaltu alltaf biðja í trú. Ef reynir á ráðvendni þína skaltu gera eins og lærisveinninn Jakob ráðleggur. Leitaðu til Jehóva í bæn í fullu trausti þess að hann geti gefið þér þá visku sem þú þarft til að standast prófraunina. (Lestu Jakobsbréfið 1:5-8.) Guð veit af prófraunum þínum og getur leiðbeint þér og hughreyst þig með anda sínum. Opnaðu hjarta þitt fyrir honum í trú „án þess að efast“ og taktu við leiðsögn anda hans og leiðbeiningum Biblíunnar.

14, 15. Af hverju má segja að Hanna hafi beðið í trú og breytt samkvæmt því?

14 Hanna var önnur af eiginkonum Levítans Elkana. Hún bað í trú og breytti samkvæmt því. Hanna var barnlaus en hin konan, Peninna, eignaðist nokkur börn og gerði gys að Hönnu. Hanna baðst fyrir í tjaldbúðinni og hét því að ef hún eignaðist son myndi hún gefa hann Jehóva. Varir hennar bærðust meðan hún baðst fyrir og Elí æðsti prestur hélt að hún væri drukkin. Þegar hann komst að raun um að svo var ekki sagði hann: „Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ Hanna vissi ekki nákvæmlega hvernig þetta myndi fara en treysti að hún yrði bænheyrð. Þess vegna „var [hún] ekki lengur döpur í bragði“. — 1. Sam. 1:9-18.

15 Eftir að hafa fætt Samúel og vanið hann af brjósti fór Hanna með hann til tjaldbúðarinnar þar sem hann átti að veita Jehóva helgiþjónustu. (1. Sam. 1:19-28) Þú getur hugsanlega auðgað bænir þínar ef þú hugleiðir bæn hennar við þetta tækifæri. Þá áttarðu þig kannski á því að þú getur sigrast á hryggðinni sem fylgir erfiðum vandamálum ef þú biður til Jehóva í trausti þess að hann bænheyri þig. — 1. Sam. 2:1-10.

16, 17. Hvað gerðist vegna þess að Nehemía bað í trú og breytti samkvæmt því?

16 Hinn réttláti Nehemía var uppi á fimmtu öld f.Kr. Hann bað í trú og breytti samkvæmt því. „Drottinn,“ bað hann, „leggðu við hlustir og hlýddu á bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna sem gleðjast yfir að sýna nafni þínu lotningu: Láttu nú þjóni þínum takast ætlunarverk sitt og gefðu að mér verði miskunnað frammi fyrir þessum manni.“ Hvaða mann var um að ræða? Það var Artaxerxes Persakonungur en Nehemía var byrlari hans. — Nehem. 1:11.

17 Nehemía baðst fyrir í trú dögum saman eftir að hafa frétt að Gyðingarnir, sem voru komnir heim úr útlegðinni í Babýlon, væru „í mestu eymd og niðurlægingu“ og að ‚borgarmúrar Jerúsalem hefðu verið rofnir‘. (Nehem. 1:3, 4) Nehemía fékk bænheyrslu vonum framar þegar Artaxerxes gaf honum leyfi til að fara til Jerúsalem og endurreisa múrana. (Nehem. 2:1-8) Ekki leið á löngu áður en viðgerðinni var lokið. Nehemía var bænheyrður vegna þess að bænir hans snerust um sanna tilbeiðslu og hann bað í trú. Geturðu sagt hið sama um bænir þínar?

Mundu eftir að þakka Guði og lofa hann

18, 19. Fyrir hvað ætti þjónn Jehóva að lofa hann og þakka honum?

18 Mundu eftir að þakka Jehóva í bænum þínum og lofa hann. Það eru ótal ástæður til þess. Davíð var mikið í mun að lofsyngja konungdóm Jehóva. (Lestu Sálm 145:10-13.) Bera bænir þínar vitni um að þú kunnir að meta þann heiður að mega kunngera ríki Jehóva? Orð sálmskáldanna geta einnig hjálpað þér að tjá Guði í innilegri bæn að þú sért þakklátur fyrir safnaðarsamkomurnar og mótin. — Sálm. 27:4; 122:1.

19 Ertu þakklátur fyrir hið dýrmæta samband sem þú átt við Guð? Þá langar þig kannski til að biðja innilega til hans og segja eitthvað þessu líkt: „Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna. Sýn þig himnum hærri, Guð. Dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.“ (Sálm. 57:10-12) Þetta eru hjartnæm orð. Ertu ekki sammála því að svona hrífandi vers í Sálmunum geti haft áhrif á bænir þínar og auðgað þær?

Leitaðu til Guðs með lotningu

20. Hvernig tjáði María guðrækni sína?

20 Bænir þínar ættu að vitna um lotningu fyrir Guði. Orð Maríu skömmu eftir að hún frétti að hún ætti að verða móðir Messíasar vitna um lotningu hennar, og þau minna á það sem Hanna sagði þegar hún kom með Samúel ungan til að þjóna í tjaldbúðinni. Lotning Maríu er augljós af orðum hennar: „Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“ (Lúk. 1:46, 47) Gætirðu auðgað bænir þínar með því að tjá eitthvað svipað? Það er engin furða að þessi guðhrædda kona skyldi vera valin til að vera móðir Jesú, Messíasar.

21. Hvernig birtist trú og lotning Jesú í bænum hans?

21 Jesús bað í trú og með lotningu. Áður en hann reisti Lasarus upp frá dauðum „hóf [hann] upp augu sín og mælti: ‚Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt.‘“ (Jóh. 11:41, 42) Bera bænir þínar vitni um slíka lotningu og trú? Þegar þú skoðar faðirvorið, sem Jesús gaf okkur til fyrirmyndar, tekurðu eftir að stóru atriðin í bæninni eru að nafn Jehóva helgist, ríki hans komi og vilji hans nái fram að ganga. (Matt. 6:9, 10) Veltu fyrir þér þínum eigin bænum. Endurspegla þær að þú hafir brennandi áhuga á ríki Jehóva, á því að vilji hans nái fram að ganga og nafn hans helgist? Þær ættu að gera það.

22. Af hverju máttu treysta að Jehóva gefi þér hugrekki til að boða fagnaðarerindið?

22 Ef við erum ofsótt eða verðum fyrir öðrum prófraunum biðjum við um hjálp til að þjóna Jehóva með hugrekki. Æðstaráðið skipaði Pétri og Jóhannesi að hætta að ‚kenna í nafni Jesú‘ en postularnir voru hugrakkir og neituðu. (Post. 4:18-20) Eftir að þeim hafði verið sleppt sögðu þeir trúsystkinum frá því sem hafði gerst. Allir viðstaddir báðu þá Guð um hjálp til að tala orð hans af djörfung. Það hlýtur að hafa verið hvetjandi fyrir þá að fá bænheyrslu því að þeir „fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung“. (Lestu Postulasöguna 4:24-31.) Það varð til þess að fjöldi fólks tók að tilbiðja Jehóva. Bænin getur líka veitt þér styrk til að boða fagnaðarerindið af djörfung.

Haltu áfram að auðga bænir þínar

23, 24. (a) Nefndu fleiri dæmi sem sýna hvernig hægt er að auðga bænir sínar með biblíunámi. (b) Hvað ætlarðu að gera til að auðga bænir þínar?

23 Nefna mætti mörg fleiri dæmi til að sýna að þú getur auðgað bænir þínar með biblíulestri og biblíunámi. Þú getur til dæmis líkt eftir Jónasi og viðurkennt í bæn að „hjálpin er hjá Drottni“. (Jónas 2:2-11) Ef þú hefur syndgað alvarlega og leitað aðstoðar öldunganna geta bænarorð Davíðs ef til vill hjálpað þér að segja Jehóva í bæn að þú iðrist. (Sálm. 51:3-14) Stundum gætirðu lofað Jehóva í bæn líkt og Jeremía gerði. (Jer. 32:16-19) Ef þú ert að leita þér að maka geturðu skoðað bænina í 9. kafla Esrabókar og beðið Jehóva innilega um að styrkja þig og vera ákveðinn í að hlýða honum og ‚giftast aðeins í Drottni‘. — 1. Kor. 7:39 Biblían 1981; Esra. 9:6, 10-15.

24 Haltu áfram að lesa Biblíuna, rannsaka hana og leita í henni. Hafðu augun opin fyrir atriðum sem þú getur haft í huga þegar þú biður. Kannski geturðu fléttað biblíulegum hugmyndum inn í bænir þínar, þakkir og lofgerð. Þú styrkir sambandið við Jehóva jafnt og þétt ef þú auðgar bænir þínar með biblíunámi.

Hvert er svarið?

• Af hverju ættum við að leita leiðsagnar Guðs og fylgja henni?

• Af hvaða hvötum ættum við að biðja um visku?

• Hvernig geta Sálmarnir auðgað bænir okkar?

• Af hverju ættum við að biðja í trú og með lotningu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Þjónn Abrahams bað Guð að leiðbeina sér. Gerir þú það líka?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Biblíunám fjölskyldunnar getur auðgað bænir þínar.