Jehóva vill að þú sért „heill á húfi“
Jehóva vill að þú sért „heill á húfi“
ÞEGAR mestu hamfarir sögunnar skella á mun almáttugur Guð sjá til þess að allir sem hafa velþóknun hans ,verði hólpnir‘. (Jóel 3:5) En í raun hefur Jehóva alltaf viljað vernda fólk sitt gegn skaða. „Hjá [honum] er uppspretta lífsins“ og þess vegna eru allir menn dýrmætir í hans augum og verðskulda vernd. — Sálm. 36:10.
Trúfastir þjónar Guðs til forna höfðu sama viðhorf og Guð til lífsins. Þegar Jakob og fjölskylda þurftu að fara í hættulegt ferðalag segir í 1. Mósebók 33:18 að þau hafi komist á áfangastað ,heil á húfi‘. Jakob reiddi sig á vernd Jehóva en hann gerði líka ýmsar ráðstafanir til að vernda alla sem ferðuðust með honum. (1. Mós. 32:7, 8; 33:14, 15) Með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar geturðu bætt öryggi þitt og annarra. Skoðum nánar hvernig það á við þegar verið er að reisa ríkissali eða aðrar byggingar og veita neyðaraðstoð.
Móselögin og öryggismál
Í Móselögunum var þess krafist að þjóð Guðs gætti alltaf fyllsta öryggis. Þegar Ísraelsmaður byggði hús átti hann til dæmis að setja upp brjóstrið hringinn í kringum þakið. Þar sem heimilismenn voru oft uppi á flötum húsþökunum kom brjóstriðið í veg fyrir að þeir féllu ofan af þeim. (1. Sam. 9:26; Matt. 24:17) Ef slys varð vegna þess að reglunum var ekki fylgt var húsráðandinn ábyrgur gagnvart Jehóva. — 5. Mós. 22:8.
Lögin fjölluðu líka um skaða af völdum búfjár. Ef naut stangaði einhvern til bana átti eigandi nautsins að fella það til að forða öðrum frá skaða. Þar sem hann mátti ekki borða kjötið eða selja það öðrum til neyslu var þetta mikið tap fyrir eigandann. En segjum sem svo að naut særði einhvern og eigandinn hefði það ekki í öruggri gæslu. Ef þetta sama naut myndi síðar meir verða manni að bana átti að aflífa bæði nautið og eiganda þess. Þannig stuðluðu lögin að því að fólk gætti búfjár síns vel. — 2. Mós. 21:28, 29.
Móselögin hvöttu fólk líka til að fara rétt með verkfæri sín. Margir Ísraelsmenn notuðu öxi til að höggva eldivið. Ef öxin gekk óvart af skaftinu og varð einhverjum að bana átti sá sem beitti öxinni að flýja í eina af griðaborgunum. Þar átti hann að vera þangað til æðstipresturinn dó og það gat þýtt margra ára aðskilnað frá fjölskyldu og heimili. Þessi ráðstöfun kenndi þjóðinni að lífið er heilagt í augum Jehóva. Maður, sem hafði sama viðhorf og Guð til lífsins, gætti þess að verkfæri 4. Mós. 35:25; 5. Mós. 19:4-6.
hans væru í góðu ástandi og beitti þeim með öruggum hætti. —Með slíkum lögum sýndi Jehóva að hann vildi að fólk hans hugsaði vel um öryggi sitt og annarra bæði heima og að heiman. Þeir sem ollu öðrum meiðslum eða dauða, jafnvel þótt það væri óviljaverk, voru ábyrgir gagnvart Guði. Viðhorf hans til öryggismála hafa ekkert breyst. (Mal. 3:6) Hann vill enn þá að fólk gæti þess að skaða hvorki sig né aðra. Þetta á ekki síst við þegar við reisum og gerum við byggingar sem eru helgaðar sannri tilbeiðslu.
Öryggi á vinnusvæði
Okkur finnst það mikill heiður að mega taka þátt í að byggja ríkissali, mótshallir og deildarskrifstofur og halda þeim við. Það sama má segja um hjálparstörf eftir hamfarir. Við viljum alltaf vinna störf okkar vel vegna þess að ef við gerum það ekki getum við stofnað okkur og öðrum í hættu. Það á við um jafnt stór verk sem smá. (Préd. 10:9) Við getum dregið úr slysum með því að venja okkur á að gæta fyllsta öryggis við vinnu.
Í Biblíunni segir: „Þrek er ungs manns þokki en hærurnar prýði öldunganna.“ (Orðskv. 20:29) Þegar vinna þarf erfiðisvinnu kemur kraftur unga fólksins að góðum notum. En gráhærðir verkamenn — þeir sem hafa reynslu í byggingarstörfum — beita höndum sínum og verkfærum fagmannlega við ýmiss konar nákvæmnisvinnu. Og einu sinni notuðu þeir, sem nú eru orðnir eldri, krafta sína til að vinna erfiðisvinnu. Ef þú ert nýr sjálfboðaliði ættirðu að fylgjast með hvernig reyndir verkamenn vinna og fylgja leiðbeiningum þeirra. Ef þú ert námfús geta bræður með reynslu í byggingarvinnu kennt þér margt. Meðal annars kenna þér þeir hvernig er öruggast að vinna með hættuleg efni og lyfta þungum hlutum. Þá geturðu með ánægju skilað góðu verki slysalaust.
Þeir sem vinna á byggingarsvæði verða alltaf að vera á varðbergi. Aðstæður geta breyst snögglega. Þar sem einu sinni var föst jörð er kannski komin hola. Aðrir hafa ef til vill fært til stiga, planka eða málningardós. Ef þú ert annars hugar gætirðu auðveldlega slasað þig. Öryggisreglur kveða yfirleitt á um að fólk á byggingarsvæði noti persónuhlífar. Öryggisgleraugu, hjálmur og viðeigandi skór verja þig gegn ýmsum hættum á byggingarsvæði. En hlífðarbúnaður kemur aðeins að gagni ef þú gætir þess að hann sé í góðu ásigkomulagi og að þú notir hann.
Þótt mörg verkfæri virðist einföld í notkun er nauðsynlegt að fá þjálfun og æfingu í að beita þeim rétt og örugglega. Ef þú ert ekki vanur að beita ákveðnu verkfæri, sem þú þarft að nota, skaltu segja umsjónarmanninum frá því. Hann sér þá um að einhver kenni þér réttu handtökin. Það er góður eiginleiki að sýna hógværð og þekkja sín takmörk. Það er reyndar skilyrði ef þú vilt komast hjá því að skaða þig og aðra á byggingarstað. — Orðskv. 11:2.
Mörg slys á byggingarsvæðum verða við fall úr hæð. Áður en þú klifrar upp stiga eða stígur út á vinnupall skaltu ganga úr skugga um að allt sé í góðu standi og öll öryggisatriði séu í lagi. Ef þú átt að vinna uppi á vinnupalli eða uppi á þaki gera reglur kannski ráð fyrir að þú sért í öryggisbelti eða að komið sé upp handriði. Ef þú hefur einhverjar spurningar í sambandi við vinnu í hæð skaltu spyrja þann sem hefur umsjón með verkinu. *
Eftir því sem vottum Jehóva fjölgar um allan heim vantar fleiri ríkissali og aðrar byggingar sem notaðar eru til að styðja sanna tilbeiðslu. Þeim sem hafa umsjón með byggingu ríkissala eða annarra bygginga er lögð sú skylda á herðar að vernda dýrmæta þjóna Jehóva sem vinna undir þeirra stjórn. (Jes. 32:1, 2) Ef þú færð það verkefni að leiðbeina bræðrum og systrum við byggingarstörf skaltu alltaf leggja ríka áherslu á vinnuöryggi. Gættu þess að svæðið sé þrifalegt og allt sé í röð og reglu. Minntu vingjarnlega en ákveðið á öryggisatriði við þá sem þess þurfa. Leyfðu ekki ungum eða óreyndum sjálfboðaliðum að fara inn á hættusvæði. Reyndu að sjá fyrir hvaða hættur gætu skapast og búðu alla undir að vinna af ýtrasta öryggi. Mundu að markmið okkar er að klára verkefnið án slysa.
Kærleikurinn
Að byggja ríkissali og aðrar byggingar fyrir sanna tilbeiðslu felur í sér vinnu sem gæti reynst hættuleg. Þeir sem taka þátt í slíkum verkefnum verða því að fara varlega. Með því að virða meginreglur Biblíunnar, fylgja öllum vinnureglum og nota góða dómgreind geturðu forðast hættur og verndað samstarfsfólk þitt um leið.
Hver er helsta ástæðan fyrir því að við hugum svona vel að öryggismálum? Það er kærleikur. Já, kærleikurinn til Jehóva fær okkur til að meta lífið jafn mikils og hann gerir. Og kærleikur okkar til náungans hindrar okkur í að gera eitthvað í hugsunarleysi sem gæti skaðað aðra. (Matt. 22:37-39) Við skulum því gera okkar ýtrasta til að allir, sem taka þátt í byggingarframkvæmdum, geti gert það ,heilir á húfi‘.
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Sjá rammann „Að vinna í stiga með öruggum hætti“ á bls. 30.
[Rammi/mynd á bls. 30]
Að vinna í stiga með öruggum hætti
Á einu ári slösuðust meira en 160.000 verkamenn í Bandaríkjunum eftir að hafa fallið úr stiga. Þar að auki dóu 150 manns eftir fall úr stiga. Óháð því hvar þú býrð og starfar eru hér nokkrar viðmiðunarreglur sem geta forðað þér frá falli úr stiga.
◇ Notaðu ekki stiga sem er óstöðugur eða skemmdur og reyndu ekki að gera við hann. Láttu farga honum.
◇ Allir stigar hafa ákveðið burðarþol. Gakktu úr skugga um að líkamsþyngd þín auk verkfæra og efnis sé ekki meiri en stiginn þolir.
◇ Láttu stigann hvíla á láréttum og traustum fleti. Stilltu honum ekki upp á óstöðugri undirstöðu, eins og á vinnupalli eða ofan á fötum eða kössum.
◇ Þegar þú ferð upp eða niður stiga skaltu alltaf snúa að honum.
◇ Þú skalt aldrei standa eða sitja á tveim efstu þrepunum í stiga, sama hverrar tegundar hann er.
◇ Þegar stigi er notaður til að komast upp á þak eða vinnupall ætti hann að ná að minnsta kosti einn metra upp fyrir brúnina á þakinu eða pallinum sem hann stendur upp við. Komið í veg fyrir að stiginn færist til með því að binda fætur hans niður eða negla spýtu fyrir framan hann. Ef þú getur ekki fest stigann með þessum hætti skaltu fá einhvern til að halda við hann meðan þú ert að vinna í honum. Festu toppinn á stiganum vel svo að hann renni ekki til hliðar.
◇ Ekki leggja planka á milli stigaþrepa til að búa til vinnupall.
◇ Stigi gæti orðið valtur ef þú teygir út hendur eða fætur þegar þú ert að vinna hátt uppi. Teygðu þig ekki of langt, það gæti verið hættulegt. Færðu stigann eins oft og nauðsyn krefur til að vera nálægt staðnum þar sem þú ert að vinna.
◇ Ef þú þarft að stilla upp stiga fyrir framan lokaðar dyr skaltu setja upp viðvörunarskilti á hurðina og læsa henni. Ef ekki er hægt að læsa hurðinni skaltu fá einhvern til að gæta hennar og vara þá við sem þurfa að fara þar um.
◇ Aðeins ætti einn að vinna í einu í stiga nema stiginn sé gerður til að bera tvo. *
[Neðanmáls]
^ gr. 33 Nánar er fjallað um vinnu í stiga í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1999, bls. 22-24.
[Mynd á bls. 29]
Í Móselögunum var þess krafist að sett væri upp brjóstrið hringinn í kringum flöt þök.