Jehóva er alvaldur Drottinn
Jehóva er alvaldur Drottinn
„Drottinn, Hinn hæsti, er . . . voldugur konungur yfir allri jörðinni.“ — SÁLM. 47:3.
1. Hvað virðist Páll hafa í huga í 1. Korintubréfi 7:31?
„MYND þessa heims er að breytast,“ sagði Páll postuli. (1. Kor. 7:31, NW) Í þessu versi virðist Páll líkja heiminum við leiksvið þar sem leikarar í sjónleik fara með ólík hlutverk, og leika ýmist góðar persónur eða slæmar uns sviðsetningin breytist.
2, 3. (a) Við hvað má líkja ögruninni við drottinvald Jehóva? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?
2 Núna fer fram sjónleikur sem hefur geysimikla þýðingu, og þú kemur þar við sögu. Sjónleikurinn fjallar öðru fremur um það hvernig drottinvald Jehóva verður réttlætt. Það má líkja þessum sjónleik við aðstæður sem gætu verið uppi í ónefndu landi. Annars vegar er við völd lögmæt stjórn sem reynir að halda uppi lögum og reglu. Hins vegar starfa í landinu glæpasamtök sem stjórna með svikum, ofbeldi og morðum. Hin ólöglegu samtök eru ógnun við lögmæt stjórnvöld, og nærvera þeirra reynir á hollustu allra borgaranna við þessi stjórnvöld.
3 Svipuð staða og hér er lýst ríkir nú á alheimsmælikvarða. Þar er við völd löglega skipuð stjórn þar sem „alvaldur Drottinn“ Jehóva fer með æðsta vald. (Sálm. 68:21) En mannkyninu stendur ógn af glæpasamtökum undir forystu „hins vonda“. (1. Jóh. 5:19) Glæpasamtökin eru ögrun við hina löglegu stjórn í höndum Guðs og þau reyna á hollustu allra manna við drottinvald hans. Hvernig sköpuðust þessar aðstæður? Af hverju leyfir Guð þetta ástand? Hvað getum við, hvert og eitt, gert í málinu?
Helstu atriði sjónleiksins
4. Um hvaða tvö tengdu mál er fjallað í sjónleiknum mikla?
4 Í þessum mikla sjónleik er fjallað um tvö tengd mál: Æðsta vald Jehóva og ráðvendni mannanna. Í Biblíunni er Jehóva oft kallaður „Hinn hæsti“. Sálmaskáldið söng til dæmis: „Drottinn, Hinn hæsti, er . . . voldugur konungur yfir allri jörðinni.“ (Sálm. 47:3) Drottinvald er sama og æðstu yfirráð eða æðstu völd. Það eru góðar og gildar ástæður til þess að líta á Jehóva Guð sem Hinn æðsta. — Dan. 7:22.
5. Af hverju ættum við að finna hjá okkur löngun til að styðja æðstu yfirráð Jehóva?
5 Jehóva Guð er Drottinn jarðar og alls alheims af því að hann er skapari allra hluta. (Lestu Opinberunarbókina 4:11.) Hann er einnig dómari okkar, löggjafi og konungur vegna þess að í honum sameinast dóms-, löggjafar- og framkvæmdavaldið í alheiminum. (Jes. 33:22) Þar eð við eigum Guði tilveru okkar að þakka og erum háð honum eigum við að líta á hann sem alvaldan Drottin okkar. Við finnum hjá okkur löngun til að styðja æðstu yfirráð Jehóva ef við höfum alltaf hugfast að hann hefur „reist hásæti sitt á himnum og konungdómur hans drottnar yfir alheimi“. — Sálm. 103:19; Post. 4:24.
6. Hvað er ráðvendni?
6 Til að styðja drottinvald Jehóva þurfum við að vera honum ráðvönd öllum stundum. Með ráðvendni er átt við það að vera heill og heilbrigður í siðferðilegum skilningi. Ráðvönd manneskja er heiðvirð og ámælislaus. Ættfaðirinn Job var slíkur maður. — Job. 1:1.
Sjónleikurinn hefst
7, 8. Hvernig véfengdi Satan rétt Jehóva til að fara með æðstu völd?
7 Fyrir hér um bil 6.000 árum véfengdi andavera rétt Jehóva til að fara með æðsta vald. Kveikjan að orðum og verkum uppreisnarseggsins var eigingjörn löngun til að vera tilbeðinn. Þessi andavera taldi fyrstu hjónin, þau Adam og Evu, á að bregða trúnaði við drottinvald Jehóva og reyndi að kasta rýrð á nafn hans með því að fullyrða að hann hefði logið. (Lestu 1. Mósebók 3:1-5.) Þessi uppreisnarseggur varð óvinurinn mikli, Satan (andstæðingur), djöfull (rógberi), höggormur (sá sem tælir) og dreki (sá sem gleypir). — Opinb. 12:9.
8 Satan stillti sér upp sem keppinaut Jehóva um völdin. Hvað gerði alvaldur Drottinn Jehóva andspænis þessari ögrun? Útrýmdi hann strax uppreisnarseggjunum þrem, þeim Adam, Evu og Satan? Hann var vissulega nógu máttugur til þess, og ef hann hefði gert það hefði það svarað þeirri spurningu hver færi með æðstu völd. Það hefði einnig sannað að Jehóva hefði sagt satt um refsinguna fyrir að brjóta lög hans. Af hverju tók hann þá ekki af skarið?
9. Hvað véfengdi Satan?
9 Með því að ljúga og með því að snúa Adam og Evu gegn Jehóva véfengdi Satan að Jehóva hefði rétt til að krefjast hlýðni af mönnunum. Og með því að telja fyrstu hjónin á að óhlýðnast Guði véfengdi Satan að nokkur vitiborin sköpunarvera Guðs þjónaði honum af hollustu. Satan fullyrti að hann gæti snúið öllum mönnum gegn Guði, eins og sýndi sig í sambandi við Job sem var trúr drottinvaldi Jehóva. — Job. 2:1-5.
10. Hvaða tækifæri bauð Jehóva upp á með því að bíða með að sýna drottinvald sitt?
10 Með því að bíða með að sýna drottinvald sitt gaf Jehóva Satan tíma til að reyna að sanna að hann hefði rétt fyrir sér. Hann hefur einnig gefið mönnum tækifæri til að sýna að þeir séu trúir drottinvaldi hans. Hvað hefur tíminn leitt í ljós? Satan hefur byggt upp öflug glæpasamtök. Jehóva á eftir að tortíma þeim ásamt Satan og sanna með óyggjandi hætti rétt sinn til að fara með æðstu yfirráð. Jehóva Guð var svo öruggur um jákvæð málalok að hann sagði þau fyrir þegar uppreisnin átti sér stað í Eden. — 1. Mós. 3:15.
11. Hvernig hafa margir stutt málstað Jehóva?
11 Margir hafa sýnt trú og ráðvendni, stutt drottinvald Jehóva dyggilega og lagt sitt af mörkum til að helga nafn hans. Þeirra á Orðskv. 27:11.
meðal eru Abel, Enok, Nói, Abraham, Sara, Móse, Rut, Davíð, Jesús, fylgjendur Jesú á fyrstu öld og milljónir ráðvandra manna nú á dögum. Satan hefur ausið óhróðri á nafn Jehóva með því að fullyrða að sér tækist að snúa öllum mönnum frá honum. Þeir sem styðja drottinvald Guðs leggja sitt af mörkum til að hreinsa nafn hans og sanna að Satan sé lygari. —Úrslitin eru ráðin
12. Af hverju getum við treyst að Jehóva umberi ekki illskuna endalaust?
12 Við getum treyst að Jehóva muni bráðlega sýna fram á að hann sé alvaldur Drottinn. Hann umber ekki illskuna endalaust og við vitum að við lifum á síðustu dögum. Jehóva lét til skarar skríða gegn hinum óguðlegu í flóðinu. Hann eyddi Sódómu og Gómorru, og einnig faraó og hersveitum hans. Sísera og herlið hans og Sanheríb og assýrski herinn máttu sín lítils gagnvart Hinum hæsta. (1. Mós. 7:1, 23; 19:24, 25; 2. Mós. 14:30, 31; Dóm. 4:15, 16; 2. Kon. 19:35, 36) Við getum þess vegna verið örugg um að Jehóva Guð umberi ekki endalaust að nafn hans sé óvirt og að vottar hans sæti illri meðferð. Auk þess sjáum við núna táknið um að Jesús sé nærverandi og að endir þessa illa heims sé í nánd. — Matt. 24:3.
13. Hvað þurfum við að gera til að farast ekki með óvinum Jehóva?
13 Til að farast ekki með óvinum Jehóva þurfum við að sýna drottinvaldi hans hollustu. Hvernig getum við gert það? Með því að halda okkur fjarri glæpsamlegri stjórn Satans og láta ekki útsendara hans hræða okkur eða kúga. (Jes. 52:11; Jóh. 17:16; Post. 5:29) Það er eina leiðin til að styðja drottinvald föðurins á himnum og eiga von um að komast af þegar hann hreinsar nafn sitt af öllum óhróðri og sýnir fram á að hann sé Drottinn alheims.
14. Hvað er opinberað víðs vegar í Biblíunni?
14 Víða í Biblíunni er að finna upplýsingar um mannkynið og drottinvald Jehóva. Í fyrstu þrem köflunum er sagt frá sköpuninni og syndafalli mannsins, en í þrem síðustu köflunum segir frá því hvernig mannkynið endurheimtir paradís. Þar á milli er fjallað um það sem alvaldur Drottinn Jehóva gerir til að hrinda í framkvæmd vilja sínum með mannkynið, jörðina og alheiminn. Í 1. Mósebók kemur fram hvernig Satan og illskan urðu til, og í síðustu köflum Opinberunarbókarinnar er því lýst hvernig illskan verður upprætt, Satan tortímt og vilji Guðs nær fram að ganga á jörð eins og á himni. Biblían opinberar orsök syndar og dauða og lýsir hvernig hvoru tveggja verður útrýmt og við tekur takmarkalaus gleði og eilíft líf hjá þeim sem eru ráðvandir.
15. Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af þeim breytingum sem verða þegar sjónleikurinn mikli tekur enda?
15 Bráðlega gerbreytist mynd þessa heims. Tjaldið fellur og hinn aldalangi sjónleikur um drottinvaldið tekur enda. Satan verður fjarlægður af sjónarsviðinu og honum síðar útrýmt. Vilji Guðs nær þá fram að ganga að fullu. En til að njóta góðs af þessum breytingum og hljóta þá blessun sem er lýst í orði Guðs þurfum við að styðja drottinvald hans núna. Við megum ekki vera tvístígandi. Til að geta sagt: „Drottinn er með mér,“ þurfum við að vera með honum. —Við getum verið ráðvönd
16. Af hverju megum við treysta að það sé hægt að vera ráðvandur gagnvart Guði?
16 Við getum stutt drottinvald Jehóva og verið ráðvönd því að Páll postuli skrifaði: „Þið hafið ekki reynt nema það sem menn geta þolað. Guð er trúr og lætur ekki reyna ykkur um megn fram heldur mun hann, þegar hann reynir ykkur, einnig sjá um að þið fáið staðist.“ (1. Kor. 10:13) Hvaðan kemur raunin eða freistingin sem Páll nefnir og hvernig sér Guð um að við getum staðist hana?
17-19. (a) Fyrir hvaða freistingu féllu Ísraelsmenn í eyðimörkinni? (b) Af hverju getum við verið ráðvönd?
17 Eins og sjá má af því sem gerðist hjá Ísraelsmönnum í eyðimörkinni stafa freistingar oft af aðstæðum sem geta orðið til þess að við brjótum lög Guð. (Lestu 1. Korintubréf 10:6-10.) Ísraelsmenn hefðu getað staðist freistingarnar en þeir urðu sólgnir í „það sem illt er“ þegar Jehóva vann það kraftaverk að sjá þeim fyrir mánaðarbirgðum af lynghænsnum. Fólkið hafði ekki fengið kjöt um tíma en Guð hafði séð fyrir nægu manna til matar. En fólkið féll í freistni og lét taumlausa græðgi ná tökum á sér þegar það safnaði lynghænsnunum. — 4. Mós. 11:19, 20, 31-35.
18 Nokkru áður, meðan Móse var á Sínaífjalli að taka við lögmálinu, höfðu Ísraelsmenn gerst skurðgoðadýrkendur þegar þeir fóru út í kálfadýrkun og taumlausa skemmtun. Þeir freistuðust til að sleppa fram af sér beislinu þegar leiðtoginn var fjarverandi. (2. Mós. 32:1, 6) Rétt áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið létu þúsundir tælast af móabískum konum og gerðu sig seka um kynferðislegt siðleysi. Þúsundir Ísraelsmanna dóu vegna syndar sinnar. (4. Mós. 25:1, 9) Stundum féllu Ísraelsmenn í þá freistni að sýna uppreisnarhug og kvarta. Einu sinni töluðu þeir bæði gegn Móse og sjálfum Guði. (4. Mós. 21:5) Þeir mögluðu jafnvel eftir að Kóra, Datan, Abíram og félögum þeirra var útrýmt. Þeir hugsuðu ranglega með sér að það hefði verið óréttlátt að taka þessa illu uppreisnarmenn af lífi. Fyrir vikið dóu 14.700 Ísraelsmenn úr plágu frá Guði. — 4. Mós. 16:41, 49.
19 Engin af þessum freistingum var þess eðlis að Ísraelsmenn hefðu ekki getað staðist hana. Fólkið lét undan freistingunum vegna þess að það missti trúna og gleymdi Jehóva, umhyggju hans og því að vegir hans væru réttir. Eins og hjá Ísraelsmönnum eru freistingarnar, sem við verðum fyrir, þær sömu og gengur og gerist meðal fólks. Ef við leggjum hart að okkur til að standast þær og Sálm. 94:14.
treystum á stuðning Guðs getum við verið ráðvönd. Við getum treyst því vegna þess að „Guð er trúr“ og lætur ekki „reyna [okkur] um megn fram“. Jehóva yfirgefur okkur aldrei þannig að við lendum í þeim aðstæðum að það sé ekki í mannlegu valdi að gera vilja hans. —20, 21. Hvernig sér Guð um að við ,fáum staðist‘ þegar við verðum fyrir freistingu?
20 Jehóva sér líka um að við ,fáum staðist‘ með því að styrkja okkur svo að við föllum ekki í freistni. Ef ofsóknir verða er okkur kannski misþyrmt í þeim tilgangi að fá okkur til að afneita trúnni. Þá gæti virst freistandi að láta undan til að komast hjá frekari barsmíð, pyndingum eða jafnvel dauða. Miðað við innblásið loforð Páls í 1. Korintubréfi 10:13 vitum við hins vegar að freistingin er aðeins tímabundin. Jehóva leyfir ekki að hún nái því stigi að við getum ekki verið honum trú. Hann getur styrkt trú okkar og gefið okkur andlegan þrótt til að vera ráðvönd.
21 Jehóva styrkir okkur með heilögum anda sínum. Andi hans getur líka minnt okkur á biblíuleg atriði sem við þurfum á að halda til að standast freistingar. (Jóh. 14:26) Við látum þar af leiðandi ekki blekkja okkur til að fara út á ranga braut. Við skiljum til dæmis deilumálið um drottinvald Jehóva og ráðvendni mannanna. Sú þekking hefur gefið mörgum styrk til að vera trúir allt til dauða. En það var ekki dauðinn sem var undankomuleiðin heldur var það með hjálp Jehóva sem þeir gátu verið trúir allt til enda og staðist freistinguna. Jehóva getur hjálpað okkur líka. Hann notar meira að segja trúa engla sína í okkar þágu „til að hjálpa þeim sem hjálpræðið eiga að erfa“. (Hebr. 1:14) Eins og fram kemur í næstu grein geta þeir einir, sem eru ráðvandir, átt þá gleðilegu von að fá að styðja drottinvald Jehóva að eilífu. Við getum verið í þeim hópi ef við höldum okkur fast við Jehóva, Drottin okkar.
Hvert er svarið?
• Af hverju eigum við að viðurkenna Jehóva sem alvaldan Drottin?
• Hvað merkir það að vera ráðvandur gagnvart Guði?
• Hvernig vitum við að Jehóva mun bráðlega sýna fram á drottinvald sitt?
• Hvernig er hægt að vera ráðvandur miðað við 1. Korintubréf 10:13?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 24]
Satan taldi Adam og Evu á að vera Jehóva ótrú.
[Mynd á bls. 26]
Vertu staðráðinn í að styðja drottinvald Jehóva.