Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heilagur andi að verki við sköpunina

Heilagur andi að verki við sköpunina

Heilagur andi að verki við sköpunina

„Fyrir orð Drottins voru himnarnir gerðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.“ — SÁLM. 33:6.

1, 2. (a) Hvernig hefur þekking manna á jörðinni og himingeimnum vaxið með tímanum? (b) Við hvaða spurningu þurfum við að fá svar?

ÞEGAR Albert Einstein birti takmörkuðu afstæðiskenninguna árið 1905 töldu hann og margir fleiri vísindamenn að alheimurinn væri ekki stærri en vetrarbrautin okkar. Ljóst er að þeir vanmátu stærð alheimsins hressilega. Nú er talið að í alheiminum séu meira en 100 milljarðar vetrarbrauta og í sumum þeirra séu milljarðar stjarna. Eftir því sem smíðaðir eru öflugri stjörnusjónaukar, ýmist til notkunar á jörð eða á braut um jörð, finnast fleiri vetrarbrautir.

2 Þekking vísindamanna á jörðinni var takmörkuð árið 1905, ekki síður en þekkingin á alheiminum. Fólk vissi auðvitað meira fyrir einni öld en fyrr á öldum. Núna skiljum við hins vegar betur hve fagurt og margslungið lífið er og hve flókin kerfi viðhalda því. Og eflaust eigum við eftir að fá ýtarlegri þekkingu á jörðinni og himingeimnum á ókomnum árum. En öðru fremur er þó ástæða til að spyrja hvernig þetta hafi allt saman orðið til í upphafi. Við vissum ekki svarið nema vegna þess að skaparinn hefur opinberað það í Heilagri ritningu.

Sköpunin var mikið kraftaverk

3, 4. Hvernig skapaði Guð alheiminn og hvernig eru verk hans honum til dýrðar?

3 Í upphafsorðum Biblíunnar kemur fram hvernig alheimurinn varð til. Þar segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mós. 1:1) Þegar Jehóva hóf sköpunarstarfið var ekkert efni til. Hann beitti máttugum starfskrafti sínum, heilögum anda, til að skapa himininn, jörðina og allt annað sem er í alheiminum. Handverksmaður notar hendurnar og ýmis verkfæri til að búa til hluti en Guð sendir út heilagan anda sinn til að vinna máttarverk sín.

4 Í Biblíunni er heilagur andi í óeiginlegri merkingu kallaður ,fingur Guðs‘. (Lúk. 11:20; Matt. 12:28) Og handaverk Jehóva, það sem hann skapar með heilögum anda sínum, eru honum til dýrðar. „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa,“ söng sálmaskáldið Davíð. (Sálm. 19:2) Hið sýnilega sköpunarverk ber fagurt vitni um þann ógnarmátt sem býr í heilögum anda Guðs. (Rómv. 1:20) Hvernig þá?

Takmarkalaus máttur Guðs

5. Lýstu sköpunarkrafti heilags anda Jehóva.

5 Hinn ógnarstóri alheimur ber vitni um óþrjótandi mátt og kraft Jehóva. (Lestu Jesaja 40:26.) Vísindamenn vita að hægt er að breyta efni í orku og orku í efni. Sólin okkar, sem er stjarna, er dæmi um að efni breytist í orku. Á hverri sekúndu breytir hún um fjórum milljónum tonna af efni í ljós og aðra geislunarorku. Agnarlítið brot af þessari orku nær til okkar en það nægir til að viðhalda lífi á jörðinni. Ljóst er að það þurfti gríðarlega orku og mikinn mátt til að skapa sólina og aðrar stjörnur í milljarðatali. Jehóva býr yfir orkunni sem til þurfti og miklu meira en það.

6, 7. (a) Af hverju má segja að Guð hafi beitt heilögum anda með skipulegum hætti? (b) Hvernig má sjá að alheimurinn varð ekki til af tilviljun?

6 Allt í kringum okkur sjáum við merki þess að Jehóva hafi beitt heilögum anda sínum með afar skipulegum hætti. Lýsum þessu með dæmi: Segjum sem svo að þú værir með kassa sem í væru kúlur í ólíkum litum. Þú hristir kassann vel til að rugla kúlunum saman. Síðan sturtarðu úr kassanum á jörðina. Ætli kúlurnar raðist eftir litum, allar bláu kúlurnar saman, gulu kúlurnar saman og svo framvegis? Auðvitað ekki. Handahófskennd atvik skapa yfirleitt meiri óreiðu, ekki minni. Það er viðurkennt sem eitt af grundvallarlögmálum náttúrunnar. *

7 En hvað blasir við okkur þegar við rýnum út í himingeiminn með öflugum sjónauka? Við sjáum gríðarmikið og þaulskipulagt kerfi vetrarbrauta, stjarna og reikistjarna sem hreyfast innbyrðis af mikilli nákvæmni. Það er óhugsandi að allt þetta hafi orðið til af tilviljun eða hreinu handahófi. Við getum því ekki annað en spurt hvaða afli hafi verið beitt í öndverðu til að búa til þennan skipulega alheim. Öll okkar vísindi og tækni duga ekki til að skynja eða mæla þetta afl. Í Biblíunni kemur hins vegar fram að hér hafi heilagur andi Guðs verið að verki en hann er sterkasta aflið í alheiminum. Sálmaskáldið söng: „Fyrir orð Drottins voru himnarnir gerðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.“ (Sálm. 33:6) Og þegar við beinum augum okkar til himins á heiðskírri nóttu sjáum við aðeins agnarlítið brot af þessari „prýði“.

Heilagur andi og jörðin

8. Hve mikið vitum við í raun og veru um handaverk Jehóva?

8 Skilningur okkar á náttúrunni er ósköp fátæklegur þegar allt kemur til alls. Þekking okkar á handaverkum Guðs er ámóta og trúr þjónn hans, Job, lýsti endur fyrir löngu: „Þetta eru ystu mörk verka hans, það sem vér heyrum um hann er hvískur.“ (Job. 26:14) Salómon konungur hafði virt sköpunarverkið fyrir sér af mikilli athygli. Hann sagði: „Allt hefur [Guð] gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.“ — Préd. 3:11; 8:17.

9, 10. (a) Hvaða krafti beitti Guð þegar hann skapaði jörðina? (b) Lýstu því sem gerðist á fyrstu þrem sköpunardögunum.

9 Jehóva hefur þó opinberað okkur mikilvæg atriði varðandi verk sín. Til dæmis kemur fram í Biblíunni að andi hans hafi verið að verki á jörðinni fyrir óralöngu. (Lestu 1. Mósebók 1:2.) Þá var ekkert þurrlendi, ekkert ljós og líklega ekkert andrúmsloft við yfirborð jarðar.

10 Í Biblíunni er síðan lýst hvað Guð gerði meðan á sköpunardögunum stóð. Þessir dagar voru ekki sólarhringur hver eins og við eigum að venjast heldur löng tímabil. Á fyrsta sköpunardeginum lét Jehóva ljós skína á yfirborð jarðar. Þessu ferli lauk löngu síðar þegar sól og tungl urðu sýnileg frá jörðu. (1. Mós. 1:3, 14) Andrúmsloftið tók að myndast á öðrum degi. (1. Mós. 1:6) Nú var til vatn, ljós og loft á jörðinni en ekkert þurrlendi. Snemma á þriðja sköpunardeginum beitti Jehóva heilögum anda sínum til að búa til þurrlendi og nýtti þá hugsanlega sterk jarðfræðileg öfl til að lyfta meginlöndum upp úr hafinu sem hjúpaði jörðina. (1. Mós. 1:9) Fleiri undraverðir atburðir áttu sér stað á þriðja degi og á síðari sköpunartímabilum.

Heilagur andi og lifandi verur

11. Um hvað vitnar form, fegurð og margbreytileiki lifandi vera?

11 Lífverurnar, sem Guð skapaði með anda sínum, eru einnig mikil völundarsmíð. Á þriðja til sjötta sköpunardegi beitti Jehóva anda sínum til að skapa jurtir og dýr í ótrúlegri fjölbreytni. (1. Mós. 1:11, 20-25) Í lífríkinu er að finna endalaus dæmi um form, fegurð og margbreytileika sem vitna um hugvit og hönnun skaparans.

12. (a) Hvaða hlutverki gegnir kjarnsýran DNA? (b) Hvaða ályktun má draga af því hve erfðalykillinn er stöðugur?

12 Lítum á kjarnsýruna DNA sem dæmi, en hún er eitt þeirra efna sem sér um að skila einkennum lifandi vera frá einni kynslóð til annarrar. Allar lifandi verur á jörð, þar á meðal örverur, gras, fílar, stórhveli og menn, þurfa þessa kjarnsýru til að fjölga sér. Enda þótt sköpunarverur jarðar séu æði fjölbreyttar er erfðalykillinn, sem stýrir mörgum af arfgengum einkennum þeirra, ákaflega stöðugur. Hann hefur séð til þess að megintegundir lifandi vera hafa haldist aðgreindar í aldanna rás. Lífverur jarðar halda því áfram að gegna hver sínu hlutverki í flóknu lífríki jarðar, í samræmi við fyrirætlun Jehóva Guðs. (Sálm. 139:16) Þetta skipulega og skilvirka kerfi er enn eitt merki þess að sköpunarverkið sé gert með „fingri Guðs“, það er að segja heilögum anda.

Hápunktur sköpunarverksins á jörð

13. Hvernig skapaði Guð manninn?

13 Langur tími leið og Guð skapaði ótal lífverur og lífvana hluti. Jörðin var ekki lengur „auð og tóm“. En Jehóva hætti ekki þar með að beita anda sínum til sköpunarstarfa. Hann var í þann mund að skapa æðstu sköpunarveru jarðar. Undir lok sjötta sköpunardagsins myndaði hann manninn og notaði til þess heilagan anda sinn og frumefni jarðar. — 1. Mós. 2:7.

14. Hvaða mikilvægi munur er á mönnum og dýrum?

14 Í 1. Mósebók 1:27 segir: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ Að við skulum vera sköpuð eftir Guðs mynd merkir að við erum fær um að elska, höfum frjálsan vilja og getum meira að segja myndað tengsl við skapara okkar. Mannsheilinn er þess vegna harla ólíkur því sem er hjá dýrunum. Og Jehóva gerði mannsheilann þannig úr garði að við getum fræðst um skapara okkar og verk hans að eilífu.

15. Hvaða framtíð blasti við Adam og Evu?

15 Strax í upphafi gaf Jehóva Adam og Evu jörðina og öll undur hennar til að þau gætu kynnt sér þau og notið þeirra. (1. Mós. 1:28) Hann sá þeim ríkulega fyrir fæðu og gaf þeim paradís til að búa í. Þau áttu fyrir sér að lifa að eilífu og eignast milljarða fullkominna afkomenda. En það fór á annan veg.

Viðurkennum hlutverk heilags anda

16. Hvaða von eigum við þrátt fyrir uppreisn Adams og Evu?

16 Adam og Eva sýndu það vanþakklæti og þá eigingirni að gera uppreisn í stað þess að hlýða skapara sínum. Allir ófullkomnir menn eru komnir af þeim og líða fyrir það. En í Biblíunni kemur fram hvernig Guð ætlar að bæta allt það tjón sem foreldrar mannkyns ollu með synd sinni. Þar kemur einnig fram að Jehóva á eftir að láta upphaflegan vilja sinn ná fram að ganga. Jörðin verður paradís byggð heilbrigðu og hamingjusömu fólki sem á eilíft líf fyrir höndum. (1. Mós. 3:15) Við þurfum hjálp heilags anda Guðs til að viðhalda trúnni á þetta hvetjandi fyrirheit.

17. Hvaða hugmyndum þurfum við að standa gegn?

17 Við ættum að biðja Jehóva um heilagan anda. (Lúk. 11:13) Það hjálpar okkur að styrkja þá sannfæringu að sköpunarverkið sé handaverk Guðs. Trúleysingjar og þróunarsinnar hafa hert stórlega áróður sinn þótt alvarlegar veilur og villur séu í röksemdafærslu þeirra. Við ættum ekki að láta þessa holskeflu villandi hugmynda rugla okkur í ríminu eða draga úr okkur kjarkinn. Allir kristnir menn þurfa að búa sig undir árásir af þessu tagi og hópþrýstinginn sem fylgir þeim. — Lestu Kólossubréfið 2:8.

18. Af hverju væri það skammsýni að útiloka að vitur skapari hafi myndað alheiminn og mannkynið?

18 Heiðarleg rannsókn á rökunum fyrir því að alheimurinn og lífið sé skapað getur ekki annað en styrkt trú okkar á Guð og Biblíuna. Mörgum finnst órökrétt að halda því fram að til sé nokkurt afl fyrir utan efnisheiminn sem hafi átt þátt í sköpun hans. En ef við ræddum málin frá þeim sjónarhóli myndum við ekki vega og meta öll rökin á hlutlausan hátt. Þá myndum við líka horfa fram hjá þeirri augljósu staðreynd að óteljandi sköpunarverk blasa við okkur og vitna um reglufestu og tilgang. (Job. 9:10; Sálm. 104:25) Við sem erum kristin erum sannfærð um að aflið að baki sköpuninni hafi verið heilagur andi undir snjallri stjórn Jehóva.

Heilagur andi og trú okkar á Guð

19. Hvaða persónulegu sönnun höfum við fyrir því að Guð sé til og andi hans sé að verki?

19 Við þurfum ekki að þekkja sköpunarverkið í þaula til að trúa á Guð og til að elska hann og bera djúpa virðingu fyrir honum. Vinátta við Jehóva er að því leytinu lík vináttu milli manna að hún byggist ekki bara á staðreyndum einum. Sambandið milli vina styrkist og þroskast þegar þeir kynnast hver öðrum betur, og trúin á Guð vex að sama skapi þegar við kynnumst honum betur. Við finnum sterklega fyrir tilveru hans þegar hann bænheyrir okkur og þegar við finnum hve góð áhrif það hefur að fara eftir meginreglum hans. Við tengjumst Jehóva nánari böndum þegar við sjáum æ betur hvernig hann leiðbeinir okkur, verndar, blessar okkur í þjónustu sinni og lætur okkur í té það sem við þurfum. Allt staðfestir þetta að Guð sé til og að heilagur andi hans sé að verki.

20. (a) Af hverju skapaði Guð alheiminn og manninn? (b) Hvað gerist ef við höldum áfram að láta anda Guðs leiða okkur?

20 Biblían er einstakt dæmi um hvernig Jehóva beitir starfskrafti sínum því að ritararnir „töluðu . . . orð frá Guði, knúðir af heilögum anda“. (2. Pét. 1:21) Rækilegt biblíunám getur byggt upp trú okkar á Guð sem er skapari allra hluta. (Opinb. 4:11) Það var vegna síns mikla kærleika sem Jehóva gerðist skapari. (1. Jóh. 4:8) Við skulum því gera okkar ýtrasta til að hjálpa öðrum að kynnast kærleiksríkum föður okkar og vini á himnum. Ef við höldum áfram að láta anda Guðs leiða okkur fáum við að fræðast um hann að eilífu. (Gal. 5:16, 25) Höldum því öll áfram að fræðast um Jehóva og stórvirki hans. Endurspeglum þann takmarkalausa kærleika sem hann sýndi þegar hann beitti heilögum anda sínum til að skapa himininn, jörðina og mannkynið.

[Neðanmáls]

Geturðu svarað?

• Hvernig er tilvera himins og jarðar merki um að Jehóva hafi beitt heilögum anda sínum?

• Hvað erum við fær um að gera þar sem við erum sköpuð eftir Guðs mynd?

• Af hverju þurfum við að kynna okkur rökin fyrir sköpun?

• Hvernig getur samband okkar við Jehóva styrkst og þroskast?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 7]

Hvað lærum við um sköpunarverkið af reglunni í alheiminum?

[Rétthafi myndar]

Stjörnur: Anglo-Australian Observatory/​David Malin Images

[Myndir á bls. 8]

Kjarnsýran DNA er sameiginleg öllum þessum lífverum.

[Mynd á bls. 10]

Ertu tilbúinn til að verja trú þína?