Hljótum anda Guðs, ekki anda heimsins
Hljótum anda Guðs, ekki anda heimsins
„Við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði, til þess að við skulum vita hvað Guð hefur gefið okkur.“ — 1. KOR. 2:12.
1, 2. (a) Í hvaða skilningi eiga sannkristnir menn í stríði? (b) Um hvaða spurningar verður fjallað í greininni?
SANNKRISTNIR menn eiga í stríði. Óvinurinn er voldugur, slóttugur og þaulvanur stríðsmaður. Hann ræður yfir vopni sem er svo öflugt að með því hefur hann sigrað stóran hluta mannkyns. En við skulum ekki halda að okkur séu allar bjargir bannaðar. (Jes. 41:10) Við eigum okkur varnarvopn sem ekkert bítur á.
2 Stríðið, sem við eigum í, er ekki bókstaflegt heldur er það andlegs eðlis. Óvinurinn er Satan djöfullinn og helsta vopnið, sem hann notar, er ,andi heimsins‘. (1. Kor. 2:12) Öflugasta varnarvopnið gegn árásum hans er andi Guðs. Til að komast heil úr þessu stríði og varðaveita náið samband við Guð þurfum við að biðja um anda Guðs og bera ávöxt hans. (Gal. 5:22, 23) En hvað er andi heimsins og hvernig varð hann svona öflugur? Hvernig getum við kannað hvort við látum anda heimsins hafa áhrif á okkur? Og hvað getum við lært af Jesú um það að hljóta anda Guðs og standa gegn anda heimsins?
Af hverju er andi heimsins svona útbreiddur?
3. Hvað er andi heimsins?
3 Andi heimsins á upptök sín hjá Satan, „höfðingja þessa heims“, og hann vinnur gegn heilögum anda Guðs. (Jóh. 12:31; 14:30; 1. Jóh. 5:19) Þessi andi er þau viðhorf og þær tilhneigingar sem eru ráðandi í heiminum og knýja fólk til verka. Andi heimsins gerir mannlegt samfélag andsnúið vilja og fyrirætlun Guðs.
4, 5. Hvernig varð andinn, sem Satan ýtir undir, svona útbreiddur?
4 Hvernig varð andinn, sem Satan ýtir undir, svona útbreiddur? Satan byrjaði á því að blekkja Evu í Eden. Hann taldi henni trú um að hún myndi bæta hlutskipti sitt með því að vera óháð Guði. (1. Mós. 3:13) Hvílík lygi! (Jóh. 8:44) Síðan notaði hann konuna til að freista Adams til að óhlýðnast Jehóva. Með ákvörðun sinni seldi Adam mannkynið undir syndina og þar af leiðandi erfa mennirnir tilhneigingu til að vera óhlýðnir líkt og Satan. — Lestu Efesusbréfið 2:1-3.
5 Satan hafði einnig áhrif á töluverðan fjölda engla og þeir urðu þar með illir andar. (Opinb. 12:3, 4) Þessi sviksemi við Guð átti sér stað einhvern tíma fyrir Nóaflóðið. Þessir englar héldu að þeir yrðu betur settir með því að yfirgefa stöðu sína á himnum og gefa afbrigðilegum löngunum lausan tauminn hér á jörð. (Júd. 6) Þessir illu andar hafa nú snúið aftur yfir í andaheiminn, og með hjálp þeirra ,afvegaleiðir Satan alla heimsbyggðina‘. (Opinb. 12:9) Því miður er meirihluti mannkyns blindur fyrir áhrifum illu andanna. — 2. Kor. 4:4.
Læturðu anda heimsins hafa áhrif á þig?
6. Hver er eina leiðin til að smitast af anda heimsins?
6 Margir eru blindir fyrir áhrifum Satans en sannkristnum mönnum er vel kunnugt um aðferðir hans. (2. Kor. 2:11) Andi heimsins getur reyndar ekki haft áhrif á okkur nema við leyfum það. Við skulum líta á fjórar spurningar sem hjálpa okkur að kanna hvort við séum undir áhrifum anda Guðs eða anda heimsins.
7. Hvað notar Satan meðal annars til að reyna að gera okkur viðskila við Jehóva?
7Hvað gefur afþreyingarefnið, sem ég vel mér, til kynna um mig? (Lestu Jakobsbréfið 3:14-18.) Satan reynir að gera okkur viðskila við Guð með því að vekja hjá okkur áhuga á ofbeldi. Hann veit að Jehóva hatar þá sem elska ofbeldi. (Sálm. 11:5) Þess vegna reynir hann að höfða til langana holdsins með bókum, kvikmyndum, tónlist og tölvuleikjum, og í sumum þeirra setja þátttakendur sig í hlutverk persóna sem fremja gróft siðleysi og hrottaskap. Satan er alveg sama þó að við elskum hið rétta að einhverju marki svo framarlega sem við elskum líka hið illa sem hann kyndir undir. — Sálm. 97:10.
8, 9. Um hvað ættum við að spyrja okkur varðandi afþreyingarefni?
8 Þeir sem hljóta anda Guðs vilja hins vegar vera hreinir, friðsamir og miskunnsamir. Við ættum að spyrja okkur hvort afþreyingarefnið, sem við veljum okkur, ýti undir góða eiginleika í fari okkar. Spekin að ofan er „hræsnislaus“. Þeir sem stjórnast af anda Guðs skemmta sér ekki við það heima hjá sér að horfa á gróft ofbeldi og siðleysi og boða síðan hreinleika og frið meðal almennings.
9 Jehóva væntir óskiptrar hollustu af okkur. Satan gerir sig hins vegar ánægðan með eina tilbeiðsluathöfn, rétt eins og þegar hann freistaði Jesú. (Lúk. 4:7, 8) Við gætum spurt okkur hvort afþreyingarefnið, sem við veljum okkur, geri okkur kleift að sýna Guði óskipta hollustu. Auðveldar það þér að verjast anda heimsins eða hefur það gagnstæð áhrif? Ættirðu að velja þér annað afþreyingarefni eftirleiðis?
10, 11. (a) Hvaða áhrif hefur andi heimsins á viðhorf fólks til efnislegra hluta? (b) Hvernig eigum við að líta á peninga samkvæmt innblásnu orði Guðs?
10Hvernig lít ég á efnislegar eignir? (Lestu Lúkas 18:24-30.) Andi heimsins ýtir undir ágirnd og efnishyggju og nýtir til þess „allt sem glepur augað“. (1. Jóh. 2:16) Hann hefur haft þau áhrif að margir ala með sér löngun til að auðgast. (1. Tím. 6:9, 10) Andi heimsins reynir að telja okkur trú um að við sköpum okkur varanlegt öryggi með því að sanka að okkur efnislegum hlutum. (Orðskv. 18:11) En ef við elskum peninga meira en Guð hefur Satan farið með sigur af hólmi. Við ættum að spyrja okkur hvort líf okkar sé farið að snúast um efnisleg þægindi og munaðarlíf.
11 Í innblásnu orði Guðs erum við hins vegar hvött til að sjá peninga í réttu ljósi og leggja okkur fram við að sjá fjölskyldunni farborða. (1. Tím. 5:8) Þeir sem hljóta anda Jehóva eru gjafmildir og örlátir eins og hann. Þeir meta fólk meira en efnislega hluti og gefa af því sem þeir eiga þegar þeir eru aflögufærir. (Orðskv. 3:27, 28) Og aldrei láta þeir öflun peninga ganga fyrir því að þjóna Guði.
12, 13. Hvaða góðu áhrif getur andi Guðs haft á okkur, ólíkt anda heimsins?
12Hvaða anda endurspeglar persónuleiki minn? (Lestu Kólossubréfið 3:8-10, 13.) Andi heimsins ýtir undir verk holdsins. (Gal. 5:19-21) Það reynir ekki mikið á hvaða anda við látum hafa áhrif á okkur þegar allt leikur í lyndi heldur gerist það frekar þegar eitthvað kemur upp á, til dæmis ef trúsystkini sniðgengur okkur, móðgar eða syndgar jafnvel gegn okkur. Og það getur líka sýnt sig inni á heimilinu hvor andinn ræður ferðinni. Það getur verið ástæða til að líta í eigin barm. Spyrðu þig hvort þér hafi tekist að líkjast Kristi betur síðastliðið hálft ár eða hvort gamlir ósiðir séu farnir að skjóta upp kollinum í tali þínu og hegðun.
13 Andi Guðs getur hjálpað okkur að ,afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðast hinum nýja‘. Það stuðlar að því að við séum kærleiksrík og góðviljuð. Við erum þá fús til að fyrirgefa hvert öðru jafnvel þó að okkur virðist vera gild ástæða til annars. Við bregðumst ekki við með „beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli“ þótt okkur finnist við hafa verið ranglæti beitt. Við leggjum okkur öllu heldur fram um að vera „miskunnsöm“. — Ef. 4:31, 32.
14. Hvernig líta margir í heiminum á orð Guðs?
14Virði ég og elska siðferðisreglur Biblíunnar? (Lestu Orðskviðina 3:5, 6.) Andi heimsins einkennist af uppreisn gegn orði Guðs. Þeir sem eru undir áhrifum hans sniðganga biblíukafla sem þeim finnst óþægilegir og aðhyllast frekar siði og heimspeki manna. (2. Tím. 4:3, 4) Sumir sniðganga orð Guðs með öllu. Þeir þykjast vitrir og véfengja gildi og áreiðanleika Biblíunnar. Þeir gera lítið úr hreinum ákvæðum hennar um framhjáhald, samkynhneigð og hjónaskilnað. Þeir „kalla hið illa gott og hið góða illt“. (Jes. 5:20) Höfum við orðið fyrir áhrifum af þessu hugarfari? Treystum við á visku manna, þar á meðal okkar eigin hugmyndir, þegar erfiðleikar steðja að? Eða fylgjum við ráðum Biblíunnar?
15. Hvað ættum við að gera í stað þess að reiða okkur á eigin visku?
15 Andi Guðs vekur með okkur virðingu fyrir Biblíunni. Líkt og sálmaskáldið lítum við á orð Guðs sem lampa fóta okkar og ljós á vegum okkar. (Sálm. 119:105) Í stað þess að reiða okkur á eigin visku treystum við fullkomlega að Biblían hjálpi okkur að greina rétt frá röngu. Við lærum ekki aðeins að virða Biblíuna heldur líka að elska lög Guðs. — Sálm. 119:97.
Lærum af Jesú
16. Hvað þurfum við að gera til að tileinka okkur „huga Krists“?
16 Til að hljóta anda Guðs þurfum við að tileinka okkur „huga Krists“. (1. Kor. 2:16) Við þurfum að vita hvernig Jesús hugsaði og hvernig hann breytti til að hafa sama hugarfar og hann. (Rómv. 15:5; 1. Pét. 2:21) Lítum á nokkrar leiðir til þess.
17, 18. (a) Hvað lærum við af Jesú um bænir? (b) Af hverju ættum við að biðja oft og lengi?
17Biddu um anda Guðs. Þegar prófraunir blöstu við Jesú bað hann um anda Guðs sér til hjálpar. (Lúk. 22:40, 41) Við þurfum líka að biðja Guð að gefa okkur heilangan anda. Jehóva gefur hann fúslega og ríkulega öllum sem biðja um hann í trú. (Lúk. 11:13) Jesús sagði: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“ — Matt. 7:7, 8.
18 Þegar við biðjum Jehóva um anda hans og hjálp skulum við ekki gefast upp á að biðja. Við þurfum ef til vill að biðja oft og lengi. Stundum lætur Jehóva þá sem biðja til hans sýna hve einlægir þeir eru og hve djúpt trúin ristir áður en hann verður við bænum þeirra. *
19. Hvað gerði Jesús alltaf og af hverju ættum við að líkja eftir honum?
19Hlýddu Jehóva í einu og öllu. Jesús þóknaðist föður sínum í öllu sem hann gerði. Að minnsta kosti einu sinni hefði Jesús viljað fara öðruvísi að en faðir hans vildi. Hann treysti þó föður sínum fullkomlega og sagði: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúk. 22:42) Spyrðu þig hvort þú hlýðir Guði jafnvel þegar það getur reynst erfitt. Við verðum að hlýða Guði. Við skuldum honum skilyrðislausa hlýðni vegna þess að hann skapaði okkur og hann gaf okkur lífið og viðheldur því. (Sálm. 95:6, 7) Ekkert getur komið í staðinn fyrir hlýðni því að hún er forsenda þess að Guð hafi velþóknun á okkur.
20. Um hvað snerist líf Jesú og hvernig getum við farið að dæmi hans?
20Þekktu Biblíuna vel. Jesús vitnaði í Ritninguna þegar Satan gerði atlögu að trú hans. (Lúk. 4:1-13) Hann notaði orð Guðs sem heimild þegar hann tókst á við trúarlega andstæðinga sína. (Matt. 15:3-6) Líf hans snerist um það að þekkja lögmál Guðs og uppfylla það. (Matt. 5:17) Við viljum líka næra hugann á trústyrkjandi orði Guðs. (Fil. 4:8, 9) En það er ekki hlaupið að því fyrir suma að finna sér tíma fyrir sjálfsnám og fjölskyldunám. Í stað þess að finna okkur tíma getum við þurft að skapa okkur tíma. — Ef. 5:15-17.
21. Hvað getum við gert til að kynnast orði Guðs betur og læra að fara eftir því?
21 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur hvatt okkur til þess að taka frá eitt kvöld í viku fyrir sjálfsnám og fjölskyldunám. (Matt. 24:45) Notarðu þetta kvöld vel? Til að tileinka þér huga Krists gætirðu kannski tekið fyrir á kerfisbundinn hátt það sem Jesús kenndi um ýmis málefni. Þú gætir notað efnisskrár safnaðarins (Watch Tower Publications Index) til að finna fræðandi efni um það sem þú ert að kynna þér. Frá 2008 hafa birst nokkrar greinar í almennri útgáfu þessa tímarits undir yfirskriftinni „Lærum af Jesú“. Þú gætir sótt námsefni í þennan greinaflokk. Árið 2006 tók að birtast fastur dálkur í tímaritinu Vaknið! með yfirskriftinni „Hvert er svarið?“ Spurningunum í þessum dálki var ætlað að hjálpa þér að auka við þekkinguna á orði Guðs. Væri ekki þjóðráð að nota slíkt efni af og til í fjölskyldunáminu?
Við getum sigrað heiminn
22, 23. Hvað þurfum við að gera til að sigra heiminn?
22 Til að láta anda Guðs leiða okkur þurfum við að standa gegn anda heimsins. Það gerist ekki áreynslulaust heldur getur það kostað harða baráttu. (Júd. 3) En við getum sigrað. Jesús sagði við lærisveinana: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — Jóh. 16:33.
23 Við getum líka sigrað heiminn ef við stöndum gegn anda hans og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hljóta anda Guðs. „Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“ (Rómv. 8:31) Ef við hljótum anda Guðs og fylgjum handleiðslu hans eins og hún birtist í Biblíunni öðlumst við frið, hamingju og lífsfyllingu. Og síðast en ekki síst eigum við í vændum eilíft líf í nýjum heimi sem er í nánd.
[Neðanmáls]
^ gr. 18 Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían? bls. 170-173.
Manstu?
• Af hverju er andi heimsins afar útbreiddur?
• Hvaða fjögurra spurninga ættum við að spyrja okkur?
• Nefndu þrennt sem við lærum af Jesú um það að hljóta anda Guðs.
[Spurningar]
[Mynd á bls. 8]
Hvernig urðu sumir englar að illum öndum?
[Mynd á bls. 10]
Satan notar anda heimsins til að stjórna fólki en við getum losað okkur undan áhrifum hans.