Sérðu merki handleiðslu Guðs?
Sérðu merki handleiðslu Guðs?
HVORKI Ísraelsmenn né Egyptar höfðu séð neitt þessu líkt áður. Þegar Ísraelsmenn hófu brottför sína frá Egyptalandi fylgdi þeim skýstólpi frá morgni til kvölds og eldstólpi á næturnar. Þetta var mikilfengleg sjón! En hvaðan kom stólpinn og í hvaða tilgangi? Hvað getum við lært af því, 3.500 árum síðar, hvaða augum Ísraelsmenn litu ,eld- og skýstólpann‘. — 2. Mós. 14:24.
Orð Guðs leiðir í ljós hvaðan stólpinn kom og hver tilgangurinn var með honum. Þar segir: „Drottinn gekk fyrir þeim í skýstólpa á daginn til að vísa þeim veginn og í eldstólpa um nætur til að lýsa þeim svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.“ (2. Mós. 13:21, 22) Jehóva Guð notaði ský- og eldstólpa til þess að leiða fólk sitt út úr Egyptalandi og í gegnum eyðimörkina. Fólkið varð að vera reiðubúið að taka sig upp hvenær sem var til þess að geta fylgt stólpanum eftir. Þegar herfylkingar Egypta voru um það bil að ráðast á fólk Guðs færðist stólpinn á milli hópanna og verndaði Ísraelsmenn. (2. Mós. 14:19, 20) Jafnvel þótt stólpinn leiddi ekki þjóðina auðveldustu leiðina varð hún að fylgja honum eftir því að það var eina leiðin til að komast til fyrirheitna landsins.
Návist stólpans var sönnun fyrir því að Jehóva var með fólki sínu. Stólpinn táknaði nærveru Jehóva og stundum talaði hann til þeirra úr stólpanum. (4. Mós. 14:14; Sálm. 99:7) Með hjálp skýstólpans sýndi Jehóva að hann hefði útnefnt Móse til að leiða þjóðina. (2. Mós. 33:9) Samkvæmt frásögunni birtist skýstólpinn í síðasta skipti þegar Jehóva útvaldi Jósúa sem eftirmann Móse. (5. Mós. 31:14, 15) Farsæl brottför frá Egyptalandi var vissulega undir því komin að Ísraelsmenn sæju merki handleiðslu Guðs og fylgdu henni.
Þeir misstu sjónar á handleiðslu Guðs
Þegar Ísraelsmenn sáu stólpann í fyrsta sinn hljóta þeir að hafa verið fullir lotningar. Hvað sem því líður hafði þetta kraftaverk, sem þeir höfðu daglega fyrir augum, ekki meiri áhrif á þá en svo að með tímanum hættu þeir að treysta Jehóva. Þeir drógu handleiðslu hans í efa mörgum sinnum. Þegar hersveitir Egypta drógu þá uppi sýndu þeir að þeir treystu ekki að Jehóva gæti frelsað þá. Þess í stað sökuðu þeir Móse, þjón Guðs, um að hafa leitt þá út í opinn dauðann. (2. Mós. 14:10-12) Eftir björgun þeirra í gegnum Rauðahafið mögluðu þeir gegn Móse, Aroni og Jehóva vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir matar- og vatnsskorti. (2. Mós. 15:22-24; 16:1-3; 17:1-3, 7) Nokkrum vikum síðar þvinguðu þeir Aron til að búa til gullkálf. Að hugsa sér! Á einum stað í tjaldbúðunum gátu Ísraelsmenn séð ský- og eldstólpann — mikilfenglega sönnun þess að Guð hafði frelsað þá frá Egyptalandi — en aðeins spölkorn þar frá hófu þeir að tilbiðja lífvana líkneski og segja: „Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“ Hvílíkt guðlast! — 2. Mós. 32:4; Nehem. 9:18.
Uppreisnargjarnir Ísraelsmenn sýndu þar með gróft virðingarleysi fyrir handleiðslu Jehóva. Það var ekkert að bókstaflegri sjón þeirra en þeir höfðu ekki rétt viðhorf gagnvart leiðsögn Jehóva. Þeir sáu stólpann en Sálm. 78:40-42, 52-54; Nehem. 9:19.
þeir gleymdu því að hann táknaði handleiðslu og nærveru Jehóva. En jafnvel þótt Ísraelsmenn „vanvirtu Hinn heilaga í Ísrael“ með breytni sinni miskunnaði Jehóva sig yfir þá og hélt áfram að nota stólpann til að leiða þá til fyrirheitna landsins. —Sjáum merki handleiðslu Guðs nú á tímum
Jehóva gefur fólki sínu nú á dögum skýrar leiðbeiningar líkt og fyrr á tímum. Hann ætlaðist ekki til þess að Ísraelsmenn fyndu leiðina til fyrirheitna landsins upp á eigin spýtur. Hann ætlast ekki heldur til þess að við rötum ein okkar liðs inn í nýja heiminn sem hann hefur lofað okkur. Jesús Kristur er útnefndur leiðtogi safnaðarins. (Matt. 23:10; Ef. 5:23) Hann hefur síðan fengið yfirráð í hendur trúum þjóni sínum eða ráðsmanni, sem samanstendur af hópi trúfastra andasmurðra kristinna manna. Þjónninn útnefnir síðan umsjónarmenn í kristna söfnuðinum. — Matt. 24:45-47; Tít. 1:5-9.
Hvernig getum við þekkt trúa þjóninn? Tökum eftir því sem Jesús sagði um hann: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur.“ — Lúk. 12:42, 43.
Ráðsmaðurinn er ávallt trúr. Hann svíkur ekki eða yfirgefur Jehóva, Jesú eða fólk Guðs. Og hann gengur aldrei á skjön við sannleika Biblíunnar. Þar sem ráðsmaðurinn er einnig hygginn stýrir hann með góðri dómgreind því mikilvæga verkefni að prédika „fagnaðarerindið um ríkið“ og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Ráðsmaðurinn útbýtir af hlýðni hollri og næringarríkri andlegri fæðu „á réttum tíma“. Velþóknun Jehóva á trúa og hyggna þjóninum er augljós. Jehóva blessar fólk sitt með aukningu, leiðbeinir því við ákvarðanatöku í mikilvægum málum og gefur því betri skilningi á biblíusannindum. Hann verndar þjóna sína á jörð svo að óvinir nái ekki að útrýma þeim og veitir þeim innri frið og ró. — Jes. 54:17; Fil. 4:7.
Þiggðu handleiðslu Guðs
Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta handleiðslu Guðs? Páll postuli sagði: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát.“ (Hebr. 13:17) Það er kannski ekki alltaf jafn auðvelt. Tökum dæmi: Ímyndaðu þér að þú sért Ísraelsmaður á dögum Móse. Þú hefur gengið í alllangan tíma en svo stöðvast stólpinn. Hversu lengi mun hann staðnæmast þarna? Einn dag? Eina viku? Nokkra mánuði? Þú veltir fyrir þér hvort það taki því að pakka upp öllum eigum þínum. Fyrst tekurðu kannski upp það allra nauðsynlegasta. En eftir nokkra daga, þegar þú ert orðinn leiður á að gramsa og leita í föggum þínum, pakkarðu öllu upp. Síðan, þegar þú ert alveg að verða búinn að koma þér fyrir, sérðu að stólpinn er að hefja sig upp að nýju — og þú þarft að pakka öllu saman aftur! Þetta hefur ekki verið auðvelt eða hentugt. Engu að síður lögðu Ísraelsmenn „af stað að boði Drottins“. — 4. Mós. 9:17-22.
Hvernig tökum við handleiðslu Guðs? Reynum við að ,leggja af stað‘ um leið og við fáum leiðbeiningar? Eða höldum við áfram að gera hlutina eins og við erum vön? Fylgjumst við vel með nýjum leiðbeiningum sem við fáum í sambandi við reglulegt biblíunámskvöld fjölskyldunnar, það að halda biblíunámskeið, prédika fyrir fólki sem talar annað tungumál, vinna með spítalasamskiptanefndinni og hegða okkur tilhlýðilega á mótum? Við sýnum líka þakklæti okkar fyrir handleiðslu Guðs með því að taka við áminningum. Þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir treystum við ekki á
eigin visku heldur leitum ráða hjá Jehóva og söfnuði hans. Rétt eins og barn leitar verndar foreldra sinna þegar óveður geisar, leitum við verndar hjá söfnuði Jehóva þegar vandamál heimsins ríða yfir líkt og óveður.Þeir sem fara með forystuna í söfnuði Guðs á jörðinni eru auðvitað ekki fullkomnir frekar en Móse. En þrátt fyrir það táknaði nærvera stólpans að Móse var útvalinn af Guði og hafði velþóknun hans. Taktu líka eftir að Ísraelsmenn áttu ekki að ákveða hver fyrir sig hvenær leggja ætti af stað. Þess í stað fylgdi fólkið „þeim fyrirmælum Drottins sem Móse hafði flutt“. (4. Mós. 9:23) Líklega hefur Móse gefið merki um það hvenær lagt yrði af stað, en hann var boðleið Jehóva.
Nú á tímum fáum við skýrt merki frá ráðsmanni Jehóva þegar við þurfum að ,leggja af stað‘. Hvernig fer ráðsmaðurinn að? Við fáum fyrirmæli frá honum í greinum í Varðturninum og í Ríkisþjónustu okkar, nýjum ritum og ræðum sem fluttar eru á mótum. Söfnuðirnir fá einnig leiðbeiningar þegar farandhirðirinn er í heimsókn, sömuleiðis í bréfum og á námskeiðum handa bræðrum sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðunum.
Sérð þú greinilega merki handleiðslu Guðs? Jehóva notar söfnuð sinn til að leiða okkur í gegnum „eyðimörkina“ á síðustu dögum þessa illa heims Satans. Það er ástæða þess að við búum við einingu, kærleika og öryggi.
Þegar Ísraelsmenn komu til fyrirheitna landsins sagði Jósúa: „Þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst.“ (Jós. 23:14) Eins getur fólk Guðs nú á tímum treyst því að komast inn í nýja heiminn sem hann hefur lofað. En það veltur á því hvort við sem einstaklingar viljum hlýða leiðbeiningum Guðs. Höldum þess vegna öll áfram að hafa augun opin fyrir handleiðslu Jehóva Guðs.
[Myndir á bls. 5]
Við fáum leiðbeiningar frá söfnuði Jehóva nú á tímum.
Ný rit.
Námskeið.
Leiðbeiningar fyrir boðunarstarfið.