Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar
Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar
„Náðin [mun] ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs.“ — RÓMV. 5:21.
1, 2. Hvaða arfleifð telja margir verðmæta en hvaða gjöf er enn dýrmætari?
„MERKASTA arfleifð . . . Rómverja til eftirkomendanna er lög þeirra og sá skilningur að fólk ætti að lifa samkvæmt lögum.“ (Dr. David J. Williams, Melbourne-háskóla, Ástralíu) Hvort sem það er rétt eða ekki er til arfleifð eða gjöf sem er margfalt verðmætari. Það er sú ráðstöfun Guðs að fólk geti verið réttlátt í augum hans og átt í vændum hjálpræði og eilíft líf.
2 Í vissum skilningi voru ákveðnar lagalegar hliðar á því hvernig Guð gaf þessa gjöf. Páll postuli lýsir þeim í 5. kafla Rómverjabréfsins en hann notar ekki stíft og stirt lögfræðimál. Hann byrjar öllu heldur á því að nefna heillandi loforð: „Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists.“ Þeir sem hljóta gjöf Guðs finna löngun hjá sér til að endurgjalda kærleika hans. Páll var einn þeirra. Hann skrifaði: „Kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda.“ — Rómv. 5:1, 5.
3. Hvaða spurningar er eðlilegt að vakni?
3 En af hverju þurfti Guð að gefa þessa kærleiksríku gjöf? Hvernig gat hann gefið hana með fullu réttlæti og sanngirni? Og hvað þarf fólk að gera til að geta hlotið hana? Við skulum líta nánar á þessar spurningar og
kanna hvernig svörin sýna fram á kærleika Guðs.Kærleikur Guðs gegn syndinni
4, 5. (a) Hvaða mikla kærleiksverk vann Jehóva? (b) Hvað þurfum við að vita til að geta skilið Rómverjabréfið 5:12?
4 Jehóva vann það mikla kærleiksverk að senda einkason sinn mönnunum til hjálpar. Páll lýsti því þannig: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:8) Tökum eftir einu sem Páll nefnir: „Þegar við vorum enn syndarar.“ Allir þurfa að skilja hvernig það atvikaðist að við urðum syndug.
5 Páll gerði grein fyrir því og byrjaði á eftirfarandi: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómv. 5:12) Við erum fær um að skilja þetta því að Jehóva lét skrásetja hvernig mennirnir urðu til. Hann skapaði fyrstu mennina, hjónin Adam og Evu. Jehóva er fullkominn og fyrstu mennirnir, forfeður okkar, voru það líka. Hann setti þeim aðeins ein takmörk og lét þau vita að ef þau brytu gegn þessu banni kölluðu þau yfir sig dauðadóm. (1. Mós. 2:17) Þau ákváðu hins vegar að brjóta gegn sanngjörnum fyrirmælum Guðs. Þar með höfnuðu þau honum sem Drottni sínum og löggjafa. — 5. Mós. 32:4, 5.
6. (a) Af hverju dóu afkomendur Adams bæði áður en Guð gaf Móselögin og eftir það? (b) Við hvað mætti líkja áhrifum erfðasyndarinnar?
6 Adam eignaðist ekki börn fyrr en eftir að hann var orðinn syndari, og hann gaf þeim öllum synd og afleiðingar hennar í vöggugjöf. Þessi börn höfðu auðvitað ekki brotið bann Guðs eins og Adam þannig að þau voru ekki ákærð fyrir sömu synd og hann, og mönnunum hafði ekki heldur verið sett nein löggjöf. (1. Mós. 2:17) Afkomendur Adams tóku syndina engu að síður í arf. Þess vegna ríkti synd og dauði fram til þess tíma þegar Guð gaf Ísraelsmönnum lagasáttmála sem sýndi greinilega fram á að þeir væru syndarar. (Lestu Rómverjabréfið 5:13, 14.) Það má líkja áhrifum erfðasyndarinnar við erfðasjúkdóma á borð við dvergkornablóðleysi eða dreyrasýki. Þú hefur kannski lesið að Alexej, sonur Alexöndru og Nikulásar annars Rússakeisara, erfði blóðsjúkdóminn dreyrasýki. Þegar um slíkan erfðasjúkdóm er að ræða er að vísu ekki gefið að hann leggist á öll börnin í fjölskyldunni en þau geta samt borið hann. Öðru máli gegnir um syndina. Allir urðu óhjákvæmilega fyrir áhrifum af synd Adams. Allir finna fyrir þeim. Þau eru alltaf banvæn. Og öll börn erfa syndina. Áttu mennirnir einhverja undankomuleið úr þessum ógöngum?
Það sem Guð lét í té fyrir atbeina Jesú Krists
7, 8. Hvaða ólíku afleiðingar hafði lífsstefna tveggja fullkominna manna?
7 Í kærleika sínum gerði Jehóva ráðstafanir til þess að mennirnir gætu unnið bug á erfðasyndinni. Páll benti á að það væri gerlegt fyrir atbeina annars manns, fullkomins manns sem er eins konar síðari Adam. (1. Kor. 15:45) En lífsstefna þessara tveggja fullkomnu manna hefur haft afar ólíkar afleiðingar. Hvernig þá? — Lestu Rómverjabréfið 5:15, 16.
8 „Náðargjöf Guðs og falli Adams verður ekki jafnað saman,“ skrifaði Páll. Adam var brotlegur og hlaut réttilega sinn dóm — hann dó. En hann var ekki sá eini sem dó. Við lesum: „Einn maður féll og við það dóu allir.“ Réttlátur dómur Guðs yfir Adam kallaði á sams konar dóm yfir öllum ófullkomnum afkomendum hans, þeirra á meðal okkur. En það er hughreystandi til þess að vita að Jesús, sem var líka fullkominn, gat haft Rómv. 5:18.
gagnstæð áhrif. Páll lýsir þeim þegar hann segir: „Svo verða allir sýknir og öðlast líf.“ —9. Í Rómverjabréfinu 5:16, 18 segir að Guð sýkni fólk. Hvað merkir það?
9 Hvað merkja grísku orðin sem þýdd eru „sýknir“ og „sýknudómur“? Biblíuþýðandi skrifaði: „Þetta eru myndhvörf sem lýsa eins konar lögfræðilegu atriði. Talað er um breytingu á stöðu manns gagnvart Guði, ekki breytingu innra með manninum . . . Myndhvörfin lýsa Guði sem dómara sem hefur dæmt sakborningi í vil en hann hefur, ef svo má segja, verið leiddur fyrir dómstól Guðs ákærður um óréttlæti. En Guð sýknar sakborninginn.“
10. Hvað gerði Jesús sem var grundvöllur þess að hægt væri að sýkna mennina?
10 Á hvaða grundvelli gat réttlátur „dómari allrar jarðarinnar“ sýknað rangláta manneskju? (1. Mós. 18:25) Guð lagði drög að því með því að senda einkason sinn til jarðar. Jesús gerði vilja föður síns fullkomlega þrátt fyrir freistingar og misþyrmingar, og þótt hann væri hæddur og spottaður. Hann var ráðvandur allt þar til hann dó á kvalastaur. (Hebr. 2:10) Þegar hann fórnaði fullkomu lífi sínu sem maður greiddi hann lausnargjald sem gat leyst afkomendur Adams úr fjötrum syndar og dauða. — Matt. 20:28; Rómv. 5:6-8.
11. Á hvaða samsvörun byggist lausnargjaldið?
11 Annars staðar kallar Páll þetta „samsvarandi lausnargjald“. (1. Tím. 2:6, NW) Í hverju var samsvörunin fólgin? Adam kallaði ófullkomleika og dauða yfir milljarða manna sem komu af honum. Sem fullkominn maður hefði Jesús vissulega getað eignast fullkomna afkomendur í milljarðatali. * Því var talið að líf Jesú og þeirra fullkomnu afkomenda, sem hann hefði getað eignast, jafngilti lífi Adams og ófullkominna afkomenda hans. Hins vegar segir ekki í Biblíunni að afkomendurnir, sem Jesús hefði getað eignast, hafi verið hluti af lausnargjaldinu. Í Rómverjabréfinu 5:15-19 kemur fram að lausnin hafi byggst á dauða aðeins ,eins manns‘. Fullkomið líf Jesú samsvaraði lífi Adams. Áherslan er og ætti að vera á Jesú Krist einan. Allir menn gátu hlotið þessa gjöf og lífið „sakir þess fullkomna verks sem einn vann“, það er að segja vegna hlýðni og ráðvendni Jesú allt til dauða. (2. Kor. 5:14, 15; 1. Pét. 3:18) Hvernig gerðist það?
Sýknun byggð á lausnargjaldinu
12, 13. Af hverju hafa þeir sem eru sýknaðir þörf fyrir miskunn Guðs og kærleika?
12 Jehóva Guð tók við lausnarfórninni sem sonur hans færði. (Hebr. 9:24; 10:10, 12) En lærisveinar Jesú á jörðinni, þar á meðal trúir postular hans, voru eftir sem áður ófullkomnir. Þeim tókst ekki alltaf að gera rétt þótt þeir reyndu sitt besta. Af hverju? Af því að þeir höfðu fengið syndina í arf. (Rómv. 7:18-20) En Guð gat gert eitthvað í málinu og gerði það líka. Hann veitti viðtöku hinu ,samvarandi lausnargjaldi‘ og var fús til að beita því í þágu þjóna sinna á jörð.
13 Það var ekki svo að Guð skuldaði postulunum og öðrum að beita lausnargjaldinu í þeirra þágu vegna góðra verka þeirra. Það var vegna miskunnar sinnar og mikils kærleika sem hann beitti lausnargjaldinu í þeirra þágu. Hann leit svo á að postularnir og aðrir væru leystir undan sektinni sem þeir höfðu fengið í arf. Þess vegna kaus hann að sýkna þá af þeim dómi sem þeir áttu yfir höfði sér. Páll tók þetta skýrt fram og sagði: „Af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf.“ — Ef. 2:8.
14, 15. Hvaða umbun áttu þeir í vændum sem Guð sýknaði en hvað þurftu þeir að gera eftir sem áður?
14 Hugsaðu þér hvílík gjöf það er að alvaldur Guð skuli fyrirgefa bæði þær syndir sem við fengum í arf og þær sem við drýgjum sjálf. Við höfum ekki tölu á þeim syndum sem fólk fremur áður en það gerist kristið en Guð getur samt fyrirgefið þær vegna lausnargjaldsins. Páll skrifaði: „Náðargjöfin er sýknudómur handa öllum sem brutu.“ (Rómv. 5:16) Postularnir og aðrir, sem fengu þessa kærleiksríku gjöf (að vera sýknaðir), urðu að halda áfram að tilbiðja hinn sanna Guð í trú. Hvaða umbun áttu þeir í vændum? „Þeir sem þiggja hina ómælanlegu gjöf náðar og sýknunar fá líf og ríki vegna hins eina, Jesú Krists.“ Sú gjöf að hljóta sýknun hefur allt önnur áhrif en synd Adams. Þessi gjöf hefur líf í för með sér. — Rómv. 5:17; lestu Lúkas 22:28-30.
15 Þeir sem hljóta þá gjöf að vera sýknaðir verða andlegir synir Guðs. Sem samerfingjar Krists eiga þeir í vændum að vera reistir upp til himna sem andasynir og ríkja sem konungar með Jesú Kristi. — Lestu Rómverjabréfið 8:15-17, 23.
Guð sýnir öðrum kærleika sinn
16. Hvaða gjöf geta þeir fengið sem eiga jarðneska von?
16 Það hafa ekki allir þá von að ríkja með Kristi á himnum þó að þeir trúi á Guð og þjóni honum dyggilega. Margir bera svipaða von í brjósti og þjónar Guðs fyrir daga kristninnar. Þeir vonast til að lifa að eilífu í paradís á jörð eins og talað er um í Biblíunni. Geta þeir fengið þá kærleiksríku gjöf Guðs að teljast réttlátir í augum hans núna og eiga í vændum að lifa á jörðinni? Í ljósi þess sem Páll sagði í Rómverjabréfinu er svarið já!
17, 18. (a) Hvernig leit Guð á Abraham vegna trúar hans? (b) Hvers vegna gat Jehóva litið á Abraham sem réttlátan?
17 Páll tekur síðan dæmi um mikinn trúmann, Abraham. Hann var uppi áður en Jehóva gaf Ísraelsmönnum lagasáttmálann og löngu áður en Kristur opnaði mönnum leið til að geta farið til himna. (Hebr. 10:19, 20) Við lesum: „Það var ekki vegna hlýðni við lögmálið að Abraham og niðjar hans fengu fyrirheitið um að erfa heiminn heldur vegna þeirrar trúar sem réttlætir.“ (Rómv. 4:13; Jak. 2:23, 24) Guð leit því svo á að Abraham væri réttlátur. — Lestu Rómverjabréfið 4:20-22.
18 Þetta getur ekki merkt að Abraham hafi verið syndlaus áratugum saman meðan hann þjónaði Jehóva. Hann var ekki réttlátur í þeim skilningi. (Rómv. 3:10, 23) Í óendanlegri visku sinni tók Jehóva hins vegar tillit til einstakrar trúar og trúarverka Abrahams. Abraham trúði óhagganlega á fyrirheitna niðjann sem átti að koma af honum. Þessi niðji reyndist vera Messías, það er að segja Kristur. (1. Mós. 15:6; 22:15-18) Dómarinn mikli getur því fyrirgefið áður drýgðar syndir vegna ,endurlausnarinnar í Kristi Jesú‘. Abraham og aðrir trúmenn fyrir daga kristninnar eiga þess vegna upprisu í vændum. — Lestu Rómverjabréfið 3:24, 25; Sálm. 32:1, 2.
Að vera réttlát í augum Guðs núna
19. Af hverju er það uppörvandi fyrir marga að hugsa til þess hvernig Guð leit á Abraham?
19 Það er uppörvandi fyrir sannkristna menn nú á tímum að Guð kærleikans skuli hafa litið á Abraham sem réttlátan. Jehóva réttlætti hann ekki í sama skilningi og hann sýknar þá sem hann sem hann smyr með anda sínum til að vera „samarfar Krists“. Þar er um að ræða takmarkaðan hóp sem Guð „kallar til heilags lífs“. Þeir eru nefndir „Guðs börn“ eða synir. (Rómv. 1:7; 8:14, 17, 33) Abraham varð hins vegar „vinur Guðs“, meira að segja áður en lausnarfórnin var færð. (Jak. 2:23; Jes. 41:8) Hvað þá um sannkristna menn sem vonast til að fá að lifa í endurreistri paradís á jörð?
20. Hvers væntir Guð af þeim sem eru réttlátir í augum hans í sama skilningi og Abraham?
20 Þessir þjónar Guðs hafa ekki fengið „gjöf náðar og sýknunar“ vegna ,endurlausnar í Kristi Jesú‘ til að lifa á himnum. (Rómv. 3:24; 5:15, 17) Þeir trúa hins vegar á Guð og ráðstafanir hans og sýna sterka trú sína með góðum verkum. Eitt þeirra er að ,boða Guðs ríki og fræða um Drottin Jesú Krist‘. (Post. 28:31) Jehóva getur því litið svo á að þeir séu réttlátir í sama skilningi og Abraham. Gjöfin sem þeir hljóta — að vera vinir Guðs — er ólík gjöfinni sem hinir andasmurðu hljóta. Þeir eru engu að síður innilega þakklátir fyrir hana.
21. Hvaða blessun getum við hlotið vegna kærleika Jehóva og réttlætis?
21 Ef þú vonast eftir því að lifa að eilífu á jörð ættirðu að hafa hugfast að þetta tækifæri er ekki byggt á ótraustu loforði jarðneskra valdhafa. Það endurspeglar viturlega fyrirætlun Drottins alheims. Jehóva hefur unnið markvisst að því að hrinda vilja sínum í framkvæmd og verið réttlátur í einu og öllu. Og allt sem hann hefur gert hefur vitnað um kærleika hans. Páll komst því vel að orði þegar hann sagði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ — Rómv. 5:8.
[Neðanmáls]
^ gr. 11 Þessa skýringu varðandi afkomendur er meðal annars að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 736, gr. 4 og 5.
Manstu?
• Hvaða arfleifð fengu afkomendur Adams og með hvaða afleiðingum?
• Hvernig var greitt samsvarandi lausnargjald og í hverju fólst samsvörunin?
• Hvaða von fylgir þeirri gjöf að vera réttlættur?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 13]
Adam var fullkominn maður en syndgaði. Jesús var fullkominn maður og færði „samsvarandi lausnargjald“.
[Mynd á bls. 15]
Það er mikið fagnaðarerindi að við getum verið réttlætt fyrir atbeina Jesú.