Sigur eftir langa baráttu fyrir dómstólum
Sigur eftir langa baráttu fyrir dómstólum
BARÁTTAN hófst árið 1995 og tók heil 15 ár. Allan þann tíma máttu vottar Jehóva í Rússlandi sæta árásum þeirra sem voru andvígir trúfrelsi. Andstæðingarnir reyndu sitt ýtrasta til að fá starfsemi Votta Jehóva dæmda ólöglega í Moskvu og víðar. En bræður okkar og systur í Rússlandi héldu ótrauð áfram og Jehóva umbunaði þeim ráðvendnina með því að veita þeim sigur í baráttunni. Hver var undanfari þessara átaka?
FRELSI UM SÍÐIR
Starfsemi Votta Jehóva var bönnuð í Rússlandi árið 1917, en upp úr 1990 öðluðust þeir trúfrelsi á ný. Árið 1991 voru þeir skráðir sem opinbert trúfélag hjá sovéskum yfirvöldum. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur hlutu Vottar Jehóva skráningu hjá Rússneska ríkjasambandinu. Og ríkið viðurkenndi opinberlega að vottar, sem höfðu verið ofsóttir fyrir trú sína áratugum áður, hefðu sætt pólitískri kúgun. Árið 1993 var Samfélag votta Jehóva í Moskvu, eins og það heitir þar í borg, skráð hjá dómsmálaráðuneytinu. Sama ár tók gildi ný stjórnarskrá í Rússlandi þar sem kveðið var á um trúfrelsi. Það er vel skiljanlegt að bróðir nokkur skyldi segja: „Okkur dreymdi ekki um að hljóta slíkt frelsi!“ Síðan bætti hann við: „Við höfum beðið eftir þessu í 50 ár.“
Bræður og systur í Rússlandi voru fljót að nota þessi hagstæðu skilyrði til að auka boðunarstarfið svo um munaði og árangurinn lét ekki á sér standa. (2. Tím. 4:2) Í ljós kom að fólk hafði mikinn áhuga á trúmálum. Boðberum, brautryðjendum og söfnuðum fjölgaði hratt. Í Moskvu fjölgaði vottunum úr 300 í ríflega 5.000 frá 1990 til 1995. Andstæðingum trúfrelsis var brugðið að horfa upp á vöxt og velgengni votta Jehóva í Moskvu. Um miðjan tíunda áratuginn réðust þeir til atlögu fyrir atbeina dómstóla. Þar með hófst langdregin barátta sem átti eftir að skiptast í fjóra áfanga áður en hún var til lykta leidd.
RANNSÓKN SEM LEIDDI TIL ÓVÆNTRAR NIÐURSTÖÐU
Fyrsti áfangi baráttunnar hófst í júní 1995. Í Moskvu er starfandi hópur sem opinberlega styður rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Þessi hópur kærði trúsystkini okkar fyrir glæpsamlega starfsemi. Hópurinn kvaðst koma fram fyrir hönd fólks sem væri ósátt við að makar eða börn hafi gerst vottar. Í júní 1996 var byrjað að leita vísbendinga um glæpsamlegt athæfi en engar fundust. Sami hópur lagði þá fram nýja kæru, og enn voru bræður og systur sökuð um glæpi. Önnur rannsókn fór fram og allar ásakanir voru hraktar. Þá lögðu andstæðingarnir fram þriðju kæruna með sömu ásökunum. Enn á ný sættu vottar Jehóva í Moskvu rannsókn og saksóknari komst að sömu niðurstöðu og áður. Ekkert tilefni var til að höfða mál á hendur söfnuðinum. Andstæðingarnir lögðu fram sömu kæru í fjórða sinn og enn á ný fann saksóknari engar vísbendingar um glæpsamlegt athæfi. Þótt ótrúlegt kunni að virðast fór sami hópur fram á nýja rannsókn. Hinn 13. mars 1998 var málið loks fellt niður.
* Yfirheyrslur hófust við Golovinskíj-héraðsdómstólinn í Moskvu 29. september 1998. Annar áfanginn var hafinn.
„En þá tók málið undarlega stefnu,“ að sögn lögfræðings sem átti aðild að málinu. Enda þótt fulltrúi saksóknarans, sem sá um fimmtu rannsóknina, hefði viðurkennt að engar vísbendingar væru um glæpsamlegt athæfi ráðlagði hann samt að höfðað yrði einkamál á hendur söfnuðinum. Fulltrúinn ýjaði að því að Samfélag votta Jehóva í Moskvu hefði brotið rússnesk lög og alþjóðalög. Saksóknari Norðurumdæmis Moskvu féllst á það og höfðaði einkamál.BIBLÍAN Í RÉTTARSAL
Í litlum réttarsal í norðurhluta Moskvu las saksóknarinn, Tatjana Kondratjeva, upp ákæruna á hendur söfnuðinum. Vitnað var í alríkislög, sem voru undirrituð árið 1997, þess efnis að rétttrúnaðarkristni, íslam, gyðingdómur og búddismi væru hefðbundin trúarbrögð. * Þessi lög hafa verið túlkuð með þeim hætti að það er erfitt fyrir önnur trúfélög að hljóta lagalega viðurkenningu. Þau heimila dómstólum að banna trúfélög sem hvetja til haturs. Með tilvísun í þessi lög fullyrti saksóknari að vottar Jehóva hvettu til haturs og sundruðu fjölskyldum, og þeir skyldu því bannaðir.
Verjandi safnaðarins spurði: „Hvaða einstaklingar í söfnuðinum í Moskvu hafa gerst brotlegir við lögin?“ Saksóknari gat ekki gefið upp eitt einasta nafn en fullyrti hins vegar að í ritum Votta Jehóva væri hvatt til trúarhaturs. Máli sínu til stuðnings las hún upp úr Varðturninum og Vaknið! og fleiri ritum (sjá mynd að ofan). Aðspurð hvernig þessi rit hvettu til fjandskapar svaraði hún: „Vottar Jehóva kenna að þeir hafi hina sönnu trú.“
Einn af bræðrum okkar, sem er lögfræðingur, afhenti dómaranum og saksóknaranum sína biblíuna hvorum og las úr Efesusbréfinu 4:5: „Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn.“ Innan stundar voru dómarinn, saksóknarinn og lögfræðingurinn, allir með Biblíuna í hönd, farnir að ræða ritningarstaði eins og Jóhannes 17:18 og Jakobsbréfið 1:27. „Hvetja þessi biblíuvers til trúarhaturs?“ spurði dómarinn. Saksóknarinn kvaðst ekki bær um að tjá sig um Biblíuna. Lögfræðingurinn sýndi rit frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni þar sem Vottar Jehóva eru gagnrýndir harðlega og spurði: „Brjóta þessi ummæli í bága við lög?“ Saksóknarinn kvaðst ekki bær um að tjá sig um trúfræðileg rök.
TILHÆFULAUSAR ÁKÆRUR
Því til stuðnings að vottarnir sundruðu fjölskyldum nefndi saksóknari að þeir haldi ekki hátíðir eins og jól. Síðar viðurkenndi hún þó að þess væri ekki krafist samkvæmt lögum að rússneskir þegnar héldu jól. Rússar, þeirra á meðal rússneskir vottar Jehóva, ættu val. Saksóknari fullyrti enn fremur að samtök okkar ,meinuðu börnum að fá
eðlilega hvíld og njóta ánægjulegra stunda‘. Aðspurð viðurkenndi hún hins vegar að hún hefði aldrei talað við börn eða unglinga sem hefðu alist upp sem vottar. Þegar lögfræðingur spurði saksóknarann hvort hún hefði einhvern tíma komið á samkomur hjá vottum Jehóva svaraði hún: „Þess gerðist ekki þörf.“Saksóknari kallaði til prófessor í geðlækningum sem vitni. Prófessorinn hélt því fram að það væri ávísun á geðræðna erfiðleika að lesa rit safnaðarins. Þegar einn af verjendunum benti á að skriflegur vitnisburður prófessorsins fyrir réttinum væri samhljóða skjali, sem samið var af embætti patríarkans í Moskvu, viðurkenndi hann að sumt væri það sama orð fyrir orð. „Við notum sama disklinginn,“ sagði hann. Nánari yfirheyrslur leiddu í ljós að hann hefði aldrei haft vott Jehóva til meðferðar. Annar prófessor í geðlækningum kom fyrir réttinn sem vitni og bar að hann hefði rannsakað meira en 100 votta í Moskvu. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að hópurinn væri við eðlilega geðheilsu og bætti við að þeir sem mynduðu hópinn hefðu orðið umburðarlyndari gagnvart öðrum trúarbrögðum eftir að þeir urðu vottar.
SIGUR, EN EKKI ENDANLEGUR
Hinn 12. mars 1999 skipaði dómarinn fimm háskólamenn til að rannsaka rit Votta Jehóva og frestaði réttarhöldunum. Rússneska dómsmálaráðuneytið hafði þá, óháð réttarhöldunum í Moskvu, skipað nefnd háskólamanna til að rannsaka rit okkar. Nefndin skilaði áliti sínu til ráðuneytisins 15. apríl 1999 og hafði ekki fundið neitt skaðvænlegt í ritunum. Dómsmálaráðuneytið endurnýjaði því skráningu Votta Jehóva sem trúfélags í Rússlandi 29. apríl 1999. Þrátt fyrir þetta nýja og jákvæða nefndarálit ákvað dómarinn í Moskvu að
fimm manna nefnd skyldi rannsaka rit okkar. Þarna var komin upp undarleg staða. Rússneska dómsmálaráðuneytið viðurkenndi Votta Jehóva sem löghlýðið trúfélag á landsvísu en á sama tíma sætti það rannsókn dómsmálaráðuneytis Moskvuborgar fyrir að brjóta lög!Næstum tvö ár liðu áður en réttarhöldin hófust að nýju og 23. febrúar 2001 felldi dómarinn, Jelena Prokhorytsjeva, dóm. Með hliðsjón af niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar var úrskurðurinn á þessa leið: „Ekkert tilefni er til að leysa upp og banna trúarsamfélag votta Jehóva í Moskvu.“ Þar með var staðfest með dómi að trúsystkini okkar væru saklaus af öllum ákærum. En saksóknari hafnaði þessum dómi og áfrýjaði til Borgardóms Moskvu. Hann ógilti dóm undirréttar þrem mánuðum síðar, 30. maí 2001. Borgardómurinn fyrirskipaði að málið yrði tekið fyrir að nýju. Sami saksóknari skyldi sækja málið en annar dómari skyldi dæma í því. Þriðji áfanginn var í þann mund að hefjast.
ÓSIGUR, EN EKKI ENDANLEGUR
Hinn 30. október 2001 var málið tekið fyrir að nýju. * Dómari í málinu var Vera Dúbinskaja. Kondratjeva saksóknari las aftur upp þá ákæru að vottar Jehóva hvetji til haturs en bætti nú við að með því að banna lögskráð samfélag votta Jehóva væri verið að verja réttindi vottanna í Moskvu! Allir 10.000 vottarnir í Moskvu svöruðu þessari sérkennilegu staðhæfingu með því að undirrita beiðni þess efnis að dómstóllinn hafnaði tilboði saksóknara um „vernd“.
Saksóknari hélt því fram að ástæðulaust væri að leggja fram sannanir fyrir því að vottarnir hefðu gerst brotlegir við lög. Réttarhöldin snerust um rit og trúarkenningar Votta Jehóva en ekki starfsemi þeirra. Hún kvaðst myndu kalla til talsmann rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem sérfrótt vitni. Með þessari yfirlýsingu staðfesti saksóknari að rétttrúnaðarkirkjan ætti stóran þátt í herferðinni gegn vottum Jehóva. Hinn 22. maí 2003 fyrirskipaði dómarinn að nefnd sérfræðinga skyldi rannsaka rit Votta Jehóva — eina ferðina enn.
Málið var tekið fyrir að nýju 17. febrúar 2004 til að fara yfir niðurstöður nefndarinnar. Sérfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að í ritum safnaðarins væri hvatt til þess að „varðveita fjölskylduna og hjónabandið“ og að „engin rök“ væru fyrir því að hvatt væri til haturs. Aðrir fræðimenn tóku í sama streng. Prófessor í trúarsögu var spurður: „Hvers vegna boða vottar Jehóva trú sína?“ Hann svaraði: „Kristinn maður verður að boða trú sína. Það er það verkefni sem guðspjöllin segja að Kristur hafi falið lærisveinum sínum — ,farið og prédikið um allan heim.‘“ Þrátt fyrir það var starfsemi votta Jehóva í Moskvu dæmd ólögleg 26. mars 2004. Borgardómur Moskvu staðfesti úrskurðinn 16. júní 2004. * Gamalreyndur vottur sagði um þennan úrskurð: „Á sovéttímanum urðu Rússar að vera trúlausir. Núna verða Rússar að vera rétttrúnaðarmenn.“
Hvernig brugðust vottarnir við banninu? Ekki ósvipað og Nehemía gerði forðum daga. Þegar óvinir þjóðar Guðs beittu sér gegn því að Nehemía endurreisti múra Jerúsalem hélt hann og þjóð hans ótrauð áfram, þrátt fyrir andstöðu. Gyðingar ,unnu áfram að því að endurreisa múrinn‘ og „fólkið var 1. Pét. 4:12, 16) Þau treystu að Jehóva myndi gæta þeirra og voru reiðubúin að takast á við fjórða áfanga þessarar langdregnu baráttu.
heils hugar við verkið“. (Nehem. 4:1-6) Trúsystkini okkar í Moskvu létu ekki heldur andstæðingana stöðva sig heldur héldu áfram að boða fagnaðarerindið. (AUKINN FJANDSKAPUR
Hinn 25. ágúst 2004 afhentu bræður okkar undirskriftalista í Kreml, stílaðan á Vladimir Pútín, þáverandi forseta Rússlands. Listinn var í 76 bindum og þeir rúmlega 315.000, sem skrifuðu nöfn sín á hann, lýstu yfir þungum áhyggjum af banninu. En rússneska rétttrúnaðarkirkjan sýndi sitt rétta eðli þegar talsmaður patríarkans í Moskvu lýsti yfir: „Við erum eindregið á móti starfi Votta Jehóva.“ Haft var eftir einum af forystumönnum múslíma að bannið „væri jákvætt og markaði tímamót“.
Eins og við var að búast lögðu sumir í Rússlandi trúnað á hinar röngu ásakanir og ofbeldisverk gegn vottunum færðust í aukana. Dæmi voru um að vottar, sem voru að boða trúna í Moskvu, væru barðir og sparkað væri í þá. Reiður maður rak systur nokkra út úr húsi og sparkaði í bakið á henni með þeim afleiðingum að hún féll. Hún meiddist á höfði og þurfti að fá læknismeðferð en lögreglan lét árásarmanninn afskiptalausan. Margir vottar voru handteknir, tekin voru af þeim fingraför og ljósmyndir og þeir voru hafðir í varðhaldi næturlangt. Umsjónarmönnum húsnæðis, sem vottarnir leigðu til samkomuhalds, var hótað uppsögn ef þeir héldu áfram að leigja þeim. Áður en langt um leið misstu margir söfnuðir samkomusalina sem þeir höfðu leigt. Fjörutíu söfnuðir urðu að deila með sér sama húsnæði sem í voru fjórir ríkissalir. Einn af söfnuðunum, sem notaði húsnæðið, þurfti að halda samkomur klukka hálfátta að morgni. „Til að
sækja samkomu þurftu boðberar að fara á fætur um fimmleytið,“ segir farandhirðir, „en þeir gerðu það fúslega í meira en ár.“„TIL ÞESS AÐ BERA VITNI“
Til að fá staðfest að bannið í Moskvu væri ólöglegt óskuðu lögfræðingar safnaðarins eftir því í desember 2004 að Mannréttindadómstóll Evrópu tæki málið fyrir. (Sjá rammagreinina „Af hverju er rússneskur dómsúrskurður tekinn fyrir í Frakklandi?“ á bls. 6.) Sex árum síðar, hinn 10. júní 2010, felldi dómstóllinn samhljóða úrskurð þess efnis að vottar Jehóva væru algerlega sýknir saka. * Dómstóllinn tók fyrir öll atriðin, sem söfnuðurinn hafði verið ákærður fyrir, og komst að þeirri niðurstöðu að þau væru tilhæfulaus með öllu. Í dómsorðinu kom einnig fram að Rússum væri lagalega skylt að „binda enda á þau brot, sem dómstólinn hefði komið auga á, og bæta eins og kostur væri fyrir hugsanlegar afleiðingar þeirra“. — Sjá rammagreinina „Úrskurður Mannréttindadómstólsins“ á bls. 8.
Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að starfsemi Votta Jehóva njóti verndar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Úrskurðurinn er ekki aðeins bindandi fyrir Rússa heldur einnig hin ríkin 46 sem eiga aðild að Evrópuráðinu. Niðurstaða dómsins er auk þess áhugaverð fyrir fræðimenn, dómara, löggjafa og mannréttindafrömuði um heim allan vegna þess hve víðtæk greining liggur að baki honum á lögum og öðrum úrskurðum. Í dómi sínum leggur Mannréttindadómstóllinn til grundvallar átta dóma sem hann hefur áður fellt vottum Jehóva í vil, auk níu mála sem vottar Jehóva hafa unnið fyrir æðstu dómstólum Argentínu, Bandaríkjanna, Bretlands, Japans, Kanada, Rússlands, Spánar og Suður-Afríku. Með því að vísa í þessa dóma og hrekja kröftuglega ákærur saksóknarans í Moskvu hafa Vottar Jehóva sem alþjóðasamtök fengið í hendur öflugt vopn til verndar trú sinni og starfsemi.
Jesús sagði við fylgjendur sína: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna til þess að bera vitni um mig fyrir þeim og heiðingjunum.“ (Matt. 10:18) Barátta trúsystkina okkar síðastliðinn hálfan annan áratug hefur gefið þeim tækifæri til að kunngera nafn Jehóva sem aldrei fyrr, bæði í Moskvu og víðar. Sú athygli, sem rannsóknir, réttarhöld og úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu hefur vakið, hefur orðið „til þess að bera vitni“, og hefur „orðið fagnaðarerindinu til eflingar“. (Fil. 1:12) Þegar vottarnir í Moskvu boða trúna eru þeir oft spurðir hvort ekki sé búið að banna starfsemi þeirra. Þessi spurning skapar oft tækifæri til að láta fólki í té nánari upplýsingar um trú okkar. Ljóst er að andstæðingar geta ekki komið í veg fyrir að við boðum fagnaðarerindið um ríkið. Það er bæn okkar að Jehóva haldi áfram að blessa og styðja hugrökk trúsystkini okkar í Rússlandi.
[Neðanmáls]
^ gr. 8 Ákæran var lögð fram 20. apríl 1998. Rússar staðfestu mannréttindasáttmála Evrópu hálfum mánuði síðar, hinn 5. maí.
^ gr. 10 „Lögin voru sett eftir mikinn þrýsting frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni en hún ver með hörku stöðu sína í Rússlandi og er mikið í mun að fá Votta Jehóva bannaða.“ — Associated Press, 25. júní, 1999.
^ gr. 20 Svo vill til að þennan sama dag voru tíu ár liðin síðan sett voru lög í Rússlandi þar sem viðurkennt var að vottar Jehóva hefðu sætt trúarlegri kúgun í Sovétríkjunum.
^ gr. 22 Með banninu voru hin lögskráðu samtök safnaðanna í Moskvu leyst upp. Andstæðingarnir vonuðust til að það myndi hindra trúsystkini okkar í að boða fagnaðarerindið.
^ gr. 28 Hinn 22. nóvember 2010 hafnaði fimm manna dómnefnd yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu beiðni Rússa um að málinu yrði vísað til yfirdeildarinnar. Þar með varð dómurinn frá 10. júní 2010 endanlegur.
[Rammi/mynd á bls. 6]
Af hverju er rússneskur dómsúrskurður tekinn fyrir í Frakklandi?
Rússar undirrituðu mannréttindasáttmála Evrópu 28. febrúar 1996 og fullgiltu hann 5. maí 1998. Með því að undirrita sáttmálann lýstu rússnesk stjórnvöld yfir að þegnar þeirra ættu
rétt á að vera frjálsir trúar sinnar, og hefðu frelsi til að breyta um trú, svo og til að rækja trú sína einslega eða opinberlega (úr 9. grein),
rétt til tjáningarfrelsis og frelsi til að taka við og skila áfram upplýsingum (úr 10. grein),
rétt til að koma saman með friðsömum hætti (úr 11. grein).
Einstaklingar og samtök, sem brotið er á og hafa reynt til þrautar öll úrræði heima fyrir, geta skotið máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í Frakklandi (sjá mynd að ofan). Í dóminum sitja 47 dómarar — jafnmargir og ríkin sem hafa undirritað mannréttindasáttmálann. Úrskurðir dómstólsins eru bindandi. Þau ríki, sem hafa undirritað sáttmálann, eru bundin af úrskurðum Mannréttindadómstólsins.
[Rammi á bls. 8]
Úrskurður Mannréttindadómstólsins
Hér fara á eftir þrír stuttir útdrættir úr niðurstöðu dómstólsins.
Ein ákæran var þess efnis að vottar Jehóva sundri fjölskyldum. Dómstóllinn komst að annarri niðurstöðu. Hún var þessi:
„Árekstrar verða þegar þeir í fjölskyldunni, sem eru ekki trúaðir, vilja ekki eða eru tregir til að virða og viðurkenna frelsi ættingja sinna til að tjá trú sína og stunda hana.“ — 111. grein.
Dómstóllinn fann engin rök fyrir þeirri ákæru að söfnuðurinn stundi „heilaþvott“. Í dómsorðinu segir:
„Dómurinn undrast að [rússnesku] dómstólarnir skuli ekki nafngreina einn einasta einstakling sem á að hafa verið brotið gegn með því að beita þessum aðferðum og skerða þannig samviskufrelsi hans.“ — 129. grein.
Þá var því haldið fram að vottar Jehóva baki sjálfum sér heilsutjón með því að þiggja ekki blóðgjafir. Dómstóllinn komst að annarri niðurstöðu. Í dómsorðinu segir:
„Frelsið til að þiggja ákveðna læknismeðferð eða hafna henni, eða til að velja annars konar meðferðarúrræði, er ein af undirstöðum sjálfsákvörðunarréttar og sjálfsforræðis. Fullveðja sjúklingi, sem er með réttu ráði, er til dæmis frjálst að ákveða hvort hann gengst undir skurðaðgerð eða aðra læknismeðferð, og að sama skapi hvort hann þiggur eða hafnar blóðgjöf.“ — 136. grein.