Biblíulestur hefur styrkt mig alla ævi
Biblíulestur hefur styrkt mig alla ævi
Marceau Leroy segir frá
„Í UPPHAFI skapaði Guð himin og jörð,“ las ég í einrúmi inni í herbergi mínu. Af hverju gerði ég það? Af því að faðir minn var forhertur guðleysingi og hann yrði örugglega ekki hrifinn af bókinni sem ég var með í höndunum, það er að segja Biblíunni.
Ég hafði aldrei lesið í Biblíunni áður og þessi upphafsorð 1. Mósebókar lustu mig eins og þrumufleygur. Ég hugsaði: „Þetta er skýringin á samræmi náttúrulögmálanna!“ Ég var svo gagntekinn að ég las frá klukkan átta að kvöldi til klukkan fjögur um nóttina. Þannig atvikaðist það að ég vandi mig á að lesa orð Guðs. Mig langar til að segja ykkur hvernig biblíulestur hefur styrkt mig alla ævi.
„Þá verðurðu að lesa í henni á hverjum degi!“
Ég fæddist árið 1926 í Vermelles sem er kolanámuþorp í norðanverðu Frakklandi. Í síðari heimsstyrjöldinni skiptu kol miklu máli fyrir þjóðarhag. Þar sem ég var námumaður var ég undanþeginn herþjónustu. Til að bæta hag minn fór ég að læra útvarps- og rafmagnstækni en þá vaknaði aðdáun mín á samræmi náttúrulögmálanna. Þegar ég var 21 árs rétti bekkjarbróðir mér fyrstu Biblíuna mína og sagði: „Það er þess virði að lesa þessa bók.“ Þegar ég hafði lokið við að lesa hana var ég sannfærður um að Biblían væri orð Guðs, opinberun handa mannkyninu.
Þar sem ég hélt að nágrannar mínir yrðu einnig áfjáðir í að lesa Biblíuna útvegaði ég mér átta eintök af henni. Mér til undrunar mættu mér háðsglósur og andstaða. Hjátrúarfullir ættingjar vöruðu mig við og sögðu: „Ef þú byrjar að lesa þessa bók þá verðurðu að lesa í henni á hverjum degi!“ Ég las hana og hef aldrei séð eftir því. Síðan hefur það verið vani minn að lesa í Biblíunni.
Þegar nágrannar uppgötvuðu að ég hefði áhuga á Biblíunni létu þeir mig fá rit frá Vottum Jehóva sem þeir höfðu fengið í hendur. Í bæklingum eins og One World, One Government * (sýndur hér á frönsku) var útskýrt hvers vegna Guðsríki væri eina von mannkyns að sögn Biblíunnar. (Matt. 6:10) Ég varð ákveðnari en nokkru sinni fyrr að segja öðrum frá þessari von.
Einn sá fyrsti sem þáði Biblíu frá mér var Noël, æskuvinur minn. Hann var kaþólskrar Sálm 115:4-8 og Matteus 23:9, 10 vissi ég að Guð hefði vanþóknun á að notuð væru skurðgoð við tilbeiðslu og prestar væru ávarpaðir með trúarlegum titlum. Það gaf mér hugrekki til að verja trúna sem ég hafði nýlega kynnst. Þetta varð til þess að Noël tók við sannleikanum og hann hefur verið trúfastur vottur fram á þennan dag.
trúar og kom því í kring að við hittum mann sem var að læra til prests. Ég kveið fyrir en þar sem ég hafði lesiðÉg heimsótti einnig systur mína. Maðurinn hennar átti bækur um andatrú og illir andar ásóttu hann. Mér fannst ég vera lítils megnugur í fyrstu en biblíuvers eins og Hebreabréfið 1:14 sannfærðu mig um að ég hefði stuðning engla Jehóva. Mágur minn losnaði undan áhrifum illra anda þegar hann fór eftir meginreglum Biblíunnar og losaði sig við allt sem snerti dulspeki. Bæði hann og systir mín urðu kappsfullir vottar.
Árið 1947 heimsótti mig vottur frá Ameríku, Arthur Emiot að nafni. Ég varð mjög glaður og spurði hann hvar vottarnir héldu samkomur. Hann sagði mér að það væri hópur í Liévin, í um tíu kílómetra fjarlægð. Á þessum tíma var jafnvel erfitt að verða sér úti um reiðhjól svo að í nokkra mánuði fór ég fótgangandi báðar leiðir á samkomurnar. Starf Votta Jehóva hafði verið bannað í Frakklandi í átta ár. Í öllu landinu voru aðeins 2.380 vottar og margir þeirra pólskir innflytjendur. En 1. september 1947 gáfu frönsk yfirvöld söfnuðinum leyfi til að starfa á ný. Deildarskrifstofa var opnuð á nýjan leik í Villa Guibert í París. Ekki var einn einasti brautryðjandi í Frakklandi á þeim tíma. Því var í desember 1947 óskað eftir brautryðjendum í Informant (sem nú heitir Ríkisþjónusta okkar). Þeir þurftu að vera tilbúnir til að prédika í 150 klukkustundir í hverjum mánuði. Árið 1949 var talan lækkuð niður í 100 klukkustundir. Í Jóhannesi 17:17 segir að orð Guðs sé sannleikur, og í samræmi við það lét ég skírast árið 1948. Ég gerðist brautryðjandi í desember árið eftir.
Úr fangelsi og aftur til Dunkerque
Fyrst var mér úthlutað starfssvæði í Agen í Suður-Frakklandi. En ég dvaldi ekki lengi þar. Ég hafði yfirgefið kolanámurnar og var nú herskyldur. Ég neitaði að fara í herinn og var því sendur í fangelsi. Mér var ekki leyft að hafa Biblíuna með mér en ég gat náð mér í nokkrar blaðsíður úr Sálmunum. Það var uppörvandi að lesa þá. Þegar mér var sleppt úr haldi varð ég að taka ákvörðun: Ætti ég að hætta að þjóna í fullu starfi til þess að finna mér samastað og vinnu? Aftur kom biblíulesturinn mér til hjálpar. Ég hugleiddi orð Páls í Filippíbréfinu 4:11-13: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Ég ákvað að halda áfram að starfa sem brautryðjandi. Árið 1950 var mér úthlutað nýju starfssvæði. Það var borgin Dunkerque en þar hafði ég prédikað áður.
Ég var allslaus þegar ég kom þangað. Borgin var illa leikin eftir stríðið og það var erfitt að fá húsnæði. Ég ákvað að heimsækja fjölskyldu sem ég hafði prédikað fyrir og húsmóðirin varð himinlifandi: „Ó, herra Leroy, þú ert laus úr fangelsinu! Maðurinn minn segir að væru til fleiri menn eins og þú hefði aldrei orðið stríð.“ Þau ráku gistihús og buðu mér leiguherbergi þangað til ferðamannatíminn hæfist. Sama dag hitti ég Evans, bróðir Arthurs Emiots, og hann bauð mér vinnu. * Hann var túlkur við höfnina og var að leita að manni til að vera á næturvakt á skipi. Hann kynnti mig fyrir einum af yfirmönnum skipsins. Ég var grindhoraður eftir fangavistina. Þegar Evans sagði hver ástæðan væri sagði yfirmaðurinn að ég mætti ganga í ísskápinn. Á þessum eina degi fékk ég húsnæði, vinnu og mat! Þetta styrkti óneitanlega traust mitt á orð Jesú í Matteusi 6:25-33.
Þegar ferðamannatíminn hófst urðum við brautryðjendurnir, Simon Apolinarski og ég, að finna okkur annað húsnæði. En við vorum ákveðnir í að halda áfram að starfa í bænum. Okkur var boðið athvarf í gömlu hesthúsi þar sem við sváfum á strádýnum. Á daginn vorum við í starfinu. Við vitnuðum fyrir eiganda hesthússins og hann var einn af mörgum sem tóku við sannleikanum. Það leið ekki á löngu áður en grein birtist í dagblaði á staðnum þar sem íbúar Dunkerque voru varaðir við vottum Jehóva og starfi okkar líkt við faraldur. Samt vorum við Simon og fáeinir aðrir boðberar einu vottarnir á staðnum. Þegar við lentum í erfiðleikum var uppörvandi að hugleiða vonina sem kristnir menn hafa og íhuga hvernig Jehóva hafði annast okkur. Það voru um 30 boðberar í Dunkerque þegar ég fékk annað starfssvæði árið 1952.
Ný ábyrgðarstörf
Eftir stutta viðdvöl í borginni Amiens var ég útnefndur sérbrautryðjandi í Boulogne-Billancourt sem er eitt af úthverfum Parísar. Þar aðstoðaði ég marga við að kynna sér Biblíuna og sumir þeirra fóru að þjóna í fullu starfi og aðrir urðu trúboðar. Ungur maður að nafni Guy Mabilat tók við sannleikanum, varð farandhirðir og síðan umdæmishirðir. Síðar meir hafði hann umsjón með byggingu prentsmiðju þar sem Betel er núna í Louviers, skammt frá París. Tíðar samræður um biblíuleg málefni í boðunarstarfinu festu orð Guðs enn betur í huga mér, fylltu mig gleði og gerðu mig að betri kennara.
Árið 1953 var ég skyndilega útnefndur farandhirðir í Alsace-Lorraine en sá landshluti hafði tvisvar sinnum verið innlimaður í Þýskaland á árabilinu 1871 til 1945. Ég varð því að læra svolítið í þýsku. Þegar ég byrjaði sem farandhirðir var fátt um bíla, sjónvörp eða ritvélar í þessum landshluta og hvorki voru til ferðaútvörp né einkatölvur. En líf mitt var hvorki dapurt né tilbreytingarlaust. Þetta var í raun mjög skemmtilegur tími. Ég reyndi að halda auga mínu heilu eins og ráðlagt er í Biblíunni. Á þeim tíma var líka færra sem truflaði þjónustuna við Jehóva heldur en nú er. – Matt. 6:19-22.
Mótið „Guðsríki hrósar sigri“ var haldið í París árið 1955. Það var minnisstætt fyrir mig. Þar hitti ég Irène Kolanski, konuefni mitt, en hún hafði byrjað í fullu starfi ári á undan mér. Foreldrar hennar voru pólskir og voru gamalreyndir og kappsfullir vottar. Adolf Weber hafði heimsótt þau í Frakklandi. Hann hafði verið garðyrkjumaður hjá
bróður Russell og var kominn til Evrópu til að boða fagnaðarerindið. Við Irène gengum í hjónaband 1956 og hún var með mér í farandhirðisstarfinu. Hún hefur verið mér stoð og stytta í áranna rás.Tveimur árum síðar var mér aftur komið á óvart. Ég var útnefndur umdæmishirðir. Þar sem skortur var á hæfum bræðrum hélt ég eigi að síður áfram að heimsækja nokkra söfnuði sem farandhirðir. Það var aldeilis í mörgu að snúast. Auk þess að prédika í 100 klukkustundir í mánuði hélt ég ræður í hverri viku, heimsótti þrjá bóknámshópa, fór yfir skrár og tók saman skýrslur. Hvernig í ósköpunum var hægt að finna tíma til að lesa í Biblíunni? Ég sá aðeins eina lausn. Ég klippti út blaðsíður úr gamalli biblíu og hafði nokkrar þeirra með mér. Hvenær sem ég þurfti að bíða eftir einhverjum, sem ég ætlaði að hitta, tók ég þær upp og las. Þessi stuttu upplífgandi augnablik, þegar ég las í Biblíunni, styrktu ásetning minn að halda áfram í þjónustunni.
Árið 1967 bauðst okkur Irène að sameinast Betelfjölskyldunni í Boulogne-Billancourt. Ég fór að vinna í þjónustudeildinni og vinn þar enn, meira en 40 árum síðar. Eitt af því skemmtilega við starf mitt hefur verið að svara bréfum með biblíuspurningum. Ég hef mikla ánægju af að kafa djúpt í orð Guðs og „verja fagnaðarerindið“. (Fil. 1:7) Mér finnst einnig ánægjulegt að stjórna biblíuumræðum við morgunverðarborðið. Árið 1976 var ég útnefndur til að sitja í deildarnefndinni í Frakklandi.
Besta lífsstefnan
Ég hef upplifað álagstíma um dagana en aldrei hefur þó reynt meira á okkur hjónin en núna þegar aldur og heilsubrestur takmarka það sem við getum gert. Við lesum enn þá saman og hugleiðum orð Guðs og það heldur voninni lifandi. Við njótum þess að taka strætisvagn út á starfssvæði okkar og segja öðrum frá þessari von. Samanlagt höfum við verið meira en 120 ár í fullu starfi og við getum ekki annað en mælt af heilum hug með þessari lífsstefnu handa öllum sem sækjast eftir spennandi, ánægjulegu og innihaldsríku lífi. Þegar Davíð konungur skrifaði Sálm 37:25 var hann „gamall . . . orðinn“ en líkt og hann hef ég ekki heldur séð „réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar“.
Alla ævi hefur Jehóva veitt mér styrk frá orði sínu. Fyrir meira en 60 árum spáðu ættingjar mínir að biblíulestur yrði að ævilangri venju hjá mér. Þeir höfðu rétt fyrir sér. Ég les daglega í Biblíunni og hef aldrei iðrast þess.
[Neðanmáls]
^ gr. 8 Gefinn út 1944 en er nú ófáanlegur.
^ gr. 14 Frekari upplýsingar um Evans Emiot er að finna í Varðturninum á ensku, 1. janúar 1999, bls. 22 og 23.
[Mynd á bls. 5]
Við Simon.
[Mynd á bls. 5]
Í starfinu sem umdæmishirðir.
[Mynd á bls. 5]
Biblía svipuð þeirri fyrstu sem ég fékk.
[Mynd á bls. 6]
Á brúðkaupsdegi okkar.
[Mynd á bls. 6]
Við Irène njótum þess að lesa og hugleiða orð Guðs.