Að gera námsstundirnar ánægjulegri og árangursríkari
Að gera námsstundirnar ánægjulegri og árangursríkari
Hvernig getum við haft meiri ánægju af biblíunámi? Hvernig getum við gert námsstundirnar árangursríkari? Við skulum líta stuttlega á þrjú mikilvæg skref sem hjálpa okkur að fá sem mest út úr sjálfsnámi í Biblíunni.
1 BÆN: Fyrsta skrefið er að biðja. (Sálm. 42:9) Hvers vegna? Við ættum að líta á sjálfsnám sem hluta af tilbeiðslu okkar. Þess vegna þurfum við að biðja Jehóva að hjálpa okkur að komast í rétt hugarástand og gefa okkur heilagan anda sinn. (Lúk. 11:13) Barbara hefur verið trúboði í mörg ár. Hún segir: „Áður en ég les eða rannsaka Biblíuna fer ég alltaf með bæn. Eftir það finnst mér að Jehóva sé með mér og hafi velþóknun á því sem ég er að gera.“ Með því að fara með bæn áður en þú sest niður til biblíunáms ertu að opna huga þinn og hjarta fyrir andlegu fæðunni sem Jehóva lætur okkur ríkulega í té.
2 HUGLEIÐING: Vegna skorts á tíma láta sumir sér eingöngu nægja að lesa í orði Guðs. En þá fara þeir á mis við það gagn sem fylgir því að hugleiða lesefnið. Carlos, sem hefur þjónað Jehóva í meira en 50 ár, hefur áttað sig á mikilvægi þess að taka frá tíma til að hugleiða námsefnið. Hann segir: „Með því að lesa færri blaðsíður í Biblíunni í hvert skipti, hér um bil tvær á dag, hef ég meiri tíma til að hugleiða efnið og draga lærdóm af því.“ (Sálm. 77:13) Þegar við tökum okkur tíma til að hugleiða fáum meiri þekkingu og skilning á vilja Guðs. – Kól. 1:9-11.
3 HEIMFÆRSLA: Við höfum meira gagn af því sem við gerum þegar við áttum okkur á gildi þess. Það á svo sannarlega við um biblíunám. Ungur bróðir að nafni Gabriel hefur tileinkað sér góðar námsvenjur. Hann segir: „Sjálfsnámið hefur hjálpað mér að sigrast á ýmsum vandamálum í mínu daglega lífi og það hefur einnig búið mig undir það að hjálpa öðrum. Ég reyni að heimfæra allt sem ég læri upp á sjálfan mig.“ (5. Mós. 11:18; Jós. 1:8) Já, við getum endalaust bætt við okkur þekkingu frá Guði og nýtt okkur hana. – Orðskv. 2:1-5.
UPPRIFJUN: Jehóva er uppspretta allrar visku og þekkingar og það er mikill heiður að fá að kafa djúpt í orð hans. (Rómv. 11:33) Næst þegar þú sest niður til biblíunáms eða -lestrar skaltu því byrja á að fara með bæn og biðja Jehóva um heilagan anda og rétt hugarástand. Gerðu síðan hlé á lestrinum endrum og eins til að hugleiða efnið. Og að lokum ættirðu að heimfæra það sem þú hefur lært upp á sjálfan þig. Ef þú stígur þessi mikilvægu skref verða námsstundirnar ánægjulegri og árangursríkari.