Vissir Þú?
Vissir Þú?
Hvað höfðu illvirkjarnir, sem teknir voru af lífi með Jesú, brotið af sér?
◼ Í Biblíunni eru þessir illvirkjar kallaðir „ræningjar“. (Matt. 27:38; Mark. 15:27) Sumar biblíuorðabækur benda á að í Ritningunni séu notuð mismunandi orð til þess að gera greinarmun á glæpamönnum. Gríska orðið kleptes er notað um þjóf sem vann í leynum til þess fólk tæki ekki eftir honum. Þetta orð er notað um Júdas Ískaríot sem laumaðist til að stela úr sameiginlegri pyngju lærisveinanna. (Jóh. 12:6) Á hinn bóginn er orðið lestes oftast notað um mann sem beitir ofbeldi þegar hann rænir. Það getur líka átt við byltingarmann, uppreisnarmann eða skæruliða. Þeir sem teknir voru af lífi með Jesú voru þess konar menn. Haft er eftir öðrum þeirra: „Við . . . fáum makleg gjöld fyrir gerðir okkar.“ (Lúk. 23:41) Það bendir til þess að þeir hafi verið sekir um meira en aðeins þjófnað.
Barabbas er kallaður lestes rétt eins og ræningjarnir tveir. (Jóh. 18:40) Við sjáum greinilega af Lúkasi 23:19 að Barabbas var meira en bara þjófur. Þar segir: „Honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt sem varð í borginni og manndráp.“
Þó að illvirkjarnir, sem voru líflátnir með Jesú, hafi verið fundnir sekir um rán er hugsanlegt að þeir hafi einnig átt þátt í uppreisn eða jafnvel framið morð. Hvað sem þeir höfðu unnið sér til saka er ljóst að rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi fannst rétt að taka þá af lífi með því að staurfesta þá.