Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðvild sigrast á biturð

Góðvild sigrast á biturð

Góðvild sigrast á biturð

ROSKIN kona í Hollandi var með eindæmum óvingjarnleg þegar George og Manon, sem eru vottar Jehóva, reyndu að segja henni frá fagnaðarerindinu um ríkið. Hún sagði þeim að hún hefði misst tvo eiginmenn og son og væri með liðagigt á háu stigi. Hún róaðist svolítið þegar leið á samtalið en var áfram fremur óvinsamleg.

George stakk upp á því við Manon að þau færðu konunni blómvönd af því að hún virtist svo einmana og bitur. Konan, sem heitir Rie, var bæði undrandi og glöð að sjá þau. Það stóð hins vegar ekki vel á hjá henni þannig að þau ákváðu að hittast síðar. George og Manon komu aftur á umsömdum tíma en enginn kom til dyra. Þau reyndu aftur nokkrum sinnum á ýmsum tímum án árangurs. Það hvarflaði jafnvel að þeim að Rie væri að reyna að forðast þau.

Einn góðan veðurdag var Rie loks heima þegar George hringdi bjöllunni. Hún baðst afsökunar á því að hafa ekki verið heima þegar um var samið en ástæðan var sú að hún hafði þurft að leggjast inn á spítala. „En þú getur ekki ímyndað þér hvað ég gerði eftir að þið voruð farin,“ sagði hún. „Ég fór að lesa Biblíuna!“ Þau áttu ánægjulegt samtal og Rie þáði boð um aðstoð við biblíunám.

Þegar Rie kynnti sér Biblíuna breyttist hún úr biturri manneskju í ánægða og hlýlega konu. Hún átti ekki heimangengt en fór hins vegar að segja öllum sem heimsóttu hana frá trúnni sem hún hafði eignast. Heilsunnar vegna gat hún ekki sótt samkomur að staðaldri en var afar þakklát fyrir að fá bræður og systur í heimsókn. Daginn sem hún varð 82 ára sótti hún svæðismót og lét skírast til tákns um að hún hefði vígst Guði.

Hún dó fáeinum mánuðum síðar og þá fannst ljóð sem hún hafði ort. Þar lýsir hún vanlíðan og einsemd ellinnar og talar um mikilvægi þess að sýna góðvild. „Ég var djúpt snortin þegar ég las ljóðið,“ segir Manon, „og það gleður mig að Jehóva skuli hafa hjálpað okkur að sýna henni góðvild.“

Fordæmi Jehóva er okkur hvatning til að sýna kærleika og góðvild. (Ef. 5:1, 2) Við getum náð góðum árangri í boðunarstarfinu ef við sýnum að við erum þjónar Guðs með því að vera mild og góðviljuð. – 2. Kor. 6:4, 6.