Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sjá, ég er með yður alla daga“

„Sjá, ég er með yður alla daga“

„Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ – MATT. 28:20.

1. (a) Endursegðu í stuttu máli dæmisöguna um hveitið og illgresið. (b) Hvernig útskýrir Jesús dæmisöguna?

 Í EINNI af dæmisögum Jesú um ríkið segir frá bónda sem sáir góðu sæði í akur sinn en óvinur sáir illgresi meðal góða sæðisins. Illgresið verður yfirgnæfandi en bóndinn segir þjónum sínum að láta „hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði“. Þegar kornskurðartíminn rennur upp er illgresinu brennt en hveitið hirt. Jesús skýrir síðan dæmisöguna. (Lestu Matteus 13:24-30, 37-43.) Hvaða upplýsingar veitir dæmisagan? (Sjá yfirlitið „Hveitið og illgresið“.)

2. (a) Hvað táknar það sem gerðist á akri bóndans? (b) Að hvaða hluta dæmisögunnar einbeitum við okkur núna?

2 Það sem gerðist á akri bóndans lýsir hvernig og hvenær Jesús ætlaði að hirða allt „hveitið“ meðal mannkyns, það er að segja andasmurða kristna menn sem eiga að ríkja með honum. Sáningin hófst á hvítasunnu árið 33. Uppskerutímanum lýkur þegar hinir andasmurðu, sem eru á lífi þegar núverandi heimskerfi líður undir lok, hljóta endanlegt innsigli og eru síðan teknir upp til himna. (Matt. 24:31; Opinb. 7:1-4) Dæmisagan veitir okkur góða yfirsýn yfir atburðarás sem spannar ein 2.000 ár, ekki ósvipað og maður standi á háu fjalli með miklu útsýni. Hvaða atburðarás varðandi ríki Guðs sjáum við frá þessum sjónarhóli? Í dæmisögunni er lýst sáningu, vaxtarskeiði og uppskerutíma. Í þessari grein einbeitum við okkur fyrst og fremst að uppskerutímanum. *

JESÚS HEFUR VAKANDI AUGA MEÐ ÞEIM

3. (a) Hvernig þróuðust málin eftir að fyrstu öldinni lauk? (b) Hvaða spurning var borin fram samkvæmt Matteusi 13:28 og hverjir gerðu það? (Sjá einnig aftanmálsgrein.)

3 ,Illgresið kom í ljós‘ í byrjun annarrar aldar þegar falskristnin skaut upp kollinum á ,akrinum‘. (Matt. 13:26) Á fjórðu öld var falskristnin orðin yfirgnæfandi og hinir andasmurðu í algerum minnihluta. Eins og við munum spurðu þjónarnir í dæmisögunni húsbóndann hvort þeir mættu reyta illgresið. * (Matt. 13:28) Hverju svaraði húsbóndinn?

4. (a) Hvað kemur fram í svari húsbóndans Jesú? (b) Hvenær var hægt að þekkja hóp hinna andasmurðu úr fjöldanum?

4 Jesús sagði um hveitið og illgresið: „Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði.“ Þessi fyrirmæli bera með sér að frá fyrstu öld fram á okkar daga hafi alltaf verið einhverjir andasmurðir kristnir menn á jörðinni. Jesús sagði lærisveinunum síðar: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar,“ og það staðfestir að þetta sé rétt ályktað. (Matt. 28:20) Jesús myndi því vernda hina andasmurðu alla daga fram til enda veraldar. Þar sem illgresið yfirgnæfði hveitið vitum við ekki með vissu hverjir tilheyrðu hópi hinna andasmurðu á þessu langa tímabili. En nokkrum áratugum áður en uppskerutíminn gekk í garð var hægt að þekkja þennan hóp úr fjöldanum. Hvernig bar það til?

SENDIBOÐI ,RYÐUR BRAUTINA‘

5. Hvernig rættist spádómur Malakís á fyrstu öld?

5 Öldum áður en Jesús sagði dæmisöguna um hveitið og illgresið innblés Jehóva Malakí spámanni að segja fyrir atburði sem eiga sér samsvörun í dæmisögu Jesú. (Lestu Malakí 3:1-4.) Jóhannes skírari var ,sendiboðinn sem ruddi brautina‘. (Matt. 11:10, 11) Þegar hann kom árið 29 var þess skammt að bíða að Ísraelsþjóðin yrði dæmd. Jesús var síðari sendiboðinn. Hann hreinsaði musterið í Jerúsalem tvisvar, fyrst við upphaf þjónustu sinnar og svo aftur undir lokin. (Matt. 21:12, 13; Jóh. 2:14-17) Þessi hreinsun stóð því um nokkurn tíma.

6. (a) Í hverju fólst aðaluppfylling spádómsins sem Malakí bar fram? (b) Á hvaða tímabili skoðaði Jesús andlega musterið? (Sjá einnig aftanmálsgrein.)

6 Í hverju fólst aðaluppfylling spádómsins sem Malakí bar fram? Á síðustu áratugunum fyrir 1914 unnu Charles Taze Russell og nánir félagar hans áþekkt starf og Jóhannes skírari. Það fólst í því að koma sannleika Biblíunnar á framfæri. Biblíunemendurnir kenndu fólki hvaða þýðingu lausnarfórn Krists hafði, afhjúpuðu lygina um loga vítis og boðuðu að tímar heiðingjanna tækju brátt enda. En margir trúarhópar töldu sig fylgja Kristi. Hver af þessum hópum samsvaraði hveitinu í dæmisögu Jesú? Það var mikilvægt að fá svar við þessari spurningu. Til að fá úr því skorið byrjaði Jesús að skoða ástand andlega musterisins árið 1914. Skoðunin og hreinsunin tók þó nokkurn tíma eða frá 1914 fram á fyrri hluta ársins 1919. *

ÁRALÖNG SKOÐUN OG HREINSUN

7. Hvað uppgötvaði Jesús þegar hann byrjaði að skoða musterið árið 1914?

7 Hvað uppgötvaði Jesús þegar hann byrjaði að skoða andlega musterið? Hann fann lítinn hóp iðinna biblíunemenda sem höfðu í meira en 30 ár notað krafta sína og fjármuni í að boða fagnaðarerindið af kappi. * Það hlýtur að hafa glatt Jesú og englana að komast að raun um að illgresi Satans hafði ekki náð að kæfa þessi hveitigrös. Þau voru þróttmikil þótt fá væru. Það þurfti samt sem áður að ,hreinsa syni Leví‘, það er að segja hina andasmurðu. (Mal. 3:2, 3; 1. Pét. 4:17) Hvers vegna?

8. Hvað gerðist eftir 1914?

8 Það voru vonbrigði fyrir suma af biblíunemendunum að þeir skyldu ekki fara til himna síðla árs 1914. Á árunum 1915 og 1916 varð söfnuðurinn fyrir andstöðu utan frá og það hægði á boðuninni. Andstaða innan frá eftir að bróðir Russell dó í október 1916 bætti ekki úr skák. Fjórir af sjö stjórnarmönnum Watch Tower Bible and Tract Society settu sig upp á móti þeirri ákvörðun að bróðir Rutherford tæki við forystunni. Þeir reyndu að valda sundrung meðal bræðranna en í ágúst 1917 yfirgáfu þeir Betel. Það var ekki lítil hreinsun. Sumir af biblíunemendunum létu líka ótta við menn ná tökum á sér. Flestir brugðust þó vel við hreinsunarátaki Jesú og gerðu nauðsynlegar breytingar. Jesús komst því að þeirri niðurstöðu að þeir væru hveitið, það er að segja sannkristnir menn. Hann hafnaði hins vegar falskristninni, þar á meðal öllum sem tilheyrðu kirkjufélögum kristna heimsins. (Mal. 3:5; 2. Tím. 2:19) Hvað gerðist svo? Við skulum snúa okkur aftur að dæmisögunni um hveitið og illgresið til að kanna það.

HVAÐ GERIST EFTIR AÐ UPPSKERUTÍMINN HEFST?

9, 10. (a) Hvað skoðum við nú varðandi uppskerutímann? (b) Hvað var það fyrsta sem gerðist á uppskerutímanum?

9 „Kornskurðurinn er endir veraldar,“ sagði Jesús. (Matt. 13:39) Kornskurðurinn, það er að segja uppskerutíminn, hófst árið 1914. Við skoðum nú fimm atburði sem Jesús sagði að myndu gerast á þeim tíma.

10 Í fyrsta lagi átti að safna illgresinu. Jesús segir: „Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin.“ Eftir 1914 tóku englarnir að ,safna‘ þeim sem illgresið táknar með því að aðgreina þá frá hinum andasmurðu ,börnum ríkisins‘. – Matt. 13:30, 38, 41.

11. Hvað aðgreinir sannkristna menn og falskristna enn þann dag í dag?

11 Eftir að farið var að safna illgresinu varð munurinn á hópunum tveim æ greinilegri. (Opinb. 18:1, 4) Árið 1919 var ljóst að Babýlon hin mikla var fallin. Hver var greinilegasti munurinn á sannkristnum mönnum og falskristnum? Það var boðunin. Þeir sem fóru með forystu meðal Biblíunemendanna tóku að leggja áherslu á að allir ættu að taka þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið. Árið 1919 var gefinn út bæklingur sem hét To Whom the Work Is Entrusted. Þar voru allir hinir andasmurðu hvattir til að boða trúna hús úr húsi. Í bæklingnum sagði: „Verkefnið virðist tröllaukið en það er verk Drottins og við gerum það í krafti hans. Þú færð þann heiður að taka þátt í því.“ Hver voru viðbrögðin? Árið 1922 kemur fram í Varðturninum að Biblíunemendurnir hafi hert á boðuninni þaðan í frá. Áður en langt um leið var boðun hús úr húsi orðin aðalsmerki þessara trúföstu kristnu manna – og er það enn þann dag í dag.

12. Hvenær var byrjað að hirða hveitið?

12 Í öðru lagi átti að hirða hveitið. Jesús sagði englum sínum: „Hirðið hveitið í hlöðu mína.“ (Matt. 13:30) Síðan 1919 hefur andasmurðum þjónum Guðs verið safnað saman inn í hreinan kristinn söfnuð. Hinum andasmurðu, sem eru á lífi við endi þessa heimskerfis, verður að lokum safnað þegar þeir eru kallaðir til himna. – Dan. 7:18, 22, 27.

13. Hvernig lítur skækjan Babýlon hin mikla, þar á meðal kirkjudeildir kristna heimsins, á sig samkvæmt Opinberunarbókinni 18:7?

13 Í þriðja lagi átti að verða grátur og gnístran tanna. Hvað gerist eftir að englarnir binda illgresið í bundin? Jesús segir um þá sem illgresið táknar: „Þar verður grátur og gnístran tanna.“ (Matt. 13:42) Er þetta að gerast núna? Nei. Kirkjudeildir kristna heimsins, sem eru hluti skækjunnar, segja enn þá við sjálfar sig: „Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.“ (Opinb. 18:7) Þessum kirkjudeildum finnst þær halda um stjórnartaumana og telja sig jafnvel ,sitja sem drottningu‘ yfir stjórnmálaleiðtogunum. Þeir sem illgresið táknar gráta ekki nú um stundir heldur eru miklir með sig. En það á eftir að breytast.

Náin tengsl kirkjudeilda kristna heimsins við stjórnmálaleiðtoga eru brátt á enda. (Sjá 13. grein.)

14. (a) Hvenær og hvers vegna munu falskristnir menn ,gnísta tönnum‘? (b) Hvernig kemur breyttur skilningur okkar á Matteusi 13:42 heim og saman við Sálm 112:10? (Sjá aftanmálsgrein.)

14 Í þrengingunni miklu, eftir að öllum falstrúarbrögðum hefur verið eytt, reyna fyrrverandi stuðningsmenn þeirra að hlaupa í öruggt skjól en finna ekkert. (Lúk. 23:30; Opinb. 6:15-17) Það rennur upp fyrir þeim að þeir komast ekki undan eyðingunni og þeir gráta í örvæntingu og ,gnísta tönnum‘ af reiði. Þeir „hefja kveinstafi“ á þessari örlagastund eins og Jesús lýsir í spádóminum um þrenginguna miklu. * – Matt. 24:30; Opinb. 1:7.

15. Hvað verður um illgresið og hvenær gerist það?

15 Í fjórða lagi áttu englarnir að ,kasta illgresinu í eldsofninn‘. (Matt. 13:42) Það lýsir endanlegri eyðingu. Þessum fyrrverandi stuðningsmönnum falstrúarbragðanna verður því eytt í Harmagedón, síðasta hluta þrengingarinnar miklu. – Mal. 3:19.

16, 17. (a) Hver er síðasti atburðurinn sem Jesús nefnir í dæmisögunni? (b) Hvers vegna drögum við þá ályktun að þessi atburður sé enn fram undan?

16 Í fimmta lagi áttu þeir sem hlýða Guði að skína sem sól. Jesús lýkur spádóminum þannig: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra.“ (Matt. 13:43) Hvenær og hvar gerist það? Þessi orð eiga enn eftir að rætast. Jesús var ekki að spá atburði sem á sér stað á jörðinni núna heldur gerist hann á himnum í framtíðinni. * Við skulum líta á tvær röksemdir fyrir því.

17 Annars vegar er það tímasetningin. Jesús sagði: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól.“ Orðið „þá“ vísar greinilega til atburðarins sem Jesús er nýbúinn að nefna, það er að segja að illgresinu sé kastað í eldsofninn. Það gerist í lok þrengingarinnar miklu. Það hlýtur því líka að vera í framtíðinni sem hinir andasmurðu „skína sem sól“. Svo er það staðsetningin. Jesús sagði að þeir sem hlýtt hafa Guði ,skíni sem sól í ríki föður þeirra‘. Hvað merkir það? Allir trúir andasmurðir þjónar Guðs, sem eru enn á jörð eftir að fyrsti hluti þrengingarinnar miklu er liðinn hjá, hafa þegar fengið lokainnsiglið. Þá er þeim safnað til himna eins og lesa má í spádómi Jesú um þrenginguna miklu. (Matt. 24:31) Þar skína þeir „í ríki föður þeirra“, og skömmu eftir Harmagedónstríðið ganga þeir fagnandi inn í ,brúðkaup lambsins‘. Þeir tilheyra hópnum sem myndar brúði hans. – Opinb. 19:6-9.

VIÐ HÖFUM GAGN AF ÞESSARI VITNESKJU

18, 19. Hvaða gagn höfum við öll af því að skilja dæmisöguna um hveitið og illgresið?

18 Hvaða gagn höfum við, hvert og eitt, af þeirri yfirsýn sem dæmisagan gefur okkur? Lítum á þrennt. Í fyrsta lagi fáum við betri skilning. Dæmisagan dregur fram mikilvæga ástæðu fyrir því að Jehóva leyfir illskuna. Hann hefur „umborið ker reiðinnar“ til að búa ,ker miskunnarinnar‘ til dýrðar, það er að segja þá sem hveitið táknar. * (Rómv. 9:22-24, Biblían 1981) Í öðru lagi styrkir dæmisagan traust okkar til Jehóva. Endirinn nálgast og óvinirnir berjast gegn okkur af enn meiri hörku en fyrr. En þeir munu „ekki sigra“ okkur. (Lestu Jeremía 1:19.) Í aldanna rás hefur Jehóva verndað þá sem hveitið táknar. Faðirinn á himnum verður sömuleiðis með okkur fyrir atbeina Jesú og englanna „alla daga“ um ókomna tíð. – Matt. 28:20.

19 Í þriðja lagi gerir dæmisagan okkur kleift að bera kennsl á þá sem hveitið táknar. Það er ákaflega mikilvægt. Við þurfum að vita hverjir það eru til að fá svar við spurningu sem Jesús bar fram í yfirgripsmiklum spádómi sínum um síðustu daga. Hann spurði: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn?“ (Matt. 24:45) Þessari spurningu er svarað í næstu tveim námsgreinum.

 

^ 2. grein: Við hvetjum þig til að rifja upp aðra þætti dæmisögunnar með því að lesa greinina „Þá munu réttlátir skína sem sól“. Hún birtist í Varðturninum, 15. mars 2010.

^ 3. grein: Postular Jesú voru dánir þegar hér var komið sögu, og í dæmisögunni voru það ekki þjónarnir heldur hveitið sem táknaði hina andasmurðu á jörðinni. Þjónarnir eru viðeigandi táknmynd um engla. Síðar í dæmisögunni kemur fram að það eru englar sem safna illgresinu. – Matt. 13:39.

^ 6. grein: Hér er um að ræða nýjan skilning á þessu máli. Áður töldum við að Jesús hefði skoðað musterið árið 1918.

^ 7. grein: Biblíunemendurnir dreifðu næstum fjórum milljónum bóka og 200 milljónum smárita og bæklinga á árabilinu 1910 til 1914.

^ 14. grein: Þetta er nýr skilningur á Matteusi 13:42. Áður hefur komið fram í ritum okkar að falskristnir menn hafi áratugum saman ,grátið og gníst tönnum‘ yfir því að „börn ríkisins“ skuli hafa afhjúpað þá og bent á að þeir séu „börn hins vonda“. (Matt. 13:38) En hafa ber í huga að það að gnísta tönnum er tengt því að farast. – Sálm. 112:10.

^ 16. grein: Í Daníel 12:3 segir: „Hinir vitru [andasmurðu] munu skína eins og björt himinhvelfing.“ Þeir gera það meðan þeir eru á jörð með því að boða fagnaðarerindið. Í Matteusi 13:43 er hins vegar vísað til þess tíma þegar þeir skína skært í ríkinu á himnum. Áður var talið að bæði versin lýstu því sama, það er að segja boðun fagnaðarerindisins.

^ 18. grein: Sjá bókina Nálægðu þig Jehóva, bls. 288-289.