Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hver er sá trúi og hyggni þjónn?“

„Hver er sá trúi og hyggni þjónn?“

„Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín?“ – MATT. 24:45.

1, 2. Hvaða boðleið notar Jesús til að næra okkur og hvers vegna er afar mikilvægt að vita hver hún er?

 „BRÆÐUR, ég hef ekki tölu á því hve oft þið hafið fært mér greinar með efni sem mig vantaði einmitt þá stundina.“ Þannig komst systir nokkur að orði í þakkarbréfi til bræðranna sem starfa við aðalstöðvarnar. Mörg okkar geta örugglega tekið undir með henni. Ætti það að koma okkur á óvart? Í rauninni ekki.

2 Að við skulum fá andlega fæðu á réttum tíma sannar að Jesús, höfuð safnaðarins, stendur við loforð sitt um að næra okkur. Hvaða boðleið notar hann til þess? Þegar Jesús lýsti tákni nærveru sinnar sagðist hann myndu láta ,trúan og hygginn þjón‘ gefa hjúunum „mat á réttum tíma“. * (Lestu Matteus 24:45-47.) Þessi trúi þjónn er boðleiðin sem Jesús notar til að næra sanna fylgjendur sína á endalokatímanum. Það er ákaflega mikilvægt að vita hver þessi trúi þjónn er og viðurkenna hlutverk hans. Trú okkar og samband við Guð er undir því komið. – Matt. 4:4; Jóh. 17:3.

3. Hvernig hefur dæmisagan um hinn trúa þjón verið skýrð í ritum okkar?

3 Hvernig eigum við þá að skilja dæmisögu Jesú um hinn trúa þjón? Hingað til hefur eftirfarandi komið fram í ritum okkar: Jesús setti þennan þjón yfir hjú sín á hvítasunnu árið 33. Þjónninn táknar alla andasmurða kristna menn í heild sem eru á jörðinni á hverjum tíma þaðan í frá. Hjúin eru þessir sömu andasmurðu bræður og systur sem einstaklingar. Árið 1919 setti Jesús trúa þjóninn „yfir allar eigur sínar“, það er að segja fól honum að gæta allra hagsmuna ríkis síns á jörð. Hins vegar hafa nákvæmar biblíurannsóknir, hugleiðingar og bænir varpað nýju ljósi á orð Jesú um trúa og hyggna þjóninn. (Orðskv. 4:18) Við skulum skoða dæmisöguna og hugleiða hvernig hún snertir okkur, hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska.

HVENÆR UPPFYLLIST SPÁDÓMURINN Í DÆMISÖGUNNI?

4-6. Hvers vegna getum við dregið þá ályktun að það sem Jesús sagði um trúa þjóninn komi ekki fram fyrr en eftir 1914?

4 Samhengi dæmisögunnar um hinn trúa og hyggna þjón sýnir að það sem hún lýsir byrjaði ekki að koma fram á hvítasunnu árið 33 heldur núna á endalokatímanum. Við skulum kanna hvernig við getum ályktað það af Biblíunni.

5 Dæmisagan um hinn trúa þjón er hluti af spádómi Jesú um tákn þess að hann væri „að koma [á grísku parúsíʹa] og veröldin að líða undir lok“. (Matt. 24:3) Fyrri hluti spádómsins, í Matteusi 24:4-22, rætist tvisvar, fyrst á árunum 33 til 70 og síðan með víðtækari hætti á okkar dögum. Þýðir þetta að það sem Jesús sagði um hinn trúa þjón uppfyllist líka tvisvar? Nei.

6 Frá og með Matteusi 24:29 ræðir Jesús fyrst og fremst um atburði sem eiga sér stað á okkar dögum. (Lestu Matteus 24:29, 30, 42, 44.) Hann talar um atburði sem gerast í þrengingunni miklu og segir að fólk muni „sjá Mannssoninn koma á skýjum himins“. Síðan beinir hann orðum sínum til þeirra sem eru uppi á síðustu dögum, hvetur þá til að vera árvakrir og segir: „Þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur“ og „Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi“. * Það er í þessu samhengi – þegar hann talar um atburði sem eiga sér stað á síðustu dögum – að hann segir dæmisöguna um hinn trúa þjón. Við getum því dregið þá ályktun að það sem hann segir um hinn trúa þjón hafi ekki byrjað að koma fram fyrr en eftir að síðustu dagar hófust árið 1914. Þetta er rökrétt ályktun. Hvers vegna?

7. Hvaða mikilvæga spurning vaknaði þegar uppskerutíminn hófst og hvers vegna?

7 Hugsum nú andartak um spurninguna: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn?“ Á fyrstu öld var varla ástæða til að spyrja um það. Eins og fram kom í greininni á undan gátu postularnir unnið kraftaverk og meira að segja gefið öðrum náðargáfur andans, og það sannaði að Guð stóð með þeim. (Post. 5:12) Þurfti þá nokkur maður að spyrja hverja Kristur hefði valið til að fara með forystuna? Staðan var hins vegar allt önnur árið 1914. Uppskerutíminn hófst það ár. Nú var tíminn kominn til að aðgreina hveitið og illgresið. (Matt. 13:36-43) Þegar uppskerutíminn hófst vaknaði því þessi mikilvæga spurning: Hvernig var hægt að þekkja hveitið – andasmurða kristna menn – úr fjöldanum þegar svo margir þóttust fylgja Kristi? Svarið var að finna í dæmisögunni um hinn trúa þjón. Andasmurðir fylgjendur Krists áttu að þekkjast á því að þeir fengju andlega fæðu í ríkum mæli.

HVER ER TRÚI OG HYGGNI ÞJÓNNINN?

8. Hvers vegna er eðlilegt að það séu andasmurðir kristnir menn sem mynda hinn trúa þjón?

8 Það hljóta að vera andasmurðir kristnir menn á jörð sem mynda hinn trúa þjón. Þeir eru kallaðir „konunglegur prestdómur“ og hafa fengið það verkefni að „,víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss“. (1. Pét. 2:9) Það er eðlilegt að þeir sem mynda þennan ,konunglega prestdóm‘ taki beinan þátt í að kenna trúsystkinum sínum sannleikann. – Mal. 2:7; Opinb. 12:17.

9. Tilheyra allir andasmurðir þjónar Guðs hinum trúa þjóni? Skýrðu svarið.

9 Tilheyra allir andasmurðir þjónar Guðs á jörð hinum trúa þjóni? Nei. Sannleikurinn er sá að hinir andasmurðu eiga ekki allir þátt í að miðla andlegri fæðu til trúsystkina sinna um allan heim. Meðal hveitisins eru andasmurðir bræður sem eru kannski safnaðarþjónar eða öldungar í heimasöfnuðum sínum. Þeir kenna hús úr húsi og í söfnuðinum, og þeir fylgja dyggilega þeim leiðbeiningum sem koma frá aðalstöðvunum. En þeir taka ekki þátt í að miðla andlegri fæðu til bræðralagsins um allan heim. Í hópi hinna andasmurðu eru einnig hógværar systur sem myndu aldrei reyna að taka að sér hlutverk kennara í söfnuðinum. – 1. Kor. 11:3; 14:34.

10. Hver er trúi og hyggni þjónninn?

10 Hver er þá trúi og hyggni þjónninn? Hann er fámennur hópur andasmurðra bræðra sem tekur beinan þátt í að matreiða og dreifa andlegu fæðunni á nærverutíma Krists. Það er í samræmi við þá aðferð Jesú að láta fáeina næra fjöldann. Allt frá upphafi síðustu daga hafa andasmurðir bræður, sem mynda trúa þjóninn, starfað saman við aðalstöðvarnar. Á síðustu áratugum hefur þessi þjónn verið hið stjórnandi ráð Votta Jehóva. En við tökum eftir að orðið „þjónn“ stendur í eintölu í dæmisögu Jesú. Það gefur til kynna að hópurinn vinni saman sem ein heild. Hið stjórnandi ráð tekur ákvarðanir í sameiningu.

HVER ERU HJÚIN?

11, 12. (a) Yfir hvað var trúi og hyggni þjónninn settur? (b) Hvenær setti Jesús trúa þjóninn yfir hjúin og hverja valdi hann?

11 Það er eftirtektarvert að trúi og hyggni þjónninn í dæmisögu Jesú er settur yfir tvennt: annars vegar hjúin og hins vegar allar eigur húsbóndans. Þar sem spádómurinn í dæmisögunni rætist ekki fyrr en á endalokatímanum getur þjónninn ekki hafa fengið þessi tvö verkefni fyrr en eftir að Jesús var kominn sem konungur árið 1914.

12 Hvenær setti Jesús trúa þjóninn yfir hjú sín? Til að fá svar við því þurfum við að hverfa aftur til ársins 1914 þegar uppskerutíminn hófst. Eins og áður hefur komið fram voru margir hópar á sjónarsviðinu á þeim tíma sem töldu sig vera kristna. Úr hvaða hópi ætlaði Jesús að velja trúa þjóninn? Spurningunni var svarað eftir að hann og faðir hans komu til að skoða andlega musterið en það gerðu þeir frá 1914 fram á fyrri hluta ársins 1919. * (Mal. 3:1) Þeir voru ánægðir með lítinn hóp trúfastra biblíunemenda sem sýndu að þeir elskuðu Jehóva og orð hans. Biblíunemendurnir þurftu auðvitað að hreinsast en stóðust reynslustundina og tóku auðmjúkir leiðréttingunni sem þeir fengu. (Mal. 3:2-4) Þessir trúu biblíunemendur voru sannkristnir menn sem hveitið táknaði. Árið 1919 voru hinir andasmurðu endurvaktir. Jesús valdi hæfa bræður úr hópnum til að vera trúi og hyggni þjónninn og hann setti þá yfir hjú sín.

13. Hver eru hjúin? Skýrðu svarið.

13 Hver eru þá hjúin? Í stuttu máli eru það þeir sem þiggja andlegu fæðuna. Í byrjun síðustu daga voru öll hjúin andasmurð. Síðar bættist mikill múgur annarra sauða við hjúin. Núna eru aðallega aðrir sauðir í hinni ,einu hjörð‘ sem Kristur gætir. (Jóh. 10:16) Báðir hóparnir njóta góðs af sömu andlegu fæðunni sem trúi þjóninn miðlar á réttum tíma. Hvað þá um bræðurna í hinu stjórnandi ráði sem mynda trúa og hyggna þjóninn? Þeir þurfa líka að nærast andlega. Þeir viðurkenna því auðmjúkir að sem einstaklingar eru þeir hjú rétt eins og allir aðrir sannir fylgjendur Jesú.

Við erum öll hjú og þurfum að fá sömu andlegu fæðuna á réttum tíma, hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska.

14. (a) Hvaða ábyrgðarstarf er trúa þjóninum falið og hvað felst í því? (b) Hvaða viðvörun fékk trúi og hyggni þjónninn? (Sjá rammann „Ef illur þjónn ...“)

14 Jesús fól trúa og hyggna þjóninum ábyrgðarmikið verkefni. Á biblíutímanum var trúum þjóni gjarnan falið að gegna ráðsmennsku, það er að segja að standa fyrir búi. (Lúk. 12:42) Trúa og hyggna þjóninum er því falin sú ábyrgð að veita búi húsbóndans forstöðu. Það felur í sér að hafa umsjón með efnislegum eignum, boðun fagnaðarerindisins, dagskrá svæðis- og umdæmismóta og útgáfu biblíutengdra rita til að nota við boðunina, við sjálfsnám og biblíunám í söfnuðinum. Hjúin eru háð andlegu fæðunni sem þjónninn lætur í té.

HVENÆR ER ÞJÓNNINN SETTUR YFIR ALLAR EIGUR HÚSBÓNDANS?

15, 16. Hvenær setur Jesús trúa þjóninn yfir allar eigur sínar?

15 Hvenær felur Jesús trúa þjóninum síðara verkefnið, það er að segja setur hann „yfir allar eigur sínar“? Jesús sagði: „Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matt. 24:46, 47) Við tökum eftir að Jesús felur þjóninum síðara verkefnið eftir að hann kemur og sér að þjónninn hefur ,breytt svo‘, það er að segja miðlað andlegri fæðu af trúmennsku. Það líður því ákveðinn tími milli þess að þjóninum er falið fyrra verkefnið og hið síðara. Til að glöggva okkur á því hvenær og hvernig Jesús setur þjóninn yfir allar eigur sínar þurfum við að vita tvennt: hvenær hann kemur og hverjar eigur hans eru.

16 Hvenær kemur Jesús? Það má sjá af samhenginu. Þegar talað er um það í versunum á undan að Jesús komi er átt við tímann þegar hann kemur til að kveða upp dóm og fullnægja honum og þetta heimskerfi líður undir lok. * (Matt. 24:30, 42, 44) Koma Jesú, sem nefnd er í dæmisögunni um trúa þjóninn, á sér því stað í þrengingunni miklu.

17. Eru eigur Jesú aðeins jarðneskar?

17 Eru eigur Jesú aðeins jarðneskar? Þegar hann talaði um „allar eigur“ sínar afmarkaði hann ekki orðið ,allur‘ rétt eins og eigur hans væru aðeins á jörð. Jesús fer með víðtækt vald á himnum. „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu,“ sagði hann. (Matt. 28:18; Ef. 1:20-23) Núna á hann meðal annars Messíasarríkið en það hefur tilheyrt honum frá 1914 og hann á eftir að gefa andasmurðum fylgjendum sínum hlutdeild í því. – Opinb. 11:15.

18. Hvers vegna mun Jesús hafa ánægju af að setja trúa þjóninn yfir allar eigur sínar?

18 Hvaða ályktun getum við dregið af því sem hér er komið fram? Þegar Jesús kemur til að dæma í þrengingunni miklu kemst hann að raun um að trúi þjónninn hefur miðlað hjúunum andlegri fæðu dyggilega á réttum tíma. Jesús mun þá fúslega fá þjóninum síðara verkefnið og setja hann yfir allar eigur sínar. Þeir sem tilheyra trúa þjóninum fá þetta verkefni þegar þeir fara til himna og verða meðstjórnendur Krists.

19. Fær trúi þjónninn meiri laun á himnum en aðrir andasmurðir? Skýrðu svarið.

19 Fær trúi þjónninn meiri laun á himnum en aðrir andasmurðir? Nei. Þó að fámennum hópi sé heitið ákveðnum launum við vissar aðstæður geta fleiri hlotið sömu laun í fyllingu tímans. Tökum sem dæmi það sem Jesús sagði við 11 trúa postula sína kvöldið áður en hann dó. (Lestu Lúkas 22:28-30.) Jesús lofaði þessum fámenna hópi að launa honum trúfestina ríkulega. Þeir áttu að vera konungar og meðstjórnendur hans á himnum. En mörgum árum síðar gaf hann til kynna að allar hinar 144.000 myndu verða meðstjórnendur hans. (Opinb. 1:1; 3:21) Í Matteusi 24:47 lofaði hann að fámennur hópur, það er að segja hinir andasmurðu bræður sem mynda trúa þjóninn, yrði settur yfir allar eigur hans. Raunin er þó sú að allar hinar 144.000 fá hlutdeild í víðtæku valdi hans á himnum. – Opinb. 20:4, 6.

Allar hinar 144.000 fá hlutdeild í víðtæku valdi Jesú á himnum. (Sjá 19. grein.)

20. Hvers vegna setti Jesús trúa þjóninn yfir hjúin og hvað ætlar þú að gera?

20 Fyrir atbeina trúa og hyggna þjónsins notar Jesús sömu aðferð og á fyrstu öld – að láta fáeina næra fjöldann. Hann fékk trúa þjóninum þetta verkefni til að tryggja að sannir fylgjendur sínir, jafnt andasmurðir sem aðrir sauðir, fengju jafnt og þétt andlega fæðu á réttum tíma á síðustu dögum. Við skulum vera staðráðin í að sýna þakklæti okkar með því að styðja dyggilega hina andasmurðu bræður sem mynda trúa og hyggna þjóninn. – Hebr. 13:7, 17.

 

^ 2. grein: Áður hafði Jesús sagt áþekka dæmisögu þar sem hann talar um ,þjóninn‘ sem ,ráðsmann‘. – Lúk. 12:42-44.

^ 6. grein: Koma Krists (á grísku erkhomai) er ekki það sama og nærvera hans (á grísku parúsíʹa). Ósýnileg nærvera hans hefst áður en hann kemur til að fullnægja dómi.

^ 12. grein: Sjá greinina „Sjá, ég er með yður alla daga“, greinar 5-8 sem er að finna á bls. 10-12 í þessu tölublaði.

^ 16. grein: Sjá greinina „Seg þú okkur, hvenær verður þetta?“ greinar 14-18 sem er að finna á bls. 7-8 í þessu tölublaði.