Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við styrkjum sambandið við Guð með því að vera brautryðjendur

Við styrkjum sambandið við Guð með því að vera brautryðjendur

„Gott er að syngja Guði vorum lof.“ – SÁLM. 147:1.

1, 2. (a) Hvaða áhrif getur það haft að hugsa um ástvin og tala um hann? (Sjá mynd í byrjun greinar.) (b) Hvaða spurningar ræðum við í þessari grein?

 VIÐ getum styrkt tengslin við ástvin með því að hugsa um hann og tala um hann. Hið sama má segja um samband okkar við Jehóva Guð. Meðan Davíð var fjárhirðir gafst honum gott færi um nætur til að virða fyrir sér stjörnudýrð himinsins og hugleiða hve óviðjafnanlegur skaparinn væri. Hann orti: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“ (Sálm. 8:4, 5) Páll postuli ræðir um það hvernig Jehóva lætur vilja sinn með hinn andlega Ísrael ná fram að ganga og segir síðan fullur aðdáunar: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ – Rómv. 11:17-26, 33.

2 Þegar við boðum fagnaðarerindið hugsum við um Jehóva og tölum um hann. Það eitt og sér hefur jákvæð áhrif á okkur. Margir brautryðjendur hafa komist að raun um að það styrkir kærleikann til Guðs að taka mikinn þátt í boðuninni. Bæði brautryðjendur og þeir sem stefna að slíku starfi ættu að íhuga þetta: Hvernig get ég styrkt sambandið við Jehóva með því að vera brautryðjandi? Ef þú ert brautryðjandi skaltu spyrja þig hvernig þú getir haldið áfram að sinna þessu gefandi starfi. Ef þú ert ekki orðinn brautryðjandi skaltu velta fyrir þér hverju þú getir breytt í lífinu til að gerast brautryðjandi. Við skulum nú kanna hvernig hægt er að styrkja vináttusambandið við Guð með því að vera brautryðjandi.

BRAUTRYÐJANDASTARF OG SAMBANDIÐ VIÐ GUÐ

3. Hvaða áhrif hefur það á okkur að segja fólki frá þeirri blessun sem Guðsríki hefur í för með sér?

3 Við eignumst nánara samband við Jehóva þegar við segjum öðrum frá þeirri blessun sem ríki hans hefur í för með sér. Hvaða biblíuvers finnst þér sérstaklega gaman að nota þegar þú starfar hús úr húsi? Skyldi það vera Sálmur 37:10, 11, Daníel 2:44, Jóhannes 5:28, 29 eða Opinberunarbókin 21:3, 4? Í hvert sinn sem við segjum öðrum frá þessum fyrirheitum minnir það okkur á hve örlátur Guð er og að „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ kemur frá honum. Og það dregur okkur nær honum. – Jak. 1:17.

4. Hvers vegna fáum við meiri mætur á gæsku Guðs þegar við sjáum hve vansælir og hjálparvana margir eru?

4 Við fáum enn meiri mætur á sannleikanum þegar við sjáum hve vansælir og hjálparvana margir eru. Fólk almennt skortir áreiðanlega leiðsögn til að geta verið hamingjusamt og farsælt. Flestir hafa áhyggjur af framtíðinni og eygja enga von um betri heim. Þeir leita að tilgangi lífsins. Flestir hafa litla þekkingu á Biblíunni, jafnvel þó að þeir séu trúhneigðir. Þeir eru að mörgu leyti í svipaðri stöðu og íbúar Níníve forðum daga. (Lestu Jónas 4:11.) Því meira sem við boðum fagnaðarerindið því betur sjáum við hve vel Jehóva annast þjóna sína. (Jesaja 65:13) En hann sér ekki aðeins fyrir andlegum þörfum okkar heldur býður öllum að endurnærast og hljóta sanna von. Þannig erum við minnt á gæsku Jehóva. – Opinb. 22:17.

5. Hvað finnst okkur um eigin vandamál þegar við kennum öðrum sannleikann?

5 Þegar við kennum sannleikann eru minni líkur á að okkur finnist eigin vandamál vera yfirþyrmandi. Trisha, sem er brautryðjandi, komst að raun um það þegar foreldrar hennar skildu. „Ég hef sjaldan upplifað annað eins tilfinningarót,“ segir hún. Einn daginn var hún sérlega döpur og langaði mest til að vera heima. Hún ákvað þó að fara út til að halda biblíunámskeið. Nemendurnir voru þrjú börn sem bjuggu við mjög erfiðar heimilisaðstæður. Faðirinn hafði yfirgefið þau og eldri bróðir þeirra misþyrmt þeim. Trisha segir: „Mínir erfiðleikar og sársauki voru ekkert í samanburði við þeirra. Þegar við lásum saman ljómuðu augu þeirra og þau skríktu af gleði og eftirvæntingu. Þessi börn voru eins og gjöf frá Jehóva, ekki síst þennan dag.“

6, 7. (a) Hvernig styrkjum við trúna þegar við kennum öðrum sannleika Biblíunnar? (b) Hvaða áhrif hefur það á okkur að sjá fólk bæta líf sitt með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar?

6 Við styrkjum trúna þegar við kennum öðrum sannleika Biblíunnar. Páll postuli sagði eftirfarandi um Gyðinga sinnar samtíðar sem fóru ekki eftir því sem þeir kenndu: „Þú sem fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig?“ (Rómv. 2:21) Brautryðjendur hafa ótal tækifæri til að kenna sannleikann og halda biblíunámskeið, og þurfa því að vera duglegir að fræða sjálfa sig. Þeir þurfa að búa sig undir hvert biblíunámskeið sem þeir halda og leita heimilda til að geta svarað spurningum. Brautryðjandi, sem heitir Janeen, segir: „Í hvert sinn sem ég fæ tækifæri til að kenna öðrum sannleikann finn ég að hann festir dýpri rætur í huga mér og hjarta. Þess vegna staðnar trú mín ekki heldur vex jafnt og þétt.“

7 Við fáum meiri mætur á visku Guðs þegar við sjáum biblíunemendur okkar bæta líf sitt með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. (Jes. 48:17, 18) Það er okkur síðan hvatning til að halda áfram að fara sjálf eftir þessum meginreglum. „Líf fólks getur verið í algerri óreiðu þegar það treystir á sína eigin visku. En árangurinn kemur strax í ljós þegar það fer að treysta á visku Jehóva,“ segir Adrianna sem er brautryðjandi. Phil tekur í sama streng og segir: „Maður sér hvernig Jehóva getur breytt fólki sem tókst ekki að breyta sér upp á eigin spýtur.“

8. Hvaða áhrif hefur það á okkur að boða trúna með bræðrum okkar og systrum?

8 Það er hvetjandi að boða trúna með bræðrum okkar og systrum. (Orðskv. 13:20) Brautryðjendur verja að jafnaði miklum tíma í boðunarstarfinu með trúsystkinum. Það býður upp á mörg tækifæri til að „uppörvast saman“. (Rómv. 1:12; lestu Orðskviðina 27:17.) Lisa er brautryðjandi. Hún segir: „Á vinnustaðnum er gjarnan samkeppni og öfund. Maður heyrir slúður og ljótt orðbragð á hverjum degi. Allt snýst um að koma sér áfram. Stundum er gert gys að manni fyrir að lifa kristilega. Það er hins vegar uppbyggilegt að boða trúna með bræðrum og systrum. Ég er endurnærð þegar ég kem heim á kvöldin þó að ég sé þreytt.“

9. Hvaða áhrif hefur það á hjón að starfa saman sem brautryðjendur?

9 Hjón styrkja þrefalda þráðinn með því að starfa saman sem brautryðjendur. (Préd. 4:12) Madeline og maðurinn hennar eru bæði brautryðjendur. Hún segir: „Við hjónin höfum tíma til að tala saman um starfið yfir daginn eða eitthvað sem við rákumst á í biblíulestrinum og við getum notað í boðunarstarfinu. Við verðum nánari með hverju ári sem við störfum saman sem brautryðjendur.“ Trisha tekur í sama streng og segir: „Við erum bæði ákveðin í að stofna ekki til skulda þannig að við rífumst ekki um peninga. Við störfum á sama tíma dags, förum saman í endurheimsóknir og höldum biblíunámskeið saman. Það hjálpar okkur að vera samstíga hvort öðru og Jehóva.“

Það veitir lífsfyllingu að þjóna Guði sem brautryðjandi. (Sjá 9. grein.)

10. Hvaða áhrif hefur það á okkur þegar við leitum fyrst ríkis Guðs og finnum fyrir stuðningi hans?

10 Þegar við leitum fyrst ríkis Guðs og finnum fyrir stuðningi hans og bænheyrslu styrkir það traust okkar til hans. Þetta gildir um alla dygga þjóna Jehóva. En brautryðjendur vita af reynslunni að Jehóva hjálpar þeim að halda áfram starfi sínu ef þeir reiða sig á hann. (Lestu Matteus 6:30-34.) Curt og eiginkona hans eru brautryðjendur og hann er farandhirðir í afleysingum. Hann var tók að sér að heimsækja söfnuð sem var í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá heimili þeirra. Það var nóg bensín á bílnum til að komast til safnaðarins en ekki til baka. Það var vika í næsta útborgunardag og Curt var ekki viss um að þau hefðu tekið rétta ákvörðun. Eftir að þau hjónin höfðu beðið til Jehóva ákváðu þau að láta slag standa og treysta að hann myndi annast þau. Þau voru í þann mund að leggja af stað þegar trúsystir kom við. Hún sagðist vera með gjöf handa þeim og gaf þeim nákvæmlega þá upphæð sem þau vantaði til fararinnar. „Þegar maður upplifir aftur og aftur eitthvað þessu líkt er auðséð að hönd Jehóva er að verki,“ segir Curt.

11. Nefndu dæmi um þá blessun sem brautryðjendur hljóta.

11 Margir brautryðjendur hafa upplifað að Jehóva úthellir yfir þá óþrjótandi blessun ef þeir leggja sig alla fram í þjónustu hans og eiga náið samband við hann. (5. Mós. 28:2) En það er ekki alltaf auðvelt að vera brautryðjandi. Enginn þjónn Jehóva er ónæmur fyrir þeim erfiðleikum sem Adam olli með uppreisn sinni. Sumir brautryðjendur hafa þurft að hætta um tíma en oft er þó hægt að ráða við erfiðleikana eða jafnvel afstýra þeim. Hvað getur hjálpað brautryðjendum að halda þjónustu sinni áfram?

AÐ HALDA ÁFRAM SEM BRAUTRYÐJANDI

12, 13. (a) Hvað ætti brautryðjandi að gera ef hann á erfitt með að ná tímamarkmiðinu? (b) Hvers vegna er daglegur biblíulestur, sjálfsnám og hugleiðing mikilvæg fyrir brautryðjanda?

12 Flestir brautryðjendur eiga annríkt. Það getur verið þrautin þyngri að komast yfir allt sem þarf að gera, þannig að það er mikilvægt að skipuleggja sig vel. (1. Kor. 14:33, 40) Ef brautryðjandi á erfitt með að ná tímamarkmiðinu ætti hann að skoða vel í hvað tíminn fer hjá honum. (Ef. 5:15, 16) Hann gæti spurt sig: Hve mikinn tíma nota ég í afþreyingu og tómstundagaman? Þarf ég að sýna meiri sjálfsaga? Get ég breytt um vinnutíma? Allir þjónar Guðs vita að það er ósköp auðvelt að bæta við sig nýjum verkefnum. Brautryðjendur þurfa þess vegna að skoða málin reglulega og gera breytingar eftir þörfum.

13 Daglegur biblíulestur, sjálfsnám og hugleiðing ættu að vera fastir þættir í lífi brautryðjanda. Hann þarf þess vegna að aga sjálfan sig til að tíminn, sem ætlaður er til að sinna mikilvægu málunum, fari ekki í hluti sem skipta minna máli. (Fil. 1:10) Sjáðu hann fyrir þér þar sem hann kemur heim eftir langan dag í boðunarstarfinu. Hann ætlar að nota kvöldið til að búa sig undir samkomu. En fyrst les hann póstinn sinn. Síðan kveikir hann á tölvunni, les tölvupóstinn og svarar honum. Í framhaldinu fer hann á vefsíðu til að kanna hvort hlutur, sem hann langar til að kaupa, hafi lækkað í verði. Áður en hann veit af eru liðnir næstum tveir tímar og hann er enn ekki byrjaður að undirbúa sig fyrir samkomuna eins og hann ætlaði. Hvaða máli skiptir það? Atvinnumenn í íþróttum vita að þeir þurfa að hugsa vel um líkamann ef þeir ætla að eiga langan feril. Brautryðjendur þurfa sömuleiðis að næra sig reglulega með sjálfsnámi til að eiga langan og góðan feril sem brautryðjendur. – 1. Tím. 4:16.

14, 15. (a) Hvers vegna ættu brautryðjendur að lifa einföldu lífi? (b) Hvað ætti brautryðjandi að gera ef erfiðleikar verða á veginum?

14 Farsælir brautryðjendur kappkosta að lifa einföldu lífi. Jesús hvatti lærisveinana til þess að halda auganu heilu. (Matt. 6:22) Hann lifði sjálfur einföldu lífi til að geta helgað sig þjónustu sinni án truflunar. Hann gat réttilega sagt: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matt. 8:20) Brautryðjendur vilja líkja eftir Jesú og ættu að hafa hugfast að því meira sem þeir eiga af efnislegum hlutum, því meiru þurfa þeir að halda við, gera við eða endurnýja.

15 Brautryðjendur vita að það er ekki vegna eigin verðleika sem þeir fá að sinna starfi sínu heldur er það óverðskuldaðri gæsku Guðs að þakka eins og öll önnur verkefni sem þjónar hans fá. Hver einasti brautryðjandi þarf því að treysta á hjálp Jehóva til að halda áfram þjónustu sinni. (Fil. 4:13) Það verða ýmsir erfiðleikar á veginum. (Sálm. 34:20) Þegar það gerist ættu brautryðjendur að leita leiðsagnar Jehóva og gefa honum tækifæri til að rétta hjálparhönd í stað þess að gefa þetta sérstaka verkefni upp á bátinn í fljótræði. (Lestu Sálm 37:5.) Þegar þeir finna fyrir ást og umhyggju föðurins á himnum styrkir það böndin við hann. – Jes. 41:10.

GETUR ÞÚ GERST BRAUTRYÐJANDI?

16. Hvað ættirðu að gera ef þig langar til að gerast brautryðjandi?

16 Ef þig langar til að hljóta sömu blessun og brautryðjendurnir skaltu segja Jehóva frá því í bæn. (1. Jóh. 5:14, 15) Ræddu við brautryðjendur. Settu þér áfangamarkmið sem hjálpa þér að gerast brautryðjandi. Keith og Erika gerðu það. Þau höfðu verið í fullri vinnu og keypt sér hús og nýjan bíl skömmu eftir að þau giftust, rétt eins og algengt er hjá fólki á þeirra aldri. „Við héldum að þetta myndi veita okkur hamingju en reynslan varð önnur,“ segja þau. Keith gerðist aðstoðarbrautryðjandi eftir að honum var sagt upp í vinnunni. „Þegar ég var aðstoðarbrautryðjandi uppgötvaði ég að nýju gleðina sem fylgir því að boða fagnaðarerindið,“ segir hann. Þau hjónin vinguðust við brautryðjandahjón sem leiddu þeim fyrir sjónir hve ánægjulegt það sé að lifa einföldu lífi og vera brautryðjendur. Hvað gerðu Keith og Erika? „Við skrifuðum niður markmið okkar, settum blaðið á ísskápinn og hökuðum síðan við hvert markmið sem við náðum.“ Á endanum tókst þeim að gerast brautryðjendur.

17. Hvers vegna væri skynsamlegt af þér að íhuga hvort þú getir breytt aðstæðum þínum og gerst brautryðjandi?

17 Geturðu gerst brautryðjandi? Ef þú sérð ekki möguleika á því núna skaltu taka sem mestan þátt í boðuninni og gera allt sem þú getur til að styrkja tengslin við Jehóva. Eftir að hafa hugleitt aðstæður þínar og rætt málið við Jehóva í bæn má vera að þú getir gert nauðsynlegar breytingar á lífsstíl þínum eða öðru til að gerast brautryðjandi. Ef þér tekst það verður gleðin margfalt þyngri á metunum en fórnirnar sem þú færir. Þú hlýtur þá lífsfyllingu sem fylgir því að þjóna hagsmunum Guðsríkis frekar en þínum eigin og nýtur ánægjunnar af því að gefa. (Matt. 6:33) Auk þess færðu fleiri tækifæri til að hugsa um Jehóva og tala um hann. Þannig gleður þú hann og dýpkar kærleikann til hans.