Fögnum brúðkaupi lambsins
„Gleðjumst og fögnum ... því að komið er að brúðkaupi lambsins.“ – OPINB. 19:7.
1, 2. (a) Hvaða brúðkaup vekur mikinn fögnuð á himnum? (b) Hvaða spurningar vakna?
ÞAÐ tekur alltaf sinn tíma að undirbúa brúðkaup. Við ætlum nú að beina athygli okkar að afar sérstöku brúðkaupi. Þetta er konunglegt brúðkaup. Og hugsaðu þér, undirbúningurinn hefur staðið í um það bil 2.000 ár. En nú er stutt í að brúðguminn og brúðurin sameinist. Bráðlega ómar glaðleg tónlist um konungshöllina og himneskur kór syngur: „Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. Gleðjumst og fögnum og vegsömum hann því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.“ – Opinb. 19:6, 7.
2 ,Lambið‘, sem talað er um í þessum versum, er enginn annar en Jesús Kristur. (Jóh. 1:29) Brúðkaup hans vekur mikinn fögnuð á himnum. Hvernig er hann klæddur í brúðkaupinu? Hver er brúðurin? Hvernig hefur hún verið búin undir brúðkaupið? Hvenær fer það fram? Þetta brúðkaup vekur mikinn fögnuð á himnum en taka þeir sem eiga von um eilíft líf á jörð þátt í fögnuðinum? Við finnum svör við þessum spurningum þegar við höldum áfram að skoða Sálm 45.
,SKRÚÐI HANS ANGAR‘
3, 4. (a) Hvernig er brúðkaupsklæðum brúðgumans lýst og hvað eykur á gleði hans? (b) Hverjar eru ,konungsdæturnar‘ og „drottningin“ sem fagna með brúðgumanum?
3 Lestu Sálm 45:9, 10. Brúðguminn, Jesús Kristur, klæðist konunglegum brúðkaupsklæðum sínum. Klæðin ilma af ,ágætustu ilmjurtum‘ eins og myrru og kassíu en þær voru notaðar ásamt fleiri jurtum til að gera heilaga smurningarolíu sem notuð var í Ísrael. – 2. Mós. 30:23-25.
4 Himnesk tónlist ómar um konungshöllina og eykur á gleði brúðgumans þegar brúðkaupið nálgast. „Drottningin“ tekur þátt í fögnuðinum en þar er átt við himneskan hluta alheimssafnaðar Jehóva. Í þeim hópi eru „konungsdætur“, það er að segja heilagir englar. Hugsaðu þér að heyra raddir á himni segja: „Gleðjumst og fögnum ... því að komið er að brúðkaupi lambsins.“
BRÚÐURIN BÚIN UNDIR BRÚÐKAUPIÐ
5. Hver er ,eiginkona lambsins‘?
5 Lestu Sálm 45:11, 12. Við vitum hver brúðguminn er en hver er brúðurin? Hún táknar andasmurða kristna menn í heild en þeir eru 144.000. Jesús er höfuð þessa andasmurða safnaðar. (Lestu Efesusbréfið 5:23, 24.) Þeir eiga að ríkja með Kristi í Messíasarríkinu á himnum. (Lúk. 12:32) „Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer.“ (Opinb. 14:1-4) Þeir verða ,eiginkona lambsins‘ og búa með honum í himneskum bústað hans. – Opinb. 21:9; Jóh. 14:2, 3.
6. Hvers vegna eru hinir andasmurðu kallaðir „konungsdóttirin“ og hvers vegna er þeim sagt að ,gleyma þjóð sinni‘?
6 Brúðurin tilvonandi er ekki aðeins kölluð „dóttir“ heldur einnig „konungsdóttirin“. (Sálm. 45:14) Hver er þessi ,konungur‘? Það er Jehóva því að hann ættleiðir andasmurða kristna menn sem „börn“ sín. (Rómv. 8:15-17) Hinir andasmurðu eiga að verða brúður á himni og þeim er því sagt að ,gleyma þjóð sinni og föðurætt‘. Þeir eiga að hugsa um „það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er.“ – Kól. 3:1-4.
7. (a) Hvernig hefur Kristur búið tilvonandi brúði sína? (b) Hvernig lítur brúðurin á tilvonandi brúðguma sinn?
7 Kristur hefur öldum saman verið að búa brúði sína undir brúðkaupið á himnum. Páll postuli skrifaði: „Kristur elskaði kirkjuna [söfnuðinn] og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana til þess að helga hana með orðinu og hreinsa hana í vatnslauginni. Hann vildi leiða kirkjuna fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt slíkt. Heilög skyldi hún og lýtalaus.“ (Ef. 5:25-27) Páll skrifaði hinum andasmurðu í Korintu: „Ég vakti yfir ykkur með afbrýði eins og Guð því að ég hef fastnað ykkur einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.“ (2. Kor. 11:2) Konungurinn Jesús Kristur hrífst af andlegri „fegurð“ tilvonandi brúðar sinnar. Og brúðurin virðir hann sem „herra“ og lýtur honum sem tilvonandi eiginmanni.
BRÚÐURIN ER „LEIDD FYRIR KONUNG“
8. Hvers vegna er talað um að brúðurin sé „hlaðin skarti“?
8 Lestu Sálm 45:14, 15a. Brúðurin er „hlaðin skarti“ fyrir hið konunglega brúðkaup. Í Opinberunarbókinni 21:2 er henni líkt við borg, nýja Jerúsalem, og sagt að hún ,skarti fyrir manni sínum‘. Þessi himneska borg hefur „dýrð Guðs“ og ljómi hennar er „líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær“. (Opinb. 21:10, 11) Geislandi fegurð nýju Jerúsalem er fagurlega lýst í Opinberunarbókinni. (Opinb. 21:18-21) Það er engin furða að sálmaskáldið skuli komast svo að orði að hún sé „hlaðin skarti“. Það er ekki nema eðlilegt þegar um er að ræða konunglegt brúðkaup á himnum.
9. Hver er ,konungurinn‘ sem brúðurin er leidd fyrir og hvernig er hún klædd?
9 Brúðurin er leidd fyrir brúðgumann, konunginn Messías. Hann hefur undirbúið hana, ,helgað hana með orðinu og hreinsað hana í vatnslauginni‘. Hún er „heilög ... og lýtalaus“. (Ef. 5:26, 27) Brúðurin þarf líka að klæða sig á viðeigandi hátt fyrir brúðkaupið. Klæði hennar eru „ofin gulli“ og „í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung“. Henni hefur verið fengið „skínandi og hreint lín til að skrýðast í“ fyrir brúðkaup lambsins en „línklæðið er dygðir heilagra“. – Opinb. 19:8.
,KOMIÐ ER AÐ BRÚÐKAUPINU‘
10. Hvenær á brúðkaup lambsins að fara fram?
10 Lestu Opinberunarbókina 19:7. Hvenær fer brúðkaup lambsins fram? Brúðurin hefur „búið sig“ fyrir brúðkaupið en það sem segir í framhaldinu er ekki lýsing á sjálfu brúðkaupinu heldur á síðasta hluta þrengingarinnar miklu. (Opinb. 19:11-21) Fer brúðkaupið þá fram áður en konungurinn vinnur fullnaðarsigur? Nei. Sýnir Opinberunarbókarinnar eru ekki settar fram í tímaröð. Í Sálmi 45 er brúðkaupið haldið eftir að konungurinn Jesús Kristur gyrðist sverði og ,sækir sigursæll fram‘ gegn óvinum sínum. – Sálm. 45:4, 5.
11. Hvernig vinnur Kristur fullnaðarsigur?
11 Við getum því ályktað sem svo að atburðarásin verði á þessa leið: Fyrst er dómi fullnægt yfir „skækjunni miklu“, Babýlon hinni miklu, en hún táknar falstrúarbrögðin í heild sinni. (Opinb. 17:1, 5, 16, 17; 19:1, 2) Því næst fullnægir Kristur dómi yfir því sem eftir er af illum heimi Satans á jörð. Hann eyðir honum í ,stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem nefnt er Harmagedón. (Opinb. 16:14-16; 19:19-21) Að síðustu fullnar konungurinn sigurinn með því að fjötra Satan og illu andana í undirdjúpi þar sem þeir geta ekkert aðhafst. Það er engu líkara en þeir séu dauðir. – Opinb. 20:1-3.
12, 13. (a) Hvenær fer brúðkaup lambsins fram? (b) Hverjir fagna brúðkaupi lambsins á himnum?
12 Þegar andasmurðir kristnir menn deyja trúfastir á síðustu dögum eru þeir reistir upp til himna. Einhvern tíma eftir að Babýlon hinni miklu er eytt kallar Jesús til sín þá sem eftir eru af brúði hans á jörð. (1. Þess. 4:16, 17) Áður en stríðið við Harmagedón hefst verða allir þeir sem mynda brúði hans komnir til himna. Brúðkaup lambsins getur síðan farið fram eftir þetta stríð. Það verður mikil gleðistund. „Sælir eru þeir sem boðið er í brúðkaupsveislu lambsins,“ segir í Opinberunarbókinni 19:9. Þau 144.000, sem tilheyra brúði Krists, verða sannarlega sæl. Og það verður mikið fagnaðarefni fyrir konunginn að hafa alla andasmurða félaga sína hjá sér þannig að þeir geti í táknrænni merkingu ,etið og drukkið við borð hans í ríki hans‘. (Lúk. 22:18, 28-30) En það eru ekki aðeins brúðguminn og brúðurin sem gleðjast yfir brúðkaupinu.
13 Eins og áður hefur komið fram er sungið einum rómi á himnum: „Gleðjumst og fögnum og vegsömum hann [Jehóva] því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.“ (Opinb. 19:6, 7) En hvað um þjóna Jehóva á jörð? Taka þeir líka þátt í fögnuðinum?
„ÞÆR ERU LEIDDAR INN MEÐ FÖGNUÐI“
14. Hverja tákna ,meyjarnar‘ sem nefndar eru í Sálmi 45:15?
14 Lestu Sálm 45:13, 15b, 16. Sakaría spámaður boðaði að á síðustu dögum myndi fólk af þjóðunum fagna því að þjóna Jehóva með þeim sem eru eftir af hinum andlega Ísrael á jörðinni. Hann skrifaði: „Á þeim dögum munu tíu menn af öllum þjóðtungum grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ (Sak. 8:23) Í Sálmi 45:13 eru þessir táknrænu „tíu menn“ kallaðir „dóttirin Týrus“ og „auðmenn þjóðarinnar“. Þeir færa hinum andasmurðu gjafir og ,leita hylli þeirra‘ og hjálpar í þjónustu Jehóva. Frá 1935 hafa hinir andasmurðu ,beint milljónum manna til réttlætis‘. (Dan. 12:3) Þessir trúföstu félagar hinna andasmurðu hafa hreinsað sig og er þess vegna líkt við meyjar. Þessar „vinkonur“ brúðarinnar hafa vígst Jehóva og eru dyggir þegnar konungsins Jesú Krists.
15. Hvernig hafa ,meyjarnar‘ starfað með þeim sem eru eftir af brúði Krists á jörðinni?
15 Þeir sem tilheyra brúði Krists og eru enn á jörð eru ákaflega þakklátir þessum ,meyjum‘ fyrir hjálp þeirra við að boða „fagnaðarerindið um ríkið“ út um allan heim. (Matt. 24:14) „Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘“ og þeir sem heyra segja sömuleiðis: „Kom þú!“ (Opinb. 22:17) ,Aðrir sauðir‘ hafa heyrt hina andasmurðu segja: „Kom þú!“ og hafa tekið undir með þeim og boðið fólki um heim allan að koma. – Jóh. 10:16.
16. Hvaða heiður sýnir Jehóva öðrum sauðum?
16 Þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu á jörðinni elska félaga sína, aðra sauði. Það gleður þá að Jehóva, faðir brúðgumans, skuli sýna félögum þeirra á jörðinni þann heiður að bjóða þeim að taka þátt í fögnuðinum sem fylgir brúðkaupi lambsins á himnum. Sagt var fyrir að ,meyjarnar‘ yrðu „leiddar inn með fögnuði og gleði“. Aðrir sauðir, sem vonast eftir eilífu lífi á jörð, gleðjast með öllum alheimi þegar brúðkaup lambsins fer fram á himnum. Í Opinberunarbókinni er sagt frá sýn þar sem ,múgurinn mikli‘ stendur „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu“ og þjónar Jehóva í jarðneskum forgarði hins mikla musteris hans. – Opinb. 7:9, 15.
„Í STAÐ FEÐRA ÞINNA KOMA SYNIR ÞÍNIR“
17, 18. Hver verður ávöxturinn af brúðkaupi lambsins Jesú Krists og hverjum verður hann faðir í þúsundáraríkinu?
17 Lestu Sálm 45:17. „Vinkonur“ brúðar Krists á himnum hafa enn ríkari ástæðu til að gleðjast og fagna þegar þær sjá ávöxtinn af brúðkaupinu í nýja heiminum. Konungurinn Jesús Kristur reisir þá jarðneska ,feður‘ sína upp frá dauðum og þeir verða þar með „synir“ hans. (Jóh. 5:25-29; Hebr. 11:35) Hann gerir marga þeirra að „höfðingjum um land allt“, það er að segja um allan heim. Vafalaust felur Kristur líka sumum dyggum safnaðaröldungum, sem nú eru uppi, að fara með forystu í nýja heiminum. – Jes. 32:1.
18 Kristur verður faðir fleira fólks í þúsundáraríkinu. Allir jarðarbúar, sem hljóta eilíft líf, verða börn hans vegna þess að þeir trúa á lausnarfórn hans. (Jóh. 3:16) Hann verður þar með „eilífðarfaðir“ þeirra. – Jes. 9:5, 6.
VIÐ VILJUM ,LOFA NAFN HANS‘
19, 20. Hvaða áhrif hafa þeir hrífandi atburðir, sem lýst er í Sálmi 45, á alla sannkristna menn?
19 Lestu Sálm 45:2, 18. Allir kristnir menn ættu að hafa áhuga á þeim atburðum sem sagt er frá í Sálmi 45. Hinir andasmurðu, sem eru enn á jörð, eru gagnteknir af þeirri tilhugsun að sameinast bráðlega bræðrum sínum og brúðguma á himnum. Aðrir sauðir eru enn ákveðnari í að vera undirgefnir dýrlegum konungi sínum og eru þakklátir fyrir að mega vera félagar þeirra sem eru eftir af brúði Krists á jörð. Að brúðkaupinu loknu eiga Kristur og brúður hans eftir að veita jarðarbúum ómælda blessun. – Opinb. 7:17; 21:1-4.
20 Langar okkur ekki til að „lofa nafn“ konungsins Messíasar þegar við hugsum til þess hvernig spádómarnir um hann eiga eftir að rætast? Við skulum vera staðráðin í að vegsama konunginn „um aldur og ævi“.