Þú skalt elska Jehóva, Guð þinn
„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ – MATT. 22:37.
1. Hvers vegna þótti Guði og syni hans sífellt vænna hvor um annan?
„ÉG ELSKA föðurinn,“ sagði Jesús Kristur, sonur Jehóva. (Jóh. 14:31) „Faðirinn elskar soninn,“ sagði hann enn fremur. (Jóh. 5:20) Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að Jesús var „með í ráðum við hlið honum“ frá örófi alda. (Orðskv. 8:30) Sonurinn kynntist eiginleikum föðurins vel þegar hann vann með honum og hafði óteljandi ástæður til að elska hann. Náið samstarf þeirra hlýtur að hafa haft þau áhrif að þeim þótti sífellt vænna hvor um annan.
2. (a) Hvað merkir það að elska? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?
2 Að elska einhvern merkir að þykja ákaflega vænt um hann. „Ég elska þig, Drottinn, styrkur minn,“ söng sálmaskáldið Davíð. (Sálm. 18:2) Við ættum að bera þannig tilfinningu til Guðs vegna þess að honum þykir vænt um okkur. Hann elskar okkur ef við hlýðum honum. (Lestu 5. Mósebók 7:12, 13.) En getum við elskað Guð þar sem við sjáum hann ekki? Hvað merkir það að elska Jehóva? Hvers vegna ættum við að elska hann? Og hvernig getum við sýnt að við elskum hann?
HVERS VEGNA GETUM VIÐ ELSKAÐ GUÐ?
3, 4. Hvers vegna getum við elskað Jehóva?
3 „Guð er andi“ þannig að við getum ekki séð hann. (Jóh. 4:24) Við getum samt elskað hann og í Biblíunni er okkur sagt að gera það. Móse sagði til dæmis Ísraelsmönnum: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ – 5. Mós. 6:5.
4 Hvers vegna getum við elskað Guð? Vegna þess að hann áskapaði okkur andlegar þarfir og gerði okkur þannig úr garði að við gætum elskað. Þegar við fullnægjum andlegu þörfunum styrkjast kærleiksböndin við Jehóva og við höfum góðan grundvöll til að vera hamingjusöm. Jesús sagði: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína því að himnaríki tilheyrir þeim.“ (Matt. 5:3, NW) Oft er talað um að mennirnir hafi meðfædda trúarþörf. Í bók einni segir: „Almenn leit mannsins að Guði og trú á æðri máttarvöld ætti að vekja með okkur lotningu, undrun og djúpa virðingu.“ – A. C. Morrison. Man Does Not Stand Alone.
5. Hvernig vitum við að það er ekki til einskis að leita Guðs?
5 Er það til einhvers að leita Guðs? Já, því að hann vill að við finnum sig. Páll postuli tók það skýrt fram þegar hann vitnaði fyrir hópi fólks sem hafði safnast saman á Aresarhæð. Hún er í sjónmáli við Meyjarhofið sem helgað var gyðjunni Aþenu, verndargyðju samnefndrar borgar. Ímyndaðu þér að þú sért á staðnum. Þú heyrir Pál segja að „Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er“ búi ekki „í musterum sem með höndum eru gerð“. Páll heldur áfram og segir um Guð: „Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi að þær leituðu Guðs ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ (Post. 17:24-27) Já, það er hægt að finna Guð. Meira en sjö og hálf milljón votta Jehóva hafa fundið hann – og þeir elska hann.
HVAÐ MERKIR ÞAÐ AÐ ELSKA GUÐ?
6. Hvert sagði Jesús vera „hið æðsta og fremsta boðorð“?
6 Kærleikur okkar til Jehóva ætti að eiga sér rætur í hjartanu. Jesús tók það fram þegar farísei spurði: „,Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?‘ Jesús svaraði honum: ,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.‘“ – Matt. 22:34-38.
7. Hvað merkir það að elska Guð af (a) „öllu hjarta“? (b) „allri sálu“? (c) „öllum huga“?
7 Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að við ættum að elska Guð af „öllu hjarta“? Hann átti þá við hið táknræna hjarta okkar sem hefur sterk áhrif á langanir okkar og tilfinningar. Við eigum að elska Guð af „allri sálu“, það er að segja lífi okkar og tilveru. Og við eigum líka að elska Jehóva af „öllum huga“ okkar eða vitsmunum. Við eigum sem sagt að elska Jehóva skilyrðislaust.
8. Hvað gerum við ef við elskum Guð af öllu hjarta, sálu og huga?
8 Ef við elskum Guð af öllu hjarta, sálu og huga verðum við duglegir biblíunemendur, þjónum vilja hans af heilum hug og erum ötul að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Matt. 24:14; Rómv. 12:1, 2) Ef við elskum Jehóva styrkjum við sífellt tengslin við hann. (Jak. 4:8) Það er auðvitað ekki hægt að tíunda allt sem veldur því að við ættum að elska Guð. Við skulum þó líta á nokkur atriði.
HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ ELSKA JEHÓVA?
9. Hvað gerir Jehóva sem er góð og gild ástæða til að elska hann?
9 Jehóva skapaði okkur og sér fyrir okkur. „Í honum lifum, hrærumst og erum við,“ sagði Páll. (Post. 17:28) Jehóva hefur gefið okkur frábært heimili – jörðina. (Sálm. 115:16) Hann sér okkur líka fyrir fæðu og öllu öðru sem við þurfum til að viðhalda lífi okkar. Íbúar Lýstru til forna dýrkuðu skurðgoð en Páll sagði þeim frá ,lifanda Guði‘ og bætti við: „Hann [hefur] vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt ykkur fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ (Post. 14:15-17) Er það ekki góð og gild ástæða til að elska skaparann sem sér fyrir okkur? – Préd. 12:1.
10. Hvernig ættum við að bregðast við því að Guð skuli ætla að losa okkur við synd og dauða?
10 Guð hefur gert ráðstafanir til að losa okkur við syndina og dauðann sem við erfðum frá Adam. (Rómv. 5:12) „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:8) Það vekur vafalaust með okkur djúpan kærleika til Jehóva að hann skuli vera tilbúinn til að fyrirgefa syndir okkar ef við iðrumst og trúum á lausnarfórn Jesú. – Jóh. 3:16.
11, 12. Hvaða von hefur Jehóva veitt okkur?
11 Jehóva ,veitir okkur von og fyllir okkur fögnuði og friði‘. (Rómv. 15:13) Vonin, sem hann veitir, gerir okkur kleift að standast prófraunir sem reyna á trú okkar. Hinir andasmurðu, sem eru ,trúir allt til dauða, hljóta kórónu lífsins‘ á himnum. (Opinb. 2:10) Ráðvandir þjónar Guðs, sem hafa jarðneska von, eiga í vændum eilífa blessun í paradís sem verður um allan heim. (Lúk. 23:43) Hver eru eðlileg viðbrögð okkar við því að eiga slíka von? Fyllumst við ekki gleði, friði og kærleika til Guðs sem gefur ,sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu‘? – Jak. 1:17.
12 Guð hefur gefið okkur vonina um upprisu. (Post. 24:15) Við syrgjum auðvitað þegar við missum ástvin en þar sem við höfum vonina um upprisu erum við „ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von“. (1. Þess. 4:13) Jehóva Guð elskar mennina og þráir að reisa þá upp frá dauðum, ekki síst trúfasta menn eins og Job. (Job. 14:15) Hugsaðu þér hve gleðilegir endurfundirnir verða þegar fólk tekur á móti ástvinum sínum upprisnum hér á jörð. Við getum ekki annað en elskað föðurinn á himnum fyrir að gefa okkur þessa stórkostlegu von um upprisu.
13. Hvernig sjáum við að Guði er ákaflega annt um okkur?
13 Jehóva er ákaflega annt um okkur. (Lestu Sálm 34:7, 19, 20; 1. Pétursbréf 5:6, 7.) Við finnum að við erum óhult vegna þess að við erum „gæsluhjörð“ Jehóva og hann er alltaf reiðubúinn að liðsinna þeim sem eru honum trúir. (Sálm. 79:13) Og kærleikur hans til okkar á eftir að sýna sig í öllu því sem ríki Messíasar á eftir að gera fyrir okkur. Eftir að konungurinn Jesús Kristur útrýmir ofbeldi, kúgun og illsku á jörð fá þeir sem hlýða Guði að búa við varanlegan frið og velsæld. (Sálm. 72:7, 12-14, 16) Finnst þér ekki þessar framtíðarhorfur vera tilefni til að elska Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti? – Lúk. 10:27.
14. Hvaða ómetanlega heiður hefur Jehóva sýnt okkur?
14 Jehóva hefur sýnt okkur þann ómetanlega heiður að leyfa okkur að vera vottar sínir. (Jes. 43:10-12) Við elskum Guð vegna þess að hann gefur okkur tækifæri til að styðja drottinvald sitt og færa fólki von í þessum hrjáða heimi. Við getum talað af trú og sannfæringu vegna þess að við boðum gleðifréttir sem byggjast á orði hins sanna Guðs. Og loforð hans bregðast aldrei. (Lestu Jósúabók 21:45; 23:14.) Við gætum haldið áfram og talið upp ótal fleiri ástæður til að elska Jehóva. En hvernig getum við sýnt að við elskum hann?
HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT AÐ VIÐ ELSKUM GUÐ?
15. Hvernig getur það hjálpað okkur að lesa orð Guðs og fara eftir því?
15 Verum dugleg að lesa orð Guðs og fara eftir því. Þannig sýnum við að við elskum Jehóva og viljum að orð hans sé ,ljós á vegum okkar‘. (Sálm. 119:105) Þegar þjáningar og erfiðleikar verða á vegi okkar getum við sótt hughreystingu í orð eins og þessi: „Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ „Þá styður mig miskunn þín, Drottinn. Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ (Sálm. 51:19; 94:18, 19) Jehóva sýnir þeim miskunn sem þjást, og Jesús kennir líka í brjósti um fólk. (Jes. 49:13; Matt. 15:32) Þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna finnum við svo sterkt fyrir umhyggju Jehóva að það vekur djúpan kærleika til hans í brjósti okkar.
16. Hvernig vex kærleikur okkar til Guðs ef við biðjum oft til hans?
16 Biðjum oft til Guðs. Við styrkjum böndin við Guð með því að biðja til hans. (Sálm. 65:3) Þegar við finnum að Guð bænheyrir okkur elskum við hann enn heitar. Við höfum kannski kynnst af eigin raun að hann leyfir ekki að við séum reynd um megn fram. (1. Kor. 10:13) Þegar við erum áhyggjufull og leitum til Jehóva í einlægri bæn er ekki ólíklegt að óviðjafnanlegur „friður Guðs“ komi yfir okkur. (Fil. 4:6, 7) Við getum farið með hljóða bæn eins og Nehemía gerði og komist að raun um að Jehóva verður við henni. (Neh. 2:1-6) Kærleikur okkar til Jehóva vex vafalaust ef við erum „staðföst í bæninni“ og finnum að hann bænheyrir okkur. Við sannfærumst um að Jehóva hjálpar okkur að standast þær prófraunir sem verða á vegi okkar. – Rómv. 12:12.
17. Hvernig lítum við á samkomurnar ef við elskum Jehóva?
17 Venjum okkur á að sækja safnaðarsamkomur og mót. (Hebr. 10:24, 25) Ísraelsmenn söfnuðust saman til að hlusta og læra um Jehóva, til að bera lotningu fyrir honum og fylgja lögum hans. (5. Mós. 31:12) Það er engin byrði að gera vilja Guðs ef við elskum hann. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Gerum okkar ýtrasta til að sækja allar samkomur. Við viljum ekki láta neitt verða til þess að við föllum frá okkar „fyrri kærleik“ til Jehóva. – Opinb. 2:4.
18. Hvað gerum við vegna þess að við elskum Guð?
18 Höfum brennandi áhuga á að segja frá ,sannleika fagnaðarerindisins‘. (Gal. 2:5, Biblían 1981) Kærleikurinn til Guðs er okkur hvatning til að tala um ríki sonar hans, Messíasar, en hann á að sækja „sigursæll fram í þágu sannleika“ í Harmagedón. (Sálm. 45:5; Opinb. 16:14, 16) Það er ákaflega ánægjulegt að kenna nýjum lærisveinum og fræða þá um kærleika Guðs og nýja heiminn sem hann hefur lofað. – Matt. 28:19, 20.
19. Hvers vegna eigum við að vera þakklát fyrir öldungana sem gæta hjarðarinnar?
19 Verum þakklát fyrir að Jehóva skuli láta gæta hjarðarinnar. (Post. 20:28) Jehóva lætur sér alltaf annt um hagi okkar og það er hann sem sér okkur fyrir safnaðaröldungunum. Öldungarnir eru „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum eins og vatnslækir í þurrlendi, skuggi af háum hamri í skrælnuðu landi“. (Jes. 32:1, 2) Það er ómetanlegt að komast í skjól fyrir stormi og kalsarigningu. Og það getur verið gott að skýla sér fyrir brennandi sólinni í skugga af hamri. Þetta líkingamál lýsir vel hvernig öldungarnir geta hvatt okkur og hjálpað til að halda áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir erfiðleika lífsins. Þeir eru eins og „gjafir“ til safnaðarins, og með því að hlýða þeim sýnum við hve mikils við metum þá sem fara með forystuna og hve heitt við elskum Guð og Krist, höfuð safnaðarins. – Ef. 4:8; 5:23; Hebr. 13:17.
LÁTTU KÆRLEIKANN TIL GUÐS VAXA
20. Hvað gerir þú í samræmi við Jakobsbréfið 1:22-25 ef þú elskar Guð?
20 Ef þú átt náið samband við Jehóva verður þú ,gerandi orðsins, ekki aðeins heyrandi þess‘. (Lestu Jakobsbréfið 1:22-25.) ,Gerandi orðsins‘ hefur trú sem leiðir til verka eins og þess að boða fagnaðarerindið af kappi og að taka þátt í samkomunum. Þar sem þú elskar Guð hlýðir þú ,lýtalausu lögmáli‘ hans og það nær yfir allt sem hann ætlast til af þér. – Sálm. 19:8-12.
21. Við hvað má líkja innilegum bænum okkar?
21 Við leitum oft til Guðs í innilegri bæn vegna þess að við elskum hann. Sálmaskáldið Davíð líkti bænum við reykelsisfórnir sem færðar voru daglega meðan lagasáttmálinn var í gildi. Hann söng: „Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt [Jehóva] og upplyfting handa minna sem kvöldfórn.“ (Sálm. 141:2; 2. Mós. 30:7, 8) Megi einlægar bænir okkar, lofgerð og innilegar þakkir vera eins og sætur reykelsisilmur sem Jehóva hefur velþóknun á. – Opinb. 5:8.
22. Um hvaða kærleika ræðum við næst?
22 Jesús sagði að við ættum bæði að elska Guð og náungann. (Matt. 22:37-39) Ef við elskum Jehóva og meginreglur hans hjálpar það okkur að eiga góð samskipti við aðra menn og sýna náunganum kærleika. Um það er rætt í næstu grein.