ÚR SÖGUSAFNINU
„Evreka-sýningin“ var mörgum hjálp til að finna sannleika Biblíunnar
„EVREKA!“ Orðið merkir „ég hef fundið það“. Í gullæði 19. aldar í Kaliforníu mátti heyra menn kalla þetta þegar þeir fundu gull. En Charles Taze Russell og aðrir biblíunemendur höfðu fundið annan fjársjóð sem var miklu verðmætari – sannleika Biblíunnar. Og þeir voru óðfúsir að segja öðrum frá.
Sumarið 1914 voru milljónir manna í mörgum stórborgum heims búnar að sjá „Sköpunarsöguna í myndum“ en það var átta stunda sögusýning sem Alþjóðasamtök biblíunemenda höfðu látið gera. Þar var biblíusagan rakin frá sköpun heimsins allt til loka þúsundáraríkis Jesú Krists. Sýningin var blanda af heillandi kvikmyndum og litskyggnum ásamt hljóðritaðri frásögn og fallegri sígildri tónlist. – Opinb. 20:4. *
En hvað um þá sem bjuggu í smærri bæjum og sveitum? Biblíunemendurnir létu gera „Evreka-sýninguna“ í ágúst 1914 til að enginn, sem hungraði eftir sannleikanum, missti af kennslunni. „Evreka-sýningin“ var handhæg gerð „Sköpunarsögunnar“ að undanskildum kvikmyndunum. Hægt var að velja um þrjár útgáfur á allmörgum tungumálum. „Evreka-X“ var með hljóðrituðu frásögninni ásamt tónlist. „Evreka-Y“ var auk þess með fallegum litskyggnum. Og „Evreka-fjölskyldusýningin“ var ætluð til sýningar á einkaheimilum. Í henni voru valdir kaflar frásögunnar ásamt sálmum. Einnig var hægt að fá ódýra grammófóna og sýningarvélar.
Þar sem ekki þurfti kvikmyndasýningarvél eða stórt sýningartjald gátu biblíunemendurnir farið með þessa ókeypis sýningu út um sveitir og komið boðskapnum um Guðsríki á framfæri á nýjum slóðum. Hægt var að flytja X-útgáfuna hvort sem var að degi til eða kvöldi þar sem einungis var um hljóð að ræða. Sýningarvélin, sem fylgdi Y-útgáfunni, þurfti ekki rafmagn heldur var hægt að nota karbíðlampa. „Við getum sýnt þessar myndir næstum hvar sem er,“ sagði í greinargerð í finnska Varðturninum. Það var hverju orði sannara.
Í stað þess að leigja stór leikhús tókst úrræðagóðum biblíunemendum oft að finna ókeypis húsakynni, svo sem skólastofur, dómshús,
járnbrautarstöðvar og jafnvel stofur á stórum heimilum. Oft var sýnt úti undir beru lofti og „sýningartjaldið“ var gert úr stóru hvítu laki sem hengt var á hlöðuvegg. Anthony Hambuch segir svo frá: „Bændur settu upp sýningarrými í garðinum heima. Þeir röðuðu upp bjálkum þar sem fólk gat setið og notið sýningarinnar.“ Hópurinn, sem hann tilheyrði, notaði hestakerru til að flytja sýningarbúnaðinn, farangur, viðlegubúnað og eldunaráhöld.Sýningargestir voru mismargir, stundum fáeinir en oft skiptu þeir hundruðum. Í Bandaríkunum voru 400 manns viðstaddir sýningu í skóla í 150 manna bæ. Dæmi voru um að fólk gengi átta kílómetra hvora leið til að sjá sýninguna. Nágrannar Charlotte Ahlberg í Svíþjóð söfnuðust saman í litla húsinu hennar og voru „djúpt snortnir“ þegar þeir hlustuðu á hljómplöturnar. Um 1.500 manns sóttu eina sýningu í afskekktum námabæ í Ástralíu. Í Varðturninum segir frá því að í framhaldsskólum og háskólum séu „nemendur og prófessorar heillaðir af myndunum og hljómplötunum“. „Evreka-sýningin“ var líka vel sótt á stöðum þar sem voru kvikmyndahús.
FRÆKORNUM SANNLEIKANS SÁÐ
„Evreka-sýningin“ kom að ágætum notum þegar söfnuðir Biblíunemendanna sendu út ræðumenn til að stofna nýja námshópa. Ekki er vitað með vissu hve margir sáu sýninguna en mörg sett voru í stöðugri notkun. Árið 1915 bárust aðeins reglulegar skýrslur frá 14 teymum af 86 sem sáu um sýningar. Í ársyfirlitinu er harmað að tölur séu ekki tæmandi en þó segir að yfir ein milljón hafi séð sýninguna. Um 30.000 gestir höfðu beðið um að fá biblíutengd rit.
„Evreka-sýningin“ skildi ekki eftir sig mörg merki á spjöldum sögunnar. Milljónir manna munu þó hafa séð þessa einstöku sýningu allt frá Ástralíu til Argentínu, og frá Suður-Afríku til Bretlandseyja, Indlands og eyja Karíbahafsins. Margir þeirra fundu sannleika Biblíunnar – sem er miklu verðmæti en gull – og gátu þá hrópað: „Evreka!“
^ Sjá „Úr sögusafninu – stórbrotin sýning fyrir 100 árum“ í Varðturninum 15. febrúar 2014, bls. 30-32.