Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Heyrið og skiljið‘

,Heyrið og skiljið‘

„Heyrið mig öll og skiljið.“ – MARK. 7:14.

1, 2. Hvers vegna skildu margir áheyrendur Jesú ekki það sem hann kenndi?

 ÞÚ HEYRIR að maður er að tala við þig. Þú tekur jafnvel eftir raddblænum. En hvaða gagn hefurðu af því sem hann segir ef þú skilur ekki orðin? (1. Kor. 14:9) Þúsundir manna heyrðu það sem Jesús sagði. Hann talaði jafnvel til fólks á máli sem það skildi. En það skildu ekki allir hvað hann átti við. Þess vegna sagði Jesús áheyrendum sínum: „Heyrið mig öll og skiljið.“ – Mark. 7:14.

2 Hvers vegna skildu margir ekki merkingu þess sem Jesús sagði? Sumir voru með fyrir fram ákveðnar hugmyndir og hvatir þeirra voru rangar. Jesús sagði við þá: „Listavel gerið þið að engu boðorð Guðs svo þið getið rækt erfikenning ykkar.“ (Mark. 7:9) Þetta fólk reyndi í rauninni ekki að skilja það sem hann kenndi. Það vildi ekki breyta háttum sínum og skoðunum. Eyrun voru að vísu opin en hjartað var harðlokað. (Lestu Matteus 13:13-15.) Hvað getum við gert til að tryggja að við séum með móttækilegt hjarta þannig að við njótum góðs af því sem Jesús kenndi?

AÐ NJÓTA GÓÐS AF KENNSLU JESÚ

3. Hvers vegna gátu lærisveinarnir skilið það sem Jesús kenndi?

3 Við þurfum að líkja eftir auðmjúkum lærisveinum Jesú. Hann sagði við þá: „Sæl eru augu ykkar af því að þau sjá og eyru ykkar af því að þau heyra.“ (Matt. 13:16) Hvers vegna gátu þeir skilið það sem hinir skildu ekki? Í fyrsta lagi vegna þess að þeir voru fúsir til að spyrja spurninga og leita eftir raunverulegri merkingu þess sem Jesús sagði. (Matt. 13:36; Mark. 7:17) Í öðru lagi voru þeir tilbúnir til að byggja á því sem þeir höfðu þegar tekið við í hjörtum sér. (Lestu Matteus 13:11, 12.) Í þriðja lagi voru þeir fúsir til að nota það sem þeir höfðu heyrt og skilið, bæði í eigin lífi og til að hjálpa öðrum. – Matt. 13:51, 52.

4. Hvað þrennt þurfum við að gera til að skilja dæmisögur Jesú?

4 Til að skilja dæmisögur Jesú þurfum við að líkja eftir trúum lærisveinum hans. Við þurfum að gera þrennt. Í fyrsta lagi þurfum við að gefa okkur tíma til að lesa og hugleiða það sem Jesús kenndi, lesa okkur til eftir þörfum og spyrja viðeigandi spurninga. Það leiðir til þekkingar. (Orðskv. 2:4, 5) Því næst þurfum við að kanna hvernig þessi þekking tengist því sem við vitum fyrir og átta okkur á hvaða gildi hún hafi fyrir okkur. Það veitir okkur skilning. (Orðskv. 2:2, 3) Að síðustu ættum við að nota það sem við höfum lært – hrinda því í framkvæmd í lífi okkar. Það ber vitni um visku. – Orðskv. 2:6, 7.

5. Lýstu muninum á þekkingu, skilningi og visku.

5 Hver er munurinn á þekkingu, skilningi og visku? Það má lýsa honum þannig: Ímyndaðu þér að þú standir á miðri götu og strætisvagn komi æðandi í áttina til þín. Fyrst áttarðu þig á að þetta er strætisvagn – það er þekking. Næst gerirðu þér grein fyrir að ef þú stendur þarna áfram verður þú fyrir vagninum – það er skilningur. Þú forðar þér þess vegna í snatri af götunni – það er viska. Það er skiljanlegt að Biblían skuli hvetja okkur til að ,varðveita visku‘. Líf okkar er í húfi. – Orðskv. 3:21, 22; 1. Tím. 4:16.

6. Hvaða fjögurra spurninga spyrjum við þegar við skoðum sjö dæmisögur Jesú? (Sjá texta við  meðfylgjandi mynd.)

6 Við skoðum sjö dæmisögur Jesú í þessari grein og þeirri næstu og leitum svara við eftirfarandi spurningum: Hvað merkir dæmisagan? (Það veitir okkur þekkingu.) Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu? (Það veitir okkur skilning.) Hvaða gagn höfum við sjálf af þessum upplýsingum og hvernig getum við notað þær til að hjálpa öðrum? (Það er viska.) Að síðustu spyrjum við hvað við lærum um Jehóva og Jesú af dæmisögunum.

MUSTARÐSKORNIÐ

7. Hvað merkir dæmisagan um mustarðskornið?

7 Lestu Matteus 13:31, 32. Hvað merkir dæmisaga Jesú um mustarðskornið? Kornið sjálft táknar fagnaðarerindið um ríkið og kristna söfnuðinn sem varð til vegna boðunarinnar. Mustarðskornið er ,smæst allra sáðkorna‘ og kristni söfnuðurinn var líka ósköp smár í upphafi, árið 33. En hann stækkaði ört á fáeinum áratugum. Vöxturinn var framar öllum vonum. (Kól. 1:23) Þessi vöxtur var til góðs. Jesús segir að „fuglar himins“ hafi getað ,hreiðrað sig í greinum trésins‘. Fuglarnir tákna hjartahreint fólk sem finnur andlega fæðu, skjól og athvarf í kristna söfnuðinum. – Samanber Esekíel 17:23.

8. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um mustarðskornið?

8 Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu? Hann notaði ótrúlegan vaxtarmátt mustarðskornsins til að lýsa hvernig ríki Guðs getur vaxið og verndað, og hvernig það getur rutt öllum hindrunum úr vegi. Kristni söfnuðurinn hefur vaxið hreint ótrúlega síðan 1914. (Jes. 60:22) Þeir sem tilheyra þessum söfnuði hafa notið andlegrar verndar sem er óviðjafnanleg. (Orðskv. 2:7; Jes. 32:1, 2) Söfnuðurinn hefur vaxið jafnt og þétt og vöxturinn hefur verið óstöðvandi þrátt fyrir andstöðu af ýmsu tagi. – Jes. 54:17.

9. (a) Hvað getum við lært af dæmisögunni um mustarðskornið? (b) Hvað lærum við af þessu um Jehóva og Jesú?

9 Hvað getum við lært af dæmisögunni um mustarðskornið? Við búum kannski á svæði þar sem vottar eru fáir eða viðbrögð eru dræm þegar við boðum fagnaðarerindið. En ef við höfum hugfast að ríki Jehóva getur rutt öllum hindrunum úr vegi fáum við styrk til að halda áfram. Tökum dæmi. Þegar bróðir Edwin Skinner kom til Indlands árið 1926 voru aðeins fáeinir vottar í landinu. Árangurinn var ekki mikill í fyrstu og talað var um að starfið „gengi treglega“. En Skinner missti ekki móðinn og sá fagnaðarerindið fá framgang þótt mörg ljón væru í veginum. Núna eru næstum 37.000 starfandi vottar á Indlandi og meira en 108.000 sóttu minningarhátíðina á síðasta ári. Við skulum líta á annað dæmi sem sýnir hve vöxturinn getur verið stórkostlegur. Boðunin var aðeins nýlega hafin í Sambíu um það leyti sem bróðir Skinner kom til Indlands. Núna eru rúmlega 170.000 boðberar þar í landi og 763.915 sóttu minningarhátíðina árið 2013. Það þýðir að 1 af hverjum 18 Sambíumönnum var viðstaddur. Hvílíkur vöxtur!

SÚRDEIGIÐ

10. Hvað merkir dæmisagan um súrdeigið?

10 Lestu Matteus 13:33. Hvað merkir dæmisagan um súrdeigið? Þessi dæmisaga fjallar einnig um fagnaðarerindið um ríkið og áhrif þess. Mjölið í heild táknar allar þjóðir og gerjunin táknar hvernig boðskapurinn breiðist út þegar fagnaðarerindið er boðað. Vöxtur mustarðskornsins er augljós en gerjunin í deiginu sést ekki í byrjun. Áhrifin koma ekki í ljós fyrr en nokkru síðar.

11. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um súrdeigið?

11 Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu? Hann var að sýna fram á að fagnaðarerindið um ríkið búi yfir krafti til að gegnsýra og valda breytingum. Boðskapurinn hefur náð „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) En breytingarnar, sem hann veldur, eru ekki alltaf merkjanlegar. Það getur jafnvel verið að áhrifin sjáist ekki í byrjun. En það hafa samt sem áður orðið breytingar, ekki aðeins í fjölda heldur einnig á persónuleika þeirra sem taka við þessum áhrifamikla boðskap. – Rómv. 12:2; Ef. 4:22, 23.

12, 13. Nefndu dæmi sem sýna að fagnaðarerindið hefur breiðst út eins og lýst er í dæmisögunni um súrdeigið.

12 Áhrifin af boðun fagnaðarerindisins koma oft ekki í ljós fyrir en mörgum árum síðar. Franz og Margit störfuðu við deildarskrifstofuna í Brasilíu árið 1982 og boðuðu þá fagnaðarerindið í litlum bæ úti í sveit. Meðal biblíunemenda þeirra voru móðir nokkur og fjögur börn hennar. Elsti drengurinn, þá aðeins 12 ára, var ákaflega feiminn og reyndi oft að fela sig áður en námsstundin hófst. Franz og Margit voru send á annað starfssvæði og gátu því ekki haldið áfram að kenna fjölskyldunni. Þau heimsóttu bæinn 25 árum síðar. Nú var þarna 69 boðbera söfnuður með 13 brautryðjendum sem hélt samkomur í nýjum ríkissal. Og hvað um feimna strákinn? Hann er núna umsjónarmaður öldungaráðsins. Rétt eins og súrdeigið í dæmisögu Jesú hafði fagnaðarerindið breiðst út og breytt lífi margra, þeim Franz og Margit til mikillar ánægju.

13 Ósýnilegur kraftur fagnaðarerindisins til að breyta fólki hefur sýnt sig greinilega í löndum þar sem boðunin er ekki leyfð samkvæmt lögum. Það er erfitt að vita hve langt boðskapurinn hefur náð í þessum löndum og árangurinn af boðuninni kemur oft á óvart. Lítum á Kúbu sem dæmi. Fagnaðarerindið náði þangað árið 1910 og bróðir Russell heimsótti eyna árið 1913. En starfið bar ekki mikinn árangur í fyrstu. Hvernig er staðan núna á Kúbu? Þar eru rúmlega 96.000 boðberar og 229.726 sóttu minningarhátíðina árið 2013. Það er 1 af hverjum 48 íbúum. Jafnvel í löndum þar sem starfið er ekki bannað nær fagnaðarerindið oft til staða þar sem vottarnir í landinu halda að lítið sé hægt að gera til að boða trúna. * – Préd. 8:7; 11:5.

14, 15. (a) Hvernig njótum við góðs af því sem Jesús kenndi í dæmisögunni um súrdeigið? (b) Hvað lærum við af þessu um Jehóva og Jesú?

14 Hvernig njótum við góðs af því sem Jesús kenndi í dæmisögunni um súrdeigið? Þegar við hugleiðum hvað dæmisagan merkir áttum við okkur á að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig fagnaðarerindið nái til þeirra milljóna sem hafa ekki heyrt það enn. Jehóva hefur stjórn á öllu. En hvert er hlutverk okkar? Því er svarað í orði Guðs: „Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott.“ (Préd. 11:6) En við ættum auðvitað ekki að gleyma að biðja fyrir því að boðunin skili árangri, sérstaklega í löndum þar sem starfið er takmörkum háð. – Ef. 6:18-20.

15 Við ættum ekki heldur að vera niðurdregin þó að við sjáum ekki árangur af starfi okkar í fyrstu. Við skulum aldrei lítilsvirða ,smáu verkin‘ sem unnin eru í byrjun. (Sak. 4:10) Árangurinn verður oft miklu meiri og magnaðri en við gátum nokkurn tíma gert okkur í hugarlund. – Sálm. 40:6; Sak. 4:7.

KAUPMAÐURINN OG FALDI FJÁRSJÓÐURINN

16. Hvað merkir dæmisagan um kaupmanninn og dæmisagan um falda fjársjóðinn?

16 Lestu Matteus 13:44-46. Hvað merkir dæmisagan um kaupmanninn og falda fjársjóðinn? Á dögum Jesú áttu kaupmenn það til að ferðast allt austur að Indlandshafi til að ná í fegurstu perlurnar. Kaupmaðurinn í þessari dæmisögu táknar réttsinnað fólk sem leggur mikið á sig til að fullnægja andlegum þörfum sínum. ,Eina dýrmæta perlan‘ táknar hin verðmætu sannindi um ríki Guðs. Kaupmaðurinn áttar sig á hve verðmæt perlan er og er fús til að selja allt sem hann á þegar í stað og kaupa hana. Jesús talaði einnig um mann sem var að vinna á akri og fann fjársjóð sem „fólginn var í jörðu“. Ólíkt kaupmanninum var þessi maður ekki að leita að fjársjóði. En líkt og kaupmaðurinn var hann tilbúinn til að selja „allar eigur sínar“ til að eignast fjársjóðinn.

17. Hvers vegna sagði Jesús dæmisögurnar um kaupmanninn og um falda fjársjóðinn?

17 Hvers vegna sagði Jesús þessar tvær dæmisögur? Hann var að sýna fram á að fólk finnur sannleikann á ólíka vegu. Sumir eru að leita hans og leggja mikið á sig til að finna hann. Aðrir finna hann þó að þeir hafi ekki verið að leita. Einhver færir þeim kannski sannleikann. En óháð því gerðu báðir mennirnir í dæmisögunum sér grein fyrir að þeir höfðu fundið mikil verðmæti og voru fúsir til að færa miklar fórnir til að eignast þau.

18. (a) Hvaða gagn getum við haft af þessum tveim dæmisögum? (b) Hvað kenna þær okkur um Jehóva og Jesú?

18 Hvað getum við lært af þessum tveim dæmisögum? (Matt. 6:19-21) Spyrðu sjálfan þig hvort þú hugsir eins og mennirnir tveir. Metur þú sannleikann svona mikils? Ertu fús til að færa fórnir til að tileinka þér hann eða læturðu önnur hugðarefni, svo sem hið daglega amstur, draga athygli þína frá honum? (Matt. 6:22-24, 33; Lúk. 5:27, 28; Fil. 3:8) Því glaðari sem við erum að hafa fundið sannleikann því ákveðnari erum við í að láta hann ganga fyrir öðru í lífinu.

19. Um hvað er rætt í næstu grein?

19 Við skulum sýna að við höfum hlustað og skilið hvað þessar dæmisögur um ríki Guðs merkja. Höfum hugfast að við gerum það ekki aðeins með því að skilja merkinguna heldur líka með því að fara eftir því sem við lærum af þeim. Í næstu grein skoðum við þrjár dæmisögur í viðbót og könnum hvað við getum lært af þeim.

^ Svipað hefur átt sér stað í löndum eins og Argentínu (árbókin 2001, bls. 186), Austur-Þýskalandi (árbókin 1999, bls. 83), Papúa Nýju-Gíneu (árbókin 2005, bls. 63) og Robinson Crusoe-eyju (Varðturninn, ensk útgáfa, 15. júní 2000, bls. 9).