Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum lítillát og hlýleg eins og Jesús

Verum lítillát og hlýleg eins og Jesús

„Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ – 1. PÉT. 2:21.

1. Hvers vegna nálægjum við okkur Jehóva þegar við líkjum eftir Jesú?

 VIÐ líkjum gjarnan eftir fólki sem við dáum. Af öllum mönnum sem hafa lifað á jörð er enginn sem við ættum frekar að líkja eftir en Jesús Kristur. Hvers vegna? Jesús sagði sjálfur: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Jesús er svo fullkomin eftirmynd föður síns að það er eins og við sjáum föðurinn þegar við kynnumst Jesú. Þegar við líkjum eftir Jesú nálægjum við okkur Jehóva sem er æðstur í öllum alheiminum. Það er ekki lítil umbun fyrir að líkja eftir syni hans.

2, 3. (a) Hvers vegna innblés Jehóva frásögn af ævi og starfi Jesú og hvað ætlast hann til að við gerum? (b) Um hvað er rætt í þessari grein og þeirri næstu?

2 En hvernig getum við kynnst Jesú? Sem betur fer er til innblásin frásögn af ævi hans og starfi. Þessa frásögn er að finna í Grísku ritningunum því að Jehóva vill að við kynnumst syni sínum og líkjum eftir honum. (Lestu 1. Pétursbréf 2:21.) Í Biblíunni er fyrirmynd Jesú líkt við „fótspor“ til að feta í. Jehóva segir okkur efnislega að ganga á eftir Jesú og þræða fótspor hans. Jesús var auðvitað fullkominn en við erum það sannarlega ekki. Jehóva ætlast ekki heldur til að við fetum fullkomlega í fótspor hans. Hann vill bara að við líkjum eftir syni sínum eins vel og við getum þrátt fyrir ófullkomleikann.

3 Skoðum nú nokkra aðlaðandi eiginleika Jesú. Í þessari grein er rætt um lítillæti hans og umhyggju. Í þeirri næstu skoðum við svo hugrekki hans og dómgreind. Þrem spurningum verður svarað um hvern þessara eiginleika: Hvað felst í honum? Hvernig sýndi Jesús hann? Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

JESÚS ER LÍTILLÁTUR

4. Hvað er lítillæti?

4 Hvað er lítillæti? Heimurinn einkennist af hroka og mörgum finnst því lítillæti vera veikleiki og merki um lítið sjálfstraust. En því er oft öfugt farið. Það þarf styrk og hugrekki til að vera lítillátur. Lítillæti er andstæða hroka og drambs. Til að vera lítillát þurfum við að sjá sjálf okkur í réttu ljósi. Í biblíuorðabók segir: „Lítillæti er það að vita hve lítil við erum í raun og veru frammi fyrir Guði.“ Ef við erum lítillát finnst okkur við ekki heldur vera yfir aðra hafin. (Rómv. 12:3; Fil. 2:3) Ófullkomnir menn eiga ekki auðvelt með að temja sér lítillæti. En við getum lært það ef við hugleiðum stöðu okkar frammi fyrir Guði og fetum í fótspor sonar hans.

5, 6. (a) Hver er höfuðengillinn Mikael? (b) Hvernig sýndi Mikael lítillæti?

5 Hvernig sýndi Jesús lítillæti? Hann hefur alltaf verið lítillátur, bæði sem máttug andavera á himnum og sem fullkominn maður á jörð. Skoðum nokkur dæmi.

6 Viðhorf hans. Biblíuritarinn Júdas segir frá atviki sem gerðist áður en Jesús kom til jarðar. (Lestu Júdasarbréfið 9.) Jesús, sem þar er kallaður höfuðengillinn Mikael, „átti í orðadeilu“ við djöfulinn „um líkama Móse“. Við munum að Jehóva jarðaði Móse á óþekktum stað þegar hann dó. (5. Mós. 34:5, 6) Satan ætlaði sér ef til vill að nota líkamsleifar Móse til að stuðla að falsguðadýrkun. Hvað sem Satan hafði í huga tók Mikael einarða afstöðu gegn illum áformum hans. Í uppflettiriti er bent á að grísku orðin, sem þýdd eru ,orðadeila‘, séu einnig notuð til að lýsa lagadeilu og það geti gefið til kynna að „Mikael hafi véfengt rétt djöfulsins til að taka líkama Móse“. Höfuðengillinn viðurkenndi samt að það var ekki í hans verkahring að dæma Satan. Hann vísaði málinu í staðinn til hins æðsta dómara, Jehóva. Mikael tók sér ekki meira vald en honum bar, jafnvel þegar honum var ögrað. Hann var sannarlega lítillátur.

7. Hvernig sýndi Jesús lítillæti í orði og verki?

7 Jesús sýndi lítillæti bæði í orði og verki meðan hann þjónaði á jörð. Orð hans. Jesús vakti aldrei óviðeigandi athygli á sjálfum sér heldur benti fólki á að lofa Jehóva. (Mark. 10:17, 18; Jóh. 7:16) Hann talaði aldrei niður til lærisveina sinna eða gerði lítið úr þeim. Hann sýndi þeim öllu heldur virðingu, hrósaði þeim fyrir það góða sem hann sá í fari þeirra og lét í ljós að hann treysti þeim. (Lúk. 22:31, 32; Jóh. 1:47) Verk hans. Jesús kaus að lifa einföldu lífi og átti fáar efnislegar eigur. (Matt. 8:20) Hann var fús til að vinna lítilmótleg þjónustustörf. (Jóh. 13:3-15) Hann sýndi einnig lítillæti með því að hlýða Jehóva fullkomlega. (Lestu Filippíbréfið 2:5-8.) Jesús var ólíkur dramblátum mönnum sem finnst það vera niðurlægjandi að þurfa að hlýða. Hann beygði sig fúslega undir vilja Jehóva og var „hlýðinn allt til dauða“. Það er augljóst að Mannssonurinn Jesús var „af hjarta lítillátur“. – Matt. 11:29.

LÍKTU EFTIR LÍTILLÆTI JESÚ

8, 9. Hvernig getum við verið lítillát?

8 Hvernig getum við verið lítillát eins og Jesús? Viðhorf okkar. Þeir sem eru lítillátir passa sig að fara ekki út fyrir valdsvið sitt. Ef við viðurkennum að við höfum ekki umboð til að dæma erum við ekki gagnrýnin í garð annarra eða tortryggin á hvatir þeirra. (Lúk. 6:37; Jak. 4:12) Lítillátur maður er ekki „um of réttlátur“. Hann lítur ekki niður á þá sem gegna ekki sömu ábyrgðastörfum og hann eða hafa ekki sömu hæfileika. (Préd. 7:16) Lítillátum öldungum finnst þeir ekki vera yfir aðra hafnir heldur ,meta þá meira en sjálfa sig‘ og koma fram eins og þeir séu minnstir allra. – Fil. 2:3; Lúk. 9:48.

9 Walter J. Thorn var pílagrímur eða farandumsjónarmaður frá árinu 1894. Eftir margra ára þjónustu var hann beðinn um að koma og starfa á búgarði safnaðarins í New York-ríki en þar vann hann í hænsnahúsinu. Hann sagði: „Hvenær sem ég fer að hugsa hátt um sjálfan mig rek ég sjálfan mig út í horn, ef svo má að orði komast, og segi: ,Þú litla rykkorn. Hvað hefur þú til að monta þig af?‘“ (Lestu Jesaja 40:12-15.) Hann var greinilega lítillátur maður.

10. Hvernig getum við verið lítillát í orðum okkar og verkum?

10 Orð okkar. Ef við erum lítillát í hjarta endurspeglast það í orðum okkar. (Lúk. 6:45) Þegar við ræðum við aðra tölum við ekki bara um verkefni og afrek sjálfra okkar. (Orðskv. 27:2) Við reynum öllu heldur að sjá hið góða í fari trúsystkina okkar og hrósa þeim fyrir mannkosti þeirra, hæfileika og verk. (Orðskv. 15:23) Verk okkar. Lítillátir þjónar Guðs hafa ekki áhuga á að koma sér áfram í þessum heimi. Þeir vilja frekar lifa einföldu lífi og vinna jafnvel störf sem öðrum finnst ómerkileg, til að geta þjónað Jehóva sem best. (1. Tím. 6:6, 8) Síðast en ekki síst sýnum við lítillæti með því að vera hlýðin. Það þarf lítillæti til að hlýða þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum og fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum frá deildarskrifstofunni og hinu stjórnandi ráði. – Hebr. 13:17.

JESÚS ER HLÝR OG UMHYGGJUSAMUR

11. Hvað gerir sá sem er hlýr og umhyggjusamur?

11 Umhyggja byggist á kærleika. Jehóva og Jesús eru mjög umhyggjusamir og kærleiksríkir eins og sjá má af lýsingu Biblíunnar. (Lúk. 1:78; 2. Kor. 1:3; Fil. 1:8) Biblían hvetur okkur til að sýna umhyggju en varðandi það segir í biblíuhandbók: „Þessi hvatning snýst ekki aðeins um að finna til með þeim sem eru þurfandi. Þetta er hvatning til að láta sér nógu annt um aðra til að vera þátttakandi og gera eitthvað sem hjálpar þeim að breyta lífi sínu til betri vegar.“ Hlýja og umhyggja hvetur fólk til að hafa jákvæð áhrif á líf annarra.

12. Hvað sýnir að Jesús var hlýr og umhyggjusamur og hvað gerði hann þar af leiðandi?

12 Hvernig birtist hlýja og umhyggja Jesú? Hlýjar tilfinningar og umhyggja í verki. Jesús var mjög umhyggjusamur. Hann grét þegar hann sá Maríu og þá sem voru með henni grátandi eftir að Lasarus, bróðir hennar, dó. (Lestu Jóhannes 11:32-35.) Síðan reisti hann Lasarus upp. Hann gerði það af sömu hvötum og hann reisti upp son ekkjunnar í Nain, af innilegri meðaumkun. (Lúk. 7:11-15; Jóh. 11:38-44) Þessi umhyggja kann að hafa orðið til þess að Lasarus eignaðist von um líf á himnum. Áður hafði Jesús sýnt að hann „kenndi í brjósti um“ mannfjölda sem kom til hans og hann fór að kenna fólkinu margt. (Mark. 6:34) Það sem hann kenndi hafði djúpstæð áhrif á líf allra sem tóku það til sín. Umhyggja Jesú var ekki bara tilfinningin ein heldur birtist hún í verki þegar hann hjálpaði öðrum. – Matt. 15:32-38; 20:29-34; Mark. 1:40-42.

13. Hvernig var Jesús hlýlegur í orðum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

13 Hlýleg orð hans. Umhyggja Jesú birtist einnig í því að hann talaði hlýlega við fólk, sérstaklega við þá sem voru niðurdregnir. Matteus postuli heimfærði orð Jesaja upp á Jesú og sagði: „Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.“ (Jes. 42:3; Matt. 12:20) Jesús var mjög uppörvandi þegar hann talaði við þá sem voru eins og brákaður reyr eða eins og kveikur á olíulampa sem var að slokkna á. Hann boðaði vonarboðskap til að ,græða þá sem höfðu sundurmarin hjörtu‘. (Jes. 61:1) Hann bauð þeim sem ,erfiðuðu og þunga voru hlaðin‘ að koma til sín og lofaði að þau myndu „finna hvíld“. (Matt. 11:28-30) Hann fullvissaði fylgjendur sína um að Guði væri ákaflega annt um hvern einasta þjón sinn, þar á meðal ,smælingjana‘ – þá sem virtust ekki merkilegir í augum heimsins. – Matt. 18:12-14; Lúk. 12:6, 7.

VERUM HLÝ OG UMHYGGJUSÖM EINS OG JESÚS

14. Hvernig getum við tamið okkur hlýjar tilfinningar í garð annarra?

14 Hvernig getum við líkt eftir Jesú og verið hlý og umhyggjusöm? Hlýjar tilfinningar. Kannski er okkur ekki eðlislægt að sýna slíkar tilfinningar en Biblían hvetur okkur samt til að tileinka okkur þær. Nýi maðurinn, sem kristnir menn eiga að íklæðast, á meðal annars að einkennast af „hjartagróinni meðaumkun“. (Lestu Kólossubréfið 3:9, 10, 12.) Hvernig geturðu tamið þér hlýjar tilfinningar í garð annarra? Láttu verða ,rúmgott í hjarta þínu‘. (2. Kor. 6:11-13) Hlustaðu vel þegar einhver segir þér frá líðan sinni og áhyggjum. (Jak. 1:19) Notaðu ímyndunaraflið og spyrðu þig hvernig þér myndi líða ef þú værir í hans sporum. Hvað fyndist þér gott að heyra? – 1. Pét. 3:8.

15. Hvað getum við gert til að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi?

15 Umhyggja í verki. Hlýja og umhyggja vekja hjá okkur löngun til að hjálpa öðrum, sérstaklega þeim sem eru eins og brákaður reyr eða kveikur sem er að slokkna á. Hvernig getum við hjálpað þeim? „Grátið með grátendum,“ segir í Rómverjabréfinu 12:15. Oft hafa niðurdregnir frekar þörf fyrir umhyggju en að við bendum þeim á lausnir. Systur einni fannst bræður og systur vera mjög hughreystandi eftir að hún missti dóttur sína. Hún segir: „Ég mat það mikils þegar trúsystkini komu í heimsókn og grétu bara með mér.“ Við getum líka sýnt umhyggju með því að vera hjálpsöm. Veistu af ekkju sem þarf aðstoð við að dytta að einhverju á heimilinu? Eða veistu af rosknu trúsystkini sem vantar far á samkomur, aðstoð til að komast í boðunarstarfið eða fara til læknis? Kannski gerum við bara eitthvað lítið en það getur samt haft mikil áhrif á trúsystkini sem þarf á aðstoð að halda. (1. Jóh. 3:17, 18) Besta leiðin til að sýna öðrum umhyggju er að taka góðan þátt í boðuninni. Ekkert getur haft eins mikil áhrif á líf einlægs fólks.

Er þér einlæglega annt um trúsystkini þín? (Sjá 15. grein.)

16. Hvað getum við sagt til að uppörva niðurdregna?

16 Hlýleg orð. Ef við erum umhyggjusöm langar okkur til að hughreysta þá sem eru niðurdregnir. (1. Þess. 5:14) Hvað getum við sagt til að uppörva þá? Við getum sagt þeim hve annt okkur sé um þá. Bendum þeim á hæfileika þeirra og góða eiginleika með því að hrósa þeim einlæglega. Minnum þau á að Jehóva hefur dregið þau til sonar síns og að þau hljóti því að vera mjög dýrmæt í augum hans. (Jóh. 6:44) Við getum fullvissað þau um að Jehóva sé ákaflega annt um þjóna sína sem hafa „sundurmarið hjarta“ eða „sundurkraminn anda“. (Sálm. 34:19) Hlýleg orð okkar geta verið græðandi fyrir þá sem eru hughreystingar þurfi. – Orðskv. 16:24.  

17, 18. (a) Hvernig ætlast Jehóva til að öldungar komi fram við trúsystkini sín? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Jehóva ætlast til að öldungar séu hlýlegir og mildir við sauðina. (Post. 20:28, 29) Munið að það er hlutverk ykkar að næra sauði hans, hvetja þá og endurnæra. (Jes. 32:1, 2; 1. Pét. 5:2-4) Hlýr og umhyggjusamur öldungur reynir ekki að stjórna trúsystkinum sínum. Hann setur ekki reglur né spilar á sektarkennd til að þrýsta á þau að gera meira en aðstæður þeirra leyfa. Hann hvetur þau öllu heldur til að þjóna Jehóva með gleði og treystir að þau geri sitt besta vegna þess að þau elska hann. – Matt. 22:37.

18 Þegar við hugsum um hve lítillátur og umhyggjusamur Jesús er langar okkur eflaust til að halda áfram að líkja eftir honum. Í næstu grein er rætt um tvennt til viðbótar sem er einkennandi í fari Jesú, hugrekki og góð dómgreind.