Búum okkur undir lífið í nýja heiminum
,Bjóð þeim að gera gott ... með því munu þeir geta höndlað hið sanna líf.‘ – 1. TÍM. 6:18, 19.
1, 2. (a) Hvaða efnislegu og líkamlegu blessunar hlakkar þú mest til í paradís? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða andlegu blessunar nýtur fólk í nýja heiminum?
„HIÐ SANNA LÍF.“ Þegar við heyrum þessi orð kemur okkur flestum í hug vonin um eilíft líf í paradís á jörð. Páll postuli tengdi reyndar „eilífa lífið“ við „hið sanna líf“. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:12, 19.) Við væntum eftir að lifa lífi sem tekur aldrei enda. Það er erfitt að ímynda sér hvernig það verður að vakna á hverjum degi við góða heilsu, glöð og ánægð. (Jes. 35:5, 6) Hugsaðu þér hve gaman það verður að umgangast vini okkar og ástvini, þar á meðal þá sem hafa risið upp frá dauðum. (Jóh. 5:28, 29; Post. 24:15) Við fáum líka tækifæri til að læra meira um vísindi og byggingarlist, verða færari tónlistarmenn eða auka færni okkar á öðrum sviðum.
2 Þó að við hlökkum mikið til að þetta rætist verður mesta blessunin í nýja heiminum andlegs eðlis. Það verður okkur mikil ánægja að vita að nafn Jehóva hafi verið helgað og drottinvald hans réttlætt. (Matt. 6:9, 10) Það verður stórkostlegt að sjá upphaflegan vilja Jehóva með mannkynið og jörðina verða að veruleika. Og hugsaðu þér hve miklu auðveldara það verður að nálægja sig Jehóva þegar við nálgumst fullkomleikann eða þegar við erum að lokum orðin fullkomin. – Sálm. 73:28; Jak. 4:8.
3. Undir hvað ættum við að búa okkur núna?
3 Við getum fengið að upplifa þetta því að Jesús fullvissar okkur um að ,Guði sé ekkert um megn‘. (Matt. 19:25, 26) En ef við væntum þess að lifa í nýja heiminum – og halda áfram að lifa eftir þúsund ára ríki Krists – þurfum við að vinna að því núna að ,höndla‘ eilífa lífið. Við verðum að vænta eftir að þessi illi heimur líði undir lok og sýna það í verki. Við þurfum að gera allt sem við getum til að búa okkur undir lífið í nýja heiminum. Hvernig getum við gert það fyrst við lifum enn í þessum illa heimi?
HVERNIG UNDIRBÚUM VIÐ OKKUR?
4. Lýstu með dæmi hvernig við getum búið okkur undir lífið í nýja heiminum.
4 Hvernig getum við búið okkur undir lífið í nýja heiminum? Hugsum okkur að við ætluðum að flytjast til annars lands. Hvernig gætum við búið okkur undir breytingarnar sem því fylgja? Við gætum byrjað að læra tungumálið sem þar er talað og það væri gagnlegt að fræðast um siðvenjur í landinu. Við gætum líka smakkað mat sem þar er borðaður. Í vissum skilningi lifðum við eins og við byggjum þegar í landinu. Það er hvort eð er þannig sem við búumst við að lifa þegar við erum flutt. Með svipuðum hætti getum við búið okkur undir lífið í nýja heiminum með því að laga okkur núna eins vel og hægt er að þeim lifnaðarháttum sem við væntum að verði þar. Skoðum nokkur dæmi um hvernig við getum gert það.
5, 6. Hvernig býr það okkur undir lífið í nýja heiminum að læra að hlýða leiðsögn safnaðarins?
5 Í nýja heiminum verður búið að sanna fyrir fullt og allt að Jehóva er réttmætur Drottinn alheims. Heimur Satans ýtir undir að menn stjórni sér sjálfir og því verður þetta mikil og kærkomin breyting. Margir einkennast af sjálfstæðisanda og gera óraunhæfar kröfur um að ná sínu fram. Til hvers hefur það leitt? Þjáningar, eymd og hörmungar eru afleiðingar þess að menn hafa hafnað leiðsögn Guðs. (Jer. 10:23) Jehóva er kærleiksríkur stjórnandi. Við hlökkum sannarlega til þess þegar allt mannkynið viðurkennir drottinvald hans.
6 Það verður ánægjulegt að fylgja leiðsögn Jehóva í nýja heiminum þegar við vinnum að því að fegra jörðina, kenna þeim sem rísa upp og koma vilja Jehóva með mannkynið til leiðar. En hvað ef við yrðum beðin um að sinna ákveðnu verkefni sem okkur fyndist frekar óspennandi? Myndum við hlýða og gera okkar ýtrasta til að vinna verkið vel og jafnvel reyna að hafa gaman af því? Við svörum því flest játandi. En erum við sjálfum okkur samkvæm og bregðumst eins við leiðbeiningum safnaðarins núna? Með því að gera það búum við okkur undir eilífa lífið undir stjórn Jehóva.
7, 8. (a) Hvers vegna ættum við að vera samstarfsfús? (b) Hvaða breytingar hafa sumir þurft að takast á við? (c) Hvað getum við verið viss um varðandi lífið í nýja heiminum?
7 Til að búa okkur undir lífið í nýja heiminum þurfum við þó að gera meira en að hlýða leiðsögn safnaðarins. Við þurfum líka að læra að vera ánægð og samstarfsfús. Það á til dæmis við þegar við fáum ný verkefni. Ef við lærum að lúta leiðsögn þeirra sem fara með forystuna núna höfum við líklega ánægju af því í nýja heiminum líka. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Fyrirheitna landinu var skipt milli Ísraelsmanna með hlutkesti. (4. Mós. 26:52-56; Jós. 14:1, 2) Við vitum auðvitað ekki núna hvar við verðum beðin um að búa í nýja heiminum. En ef við erum samstarfsfús verðum við glöð og ánægð þegar við gerum vilja Jehóva hvar á jörðinni sem við búum í framtíðinni.
8 Það er vel þess virði að leggja á sig hvað sem er fyrir þann heiður að fá að lifa undir stjórn Guðsríkis. Við erum því samstarfsfús og sinnum ánægð verkefnum sem við fáum í söfnuði Jehóva. Aðstæður okkar geta auðvitað breyst. Til dæmis hafa sumir sem tilheyrðu Betelfjölskyldunni í Bandaríkjunum verið beðnir um að sinna öðrum verkefnum í fullu starfi og njóta núna mikillar blessunar úti á akrinum. Sumir sem voru í farandstarfi hafa vegna aldurs eða annarra ástæðna verið útnefndir sérbrautryðjendur. Ef við einsetjum okkur að vera ánægð, biðjum um hjálp Guðs og gerum allt sem við getum til að þjóna honum verðum við glöð og hljótum ríkulega blessun, jafnvel á þessum erfiðu tímum. (Lestu Orðskviðina 10:22.) En hvað um framtíðina? Við erum ef til vill með hugmyndir um hvar við vildum búa í nýja heiminum en við gætum verið beðin um að flytjast á annan stað. Hvar sem við búum þá og hvað sem við gerum í þjónustu Jehóva getum við verið viss um að við verðum þakklát og ánægð og að við munum ljóma af gleði. – Neh. 8:10.
9, 10. (a) Við hvaða aðstæður gæti reynt á þolinmæði okkar í nýja heiminum? (b) Hvernig getum við sýnt að við erum þolinmóð?
9 Það koma kannski tímar í nýja heiminum þegar við þurfum að sýna þolinmæði. Við gætum til dæmis heyrt um einstaklinga sem hafa fengið upprisu, vinum þeirra og ættingjum til mikillar gleði. En við þurfum kannski sjálf að bíða eftir upprisu ástvina okkar. Samgleðjumst við hinum og sýnum þolinmæði ef sú verður raunin? (Rómv. 12:15) Ef við lærum að bíða þolinmóð núna eftir að loforð Jehóva rætist hjálpar það okkur að vera þolinmóð þá. – Préd. 7:8.
10 Við getum líka búið okkur undir lífið í nýja heiminum með því að vera þolinmóð þegar við fáum nýjar útskýringar á sannindum Biblíunnar. Erum við námfús og þolinmóð ef við skiljum þær ekki til hlítar? Ef svo er verður örugglega auðvelt fyrir okkur að vera þolinmóð í nýja heiminum þegar Jehóva opinberar mönnunum til hvers hann ætlast af þeim. – Orðskv. 4:18; Jóh. 16:12.
11. Hvað er Jehóva að kenna okkur núna um samskipti og hvernig nýtist það okkur í nýja heiminum?
11 Annar eiginleiki, sem kemur að góðum notum í nýja heiminum, er fúsleiki til að fyrirgefa. Í þúsundáraríkinu gæti tekið tíma bæði fyrir réttláta og rangláta að losa sig við óæskilega eiginleika. (Post. 24:15) Verðum við fær um að koma vel fram við alla á þessum tíma? Það verður auðveldara fyrir okkur að fyrirgefa fúslega og eiga góð samskipti við aðra í framtíðinni ef við æfum okkur í því núna. – Lestu Kólossubréfið 3:12-14.
12. Hvers vegna ættum við að búa okkur undir lífið í nýja heiminum núna?
12 Það verður kannski ekki þannig í nýja heiminum að við fáum alltaf allt sem við viljum samstundis. Við ættum að vera þakklát og ánægð við allar aðstæður sem við búum við undir kærleiksríkri stjórn Jehóva. Það þýðir að það verður nauðsynlegt að sýna þá eiginleika sem Jehóva kennir okkur að sýna núna. Ef við lærum að lifa núna eins og við væntum eftir að lifa í framtíðinni þroskum við með okkur eiginleika sem við þurfum á að halda um alla eilífð. Þannig styrkjum við líka trú okkar á „hinn komandi heim“ og sýnum hve heitt við þráum réttlætið sem þá mun ríkja á jörðinni. (Hebr. 2:5; 11:1) Við erum sannarlega að búa okkur undir eilífa lífið í nýjum heimi Guðs.
EINBEITUM OKKUR AÐ ANDLEGUM MÁLUM NÚNA
13. Hvað verður í fyrsta sæti hjá okkur í nýja heiminum?
13 Skoðum nú enn eina leið til að búa okkur undir hið sanna líf sem er fram undan. Í nýja heiminum fáum við meira en nóg af mat og öðrum nauðsynjum en mestu ánægjuna hljótum við af því að fá andlegum þörfum okkar fullnægt. (Matt. 4:4) Þjónustan við Jehóva verður í fyrsta sæti hjá okkur og við eigum eftir að hafa mikla ánægju af henni. (Sálm. 37:4) Ef við látum andlegu málin hafa forgang núna búum við okkur undir hið sanna líf í framtíðinni. – Lestu Matteus 6:19-21.
14. Hvaða andlegu markmið getur ungt fólk sett sér?
14 Hvernig getum við haft meiri ánægju af þjónustunni við Jehóva? Ein leið er að setja sér andleg markmið. Ef þú ert ungur og hugsar alvarlega um að nota lífið í þjónustunni við Jehóva gætirðu kannski rifjað upp efni sem fjallar um ýmsar greinar þjónustunnar í fullu starfi og fengið hugmyndir að eigin markmiðum. * Þú gætir líka rætt við einhverja sem hafa þjónað Jehóva í fullu starfi í mörg ár. Með því að nota lífið í þjónustunni við Jehóva færðu góða þjálfun sem býr þig undir að þjóna honum áfram í nýja heiminum. Þessi reynsla þín verður mikils virði í framtíðinni.
15. Hvaða andlegu markmið gætu boðberar Guðsríkis sett sér?
15 Hvaða markmið gætum við sem boðum ríki Guðs sett okkur? Við gætum reynt að bæta okkur á ákveðnu sviði í boðuninni. Annað markmið gæti verið að skilja meginreglur Biblíunnar betur og hvernig við getum heimfært þær. Við gætum einnig þjálfað okkur í lestri og ræðumennsku eða í að svara á samkomum. Þér dettur eflaust ýmislegt fleira í hug. Það sem skiptir máli er þetta: Ef þú setur þér andleg markmið færðu enn meiri áhuga á þjónustunni við Jehóva og það býr þig undir lífið í nýja heiminum.
JEHÓVA BLESSAR OKKUR NÚ ÞEGAR
16. Hvers vegna er besta lífsstefnan sú að þjóna Jehóva?
16 Förum við á mis við að lifa góðu og innihaldsríku lífi núna ef við notum tímann til að búa okkur undir nýja heiminn? Alls ekki. Að þjóna Jehóva er besta lífsstefnan sem hugsast getur. Það er ekki bara eitthvað sem við neyðumst til að gera svo að við komumst í gegnum þrenginguna miklu. Við erum þannig úr garði gerð að við njótum þess að þjóna Jehóva. Hann leiðbeinir okkur og er mjög annt um okkur, og ekkert í lífinu er verðmætara en það. (Lestu Sálm 63:2-4.) Við þurfum auðvitað ekki að bíða eftir nýja heiminum til að hljóta þá andlegu blessun sem fylgir heilshugar þjónustu við Jehóva – hún stendur okkur til boða nú þegar. Við höfum sum hver hlotið slíka blessun um áratugabil og reynslan segir okkur að engin lífsstefna geti veitt okkur meiri ánægju. – Sálm. 1:1-3; Jes. 58:13, 14.
17. Hvernig munum við líta á afþreyingu og áhugamál í paradís?
17 Við fáum tíma fyrir afþreyingu og áhugamál í nýja heiminum. Jehóva skapaði okkur með löngun til að njóta lífsins og ná árangri í því sem við gerum. Hvers vegna gerði hann það ef hann ætlaðist ekki til að við fengjum að njóta þessara gæða til fulls? (Préd. 2:24) Jehóva lofar að seðja allar langanir okkar. (Sálm. 145:16) Við þurfum að slaka á og njóta afþreyingar en við höfum meiri ánægju af því ef við látum samband okkar við Jehóva ganga fyrir. Og þannig verður það líka í paradís. Það er því mikilvægt að við lærum að stunda afþreyingu í réttu hófi, leita fyrst Guðsríkis og einbeita okkur að blessuninni sem hlýst af því að þjóna Jehóva. – Matt. 6:33.
18. Hvernig getum við sýnt að við erum að búa okkur undir eilífa lífið í paradís framtíðar?
18 Í paradís framtíðar verðum við hamingjusamari en við höfum nokkurn tíma verið. Sýnum hve heitt við þráum að hljóta hið sanna líf með því að búa okkur undir það núna. Þroskum með okkur eiginleika sem Jehóva vill sjá í fari okkar og boðum ríki Guðs af eldmóði. Höfum yndi af því að tilbiðja Jehóva og látum það hafa forgang í lífi okkar. Við berum fullt traust til þess að Jehóva uppfylli loforð sín og ættum því að lifa lífinu í samræmi við lífið sem við væntum eftir í nýja heiminum.