ÆVISAGA
Ég hef eignast frið við Guð og við móður mína
„EN HVERS vegna viltu ekki tilbiðja forfeður okkar?“ spurði móðir mín. „Skilurðu ekki að það er þeim að þakka að þú ert til? Ætlarðu ekki að sýna þeim neitt þakklæti? Hvernig geturðu hunsað siði sem hafa haldist kynslóð eftir kynslóð? Með því að neita að heiðra forfeðurna gerirðu lítið úr tilbeiðslu okkar.“ Mamma brotnaði niður og fór að gráta.
Það var ólíkt mömmu að koma svona fram. Það var hún sem átti hugmyndina að því að ég færi að kynna mér Biblíuna enda þótt það hefði aðeins verið til að sleppa við það sjálf án þess að vera ókurteis. Ég var alltaf vön að hlýða henni og mér fannst erfitt að fara ekki eftir því sem hún sagði. En í þetta skipti þurfti ég að gera það til að geta þóknast Jehóva. Mér hefði ekki tekist það ef hann hefði ekki veitt mér styrk.
ÉG KYNNIST JEHÓVA
Við vorum búddistar eins og flestir Japanar. En eftir aðeins tveggja mánaða nám hjá vottum Jehóva var ég sannfærð um að Biblían væri orð Guðs. Ég uppgötvaði að ég ætti föður á himnum og ég þráði að kynnast honum. Við mamma höfðum ánægju af að ræða um það sem ég lærði. Ég fór að sækja samkomur á sunnudögum. Ég kynntist sannleikanum æ betur og sagði mömmu að ég ætlaði að hætta að taka þátt í trúarsiðum búddista. Skyndilega gerbreyttist viðhorf hennar. „Það er mikil skömm að einhver í fjölskyldunni skuli ekki láta sér annt um forfeður okkar,“ sagði hún. Hún krafðist þess að ég hætti biblíunámi mínu og hætti að sækja samkomur. Það hafði aldrei hvarflað að mér að mamma gæti sagt nokkuð slíkt. Þetta var svo ólíkt henni.
Ég lærði af 6. kafla Efesusbréfsins að Jehóva vildi að ég hlýddi foreldrum mínum. Pabbi tók afstöðu með mömmu. Í fyrstu hélt ég að ef ég hlýddi þeim myndu þau hlusta á mig og þannig kæmist aftur á friður í fjölskyldunni. Auk þess voru inntökupróf í framhaldsskóla á næsta leiti og ég þurfti að læra undir þau. Ég samþykkti því að gera eins og þau sögðu í þrjá mánuði en ég lofaði Jehóva að byrja aftur að mæta á samkomur að þeim tíma liðnum.
Þetta reyndist slæm ákvörðun á tvo vegu. Í fyrsta lagi hélt ég ekki að löngun mín til að þjóna Jehóva myndi dvína á þrem mánuðum. En mér fannst ég fljótt verða andlega vannærð og ég fjarlægðist Jehóva. Í öðru lagi komu mamma og pabbi alls ekki til móts við mig
heldur þrýstu þau enn meira á mig að segja skilið við allt sem tengdist sannri tilbeiðslu.STUÐNINGUR OG ANDSTAÐA
Á samkomunum hafði ég kynnst mörgum sem mættu andstöðu heima fyrir. Þau fullvissuðu mig um að Jehóva myndi styrkja mig. (Matt. 10:34-37) Þau gerðu mér grein fyrir að besta tækifærið, sem fjölskylda mín hefði til að hljóta frelsun, væri í gegnum mig. Ég vildi læra að reiða mig á Jehóva og fór því að biðja til hans í einlægni.
Andstaða fjölskyldunnar tók á sig margar myndir. Mamma reyndi bæði að höfða til tilfinninga minna og rökræða við mig. Yfirleitt þagði ég. Og þegar ég sagði eitthvað fórum við oft að rífast af því að við vorum báðar ákveðnar í að sanna okkar mál. Ég hefði átt að virða tilfinningar og trú mömmu betur. Þá hefðum við kannski ekki orðið eins æstar. Foreldrar mínir reyndu að halda mér inni með því að gefa mér fleiri verkefni á heimilinu. En stundum læstu þeir mig úti eða ég fékk ekkert að borða.
Mamma reyndi að fá aðra í lið með sér. Hún leitaði til kennarans míns en hann vildi ekki taka afstöðu. Hún fór með mig til yfirmanns síns í vinnunni til þess að hann gæti reynt að sannfæra mig um að öll trúarbrögð væru gagnslaus. Heima fyrir hringdi mamma í hina ýmsu ættingja og grátbað þá um hjálp. Ég var bæði sár og reið en á samkomum hvöttu öldungarnir mig til að hugsa um að óbeint væri mamma að vitna fyrir öllu þessu fólki.
Síðan kom að því að ég þurfti að ákveða hvort ég færi í háskóla. Foreldrar mínir vildu að ég fengi það sem þeir töldu besta veganestið fyrir lífið. Þeir vonuðust til að ég fengi góða
vinnu. Það var of mikil spenna á milli okkar til að við gætum rætt málin yfirvegað. Í staðinn skrifaði ég því mömmu og pabba nokkur bréf til að útskýra fyrir þeim markmið mín. Pabbi svaraði mér öskureiður: „Ef þú heldur að þú getir fundið vinnu skaltu vera búin að því á morgun, annars skaltu flytja héðan út.“ Ég lagði málið fyrir Jehóva í bæn. Í boðuninni daginn eftir báðu tvær systur mig um að taka börnin sín í einkakennslu, en þær höfðu ekkert rætt um það sín á milli. Pabbi var ekki ánægður með ákvarðanir mínar. Hann hætti að tala við mig og fór reyndar að hunsa mig. Mamma sagði að hún vildi frekar að ég væri glæpamaður en vottur Jehóva.Jehóva hjálpaði mér að leiðrétta hugsunarhátt minn og skilja hvað ég ætti að gera.
Stundum velti ég því fyrir mér hvort Jehóva vildi að ég gengi svona langt í að standa gegn vilja foreldra minna. En með því að biðja oftar til hans og hugleiða biblíuvers um kærleika hans gat ég séð mótlætið í öðru ljósi og áttað mig á að það stafaði að vissu leyti af umhyggju foreldra minna fyrir mér. Jehóva hjálpaði mér að leiðrétta hugsunarhátt minn og skilja hvað ég ætti að gera. Auk þess fann ég að því meiri þátt sem ég átti í boðuninni þeim mun meiri ánægju hafði ég af henni. Mig langaði til að verða brautryðjandi.
ÉG VERÐ BRAUTRYÐJANDI
Sumar systur, sem heyrðu að ég vildi verða brautryðjandi, ráðlögðu mér að bíða þangað til foreldrar mínir hefðu róað sig. Ég bað Jehóva um visku, las mér til, kannaði hvatir mínar og talaði við þroskaða bræður og systur. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi gleðja Jehóva. Að fresta því að gerast brautryðjandi var þar að auki engin trygging fyrir því að viðhorf foreldra minna myndi breytast.
Ég byrjaði sem brautryðjandi þegar ég var á síðasta árinu í framhaldsskóla. Eftir að hafa verið brautryðjandi um tíma langaði mig til að starfa þar sem mikil þörf var á boðberum. En þar sem mamma og pabbi vildu ekki að ég flytti að heiman beið ég þar til ég var orðin tvítug. Þá bað ég deildarskrifstofuna um að fá að starfa í Suður-Japan þar sem við áttum ættingja til að mamma þyrfti ekki að vera svo áhyggjufull.
Það gladdi mig mjög að nokkrar konur, sem ég kenndi þar, skyldu láta skírast. Þarna fór ég líka að læra ensku með það að markmiði að geta gert meira í þjónustu Jehóva. Í söfnuðinum mínum voru tveir bræður sem voru sérbrautryðjendur. Ég tók eftir hve ákafir þeir voru og hvernig þeir hjálpuðu öðrum. Í kjölfarið setti ég mér það markmið að verða sérbrautryðjandi. Á þessum tíma veiktist mamma alvarlega í tvígang og í bæði skiptin sneri ég heim til að annast hana. Það kom henni á óvart og hún varð aðeins mildari fyrir vikið.
BLESSUN Á BLESSUN OFAN
Að sjö árum liðnum fékk ég bréf frá Atsushi, öðrum sérbrautryðjendanna sem ég minntist á. Hann sagðist vera í hjónabandshugleiðingum og vildi vita hver staða mín væri og hvaða hug ég bæri til hans. Ég hafði aldrei borið sterkar tilfinningar til Atsushi og mig grunaði ekki heldur að hann bæri tilfinningar til mín. Mánuði síðar svaraði ég honum og sagði að ég væri til í að kynnast honum betur. Við komumst að því að við áttum margt sameiginlegt. Við vildum bæði halda áfram að þjóna Jehóva í fullu starfi og vorum fús til að taka að okkur hvaða verkefni sem er. Með tímanum giftum við okkur og það gladdi mig ekki lítið að mamma, pabbi og nokkrir ættingja minna skyldu mæta í brúðkaupið.
Við Atsushi störfuðum sem brautryðjendur en fljótlega var Atsushi beðinn um að vera staðgengill farandhirðis. Stuttu síðar hlutum
við enn meiri blessun þegar við urðum sérbrautryðjendur og síðan þegar hann var útnefndur farandhirðir. Eftir að hafa heimsótt alla söfnuðina í eitt skipti fengum við símtal frá deildarskrifstofunni og vorum spurð hvort við vildum sinna farandstarfi í Nepal.Ég velti því fyrir mér hvað foreldrum mínum fyndist um að ég flyttist svona langt í burtu. Þegar ég hringdi í þá svaraði pabbi. Hann sagði: „Þetta er fallegur staður sem þú ætlar til.“ Vinur hans pabba hafði einmitt gefið honum bók um Nepal vikuna áður og pabbi hafði jafnvel hugsað að það væri gaman að ferðast þangað.
Við höfðum mikla ánægju af að starfa meðal hinna vingjarnlegu Nepala. Við hlutum aðra blessun þegar Bangladess varð hluti af farandsvæði okkar, en landið er að mörgu leyti ólíkt því sem við þekktum áður þrátt fyrir að vera svo nálægt. Boðunin var afar fjölbreytt á þessum tíma. Eftir fimm ár vorum við svo send aftur til Japans þar sem við erum áfram í farandstarfi.
Ég lærði heilmikið um Jehóva af því að starfa í Japan, Nepal og Bangladess. Menning, siðir og venjur þessara landa eru svo ólíkar. Auk þess var hver og einn sem við kynntumst einstakur. Ég hef upplifað hvernig Jehóva annast fólk sem einstaklinga, tekur því opnum örmum, hjálpar því og blessar.
Hvað mig snertir hefur Jehóva blessað mig með því að leyfa mér að kynnast sér, fela mér verkefni og gefa mér góðan kristinn eiginmann. Guð hefur hjálpað mér að taka réttar ákvarðanir og nú á ég bæði gott samband við hann og fjölskyldu mína. Við mamma erum aftur orðnar góðar vinkonur, þökk sé Jehóva. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa eignast frið við Guð og við móður mína.