Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Að vera skuldbundinn maka sínum

Að vera skuldbundinn maka sínum

Hún segir: „Ég hafði tekið eftir því um tíma að Magnús, maðurinn minn, var orðinn tilfinningalega fjarlægur mér og kuldalegur við börnin. * Hegðun hans hafði breyst stuttu eftir að við tengdumst Netinu og mig grunaði að hann væri að horfa á klám í tölvunni. Kvöld eitt eftir að börnin voru farin að sofa stillti ég honum upp við vegg og hann viðurkenndi að hafa horft á klámsíður á Netinu. Ég var eyðilögð. Ég trúði ekki að þetta væri að gerast. Ég missti allt traust á honum. Og til að bæta gráu ofan á svart var vinnufélagi nýlega farinn að sýna mér áhuga.“

Hann segir: „Fyrir nokkru fann María, konan mín, mynd sem var geymd á tölvunni okkar og spurði mig út í málið. Þegar ég viðurkenndi að hafa að staðaldri farið á klámsíður á Netinu missti hún sig algerlega. Gríðarlegt samviskubit nagaði mig og skömmin var óbærileg. Ég hélt að þetta yrði endir hjónabandsins.“

HVAÐ heldurðu að hafi gerst hjá Magnúsi og Maríu? Kannski telurðu að helsta vandamál Magnúsar hafi verið að horfa á klám. En eins og hann gerði sér síðar grein fyrir var þessi ósiður merki um alvarlegra vandamál — hann tók skuldbindingu sína við eiginkonuna ekki nógu alvarlega. * Þegar Magnús og María voru nýgift hlökkuðu þau til þess að búa í ástríku hjónabandi og eiga ánægjulegar stundir saman. En eins og hjá svo mörgum hjónum veiktist samband þeirra og þau virtust fjarlægjast.

Finnst þér sambandið milli þín og maka þíns hafa veikst með árunum? Viltu snúa þessari þróun við? Þá þarftu að fá svör við þremur spurningum: Hvað er fólgið í því að vera skuldbundinn maka sínum? Hvað getur grafið undan slíkri skuldbindingu? Og hvernig er hægt að styrkja hjónabandið?

Hvað er skuldbinding?

Hvernig myndir þú skilgreina skuldbindingu hjóna hvort við annað? Margir myndu eflaust segja að hún byggist á skyldurækni. Hjónum gæti til dæmis fundist þau skuldbundin hvort öðru vegna barnanna eða vegna ábyrgðar sinnar gagnvart Guði sem er höfundur hjónabandsins. (1. Mósebók 2:22-24) Slíkar hvatir eru að sjálfsögðu lofsverðar og geta hjálpað hjónum þegar þau eiga í erfiðleikum sín á milli. En til að hjón geti verið hamingjusöm verða þau að finna til meira en skyldurækni gagnvart hvort öðru.

Jehóva Guð ætlaðist til þess að hjónabandið veitti fólki innilega gleði og hamingju. Hann vildi að maðurinn myndi ‚gleðja sig yfir eiginkonu sinni‘ og að konan elskaði manninn og fyndi að hann elskaði hana eins og eigin líkama. (Orðskviðirnir 5:18; Efesusbréfið 5:28) Til að eiga slíkt samband verða hjón að læra að treysta hvort öðru. Þau verða jafnframt að byggja upp ævilanga vináttu. Þegar maður og kona ávinna sér traust hvort annars og vinna að því að verða bestu vinir finna þau betur að þau eru skuldbundin hvort öðru. Sambandið þeirra á milli verður svo náið að það er eins og þessir tveir einstaklingar séu „einn maður“, eins og Biblían orðar það. — Matteus 19:5.

Það má líkja skuldbindingu við steypu sem heldur saman múrsteinum í sterkbyggðu húsi. Steypa er blanda af sandi, sementi og vatni. Á sama hátt er skuldbinding sambland af skyldurækni, trausti og vináttu. En hvað getur veikt sambandið?

Af hverju er þetta áskorun?

Skuldbinding kostar vinnu og fórnfýsi. Þú verður að vera fús til að fórna eigin hagsmunum til að gleðja maka þinn. En sú hugmynd að lúta öðrum og fara að óskum hans — að gefa án þess að spyrja hvað maður fær sjálfur út úr því — er orðin óvinsæl í hugum margra og jafnvel óásættanleg. En spyrðu þig: Hvað þekki ég marga eigingjarna einstaklinga sem búa í farsælu hjónabandi? Eflaust fáa ef nokkra. Af hverju? Af því að líklega heldur eigingjarn einstaklingur ekki áfram að hlúa að sambandinu ef hann þarf að fórna einhverju sjálfur — sérstaklega ef hann hlýtur enga tafarlausa umbun fyrir hverja litla fórn sem hann færir. Ef hjón eru ekki skuldbundin hvort öðru mun sambandið kólna sama hversu heit ástin var í byrjun.

Biblían er raunsæ og bendir á að hjónaband sé vinna. Þar segir: „Hinn kvænti ber fyrir brjósti veraldleg efni svo að hann geti þóknast konunni,“ og „gifta konan ber fyrir brjósti veraldlega hluti svo að hún geti þóknast manni sínum.“ (1. Kor. 7:33, 34) Hjón, sem eru yfirleitt óeigingjörn, gera sér jafnvel ekki alltaf grein fyrir áhyggjum maka síns eða meta að verðleikum þær fórnir sem hann færir. Þegar hjón sýna ekki að þau kunni að meta hvort annað á hjónabandið sennilega eftir að valda þeim meiri ‚erfiðleikum‘ en annars. — 1. Korintubréf 7:28.

Ef hjónabandið á að standa af sér erfiðleika og blómstra þegar vel gengur verður þú að líta á það sem varanlegt. Hvernig geturðu tileinkað þér slíkt hugarfar og hvernig geturðu hvatt maka þinn til að gera það líka?

Hvernig má styrkja hjónabandið?

Ein besta leiðin er að sýna þá auðmýkt að fylgja leiðbeiningunum í orði Guðs, Biblíunni. Ef þú gerir það er það „gagnlegt“ bæði fyrir þig og maka þinn. (Jesaja 48:17) Skoðum tvennt sem þú getur gert.

Láttu hjónabandið hafa forgang.

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta,“ skrifaði Páll postuli. (Filippíbréfið 1:10) Það skiptir Guð mjög miklu máli hvernig hjón koma fram hvort við annað. Guð hefur í heiðri þann mann sem virðir konu sína. Og kona, sem virðir mann sinn, er ‚dýrmæt í augum Guðs‘. — 1. Pétursbréf 3:1-4, 7.

Hversu mikils virði er hjónabandið þér? Yfirleitt ver fólk miklum tíma í það sem er því kært. Spyrðu sjálfan þig: Hversu mikinn tíma tók ég frá í síðasta mánuði til að vera með maka mínum? Hef ég gert eitthvað sérstakt til að fullvissa hann um að við séum enn góðir vinir? Ef þú hefur notað lítinn sem engan tíma til að sinna hjónabandinu gæti verið erfitt fyrir makann að trúa því að hjónabandið sé þér mikils virði.

Trúir maki þinn að hjónabandið sér þér mikils virði? Hvernig geturðu komist að því?

PRÓFIÐ ÞETTA: Skrifaðu þessi fimm atriði niður á miða: peningar, vinna, hjónaband, skemmtun og vinir. Raðaðu þeim niður eftir þeirri forgangsröð sem þú telur maka þinn hafa. Biddu hann að gera hið sama um þig. Þegar þið eruð búin skuluð þið skiptast á miðum. Ef maka þínum finnst þú ekki verja nægum tíma og kröftum í hjónabandið skuluð þið ræða um það hvaða breytingar þú gætir þurft að gera til að styrkja sambandið. Spyrðu sjálfan þig líka: Hvað get ég gert til að sýna meiri áhuga á því sem maka mínum finnst mikilvægt?

Forðist ótryggð í hvaða mynd sem er.

Jesús Kristur sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Þegar einhver hefur kynmök utan hjónabandsins er það reiðarslag fyrir samband hjónanna. Biblían segir það vera grundvöll fyrir skilnaði. (Matteus 5:32) En orð Jesú, sem vitnað er í hér á undan, sýna að rangar langanir geta dvalið í hjartanu löngu áður en einhver drýgir hór í bókstaflegum skilningi. Það er í rauninni viss ótryggð að gæla við þessa röngu löngun.

Til að standa við skuldbindinguna við maka þinn verðurðu að strengja þess heit að horfa aldrei á klám. Andstætt því sem margir segja er klám eitur fyrir hjónabandið. Taktu eftir því hvernig eiginkona nokkur lýsir tilfinningum sínum þegar einginmaður hennar horfir á slíkt efni: „Maðurinn minn segir að það kryddi kynlífið að horfa á klám. En það lætur mér líða eins og ég sé einskis virði, eins og ég sé ekki nógu góð fyrir hann. Ég græt mig í svefn í hvert skipti sem hann horfir á það.“ Myndirðu segja að þessi maður taki alvarlega skuldbindingu sína við eiginkonuna eða er hann að skaða hjónabandið? Finnst þér hann vera að gera konunni sinni auðveldara fyrir að vera skuldbundin honum? Kemur hann fram við hana eins og nánasta vin sinn?

Hinn trúfasti Job sýndi hve skuldbundinn hann var konunni sinni og Guði með því að gera ‚sáttmála við augu sín‘. Hann var staðráðinn í því að „líta mey ekki girndarauga“. (Jobsbók 31:1) Hvernig getur þú líkt eftir Job?

Auk þess að forðast klám verðurðu að vernda hjartað gegn því að mynda óviðeigandi tengsl við einhvern af hinu kyninu. Margir telja að það skaði ekki hjónabandið að daðra. En í orði Guðs er að finna þessa viðvörun: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ (Jeremía 17:9) Hefur hjarta þitt blekkt þig? Spyrðu sjálfan þig: Hverjum sýni ég mesta athygli — maka mínum eða einhverjum öðrum? Hverjum segi ég fyrst frá góðum fréttum — maka mínum eða einhverjum öðrum? Hvernig myndi ég bregðast við ef maki minn bæði mig að takmarka samskiptin við vin af gagnstæðu kyni? Myndi mér gremjast það eða væri ég fús til að verða við beiðninni?

PRÓFIÐ ÞETTA: Ef þú finnur að þú laðast að einhverjum öðrum en maka þínum skaltu takmarka samskiptin við þann einstakling. Eigðu aðeins samskipti við hann þegar það er nauðsynlegt og haltu sambandinu á faglegum nótum. Beindu ekki athyglinni að því sem þér finnst hann hafa til að bera umfram maka þinn. Hugsaðu frekar um góða eiginleika maka þíns. (Orðskviðirnir 31:29) Rifjaðu upp af hverju þú varðst ástfanginn af maka þínum. Spyrðu þig: Hefur hann glatað þessum eiginleikum eða tek ég bara ekki lengur eftir þeim?

Eigðu frumkvæðið

Magnús og María, sem nefnd voru í byrjun greinarinnar, ákváðu að fá hjálp til að greiða úr vandamálum sínum. Að sjálfsögðu er það að leita ráða aðeins fyrsta skrefið. En með því að vera fús að takast á við vandann og leita sér hjálpar gáfu bæði Magnús og María skýr skilaboð um að þau væru skuldbundin hvort öðru. Þau voru fús að leggja hart að sér til að láta hjónabandið ganga.

Hvort sem þið hjónin glímið við vandamál eða ekki verður maki þinn að vita að þú sért staðráðinn í því að láta hjónabandið ganga. Gerðu allt innan skynsamlegra marka til að fullvissa maka þinn um það. Ertu fús til þess?

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 5 Þótt hér sé tekið dæmi um mann sem horfir á klám má segja hið sama um konu sem gerir það.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvað gæti ég skorið niður til að hafa meiri tíma með maka mínum?

  • Hvað get ég gert til að fullvissa maka minn um að ég sé staðráðinn í því að láta hjónabandið ganga?