Um bænir sem Guð heyrir
Lærum Af Jesú
Um bænir sem Guð heyrir
Jesús vildi oft vera í einrúmi þegar hann fór með bænir og hann ráðlagði fylgjendum sínum að gera hið sama. Í Biblíunni er sagt: „Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann þá er hann lauk bæn sinni: ‚Drottinn, kenndu okkur að biðja‘ . . . Hann sagði við þá: ‚Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn.‘“ (Lúkas 5:16; 11:1, 2) Þannig sýndi Jesús að bænum á aðeins að beina til föður hans, Jehóva. Hann einn er skapari okkar og sá „sem heyrir bænir“. — Sálmur 65:3.
Eru allar bænir Guði þóknanlegar?
Endurteknar bænir eftir minni eru Guði ekki þóknanlegar. Jesús sagði: „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi.“ (Matteus 6:7) Við þurfum að tala beint frá hjartanu við himneskan föður okkar. Eitt sinn benti Jesús fylgjendum sínum á að bænir syndugs manns, sem einlæglega vill breyta sér, séu Guði þóknanlegri heldur en bæn stolts manns sem fer vandlega eftir trúarlegum siðvenjum. (Lúkas 18:10-14) Til að Guð hlusti á bænir okkar þurfum við auðmjúklega að reyna að gera vilja hans. Jesús sagði jafnvel: „Ég [tala] það eitt sem faðirinn hefur kennt mér . . . ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ (Jóhannes 8:28, 29) Í bæn sagði Jesús: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ — Lúkas 22:42.
Um hvað ættum við að biðja?
Þar sem nafni Guðs hefur verið lastmælt sagði Jesús: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Við ættum að biðja um að ríki Guðs komi vegna þess að það er stjórnin sem Guð notar til að framfylgja vilja sínum á himni og á jörðu. Jesús sagði að við gætum beðið um „vort daglegt brauð“. Við getum líka talað við Jehóva í bæn um atvinnu, húsnæði, fatnað, heilsufar og önnur mál. Þar að auki sagði Jesús að við ættum að biðja um fyrirgefningu. — Lúkas 11:3, 4.
Ættum við að biðja fyrir öðrum?
Jesús bað fyrir öðrum. Í Biblíunni er sagt: „Færðu menn börn til Jesú að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim.“ (Matteus 19:13) Jesús sagði við Pétur postula: „Ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“ (Lúkas 22:32) Jesús hvatti fylgjendur sína til að biðja fyrir öðrum, jafnvel þeim sem ofsækja þá og móðga. — Matteus 5:44; Lúkas 6:28.
Af hverju ættum við að vera staðföst í bæninni?
Jesús tók frá tíma til þess að biðja og hann hvatti fylgjendur sína til að ‚biðja stöðugt og þreytast ekki‘. (Lúkas 18:1) Jehóva hvetur okkur til að sýna það traust að ræða endurtekið við hann um hluti sem snúa að okkur. „Biðjið og yður mun gefast,“ sagði Jesús. En þetta þýðir ekki að Jehóva sé tregur til að svara bænum þeirra sem elska hann og virða sem föður. Öllu heldur sagði Jesús: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann“. — Lúkas 11:5-13.
Nánari upplýsingar er að finna í 17. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? *
[Neðanmáls]
^ gr. 12 Gefin út af Vottum Jehóva.