Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er einhverjum virkilega annt um mig?

Er einhverjum virkilega annt um mig?

Er einhverjum virkilega annt um mig?

Hefur þér einhvern tíma fundist þú einn og yfirgefinn, eins og enginn skilji vandamál þín? Og þótt fólk viti af þeim finnst þér kannski eins og því sé alveg sama.

ÞEGAR vandamál koma upp getur okkur stundum fundist eins og skollið hafi á stormur sem linni ekki. Okkur gæti jafnvel fundist að það sem við verðum fyrir sé svo niðurdrepandi og óréttlátt að við getum ekki haldið það út. Við höfum kannski orðið fyrir tilfinningalegum áföllum, orðið þunglynd, lent í alvarlegu slysi, fengið langvinnan sjúkdóm eða eitthvað þessu líkt. Okkur finnst við ef til vill vera svo hjálparlaus og vonlaus að við veltum því fyrir okkur hvar við getum fundið huggun. Er einhverjum annt um okkur?

„Guð allrar huggunar“ — honum er annt um okkur

Í Biblíunni er sagt um Guð að hann sé „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“. (2. Korintubréf 1:3) Guð veit að við þörfnumst huggunar. Í Biblíunni kemur orðið ‚huggun‘ fyrir oftar en hundrað sinnum í ýmsum myndum og það fullvissar okkur um að Guð, sem heitir Jehóva, skilji aðstæður okkar og vilji hugga okkur. Sú vitneskja sannfærir okkur um að Jehóva Guð taki eftir erfiðleikum okkar og láti sig þá varða jafnvel þótt aðrir virðist ekki gera það.

Það sést greinilega í Biblíunni að Jehóva hefur áhuga á okkur sem einstaklingum. „Augu Drottins eru alls staðar,“ segir þar, „og vaka yfir vondum og góðum.“ (Orðskviðirnir 15:3) Það segir líka í Jobsbók 34:21: „Augu Guðs hvíla á vegferð mannsins, hann horfir á hvert hans spor.“ Jehóva sér það sem við gerum — bæði gott og slæmt — og hann þekkir aðstæður okkar og getur því brugðist við eins og hann telur best. Þetta sést vel af orðum sjáandans eða spámannsins Hananí þegar hann sagði við Asa Júdakonung. „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ — 2. Kroníkubók 16:7, 9.

En það er líka önnur ástæða fyrir því að Jehóva vakir yfir okkur. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann.“ (Jóhannes 6:44) Jehóva gefur sér tíma til að rannsaka hjörtu manna til að sjá hvort þeir vilji kynnast honum betur. Og ef svo er svarar hann og það oft á ótrúlegan hátt. Til dæmis var kona á sjúkrahúsi í Dóminíska lýðveldinu á leið í uppskurð vegna krabbameins. Hún bað Guð innilega um hjálp til að finna hina sönnu trú. Í því kom eiginmaður hennar til hennar með bækling sem hét Hvers krefst Guð af okkur? * Hann hafði þegið bæklinginn þennan sama morgun þegar vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá honum. Konan las hann og áttaði sig á því að Guð var að svara bænum hennar. Hún þáði biblíunámskeið hjá vottunum og innan sex mánaða vígði hún líf sitt Guði og lét skírast.

Í Sálmunum má finna mörg hjartnæm orð hebresku sálmaritaranna sem lýsa umhyggju Jehóva fyrir þjónum sínum. Til dæmis segir Davíð konungur um Jehóva í Sálmi 56:9: „Þú hefur . . . safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína“. Davíð gerði sér grein fyrir að Jehóva vissi ekki aðeins af þjáningum hans heldur líka hvaða áhrif þær hefðu á hann. Jehóva vissi vel um sársauka Davíðs og mundi hvað hann hafði gengið í gegnum sem fékk hann til að tárast. Skapari okkar fylgist með öllum sem reyna að gera vilja hans og „eru heils hugar við hann“.

Í 23. sálminum er að finna þekkt orð sem lýsa umhyggju Guðs. Sálmurinn hefst á því að Guði er líkt við góðan hirði: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Fjárhirðir í Mið-Austurlöndum hugsar vel um sauðina sína og gefur þeim jafnvel nöfn. Á hverjum degi kallar hann þá til sín hvern af öðrum, klappar þeim blíðlega og leitar að meiðslum eða sárum. Ef hann finnur eitthvað ber hann olíu eða smyrsl á meiðslin til að flýta fyrir bata. Ef sauðurinn er veikur þarf hirðirinn kannski að koma lyfjum niður í hann og styðja við hann svo að hann leggist ekki niður og deyi. Þetta dregur sannarlega upp fallega mynd af því hvernig Jehóva hugsar um alla sem leita hans.

Bænin og upprisan — merki um umhyggju Guðs

Fagrir sálmar eins og þessir voru ekki aðeins skrifaðir okkur til gamans. Þeir sýna okkur hvernig trúfastir þjónar Guðs fortíðar úthelltu hjarta sínu fyrir Jehóva. Þeir viðurkenndu að þeir þörfnuðust hjálpar og voru þakklátir fyrir leiðsögn hans og blessun. Og það sýnir okkur að þessir þjónar til forna trúðu því staðfastlega að Guði væri annt um þá. Þegar við lesum og hugleiðum þessi hjartnæmu orð hjálpar það okkur að vera sama sinnis. Bænin er kröftug sönnun þess að Jehóva þyki vænt um okkur.

En stundum finnst okkur vandamálin svo yfirþyrmandi að við vitum ekki einu sinni hvernig við eigum að koma orðum að þeim í bæn. Kemur það í veg fyrir að Jehóva viti um erfiðleika okkar? Við fáum svar við því í Rómverjabréfinu 8:26: „Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið.“ Í þessum ritningarstað er okkur sagt að innblásnar bænir þjóna Guðs til forna geti endurspeglað tilfinningar okkar og þannig borist til eyrna Jehóva „sem heyrir bænir“. — Sálmur 65:3.

Upprisuvonin er önnur sönnun þess að Guð hefur áhuga á hverju og einu okkar. Jesús Kristur sagði: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Á grísku er hér notað orð sem þýðir bókstaflega „minningargröf“ en ekki bara „gröf“. Það felur í sér þá hugmynd að Guð muni eftir ævi og störfum einstaklingsins.

Hugsaðu þér, til að reisa einhvern upp til lífs verður Guð að muna allt um þennan einstakling — útlit hans, meðfædda og áunna hæfileika og minningar hans eins og þær leggja sig! (Markús 10:27) Þótt liðið hafi þúsundir ára síðan þessi einstaklingur dó förlast Guði ekki minnið. (Jobsbók 14:13-15; Lúkas 20:38) Milljarðar manna, sem hafa dáið, eru geymdir í minni Jehóva Guðs og hann man eftir þeim í smáatriðum. Þetta er sterk sönnun fyrir því að honum þyki vænt um okkur.

Jehóva umbunar

Hvað verðum við að gera til að hljóta kærleiksríka umhyggju Guðs? Við verðum fyrst og fremst að sýna að við treystum honum og hlýðum, að við trúum á hann. Páll postuli bendir á sambandið milli trúar og þess að njóta umhyggju Guðs. Hann skrifaði: „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ — Hebreabréfið 11:6.

Taktu eftir að Guð hefur velþóknun á trú sem felur í sér tvennt. Í fyrsta lagi verðum við að „trúa því að hann sé til“, að hann sé æðsti stjórnandi alheims og verðskuldi hlýðni okkar og tilbeiðslu. Í öðru lagi verðum við að trúa að hann „umbuni þeim er leita hans“. Sönn trú felur í sér að trúa því að Guð hafi áhuga á velferð allra sem leitast einlæglega við að gera vilja hans og að hann umbuni þeim. Með því að lesa og rannsaka orð Guðs og umgangast þá sem hlýða honum getur þú líka notið umhyggju hans og öðlast þess konar trú sem Guð umbunar.

Nú á dögum finnst mörgum að Guð hafi engan áhuga á málefnum manna. En eins og við höfum séð sýnir Biblían greinilega að Guð hefur mikinn áhuga á þeim sem trúa á hann. Þótt þjáningar, áhyggjur, sársauki og vonbrigði séu stór hluti af lífi okkar núna þurfum við ekki að örvænta. Jehóva Guði er annt um okkur. Hann býður okkur að leita til sín eftir stuðningi. Sálmaritarinn skrifaði: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ — Sálmur 55:23.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 27]

Ritningarstaðir sem styrkja trúna á umhyggju Guðs

„Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ — 2. KRONÍKUBÓK 16:9.

„Þú hefur . . . safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína.“ — SÁLMUR 56:9.

„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ — SÁLMUR 23:1.

„Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn.“ — SÁLMUR 65:3.

„Þá hrópaðir þú og ég svaraði þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ — JOBSBÓK 14:15.

„Sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:6.

„Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ — SÁLMUR 55:23.