Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvenær var Biblían skrifuð?

Hvenær var Biblían skrifuð?

Hvenær var Biblían skrifuð?

Biblían er einstök meðal bóka. Meira en þrír milljarðar manna telja hana helga bók. Hún hefur verið kölluð metsölubók sögunnar en talið er að prentaðir hafi verið meira en sex milljarðar eintaka af henni (í heild eða að hluta) á rösklega 2.400 tungumálum.

ÞÓTT Biblían hafi verið lesin mest allra bóka sögunnar eru á lofti ótal hugmyndir um það hvenær hún hafi verið skrifuð, ekki síst Hebresku ritningarnar sem eru oftast kallaðar Gamla testamentið. Vera má að þú hafir lesið um einhverjar þessara hugmynda í bókum eða tímaritum, eða hlustað á fræðimenn útlista þær í heimildarmyndum í sjónvarpi. Hér eru þrjú dæmi um þær skoðanir sem eru uppi nú um stundir.

„Rit Biblíunnar voru að mestu leyti skrifuð á áttundu til sjöttu öld f.Kr., það er að segja á tímabilinu milli spámannanna Jesaja og Jeremía.“

„Síðastliðin tvö hundruð ár hafa biblíufræðingar yfirleitt gengið út frá því að hebreska biblían hafi að mestu leyti verið skrifuð og tekin saman á persneska og helleníska tímanum (frá fimmtu öld til annarrar aldar f.Kr.).“

„Allir textar hebresku biblíunnar í núverandi mynd eru frá helleníska tímanum (jafnvel frá annarri og fyrstu öld f.Kr.).“

Hvernig á kristinn maður, sem trúir að ,sérhver ritning sé innblásin af Guði‘, að líta á þessar sundurleitu hugmyndir? (2. Tímóteusarbréf 3:16) Til að leita svars við því skulum við líta á málið frá báðum hliðum.

Tímasetningar Biblíunnar sjálfrar

Í hebresku biblíunni er að finna margar og miklar upplýsingar um tímasetningar og tímatal. Af þeim má ráða að fyrstu biblíubækurnar hafi verið skrifaðar fyrir um það bil 3.500 árum, á dögum þeirra Móse og Jósúa. * Samúel, Davíð, Salómon og fleiri bættu við ýmsum ritum á 11. öld f.Kr. Á tímabilinu frá níundu öld til fimmtu aldar f.Kr. voru svo skrifaðar sögulegar, ljóðrænar og spádómlegar bækur.

Meðal Dauðahafshandritanna fundust afrit eða slitur af öllum þessum biblíubókum, að Esterarbók undanskilinni. Aldursgreining með geislakoli (C 14) og fornletursfræði staðfestir að elstu bókrollurnar í þessu safni séu frá árabilinu 200 til 100 f.Kr.

Hvað segja gagnrýnendur?

Ein helsta ástæðan fyrir því að margir vilja véfengja tímasetningar Biblíunnar er sú að í henni er því haldið fram að hún sé innblásin af Guði. Um það segir prófessor Walter C. Kaiser, Jr., í bók sinni The Old Testament Documents: „Biblían er ótrúverðug fyrir þá sök að í henni er fullyrt að hún sé innblásin og sökum þess að hún fjallar um kraftaverk og Guð.“ Fræðimenn, sem viðurkenna ekki að Biblían sé innblásin, halda því fram að horfa eigi gagnrýnum augum á hana rétt eins og hverja aðra bók.

Um tíma var því haldið fram að trúarbrögðin hafi þróast og orðið flóknari með tímanum og var þar byggt á þróunarkenningu Darwins. Fyrst hafi menn trúað á stokka og steina, síðan hafi fjölgyðistrúin komið fram og að síðustu eingyðistrú. Þar eð elstu bækur Biblíunnar tala um að Guð sé einn og skuli tilbeðinn sem slíkur hljóti þær að hafa verið skrifaðar síðar en fullyrt er.

Biblíugagnrýni hefur birst í mörgum myndum síðan. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum var gefin út orðabók yfir Gamla testamentið sem inniheldur ítarlega umfjöllun um formbyggingu Biblíunnar, sögulega nákvæmni, tengsl við aðrar heimildir, rannsóknir á uppruna textans og annað í þeim dúr.

Þótt fræðimenn greini á um aldur biblíubókanna hallast margir að kenningu sem prófessor R. E. Friedman setti fram. Hann skrifar: „Höfundar til forna sömdu á aldalöngu tímabili lagalega texta, auk texta í bundnu máli og óbundnu. Þessir textar voru síðan notaðir sem heimildir þegar Biblían var tekin saman.“

Rætt er um þessi og mörg önnur gagnrýn viðhorf til Biblíunnar í bókinni Faith, Tradition, and History. Þar segir síðan: „Þótt fræðimenn séu samtaka um að treysta ekki Biblíunni og trúi sínum eigin kenningum eins og nýju neti eru þeir ákaflega gagnrýnir á skoðanir hver annars.“

Til varnar tímatali Biblíunnar

Elstu bækur Biblíunnar voru skrifaðar á forgengilegt efni. Það er því ekki raunhæft að ætla að nokkur af frumritunum eigi eftir að finnast eða afrit frá dögum Móse, Jósúa, Samúels eða Davíðs. Hins vegar er að finna óbeinar sögulegar vísbendingar sem styðja það að tímasetningar Biblíunnar sjálfrar séu trúverðugar. Margir virtir fræðimenn og fornleifafræðingar hafa rannsakað þessar vísbendingar. Hvað segja þær okkur? Lítum á fáein dæmi.

Var til ritað efni í Mið-Austurlöndum fyrir 3.500 árum, á þeim tíma sem Biblían segir að Móse og Jósúa hafi verið uppi? Trúarlegir, lagalegir og sögulegir textar, auk bókmenntatexta, voru gerðir í Mesópótamíu og Egyptalandi til forna. En hvað um Móse og Ísraelsmenn? Því er svarað í bókinni Dictionary of the Old Testament: Pentateuch: „Það er engin ástæða til að efast um að ritað efni hafi verið til í Kanaan síðla á bronsöld,“ það er að segja á bilinu 1550 til 1200 f.Kr. Síðan segir: „Miðað við ritlist fornaldar er engin ástæða til að efa að þeir textar, sem eru kenndir við Móse, hafi verið skrifaðir á þeim tíma. Hið sama má segja um aðra hebreska texta.“ — 2. Mósebók 17:14; 24:4; 34:27, 28; 4. Mósebók 33:2; 5. Mósebók 31:24.

Studdust biblíuritarar við aðrar heimildir? Já, sumir nefna bækur sem kunna að hafa geymt opinber gögn, ættarskrár, söguheimildir og skjöl um ættir og ættkvíslir. — 4. Mósebók 21:14; Jósúabók 10:13; 2. Samúelsbók 1:18; 1. Konungabók 11:41; 2. Kroníkubók 32:32.

Af hverju hafa ekki fundist eldri biblíuhandrit en Dauðahafshandritin? Því er svarað í tímaritinu Biblical Archaeology Review: „Papýrus og bókfell hefur óvíða varðveist í Palestínu, nema þá helst á sérlega þurrviðrasömum svæðum umhverfis Dauðahaf. Þessi efni morkna og eyðast í rökum jarðvegi. Þó að þau hafi ekki fundist er ekki þar með sagt að þau hafi aldrei verið til.“ Reyndar hafa fundist leirinnsigli í hundraðatali sem notuð voru til að innsigla skjöl. Papýrusinn og bókfellið hefur eyðst fyrir löngu sökum elds eða raka en leirinnsiglin hafa staðist tímans tönn. Þau eru frá um níundu öld f.Kr. til fimmtu aldar f.Kr.

Hvernig varðveittust biblíuhandritin? Í bókinni The Bible as It Was segir: „Sögur, sálmar, lagaákvæði og spádómar, sem hafa varðveist til okkar daga í Biblíunni, hljóta því að hafa verið afrituð ótal sinnum á biblíutímanum sjálfum . . . Ef þessir textar voru afritaðir margoft á biblíutímanum var það vegna þess að þeir voru notaðir. Þeir gegndu hlutverki í daglegu lífi fólks . . . Enginn hefði lagt það á sig að afrita textana í nokkrum öðrum tilgangi.“ — 5. Mósebók 17:18; Orðskviðirnir 25:1.

Þetta þýðir að búið var að endurrita elstu biblíubækurnar í næstum 1.500 ár þegar kom fram á fyrstu öld. Þessi nákvæma endurritun fól meðal annars í sér að „færa úrelt málfræðileg atriði og stafsetningu til samtímaforms en það var stundað alls staðar í Austurlöndum nær“. Þetta kemur fram í bókinni On the Reliability of the Old Testament. * Miðað við þetta er full ástæða til að taka með varúð gagnrýni sem er byggð á formi og stíl biblíutextans.

Hvenær var Biblían skrifuð?

Er rökrétt að halda því fram að bækur Biblíunnar geti ekki hafa verið skrifaðar á dögum Móse, Jósúa, Samúels og fleiri fyrst ekki eru til handrit frá þeim tíma? Margir fræðimenn eru á því að þótt ekki séu til rit frá þeim tíma sanni það alls ekki að þau hafi aldrei verið til. Er raunhæft að ætla að mikið hafi varðveist af forgengilegu efni til skrifta frá þeim tíma? Egyptalandsfræðingurinn K. A. Kitchen telur að næstum öll egypsk papýrusrit, sem gerð voru fyrir grísk-rómverska tímann, séu glötuð.

Þeir sem virða Biblíuna ættu einnig að hugleiða hvernig Jesús leit á hebresku biblíuna. Í hans tíð var aldrei deilt um tímasetningar eða aldursgreiningu. Ljóst er að Jesús viðurkenndi þær tímasetningar sem er að finna í Biblíunni, rétt eins og Gyðingar gerðu almennt. Viðurkenndi hann að elstu bækur Biblíunnar væru kenndar við rétta höfunda?

Jesús vísaði alloft í rit Móse og nefnir til dæmis „bók Móse“. (Markús 12:26; Jóhannes 5:46) Hann vísaði í frásögur í 1. Mósebók (Matteus 19:4, 5; 24:37-39), 2. Mósebók (Lúkas 20:37), 3. Mósebók (Matteus 8:4), 4. Mósebók (Matteus 12:5) og 5. Mósebók (Matteus 18:16). „Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast,“ sagði Jesús. (Lúkas 24:44) Fyrst hann viðurkenndi að Móse og aðrir væru höfundar bókanna sem við þá eru kenndar hefur hann eflaust tekið tímasetningar hebresku biblíunnar trúanlegar.

Hvenær var Biblían þá skrifuð? Eru tímasetningar Biblíunnar sjálfrar áreiðanlegar? Við höfum skoðað gagnrýni margra fræðimanna og upplýsingar sóttar í Biblíuna sjálfa. Við höfum sömuleiðis litið á óbeinar sögulegar vísbendingar og kannað afstöðu Jesú. Finnst þér, í ljósi þessa, að þú getir tekið undir sjónarmið Jesú þegar hann sagði í bæn til föður síns, Jehóva Guðs: „Þitt orð er sannleikur“? — Jóhannes 17:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Ítarlegar upplýsingar um tímatal Biblíunnar er að finna í bókinni Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 447-467. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 23 Sjá greinina „Ancient Scribes and the Word of God“ í Varðturninum 15. mars 2007, bls. 18-20.

[Tafla/​myndir á bls. 18-21]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

(Tímalínan sýnir hér um bil hvenær lokið var við að rita þær biblíubækur sem tilgreindar eru.)

2000 f.Kr.

1800

[Mynd]

Egypskir fræðimenn stunduðu skriftir fyrir daga Móse.

[Rétthafi myndar]

© DeA Picture Library/Art Resource, NY

1600

[Mynd]

Móse lauk gerð 1. Mósebókar árið 1513 f.Kr. Hún var skrifuð á forgengilegt efni.

1. Mósebók 1513 f.Kr.

Jósúabók

1400

1200

Samúelsbækur

1000 f.Kr.

[Mynd]

Leirinnsigli hafa varðveist í hundraðatali.

Aldursgreind frá 900 til 500 f.Kr.

Jónasarbók

800

Jesajabók

600

Jeremíabók

Daníelsbók

[Mynd]

Samanbrotið papýrushandrit með bandi og innsigli úr leir.

Aldursgreint frá 449 f.Kr.

[Rétthafi myndar]

Brooklyn Museum. Úr safni Charles Edwins Wilbours sem dóttir hans, Theodora Wilbour, ánafnaði safninu.

400

200

[Mynd]

Dauðahafshandritin voru vafin í léreft og geymd í leirkrukkum. Þau eru elstu biblíuhandrit sem fundist hafa.

Aldursgreind frá 200 til 100 f.Kr.

[Rétthafi myndar]

Shrine of the Book. Ljósmynd © The Israel Museum, Jerúsalem