Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ættu börn að fræðast um Guð?

Ættu börn að fræðast um Guð?

Ættu börn að fræðast um Guð?

„Við erum nógu trúuð til að hata en ekki nógu trúuð til að elska hvert annað.“ – JONATHAN SWIFT, ENSKUR RITHÖFUNDUR.

SWIFT lét þessa skoðun í ljós á 18. öld, en nú á dögum myndu eflaust margir vera sammála honum. Sumum finnst jafnvel að foreldrum ætti ekki að vera heimilt að fræða börnin sín um Guð. Þeir líta svo á að það sé ókostur fyrir börn að alast upp á trúuðu heimili.

Hver eftirtalinna fullyrðinga finnst þér vera skynsamlegust?

● Foreldrum ætti ekki að vera heimilt að fræða börnin sín um Guð.

● Foreldrar ættu að bíða með að ræða við börnin um trúmál þar til þau eru vaxin úr grasi.

● Á meðan börnin eru ung ættu foreldar að halda sínum trúarskoðunum að þeim. En þegar börnin fara að þroskast ættu foreldrar að hvetja þau til að hugsa málið sjálf.

● Börn eiga umyrðalaust að taka upp sömu trúarskoðanir og foreldrar þeirra.

Hafa trúarbrögð slæm áhrif á börn?

Umhyggjusamir foreldrar vilja auðvitað ekki hafa slæm áhrif á börnin sín. En eiga staðhæfingar þeirra sem eru mótfallnir því að börn fræðist um Guð við einhver rök að styðjast? Undanfarna áratugi hafa verið gerðar nákvæmar rannsóknir á því hvaða áhrif trúarskoðanir foreldra hafa á börnin. Hver var niðurstaðan?

Rannsóknirnar leiddu í ljós að í stað þess að hafa slæm áhrif geta trúarbrögð haft jákvæð áhrif á þroska barna. Árið 2008 voru birtar niðurstöður könnunar í tímaritinu Social Science Research * en þar sagði: „Það hefur sýnt sig að trú getur styrkt tilfinningatengsl barna við báða foreldra sína.“ Það kom líka fram í þessari könnun að „trúariðkun virðist vera mikilvægur þáttur í lífi margra barna og hafa mjög góð áhrif á fjölskylduböndin“. Taktu eftir því hvað þessi niðurstaða minnir mikið á orð Jesú: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ – Lúk. 11:28.

En hvað má segja um það viðhorf að börn eigi að vaxa úr grasi áður en þau fari að fræðast um Guð og trúarbrögð? Þeir sem aðhyllast þetta viðhorf líta fram hjá því að hugur barna er eins og tóm fata sem á eftir að fylla. Foreldrar þurfa að velja á milli þess að fylla „fötuna“ á heimilinu með eigin siðferðisgildum og trúarskoðunum eða leyfa alls konar utanaðkomandi hugmyndum að rigna yfir barnið og fylla huga þess og hjarta.

Hver er lausnin?

Sagan hefur sýnt að trúarbrögðin geta kynt undir ofstæki og hatri. Hvernig geta foreldrar þá komið í veg fyrir að orð Jonathans Swifts eigi við um börnin þeirra? Hvernig geta foreldrar veitt börnum sínum trúarfræðslu sem stuðlar að því að þau elski náungann?

Lausnin felst í því að finna svör við þremur spurningum: (1) Hvað eiga börnin að læra? (2) Hver á að fræða þau? (3) Hvaða kennsluaðferðir skila bestum árangri?

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Þessi rannsókn var byggð á upplýsingum frá rösklega 21.000 börnum sem búa í Bandaríkjunum, og frá foreldrum þeirra og kennurum.