Viðbrögð við náttúruhamförum
Náttúruhamfarir eru orðnar tíðari en áður og hafa sífellt meiri eyðileggingu í för með sér. Hvernig er best að bregðast við? Lítum á nokkur hagnýt ráð.
Forðaðu þér af hættusvæði.
„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 22:3) Þetta er viturlegt ráð sem má heimfæra upp á náttúruhamfarir. Ef varað er við yfirvofandi eldgosi, flóðahættu, fellibyl eða hvirfilbyl er skynsamlegt að yfirgefa hættusvæðið og fara á öruggari stað. Lífið er dýrmætara en hús eða aðrar efnislegar eigur.
Sumir eiga þess ef til kost að búa annars staðar en á hættusvæði. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir: „Hætta á náttúruhamförum er bundin við ákveðin landsvæði. Mesta hættan á hamförum í framtíðinni takmarkast við mjög lítinn hluta af yfirborði jarðar.“ Þetta gæti til dæmis átt við láglendi við strendur eða svæði nálægt flekaskilum jarðskorpunnar. Ef hægt er að komast hjá því að búa á slíkum hættusvæðum eða flytja á öruggari stað má draga verulega úr líkunum á að lenda í náttúruhamförum.
Gerðu viðbragðsáætlun.
Þrátt fyrir allar varúðarráðstafanir getur maður samt sem áður orðið fórnarlamb óvæntra áfalla. Það er mun auðveldara að bregðast rétt við ef maður hefur gert viðbragðsáætlun. Þetta er líka í samræmi við ráðin í Orðskviðunum 22:3 sem vitnað var í hér að framan. Hefur þú útbúið viðlagakassa eða -tösku sem hægt er að grípa til þegar á þarf að halda? Í handbókinni 1-2-3 of Disaster Education er mælt með að hafa eftirfarandi til reiðu: Sjúkrakassa, vatnsflöskur, geymsluþolin matvæli, skilríki og önnur mikilvæg skjöl. Einnig væri skynsamlegt að ræða við fjölskylduna um hvers konar hamfarir gætu átt sér stað og hvernig best sé að bregðast við hverju tilfelli.
Varðveittu náið samband við Guð.
Það er alltaf til góðs við hvaða aðstæður sem er. Í Biblíunni er sagt að Guð sé „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri“. Annað vers segir að hann sé „Guð, sem huggar hina beygðu“. – 2. Korintubréf 1:3, 4; 7:6, Biblían 1981.
Já, Guð þekkir vel aðstæður þeirra sem trúa á hann. Hann er Guð kærleikans og hvetur okkur og uppörvar á ýmsa vegu. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Bænir geta hjálpað okkur undir öllum kringumstæðum. En við ættum að biðja um máttugan anda Guðs en ekki um kraftaverk. Heilagur andi getur hjálpað þeim sem lenda í raunum að muna eftir biblíuversum sem geta róað þá og huggað. Þá getur trúum þjónum Guðs liðið eins og Davíð konungi í Ísrael til forna sem sagði: „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ – Sálmur 23:4.
Bænir geta hjálpað okkur undir öllum kringumstæðum. En við ættum að biðja um máttugan anda Guðs en ekki um kraftaverk.
Trúsystkini hjálpast að.
Agabus, sem var kristinn spámaður á fyrstu öld, benti á að „mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar“. Margir lærisveinar Jesú í Júdeu máttu þola alvarlega hungursneyð. Hvernig brugðust lærisveinarnir við, sem voru búsettir annars staðar, þegar þeir fréttu af neyð trúsystkina sinna? Frásagan segir: „Lærisveinarnir í Antíokkíu samþykktu þá að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar lærisveinunum sem bjuggu í Júdeu.“ (Postulasagan 11:28, 29) Þeir sýndu kærleika og sendu hjálpargögn.
Þegar válegir atburðir eiga sér stað nú á dögum bregðast þjónar Guðs við á svipaðan hátt. Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að hjálpa trúsystkinum sínum. Nefnum dæmi. Þegar sterkur jarðskjálfti skók Síle þann 27. febrúar 2010 brást söfnuðurinn skjótt við og hjálpaði þeim sem urðu illa úti í hamförunum. Risaflóðbylgja sópaði burt húsinu sem Karla bjó í. Hún segir svo frá: „Það var svo hughreystandi og hvetjandi að sjá [trúsystkini okkar] frá öðrum landshlutum koma strax næsta dag til að hjálpa okkur. Það leikur enginn vafi á því að Jehóva hughreysti okkur með góðsemi þessara sjálfboðaliða. Ég fann fyrir vernd Guðs og kærleika.“ Afi Körlu, sem er ekki vottur, fylgdist með hjálparstarfinu. Hann sagði: „Ég hef ekki séð neitt þessu líkt í kirkjunni minni í áraraðir.“ Þetta varð til þess að hann bað votta Jehóva um að aðstoða sig við að kynna sér Biblíuna.
Trúsystkini hjálpast að.
Félagsskapur við þá sem elska Guð getur veitt manni mikinn styrk á erfiðleikatímum. En mun sá dagur einhvern tíma renna upp að náttúruhamfarir heyri sögunni til? Við skulum nú kanna hvað Biblían segir um það.