Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Móse – trúfastur maður

Móse – trúfastur maður

HVAÐ ER TRÚ?

Þegar talað er um „trú“ í Biblíunni er átt við óhagganlega trú byggða á sterkum rökum. Sá sem trúir á Guð er þess fullviss að hann standi við öll loforð sín.

HVERNIG SÝNDI MÓSE TRÚ?

Með ákvörðunum sínum sýndi Móse að hann treysti loforðum Guðs. (1. Mósebók 22:15-18) Honum bauðst tækifæri til að lifa áhyggjulausu lífi í vellystingum í Egyptalandi en hafnaði því. Hann „kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni“. (Hebreabréfið 11:25) Var þetta ákvörðun sem hann tók í fljótfærni og sá síðan eftir? Nei, því að í Biblíunni segir að Móse hafi áfram verið „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Hebreabréfið 11:27) Móse tók ákvarðanir byggðar á sterkri trú og sá aldrei eftir þeim.

Móse leitaðist við að hjálpa öðrum að hafa sterka trú á Guð. Lítum til dæmis á hvað gerðist þegar Ísraelsþjóðin virtist vera í sjálfheldu milli her faraós og Rauðahafsins. Ísraelsmenn voru skelfingu lostnir vegna hörmunganna sem vofðu yfir og hrópuðu á hjálp til Jehóva og Móse. Hvað gerði Móse?

Hann vissi sennilega ekki að Guð væri í þann mund að kljúfa Rauðahafið og opna þar með undankomuleið fyrir Ísraelsmenn. Hann var samt sannfærður um að Guð myndi gera eitthvað til að vernda fólk sitt. Og hann vildi að Ísraelsmenn bæru þetta sama traust til Guðs. Frásagan segir: „Móse svaraði fólkinu: ,Óttist ekki. Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur í dag.‘“ (2. Mósebók 14:13) Tókst Móse að styrkja trú þeirra? Já, því að í Biblíunni segir bæði um Móse og alla Ísraelsmenn: „Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land.“ (Hebreabréfið 11:29) Trú Móse var því ekki aðeins honum til góðs heldur einnig öllum þeim sem lærðu hve viturlegt það er að treysta á Jehóva.

HVAÐ LÆRUM VIÐ?

Við getum líkt eftir Móse með því að sýna með ákvörðunum okkar að við treystum loforðum Guðs. Guð lofar til dæmis að annast efnislegar þarfir okkar ef við látum þjónustuna við hann ganga fyrir öllu öðru. (Matteus 6:33) Þar sem flestir láta líf sitt snúast um efnislega hluti getur vissulega verið erfitt að falla ekki í sömu gryfju. En ef við reynum eftir fremsta megni að lifa einföldu lífi og einbeita okkur að þjónustunni við Jehóva getum við treyst því að hann sjái okkur fyrir öllum nauðsynjum. Hann lofar: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ – Hebreabréfið 13:5.

Við leitumst einnig við að hjálpa öðrum að hafa sterka trú á Guð. Skynsamir foreldrar gera sér til dæmis grein fyrir því að þeir eru í einstakri aðstöðu til að hjálpa börnum sínum að byggja upp trú á Guð. Börn þurfa að læra frá unga aldri að Guð sé til og að hann kenni okkur hvað sé rétt og rangt. En þau þurfa líka að vera sannfærð um að besta leiðin í lífinu sé sú að fylgja leiðbeiningum hans. (Jesaja 48:17, 18) Foreldrar gefa börnum sínum dýrmæta gjöf þegar þeir kenna þeim að Guð „sé til og að hann umbuni þeim er leita hans“. – Hebreabréfið 11:6.