Stríð – er trúarbrögðum treystandi?
Alberto var í hernum í næstum tíu ár. Hann segir: „Presturinn blessaði okkur og sagði: ,Guð er með ykkur.‘ Ég hugsaði með mér: Ég á að fara að drepa fólk, en samt stendur í Biblíunni: ,Þú skalt ekki drepa.‘“
Ray var í sjóhernum í síðari heimsstyrjöldinni. Eitt sinn spurði hann prestinn: „Þú kemur um borð í skipið og biður fyrir hermönnunum og biður Guð um sigur. Gerir óvinurinn það ekki líka?“ Presturinn sagði þá að vegir Drottins væru órannsakanlegir.
Ef þú ert ekki ánægður með þessa útskýringu prestsins ertu ekki einn um það.
HVAÐ KENNIR BIBLÍAN?
Jesús sagði að eitt æðsta boðorðið frá Guði væri þetta: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Markús 12:31) Gaf Jesús í skyn að kærleikur til náungans ætti að vera bundinn við það hvar hann byggi eða hverrar þjóðar hann væri? Nei, hann sagði við lærisveina sína: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Kærleikurinn, sem þeir bæru hver til annars, yrði svo einstakur að auðvelt yrði að bera kennsl á þá. Fylgjendur Jesú myndu frekar gefa líf sitt fyrir aðra en að taka líf annarra.
Frumkristnir menn lifðu í samræmi við orð Jesú. Alfræðibók um trúmál segir: „Fyrstu kirkjufeðurnir, þeirra á meðal Tertúllíanus og Órígenes, staðfestu að kristnum mönnum væri óheimilt að taka mannslíf, en það var meginregla sem kom í veg fyrir að þeir þjónuðu í rómverska hernum.“ (The Encyclopedia of Religion)
HVAÐ UM VOTTA JEHÓVA?
Votta Jehóva er að finna í næstum öllum löndum heims. Stundum gerist það að ríkin sem þeir búa í deila sín í milli. Samt gera vottarnir á þessum svæðum sitt ítrasta til að varðveita náungakærleikann sem auðkennir þá.
Hafa trúarleiðtogar kennt fólki að sýna ósvikinn náungakærleika?
Til dæmis voru vottar Jehóva algerlega hlutlausir í þjóðernisátökum Hútúa og Tútsa í Rúanda árið 1994. Vottar af öðrum þjóðflokknum skutu skjólshúsi yfir votta af hinum þjóðflokknum, þótt þeir hættu með því lífi sínu. Þegar upp komst um tvo votta af hútúættbálki, sem höfðu verndað trúbræður sína af tútsiættbálki, sagði Interahamwe uppreisnarher Hútúa: „Þið verðið drepnir af því að þið hjálpuðuð tútsunum að flýja.“ Því miður voru síðan báðir hútúvottarnir teknir af lífi. – Jóhannes 15:13.
Hvað finnst þér? Fara vottar Jehóva eftir því sem Jesús sagði um fórnfúsan kærleika?