Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HAFA VÍSINDIN KOMIÐ Í STAÐ BIBLÍUNNAR?

Vísindunum eru takmörk sett

Vísindunum eru takmörk sett

Nýju trúleysingjarnir, sem svo eru kallaðir, hafa á síðustu árum skrifað allmargar bækur um skoðanir sínar. Þessi rit hafa vakið talsverða athygli og kveikt miklar umræður og deilur. Taugasérfræðingurinn David Eagleman skrifaði af þeim sökum: „Sumir lesendur ganga út frá því ... að vísindamenn hafi fundið svörin við öllu því sem við þurfum að vita.“ Síðan bætti hann við: „En góðir vísindamenn hafa ávallt opinn huga og saga vísindanna sýnir að það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart.“

Í gegnum aldirnar hafa færir vísindamenn vissulega gert undraverðar uppgötvanir í leit sinni að svörum við flóknum spurningum um efnisheiminn. Sumir þeirra hafa hins vegar einnig gert alvarleg glappaskot í þeirri leit. Isaac Newton er talinn einn merkasti vísindamaður allra tíma. Hann uppgötvaði hvernig þyngdaraflið bindur saman plánetur, stjörnur og vetrarbrautir í einn alheim. Hann fann upp örsmæðareikning – stærðfræði sem er notuð í tölvusmíði, geimferðum og kjarneðlisfræði. Newton lagði hins vegar einnig stund á gullgerðarlist, en það eru gervivísindi þar sem notast er við stjörnuspeki og töfraformúlur í tilraun til að breyta blýi og öðrum málmum í gull.

Rúmum 1.500 árum áður en Newton kom fram á sjónarsviðið kannaði stjörnufræðingurinn Ptólemeos himingeiminn með berum augum. Hann rakti ferðir himintunglanna um næturhimininn og var mjög fær kortagerðamaður. En hann hélt því fram að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan skrifaði um Ptólemeos: „Jarðmiðjukenning hans hélt velli í 1.500 ár og er góð áminning um að gáfur eru engin trygging fyrir því að maður hafi ekki kolrangt fyrir sér.“

Nú á tímum standa vísindamenn frammi fyrir svipuðum áskorunum í rannsóknum sínum. Munu þeir einhvern tíma komast að öllu um alheiminn? Það er auðvitað við hæfi að viðurkenna þær framfarir sem hafa orðið í vísindum og gagnið sem við höfum haft af þeim en það er líka mikilvægt að hafa í huga að vísindunum eru takmörk sett. Eðlisfræðingurinn Paul Davies komst þannig að orði: „Leitin að lokuðu rökfræðikerfi, sem gefur okkur fullkomna og mótsagnalausa skýringu á öllu, er dæmd til að mistakast.“ Þessi orð undirstrika óyggjandi sannleika: Mennirnir geta ekki skilið efnisheiminn að fullu. Það er því skynsamlegt að taka með fyrirvara öllum staðhæfingum um að vísindin geti fært okkur svörin við öllu.

Biblían uppfyllir augljóslega þarfir okkar á sviðum sem vísindin geta ekki.

Biblían segir um undur alheimsins: „Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega [Guðs], og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum!“ (Jobsbók 26:14, Biblían 1981) Til er gríðarleg uppspretta þekkingar sem liggur fyrir utan mannlegan skilning og skynjun. Það sem Páll postuli skrifaði fyrir næstum 2.000 árum eru enn orð að sönnu: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ – Rómverjabréfið 11:33.