Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Börn og snjallsímar – 2. hluti: Að kenna börnunum skynsemi í sambandi við snjallsíma

Börn og snjallsímar – 2. hluti: Að kenna börnunum skynsemi í sambandi við snjallsíma

 Snjallsími er eins og rafmagnsverkfæri – hann getur verið gagnlegur eða skaðlegur, allt eftir því hvernig hann er notaður. Hvernig geturðu kennt börnum þínum að sýna góða dómgreind þegar þau nota þetta öfluga tæki? Hvað er til dæmis mátulegt að leyfa þeim að nota snjallsímann mikið? a

 Það sem þú ættir að vita

  •   Snjallsíminn gerir notandann berskjaldaðan fyrir hættum. Eins og kemur fram í greininni „Children and Smartphones – Part 1: Should My Child Have a Smartphone?“ gefur snjallsími manni aðgang að öllu sem netið hefur upp á að bjóða, bæði því góða og slæma.

     „Það er auðvelt að gleyma að snjallsími getur gert börnin okkar berskjölduð fyrir alls konar hættulegu fólki og hugmyndum.“ – Brenda.

  •   Börn þarfnast leiðsagnar. Ungt fólk hefur notað tækni frá því að það fæddist en margir fullorðnir eru aftur á móti tiltölulega nýfarnir að nota þessa tækni. En það þýðir ekki að foreldrar viti ekkert um tækni og að börnin séu hæfari til að ákveða hvernig og hvenær þau noti snjallsímana sína.

     Börnin þín kunna kannski betur en þú á snjallsíma, en þú skalt ekki rugla saman getu og þroska. Tæknivædd börn þurfa líka á leiðsögn foreldra að halda þegar kemur að því að nota snjallsíma á ábyrgan hátt.

     „Að gefa barninu þínu snjallsíma án þess að leiðbeina því er eins og að gefa því lykla að bíl, láta það setjast í bílstjórasætið, setja bílinn í gang og segja ,farðu varlega‘ án þess að kenna því að keyra fyrst.“ – Seth.

 Það sem þú getur gert

  •   Lærðu á forritin í síma barnsins þíns. Kynntu þér verkfærin sem geta hjálpað barninu þínu að nota símann á ábyrgan hátt. Til dæmis:

     Hvaða foreldrastillingar eru í símanum til að takmarka notkunina?

     Vissir þú að símastillingar sem hamla óviðeigandi efni virka ekki alltaf fullkomlega?

     Því betur sem þú þekkir snjallsíma barnsins því betur getur þú hjálpað því að nota hann á ábyrgan hátt.

     Meginregla Biblíunnar: „Með þekkingu eykst máttur [manns].“ – Orðskviðirnir 24:5.

  •   Settu mörk. Ákveddu hvað þú ætlar að leyfa og hvað ekki. Til dæmis:

     Ætlar þú að leyfa barninu að vera í símanum við matarborðið eða á meðan þið eruð með gesti eða eruð gestir?

     Ætti barnið þitt að hafa símann í svefnherberginu á nóttunni?

     Hvaða forrit leyfir þú?

     Hve mikill skjátími er of mikill?

     Ætlar þú að setja dagleg tímamörk?

     Láttu barnið vita af reglunum og vertu búinn undir að aga barnið ef það brýtur reglurnar.

     Meginregla Biblíunnar: „Vanræktu ekki að aga barnið.“ – Orðskviðirnir 23:13, neðanmáls.

  •   Fylgstu með. Þekktu lykilorðið á síma barnsins og skoðaðu símann eftir þörfum, þar á meðal smáskilaboð, forrit, myndir og hvaða vefsíður það hefur farið inn á.

     „Við sögðum dóttur okkar að við myndum skoða símann hennar af og til án þess að vara hana við fyrir fram. Frelsið sem hún hefði til að nota símann gæti breyst ef hún notaði hann ekki skynsamlega.“ – Lorraine.

     Foreldrar eiga fullan rétt á að vita hvernig börnin þeirra eru að nota snjallsímana sína.

     Meginregla Biblíunnar: „Barn sýnir með hegðun sinni hvort verk þess eru hrein og réttlát.“ – Orðskviðirnir 20:11.

  •   Kenndu góð gildi. Hjálpaðu barninu þínu að vilja gera það sem er rétt. Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að ef barn er ákveðið í að fela eitthvað fyrir foreldrum sínum finnur það leið til þess. b

     Kenndu barninu þínu því að sýna góða eiginleika eins og heiðarleika og sjálfsaga og að hafa ábyrgðartilfinningu fyrir því sem það gerir. Barn sem hefur góð siðferðisgildi er líklegra til að nota símann sinn skynsamlega.

     Meginregla Biblíunnar: ,Þroskað fólk hefur þjálfað skilningsgáfuna til að greina rétt frá röngu.‘ – Hebreabréfið 5:14.

a Í þessari grein á orðið „snjallsími“ við um síma sem gefur aðgang að netinu. Hann er í rauninni eins og lítil tölva.

b Sumir nota til dæmis forrit sem virðist saklaust – eins og reiknivél – til að fela efni sem þeir vilja ekki að foreldrar þeirra sjái.