GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Það sem foreldrar ættu að vita um dagvistun
Sumir útivinnandi foreldrar ákveða að setja börnin sín á forskólaaldri í leikskóla. Væri það gott fyrir barnið þitt?
Spurningar sem þú ættir að spyrja
Mun dvöl á leikskóla hafa neikvæð áhrif á tilfinningatengsl foreldris og barns? Það gæti gert það. Á fyrstu æviárum barns þroskast heili þess hratt sem hefur áhrif á hvernig það tengist öðrum. Reyndu að verja sem mestum tíma með barninu þínu á þessu mótunarskeiði. – 5. Mósebók 6:6, 7.
Foreldrar sem eru að hugsa um að setja barnið sitt í leikskóla ættu að velta því fyrir sér hvernig þau hafi áfram sterk tengsl við barnið sitt.
Verður leikskólinn til þess að þið hafið ekki eins mikil áhrif á barnið ykkar? Það er möguleiki. „Því meiri tíma sem börn á forskólaaldri eru með jafnöldrum sínum þeim mun meiri áhrifum verða þau fyrir frá þeim,“ segir í bókinni Hold On to Your Kids.
Foreldrar sem íhuga að setja barnið sitt í leikskóla ættu að velta því fyrir sér hvort þau verði áfram megin áhrifavaldar í lífi barnsins.
Mun barnið þitt eiga auðveldara með nám ef það fer fyrst í leikskóla? Sumir segja að svo sé. Aðrir telja að leikskólinn hafi lítil áhrif á hæfni barns til að læra. Hvort heldur er þá segir sálfræðingurinn Penelope Leach: „Ekki ímynda þér að menntun sé það sem nýtist barninu þínu mest í lífinu og að því fyrr sem barnið byrji í skóla því betra. Ef þú gerir það vanmeturðu allt sem þú hefur kennt því.“
Foreldrar sem velta því fyrir sér að setja barnið sitt í leikskóla ættu að skoða hvort það sé gagnlegt eða jafnvel nauðsynlegt.
Væri möguleiki fyrir maka þinn að vera heimavinnandi? Í sumum tilfellum vinna báðir foreldrar úti til að hafa það betra efnislega. Eru kostirnir fórnanna virði?
Foreldrar sem velta því fyrir sér að setja barnið sitt í leikskóla ættu að skoða hvort þeir geti skorið niður kostnað svo annað foreldrið geti verið heima.
Þið ættuð að vega og meta kostina og gallana við að setja barnið ykkar í leikskóla áður en þið takið ákvörðun. Hvað ef niðurstaðan verður sú að þið teljið það góðan kost að setja barnið í leikskóla?
Það sem þú getur gert
Biblían segir að ‚skynsamur maður íhugi hvert skref‘. (Orðskviðirnir 14:15) Hugsið málið því vandlega áður en þið ákveðið að setja barn í dagvistun.
Kynnið ykkur möguleikana
Sumir foreldrar velja dagvistun þar sem eru fáir starfsmenn og litlir hópar barna.
Aðrir foreldrar hafa ættingja, einhvern sem býr hjá þeim sem getur annast barnið eða barnfóstru sem hugsar um það.
Allir þessir möguleikar hafa kosti og galla. Hvers vegna ekki að ræða við aðra foreldra sem hafa nýtt sér dagvistun af einhverju tagi? Biblían segir: „Viska er hjá þeim sem leita ráða.“ – Orðskviðirnir 13:10.
Hvað ef þið veljið leikskólavist? Þá skuluð þið …
Kynna ykkur aðstæður þar
Hefur leikskólinn tilskilin leyfi samkvæmt landslögum? Hvaða meðmæli hefur hann?
Er gætt hreinlætis og öryggis í leikskólanum?
Hvað er í boði þar fyrir börnin að gera? a
Aflið ykkur upplýsinga um starfsfólkið
Hvaða þjálfun hefur það fengið? Hefur það menntun í ungbarnafræðslu og er það þjálfað í skyndihjálp og endurlífgun?
Hafið þið möguleika á að kynna ykkur bakgrunn þeirra sem annast barnið ykkar, hvort þeir séu nokkuð á sakaskrá?
Er mikil starfsmannavelta? Ef svo er þarf barnið ykkar stöðugt að aðlagast nýju fólki sem annast það.
Hversu marga þarf hver starfsmaður að annast? Ef hver starfsmaður þarf að annast mörg börn gæti það þýtt að barnið þitt fái minni athygli en það þarf. Þörf barnsins á athygli veltur að sjálfsögðu á aldri þess og getu.
Eru starfsmennirnir tilbúnir að ræða við ykkur um það sem þið og þeir þurfa að vita?
a Er sjónvarp til dæmis notað til að hafa ofan af fyrir börnunum eða er séð fyrir því að börnin geri það sem er líkamlega og hugarfarslega örvandi fyrir þau?