GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI
Hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að bæta einkunnirnar?
Barninu þínu virðist standa á sama um skólann og reynir að komast undan því að læra heima. Það kemur niður á einkunnunum og hegðuninni. Hvernig geturðu hjálpað barninu að bæta einkunnirnar?
Gott að vita
Að þrýsta á barnið gerir vandamálið verra. Að þrýsta á barnið veldur því kvíða, bæði í skólanum og heima. Barnið þitt gæti farið að ljúga, halda lágum einkunnum leyndum, falsa undirskrift þína eða skrópa til að draga úr álagi. Þetta eykur bara á vandann.
Verðlaun geta snúist í höndunum á foreldrunum. Faðir sem heitir Andrew segir: „Við reyndum að verðlauna góðar einkunnir dóttur okkar til að hvetja hana, en þá hugsaði hún bara um verðlaunin. Þegar hún fékk slæma einkunn var það ekki einkunnin sem olli henni vonbrigðum heldur það að missa af verðlaununum.“
Það virkar ekki vel að skella skuldinni á kennarann. Þá gæti barnið þitt hugsað að það þurfi ekki að hafa fyrir því að ná góðum árangri. Það lærir kannski að skella skuldinni á aðra og ætlast til að aðrir leysi vandamál þess. Með öðrum orðum gæti svo farið að barnið kynni ekki að taka ábyrgð á eigin verkum – en það er mikilvæg færni á fullorðinsárunum.
Hvað er til ráða?
Hafðu stjórn á tilfinningunum. Ef þú ert reiður er gott að fresta öllum umræðum við barnið um einkunnir. „Við hjónin náum besta árangrinum þegar við erum róleg og setjum okkur í spor barna okkar,“ segir faðir sem heitir Brett.
Meginregla Biblíunnar: „Vertu fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til að reiðast.“ – Jakobsbréfið 1:19.
Komdu auga á rót vandans. Ástæðurnar fyrir að börn fá slæmar einkunnir eru oft að þau verða fyrir einelti, hafa skipt um skóla, finna fyrir prófkvíða, upplifa erfiðleika í fjölskyldunni, sofa of lítið, eru óskipulögð eða eiga erfitt með að einbeita sér. Dragðu ekki þá ályktun að vandamálið sé bara leti.
Meginregla Biblíunnar: „Þeim farnast vel sem býr yfir næmum skilningi.“ – Orðskviðirnir 16:20.
Skapaðu aðstæður þar sem auðvelt er að læra. Búðu til dagskrá fyrir heimavinnu. Finndu stað þar sem barnið getur sinnt heimavinnunni án truflana (þar með talið frá sjónvarpi og farsímum). Skiptu heimavinnunni niður til að hjálpa barninu að halda einbeitingunni. Hector, fjölskyldufaðir í Þýskalandi, segir: „Ef það er að koma próf rifjum við upp smávegis á hverjum degi í stað þess að bíða fram á síðustu stund.“
Meginregla Biblíunnar: „Öllu er afmörkuð stund.“ – Prédikarinn 3:1.
Hvettu barnið til að læra. Þegar barnið þitt skilur hvernig það sem það er að læra gagnast því núna örvar það áhuga þess á skólanáminu. Stærðfræði getur til dæmis hjálpað því að fara vel með vasapeninginn.
Meginregla Biblíunnar: „Aflaðu þér visku, aflaðu þér skilnings … Hafðu hana í miklum metum.“ – Orðskviðirnir 4:5, 8.
Tillaga: Hjálpaðu barninu með heimavinnuna en gerðu hana ekki fyrir það. Andrew viðurkennir: „Dóttir okkar treysti bara á okkur og reyndi ekki einu sinni að leysa vandann sjálf.“ Kenndu barninu að vinna heimavinnuna sjálfstætt.