GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Hvernig geturðu brugðist við pirrandi eiginleikum í fari maka?
Þér finnst gaman að gera hluti óvænt en maki þinn þarf að skipuleggja allt.
Þér finnst gott að vera í einrúmi og þú ert hlédrægur en maki þinn er alltaf til í að vera innan um fólk.
Hefur maki þinn eiginleika sem pirrar þig? Það getur skaðað hjónabandið ef þú einblínir á hann. Biblían segir að sá sem staglast á því sem pirrar hann valdi vinslitum. – Orðskviðirnir 17:9.
Gætirðu lært að sjá pirrandi eiginleika í jákvæðara ljósi frekar en að láta hann valda leiðindum í hjónabandinu?
Í þessari grein
Hvernig geturðu brugðist við pirrandi eiginleikum í fari maka?
Eiginleiki sem pirrar þig í fari maka þíns gæti verið nátengdur eiginleika sem þú dáist að. Skoðum þrjú dæmi:
„Maðurinn minn er oft seinn að koma hlutum í verk eða koma sér af stað þegar við erum að fara eitthvað. En þessi eiginleiki gerir það líka að verkum að hann er þolinmóður – líka við mig. Stundum pirrar það mig hvað hann er rólegur en þetta er líka eitthvað sem ég elska við hann.“ – Chelsea.
„Konan mín skipuleggur allt af mikilli nákvæmni. Hún þarf að finna að hún hafi fulla stjórn á hlutunum og það getur verið pirrandi. Á hinn bóginn gerir þessi eiginleiki það að verkum að hún er aldrei kærulaus.“ – Christopher.
„Það getur verið pirrandi hvað manninum mínum virðist stundum standa á sama um hluti. En á sama tíma er það einmitt það sem ég laðaðist að í fari hans í upphafi, hvað hann er afslappaður. Ég dáist að því hvað hann getur haldið rónni í erfiðum aðstæðum.“ – Danielle.
Chelsea, Christopher og Danielle komust að því að styrkleiki og veikleiki maka eru oft tvær hliðar á sama pening. Það er ekki hægt að losna við veikleika án þess að missa um leið styrkleikann, rétt eins og maður getur ekki bara hent annarri hlið á peningi.
Sumir eiginleikar hafa að sjálfsögðu ekki jákvæðar hliðar. Biblían bendir til dæmis á að sumir séu reiðigjarnir. (Orðskviðirnir 29:22) Þá ætti maður að gera allt sem í manns valdi stendur til að losa sig við „hvers kyns biturð, reiði, bræði, öskur og svívirðingar“. a – Efesusbréfið 4:31.
En þegar eiginleiki fer einfaldlega í taugarnar á manni ætti maður að fylgja ráðinu: „Haldið áfram að umbera hvert annað … jafnvel þegar þið hafið ástæðu til að kvarta undan öðrum.“ – Kólossubréfið 3:13.
Reyndu að koma auga á jákvæðu hliðina á eiginleikanum – það sem dró þig ef til vill að maka þínum í upphafi. Joseph sem er giftur segir: „Að horfa á eiginleika sem pirrar mann í fari makans er eins og að horfa á hvassa brún demants en kunna ekki að meta hvernig hann glitrar.“
Hugmynd að umræðum
Skoðið fyrst eftirfarandi spurningar hvort í sínu lagi. Ræðið síðan saman um svörin.
Hefur maki þinn eiginleika sem þér finnst orsaka ágreining? Ef svo er, hvaða eiginleiki er það?
Er þetta alvarlegur galli eða bara eitthvað sem er pirrandi?
Er jákvæð hlið á málinu? Ef svo er, hver er hún og hvers vegna kanntu að meta þennan þátt í persónuleika maka þíns?
a Sjá greinarnar „Hvernig geturðu haft stjórn á skapi þínu?“, „Hvernig getum við hætt að rífast?“ og „How to Avoid Hurtful Speech“.