GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Verndaðu barnið þitt gegn klámi
„Það er ekki svo að skilja að við værum ómeðvituð um hættuna sem stafar af klámi – við vorum mjög meðvituð um hana – heldur hitt að við áttuðum okkur ekki á því hve auðvelt það væri fyrir dóttur okkar að nálgast það.“ – Nicole.
Í þessari grein
Það sem þú ættir að vita
Mjög ung börn geta verið útsett fyrir klámi. Rannsóknir sýna að um þessar mundir eru börn að meðaltali 11 ára þegar þau sjá klám í fyrst sinn.
Börn geta verið útsett fyrir klámi án þess að þau séu að leita að því. Þau gætu til dæmis rekist á slíkt efni þegar þau leita einhvers með hjálp leitarvélar eða þegar þau eru inni á samfélagsmiðlum. Auglýsingar um klám gætu skotið upp kollinum meðan þau spila tölvuleiki. Klám hefur ýmsar birtingarmyndir og þar af eru ljósmyndir og myndbönd algengust. En það er einnig auðvelt að nálgast klámfengið efni á prenti og hljóðskrám sem hægt er að streyma eða hlaða niður á netinu.
Önnur leið sem þarf að hafa í huga er að sumir senda börnum klámfengið efni með rafrænum hætti með skilaboðaforritum. Í könnun sem náði yfir 900 unglinga sögðust næstum 90 af hundraði stelpnanna og 50 af hundraði strákanna reglulega fá nektarmyndir og myndbönd frá bekkjarfélögum sínum.
Klám er oft á tíðum ofbeldisfullt. Klámið sem er vinsælast og auðveldast að nálgast inniheldur oft talsvert ofbeldi og þá gjarnan gegn konum.
Klám skaðar börn. Rannsóknir sýna að börn sem eru útsett fyrir klámi eru líklegri en ella til að:
dragast aftur úr í námi.
verða kvíðin, þunglynd og hafa lágt sjálfsmat.
líta á kynferðislega áreitni sem eðlilega hegðun.
Kjarni málsins: Börn eru viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum kláms og foreldrar eru í bestri aðstöðu til að vernda þau.
Meginregla Biblíunnar: „Geymdu í hjarta þér þessi orð sem ég boða þér í dag. Brýndu þau fyrir börnum þínum og talaðu um þau þegar þú situr heima og þegar þú ert á gangi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú ferð á fætur.“ – 5. Mósebók 6:6, 7.
Hvernig þú getur verndað barnið þitt gegn klámi
Vertu vel upplýstur. Veltu því fyrir þér hvar og hvenær barnið þitt sé líklegast til að vera útsett fyrir klámi. Er það kannski með aðgang að netinu í frímínútum í skólanum án eftirlits?
Lærðu á öryggisstillingarnar í farsíma barnsins þíns og skoðaðu smáforritin og leikina sem barnið notar. Sum smáforrit eru með sjálfseyðandi skeytastillingar þannig að óviðeigandi skilaboð, myndir og myndbönd eyðast eftir stutta stund. Sífellt fleiri tölvuleikir á netinu bjóða þátttakendum upp á að horfa á klám og jafnvel taka þátt í sýndarkynlífi sem er hluti af leiknum.
„Ég tala af eigin reynslu. Ef barnið þitt á snjallsíma þá ættir þú sem foreldri að kunna á símann, vita hvernig þú getur varið hann með foreldrastillingu og hvernig þú getur fylgst með því sem barnið þitt er að gera í símanum.“ – David.
Meginregla Biblíunnar: „Hjarta hins skynsama aflar sér þekkingar.“ – Orðskviðirnir 18:15.
Gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að vernda barnið. Dragðu úr líkunum á að barnið þitt sjái klámfengið efni. Þú getur til dæmis stillt síma barnsins þíns og aðra síma á heimilinu þannig að djarft efni er útilokað. Virkjaðu foreldrastýringuna. Og þekktu öll aðgangsorðin sem barnið notar.
„Mér fannst gott að virkja foreldrastillingu á tækjunum okkar, takmarka dagskráratriði sem sonur minn hafði aðgang að í sjónvarpinu og þekkja PIN-númerið á snjallsímanum hans.“ – Maurizio.
„Ég leyfi strákunum mínum ekki að loka að sér þegar þeir horfa á myndbönd. Þegar það er kominn háttatími leyfi ég þeim ekki að taka tækin með sér inn í svefnherbergi.“ – Gianluca.
Meginregla Biblíunnar: „Hinn skynsami sér hættuna og felur sig.“ – Orðskviðirnir 22:3.
Kenndu barninu þínu rétt viðbrögð ef klám birtist á skjánum. Móðir að nafni Flavia viðurkennir: „Sumir foreldrar forðast að tala um klám við börnin sín fullviss um að þeirra börn muni aldrei upplifa slíkt.“ Aðrir hugsa hins vegar með sér: „Ef ég fer að færa það í tal mun barnið mitt fara að leita að því.“ Þessi röksemdafærsla er varasöm. Vitrir foreldrar fræða börnin sín um hætturnar sem tengjast klámi áður en þau komast í snertingu við það. Hvernig er það hægt?
Kennið ungum börnum hvað þau eiga að gera ef djarft efni birtist á skjánum. Þau geta annað hvort lokað augunum eða slökkt á tækinu. Hvettu þau til að tala við þig um það sem þau sáu eða heyrðu. a
„Við byrjuðum að tala um hætturnar af klámi þegar sonur okkar var mjög ungur. Þegar hann var rétt um 11 ára byrjuðu klámfengnar auglýsingar að birtast meðan hann spilaði leik sem hann hafið hlaðið niður í símann sinn. Þessum myndum fylgdu boð um að taka þátt í spjalli og senda myndir af sér. Þar sem við höfðum rætt viðbrögð við slíku kom hann strax til mín og sagði mér hvað hafði gerst.“ – Maurizio.
Meginregla Biblíunnar: „Fræddu barnið um veginn sem það á að ganga og það mun ekki yfirgefa hann á efri árum.“ – Orðskviðirnir 22:6.
Hjálpaðu stálpuðum börnum að standast freistinguna að horfa á, hlusta á eða lesa klámfengið efni. Þú getur til dæmis hjálpað barninu þínu að búa til samning sem felur í sér reglur fjölskyldunnar varðandi viðbrögð ef klám skyldi birtast og skrifa einnig niður hvers vegna það vill bregðast þannig við. Fáðu barnið til að láta samninginn fela í sér skaðann af því að horfa viljandi á klám, en það gæti verið skert sjálfsvirðing að missa traust foreldranna og skaða sambandið við Guð. b
„Þegar börnin þroskast skaltu hjálpa þeim að standast freistinguna að kíkja á klám með því að hugsa um langtímaáhrif þess.“ – Lauretta.
„Börnin þín eru betur varin ef þau skilja ekki aðeins hættuna af klámi heldur vita líka hvað Jehóva finnst um það.“ – David.
Meginregla Biblíunnar: „Viska veitir vernd.“ – Prédikarinn 7:12.
Ræðið málin reglulega. Þó undarlegt megi virðast vilja börn tala við foreldra sína um málefni sem varða kynlíf, þar með talið um klám. Dame Rachel de Souza umboðsmaður barna á Englandi segir: „Skilaboðin frá yfirgnæfandi meirihluta [barna] eru talið snemma, talið oft. Börn vilja samræður sem hæfa aldri þeirra og þróast eftir því sem þau þroskast.“
„Þegar ég var að alast upp voru sum málefni aldrei rædd við mig. Ég vildi að við hefðum getað haft opnari og frjálslegri tjáskipti. Núna er ég sjálf orðin móðir og geri mitt besta í að tala reglulega og óþvingað við börnin mín um kynlíf.“ – Flavia.
Ef barnið þitt hefur horft á klám
Haltu ró þinni. Ef þú kemst að raun um að barnið þitt hefur horft á, hlustað á eða lesið klámfengið efni skaltu reyna að hafa stjórn á viðbrögðum þínum. Vera má að barnið sé í uppnámi, miður sín eða með sektarkennd vegna þess sem gerðist. Reiðileg viðbrögð munu einungis auka á vanlíðanina og draga úr líkunum á að það leiti til þín framvegis.
Meginregla Biblíunnar: „Vitur maður gætir orða sinna og skynsamur maður heldur ró sinni.“ – Orðskviðirnir 17:27.
Kannaðu staðreyndir málsins. Í stað þess að hrapa að niðurstöðu skaltu spyrja spurninga sem hjálpa þér að komast að því hvernig barnið þitt varð útsett fyrir klámi. Sendi einhver barninu myndina eða náði það sjálft í hana? Var þetta stakur atburður eða hefur það horft á klám áður? Var tækið sem það notaði með virkjaða foreldrastillingu og síum. Ef svo er tókst barninu þá að komast fram hjá því? Mundu eftir að markmiðið er ekki að yfirheyra heldur að fá barnið til að opna sig.
Meginregla Biblíunnar: „Hugsanir mannshjartans eru eins og djúp vötn en hygginn maður dregur þær fram.“ – Orðskviðirnir 20:5.
Bregstu við. Ef atvikið var til dæmis slys gætir þú þurft að stilla síurnar og foreldrastýringuna á tæki barnsins þíns.
Ef þú kemst að því að það var að leita að klámi skaltu veita kærleiksríkan en ákveðinn aga. Styrktu löngun barnsins í að hafna klámi og notaðu til þess rök frá Biblíunni eins og Jobsbók 31:1, Sálm 97:10 og Sálm 101:3. c Segðu barninu að þú munir ræða við það um málið í hverri viku til að fylgjast með framförum þess og til að skoða hvort frekari hjálpar sé þörf.
Meginregla Biblíunnar: „Ergið ekki börnin ykkar heldur alið þau upp með því að aga þau og leiðbeina þeim eins og Jehóva vill.“ – Efesusbréfið 6:4.
a Ef þú vilt finna tillögur um hvernig hægt er að ræða um kynlíf með þeim hætti sem hæfir aldri barnsins lestu þá greinina „Hvernig geta foreldrar frætt börnin um kynferðismál?“
b Til að fá fleiri hugmyndir um það sem samningur ykkar getur innifalið sjá vinnublaðið „Hvernig getur maður forðast klám?“
c Þið gætuð líka viljað skoða greinina saman „Hvers vegna eigum við að forðast klám?“