Hvað tákna tölur í Biblíunni? Er talnaspeki biblíuleg?
Svar Biblíunnar
Tölur í Biblíunni má oft taka bókstaflega en stundum eru þær notaðar í táknrænni merkingu. Það ræðst oftast af samhenginu hvort ákveðin tala er notuð í táknrænum skilningi. Líttu á eftirfarandi dæmi um táknræna merkingu talna í Biblíunni:
1 Eining. Sem dæmi má nefna að Jesús bað til Guðs um að fylgjendur hans yrðu „allir ... eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér.“ – Jóhannes 17:21; Matteus 19:6.
2 Í lagalegum málum þarf tvö vitni til að staðfesta sannleikann í ákveðnu máli. (5. Mósebók 17:6) Eins er það þegar sýn eða fullyrðing er endurtekin þá staðfestir það að hún sé sönn og örugg. Þegar Jósef réð draum faraós Egyptalands sagði hann til dæmis: „Ástæðan til þess að þig dreymdi tvisvar hið sama er sú að þetta er fastráðið af Guði.“ (1. Mósebók 41:32) „Tvö horn“ í spádómum geta táknað tvíveldi, eins og Daníel var sagt í tengslum við heimsveldi Meda og Persa. – Daníel 8:20, 21; Opinberunarbókin 13:11.
3 Á sama hátt og þrjú vitni gátu staðfest sannleikann í ákveðnum málum, virðist þreföld endurtekning staðfesta niðurstöðuna eða leggja áherslu á hana. – Esekíel 21:27; Postulasagan 10:9-16; Opinberunarbókin 4:8; 8:13.
4 Þessi tala getur táknað algerleika í lögun og hlutverki. Eins og orðalagið „á fjórum skautum jarðarinnar“. – Opinberunarbókin 7:1; 21:16; Jesaja 11:12.
6 Þar sem talan sex er einum minni en sjö, sem táknar oft fullkomleika, getur hún táknað eitthvað sem er óklárað, ófullkomið eða tengist óvinum Guðs. – 1. Kroníkubók 20:6; Daníel 3:1; Opinberunarbókin 13:18.
7 Þessi tala er oft notuð til að sýna fram á fullkomleika. Guð sagði Ísraelsmönnum til dæmis að ganga í kringum borgina Jeríkó í sjö daga í röð og á sjöunda deginum áttu þeir að ganga sjö sinnum í kringum hana. (Jósúabók 6:15) Í Biblíunni er að finna mörg dæmi um að talan sjö sé notuð á svipaðan hátt. (3. Mósebók 4:6; 25:8; 26:18; Sálmur 119:164; Opinberunarbókin 1:20; 13:1; 17:9, 10) Þegar Jesús benti Pétri á að hann ætti að fyrirgefa bróðir sínum sagði hann: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ Endurtekningin á tölunni „sjö“ þýddi að það voru engin takmörk fyrir því hvað hann átti að gera þetta oft. – Matteus 18:21, 22.
10 Þessi tala getur táknað heild eða heildarupphæð einhvers. – 2. Mósebók 34:28; Lúkas 19:13; Opinberunarbókin 2:10.
12 Þessi tala virðist tákna fullkomið fyrirkomulag Guðs. Eins og í sýninni sem Jóhannes fékk af himneskri borg. Hann sá „tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula.“ (Opinberunarbókin 21:14; 1. Mósebók 49:28) Margfeldið af 12 getur líka haft svipaða merkingu. – Opinberunarbókin 4:4; 7:4-8.
40 Þó nokkrir dómar Guðs eða refsingartímabil tengdust tölunni 40. – 1. Mósebók 7:4; Esekíel 29:11, 12.
Talnaspeki
Þessi táknræna merking talna í Biblíunni eru ólík talnaspeki. Í talnaspeki er verið að leita að dulrænni þýðingu talna, röðun talnanna eða summu þeirra. Kabbalah gyðingar hafa til dæmis búið til kerfi til að greina hebresku ritningarnar, sem kallast gematría, en það fellst í því að leita að dulinni merkingu talnanna sem samsvara bókstöfunum. Talnaspeki er hluti af dulspeki sem Guð fordæmir. – 5. Mósebók 18:10-12.