Hverjir voru „vitringarnir þrír“? Fylgdu þeir „Betlehemsstjörnunni“?
Svar Biblíunnar
Í kringum jólin tala margir um „vitringana þrjá“ eða „konungana þrjá“ sem fóru til að sjá Jesú eftir að hann fæddist. En Biblían lýsir þessum mönnum ekki þannig. (Matteus 2:1) Guðspjallaritarinn Matteus notaði öllu heldur gríska orðið ma’goi þegar hann talaði um þá sem heimsóttu Jesú. Orðið vísar líklega til stjörnuspekinga og annarra dulspekinga. a Nokkrar biblíuþýðingar kalla þá „stjörnuspekinga“. b
Hvað voru „vitringarnir“ margir?
Biblían segir ekki til um það og ýmsar mismunandi hugmyndir eru um það. Samkvæmt Encyclopedia Britannica „er kenningin í Austurlöndum sú að vitringarnir hafi verið 12 en í Vesturlöndum eru þeir sagðir hafa verið þrír, eflaust vegna gjafanna þriggja úr ,gulli, reykelsi og myrru‘ (Matteus 2:11) sem barnið fékk“.
Voru „vitringarnir“ konungar?
Þeir eru aldrei kallaðir konungar í Biblíunni þó að oft sé dregin upp sú mynd af þeim á jólunum. Í Encyclopedia Britannica segir að öldum eftir fæðingu Jesú hafi fólk farið að bæta upplýsingum við söguna af fæðingu hans og að margir hafi þá sagt að þeir sem heimsóttu hann hafi verið konungar.
Hvað hétu „vitringarnir“?
Í Biblíunni er ekki sagt frá því hvað stjörnuspekingarnir hétu. Í The International Standard Bible Encyclopedia segir að til séu þjóðsögur sem kalla þá Kaspar, Melkíor og Baltasar.
Hvenær heimsóttu „vitringarnir“ Jesú?
Stjörnuspekingarnir gætu hafa heimsótt Jesú nokkrum mánuðum eftir að hann fæddist. Það sést á því að Heródes konungur, sem vildi að Jesús yrði deyddur, fyrirskipaði að allir drengir tveggja ára og yngri yrðu drepnir. Hann byggði þann aldur á þeim upplýsingum sem hann hafði fengið hjá stjörnuspekingunum. – Matteus 2:16.
Stjörnuspekingarnir heimsóttu Jesú ekki kvöldið sem hann fæddist. Í Biblíunni segir: „Þeir gengu inn í húsið og sáu barnið ásamt Maríu móður þess.“ (Matteus 2:11) Það gefur til kynna að fjölskyldan hafi þá búið í húsi og að Jesús var ekki lengur ungbarn í jötu. – Lúkas 2:16.
Lét Guð „vitringana“ fylgja „Betlehemsstjörnunni“?
Sumir trúa að Guð hafi sent Betlehemsstjörnuna svokölluðu til að leiða stjörnuspekingana til Jesú. Skoðum hvers vegna það stenst ekki.
Það sem virtist vera stjarna leiddi stjörnuspekingana fyrst til Jerúsalem. Í Biblíunni segir: „Stjörnuspekingar frá Austurlöndum [komu] til Jerúsalem og sögðu: ,Hvar er barnið sem á að verða konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans þegar við vorum í Austurlöndum og erum komnir til að veita honum lotningu.‘“ – Matteus 2:1, 2.
Heródes konungur var fyrstur til að beina stjörnuspekingunum til Betlehem, ekki „stjarnan“. Þegar Heródes heyrði af keppinaut sem átti að verða „konungur Gyðinga“ kannaði hann hvar hinn fyrirheitni Kristur ætti að fæðast. (Matteus 2:3–6) Þegar hann frétti að það væri í Betlehem sagði hann stjörnuspekingunum að fara þangað, leita að barninu og láta sig svo vita af því.
Það var fyrst þá sem stjörnuspekingarnir fóru til Betlehem. Í Biblíunni segir: „Eftir að hafa hlustað á konung fóru þeir sína leið. En stjarnan sem þeir höfðu séð í Austurlöndum fór á undan þeim þar til hún staðnæmdist fyrir ofan staðinn þar sem barnið var.“ – Matteus 2:9.
Eftir að „stjarnan“ birtist fór af stað atburðarás sem ógnaði lífi Jesú og varð til þess að saklaus börn voru myrt. Þegar stjörnuspekingarnir fóru frá Betlehem varaði Guð þá við að fara aftur til Heródesar. – Matteus 2:12.
Hvernig brást Heródes við? Í Biblíunni segir: „Heródes reiddist heiftarlega þegar hann áttaði sig á að stjörnuspekingarnir höfðu leikið á hann. Hann sendi menn og lét þá drepa alla drengi í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, en það samsvaraði þeirri tímalengd sem hann hafði komist að hjá stjörnuspekingunum.“ (Matteus 2:16) Guð hefði ekki staðið að baki slíku illskuverki. – Jobsbók 34:10.
a Heródótos, grískur sagnfræðingur frá 5. öld f.Kr., sagði að ma’goi á hans dögum hafi tilheyrt ættbálki Meda (Persa) sem sérhæfði sig í stjörnuspeki og ráðningu drauma.
b Sjá Nýheimsþýðingu Biblíunnar og The New English Bible. Íslensku biblíurnar frá 2010 og 1981 tala um ,vitringa‘ en þær segja ekki að þeir hafi verið þrír.