Samræmist Biblían vísindum?
Svar Biblíunnar
Já, því að þótt Biblían sé ekki vísindarit er hún nákvæm þegar hún minnist á vísindaleg málefni. Skoðum nokkur dæmi sem sýna að vísindin koma heim og saman við Biblíuna og að í henni er að finna vísindalegar staðreyndir sem eru mjög ólíkar því sem margir trúðu á þeim tíma sem hún var skrifuð.
Alheimurinn á sér upphaf. (1. Mósebók 1:1) Margar fornar goðsögur segja aftur á móti að alheimurinn hafi ekki verið skapaður heldur hafi reglan orðið til af óreiðu. Babýloníumenn trúðu því að guðirnir sem fæddu alheiminn kæmu úr tveim höfum. Aðrar þjóðsögur segja að alheimurinn hafi komið úr risastóru eggi.
Alheimurinn lýtur rökréttum náttúrulögmálum ekki duttlungafullum vilja goða. (Jobsbók 38:33; Jeremía 33:25) Goðsögur víðs vegar úr heiminum kenna að maðurinn sé hjálparlaus frammi fyrir óútreiknanlegum og stundum miskunnarlausum guðum.
Jörðin svífur í tómum geymnum. (Jobsbók 26:7) Til forna trúði margt fólk því að heimurinn væri flatur diskur sem hvíldi á risa eða dýri eins og vísundi eða skjaldböku.
Vatn í ám og uppsprettum kemur frá vatni sem hefur gufað upp úr höfum eða vötnum og síðan fallið aftur sem regn, snjór eða hagl. (Jobsbók 36:27, 28; Prédikarinn 1:7; Jesaja 55:10; Amos 9:6) Forngrikkir héldu að vatn í ám kæmi úr sjó neðanjarðar og þessi hugmynd lifði allt fram á 18. öld.
Fjöll rísa og síga og eitt sinn voru fjöllin sem við sjáum undir höfunum. (Sálmur 104:6, 8) Margar goðsögur segja aftur á móti að goðin hafi skapað fjöllin í þeirri mynd sem þau eru nú.
Hreinlæti verndar heilsuna. Í lögunum sem Ísraelsþjóðin fékk voru ákvæði um að maður átti að þvo sér eftir að hafa snert lík, setja átti þá í sóttkví sem voru með smitsjúkdóma og losa átti úrgang frá fólki á öruggan stað. (3. Mósebók 11:28; 13:1–5; 5. Mósebók 23:13) Þegar þessi boð voru gefin beittu Egyptar aftur á móti læknismeðferðum þar sem opin sár voru meðhöndluð með mannasaur í bland við önnur efni.
Er eitthvað vísindalega rangt í Biblíunni?
Þegar Biblían er skoðuð af skynsemi kemur í ljós að svo er ekki. Nokkrar algengar ranghugmyndir um vísindalega nákvæmni Biblíunnar:
Ranghugmynd: Biblían segir að alheimurinn hafi verið skapaður á sex, 24 klukkustunda dögum.
Staðreynd: Biblían greinir ekki frá því hvenær Guð skapaði alheiminn. (1. Mósebók 1:1) Sköpunardagarnir sem er lýst í 1. Mósebók 1. kafla voru auk þess tímabil sem er ekki vitað hvað voru löng. Allt tímabilið sem himinn og jörð voru sköpuð er reyndar líka kallað ,dagur‘. – 1. Mósebók 2:4.
Ranghugmynd: Biblían segir að gróður hafi verið skapaður áður en sólin var til og ljóstillífun var möguleg. – 1. Mósebók 1:11, 16.
Staðreynd: Biblían kennir að sólin, ein af stjörnum himinsins, hafi verið sköpuð á undan gróðri. (1. Mósebók 1:1) Dreift ljós frá sólinni náði til yfirborðs jarðarinnar á fyrsta degi eða tímabili sköpunarinnar. Þegar andrúmsloftið var orðið tærara á þriðja degi var sólarljósið orðið nógu sterkt til að ljóstillífun væri möguleg. (1. Mósebók 1:3–5, 12, 13) Það var ekki fyrr en seinna sem sólin var greinileg séð frá jörðu. – 1. Mósebók 1:16.
Ranghugmynd: Í Biblíunni er sagt að sólin snúist um jörðina.
Staðreynd: Prédikarinn 1:5 segir: „Og sólin rennur upp og sólin gengur undir og hraðar sér aftur til samastaðar síns þar sem hún rennur upp.“ En þessi staðhæfing lýsir einungis hvernig sólin virðist hreyfast séð frá jörðu. Nú á dögum notar fólk jafnvel enn þá orð eins og „sólarupprás“ og „sólsetur“ þótt það viti að jörðin snúist um sólina.
Ranghugmynd: Í Biblíunni er sagt að jörðin sé flöt.
Staðreynd: Í Biblíunni er orðalagið „til endimarka jarðar“ notað í merkingunni „til fjarlægustu hluta“ hennar. Þetta gefur ekki til kynna að jörðin sé flöt eða hafi jaðar. (Postulasagan 1:8, neðanmáls) Þegar Biblían notar orðalagið „frá heimshornunum fjórum“ á hún ekki við að jörðin hafi fjögur horn heldur á hún við jörðina í heild. – Jesaja 11:12; Lúkas 13:29.
Ranghugmynd: Í Biblíunni er sagt að ummál hrings sé nákvæmlega þrefalt þvermálið en rétt gildi er pí (π) eða um það bil 3.1416.
Staðreynd: Málin sem eru gefin upp af ,steypta hafinu‘ í 1. Konungabók 7:23 og 2. Kroníkubók 4:2 gefa til kynna að þvermálið hafi verið tíu álnir og ummálið þrjátíu álnir. Þessar tölur kunna að hafa verið afrúnnaðar tölur. Einnig er mögulegt að þvermálið og ummálið segi fyrir um annars vegar ytri og hins vegar innri mælingu á skálinni.