Er Satan djöfullinn raunverulegur?
Svar Biblíunnar
Já, Satan djöfullinn er raunverulegur. Hann er „höfðingi heimsins“, andavera sem fylltist illsku og gerði uppreisn gegn Guði. (Jóhannes 14:30; Efesusbréfið 6:11, 12) Biblían afhjúpar persónuleika djöfulsins með eftirfarandi nöfnum sem lýsa honum:
Satan, sem þýðir ,andstæðingur‘. – Jobsbók 1:6.
Djöfull, sem þýðir ,rógberi‘. – Opinberunarbókin 12:9.
Höggormur, en orðið er notað í Biblíunni í merkingunni ,svikari‘. – 2. Korintubréf 11:3.
Freistari. – Matteus 4:3.
Lygari. – Jóhannes 8:44.
Ekki táknmynd illskunnar eða vondra eiginleika
Sumir álíta að Satan djöfullinn sé bara táknmynd illskunnar sem býr innra með okkur. En í Biblíunni er að finna samræður milli Guðs og Satans. Guð er fullkominn og þess vegna getur ekki verið að hann sé að tala við illskuna í sjálfum sér. (5. Mósebók 32:4; Jobsbók 2:1-6) Auk þess freistaði Satan Jesú sem er syndlaus. (Matteus 4:8-10; 1. Jóhannesarbréf 3:5) Þannig sýnir Biblían að djöfullinn er raunverulegur en ekki bara persónugervingur illskunnar.
Ætti það að koma okkur á óvart að margir skuli ekki trúa því að Satan djöfullinn sé raunverulegur? Nei, alls ekki því að Biblían segir að Satan beiti blekkingum til að ná markmiðum sínum. (2. Þessaloníkubréf 2:9, 10) Eitt áhrifaríkasta kænskubragð Satans hefur verið að blinda huga fjölda fólks fyrir því að hann sé til. – 2. Korintubréf 4:4.
Fleiri ranghugmyndir um djöfulinn
Ranghugmynd: Lúsífer er annað nafn á djöflinum.
Staðreynd: Hebreska orðið, sem er þýtt ,Lúsífer‘ í sumum biblíum, þýðir „ljósberi“. (Jesaja 14:12) Samhengið sýnir að þetta orð vísar til konungsættar Babýlonar sem Guð auðmýkti sökum hroka hennar. (Jesaja 14:4, 13-20) Orðið „ljósberi“ var notað til að hæða konungsætt Babýlonar eftir að henni var steypt af stóli.
Ranghugmynd: Satan vinnur sem „saksóknari“ fyrir Guð.
Staðreynd: Satan djöfullinn er óvinur Guðs, ekki þjónn hans. Djöfullinn er andstæðingur þeirra sem þjóna Guði og ákærir þá á röngum forsendum. – 1. Pétursbréf 5:8; Opinberunarbókin 12:10.