Eru mótsagnir í Biblíunni?
Svar Biblíunnar
Nei, öll Biblían er sjálfri sér samkvæm. Sumar frásögur eða fullyrðingar gætu virst stangast á en málin skýrast yfirleitt þegar eftirfarandi meginreglum er fylgt:
Skoða samhengið. Ef orð eru tekin úr samhengi getur texti hvaða höfundar sem er virst mótsagnakenndur.
Athuga sjónarhorn ritarans. Sjónarvottar geta lýst atburði nákvæmlega þó að þeir noti mismunandi orðalag eða segi frá mismunandi þáttum.
Taka mið af sögulegum staðreyndum og siðum.
Gera greinarmun á því hvort orð beri að skilja bókstaflega eða um myndmál sé að ræða.
Gera sér grein fyrir því að verk eignað ákveðinni persónu gæti hafa verið framkvæmt af öðrum. a
Nota nákvæma biblíuþýðingu.
Forðast að reyna að samræma það sem Biblían segir við rangar trúarkenningar.
Eftirfarandi dæmi sýna hvernig þessar meginreglur geta skýrt sumt sem gæti virst vera mótsagnakennt í Biblíunni.
1. meginregla: Samhengið
Fyrst Guð hvíldist sjöunda daginn, hvernig er þá hægt að segja að hann vinni enn? Samhengið í sköpunarsögu 1. Mósebókar sýnir að þegar Guð ‚tók sér hvíld frá öllu verki sínu‘ er sérstaklega átt við hina efnislegu sköpun jarðar og lífríkisins. (1. Mósebók 2:2–4) Orð Jesú þegar hann sagði: „Faðir minn vinnur enn,“ stangast ekki á við þá frásögu vegna þess að hann var að tala um önnur verk Guðs. (Jóhannes 5:17) Meðal verka Guðs eru innblástur Biblíunnar og leiðsögn hans og umhyggja fyrir mannkyninu. – Sálmur 20:6; 105:5; 2. Pétursbréf 1:21.
2. og 3. meginregla: Sjónarhorn og sögulegt samhengi
Hvar læknaði Jesús blinda manninn? Lúkasarguðspjall segir að Jesús hafi læknað blinda manninn þegar hann „nálgaðist … Jeríkó“ en samstofna frásögn Matteusar talar um tvo blinda menn og segir að atvikið hafi átt sér stað þegar Jesús var á leiðinni „frá Jeríkó“. (Lúkas 18:35–43; Matteus 20:29–34) Þessar frásögur eru skrifaðar frá tveim ólíkum sjónarhornum og bæta hvor aðra upp. Hvað varðar mennina tvo er Matteus nákvæmari með því að nefna þá báða en Lúkas beinir athyglinni að manninum sem Jesús talaði við. Hvað staðsetninguna varðar hafa fornleifafræðingar komist að því að á dögum Jesú var Jeríkó í raun tvær borgir: annars vegar gamla Gyðingaborgin og hins vegar nýja rómverska borgin sem var í um eins og hálfs kílómetra fjarlægð. Hugsanlega var Jesús á milli borganna tveggja þegar hann vann þetta kraftaverk.
4. meginregla: Myndmál eða bókstafleg merking
Verður jörðinni eytt? Biblían segir í Prédikaranum 1:4: „Jörðin stendur að eilífu.“ Sumum finnst það stangast á við þá fullyrðingu að ‚frumefnin muni sundurleysast í brennandi hita og jörðin upp brenna‘. (2. Pétursbréf 3:10, Biblían 2010) Í Biblíunni er orðið „jörð“ hins vegar bæði notað bókstaflega um plánetuna okkar og táknrænt og á þá við jarðarbúa. (1. Mósebók 1:1; 11:1) Eyðing „jarðarinnar“ sem lýst er í 2. Pétursbréfi 3:10 vísar ekki til þess að hún verði brennd heldur að „óguðlegir verði dæmdir og þeim eytt“. – 2. Pétursbréf 3:7.
5. meginregla: Hverjum verk eru eignuð
Hver kom beiðni hundraðshöfðingjans á framfæri við Jesú í Kapernaúm? Í Matteusi 8:5, 6 segir að hundraðshöfðinginn (liðsforinginn) hafi sjálfur komið til Jesú en í Lúkasi 7:3 segir að hann hafi sent nokkra öldunga Gyðinga til að bera fram beiðnina. Þetta gæti litið út sem mótsögn en það má skilja það þannig að liðsforinginn hafi haft frumkvæðið en hafi sent öldungana sem fulltrúa sína.
6. meginregla: Nákvæm biblíuþýðing
Syndgum við öll? Biblían segir að við höfum öll erft syndina frá fyrsta manninum, Adam. (Rómverjabréfið 5:12) Sumar biblíuþýðingar virðast vera í mótsögn við þetta þegar þær segja að góður maður ‚syndgi ekki‘. (1. Jóhannesarbréf 3:6, Biblían 1981, Viðeyjarbiblía) En í frummálinu er gríska sögnin sem þýdd er „syndgar“ í nútíð. Nútíðin í grísku felur oftast í sér áframhaldandi verknað. Það er munur á erfðasyndinni, sem við getum ekki umflúið, og vísvitandi og áframhaldandi óhlýðni við lög Guðs. Sumar þýðingar koma merkingu frummálsins vel til skila með því að nota setningar eins og „heldur áfram að syndga“. – Nýheimsþýðingin, Biblían 2010.
7. meginregla: Biblían en ekki kennisetningar
Er Jesús Guði jafn eða undir hann settur? Jesús sagði eitt sinn: „Ég og faðirinn erum eitt.“ Það virðist stangast á við orð hans: „Faðirinn er mér æðri.“ (Jóhannes 10:30; 14:28) Til að fá réttan skilning á þessum versum verðum við að kanna hvað Biblían segir í raun og veru um Jehóva og Jesú frekar en að reyna að sætta þessi vers við þrenningarkenninguna sem er ekki byggð á Biblíunni. Í Biblíunni kemur fram að Jehóva er ekki aðeins faðir Jesú heldur líka Guð hans. Hann er sá sem Jesús tilbiður. (Matteus 4:10; Markús 15:34; Jóhannes 17:3; 20:17; 2. Korintubréf 1:3) Jesús er ekki Guði jafn.
Samhengið sýnir að þegar Jesús sagði: „Ég og faðirinn erum eitt,“ átti hann við að þeir ynnu fullkomlega saman að sameiginlegu markmiði. Síðar sagði Jesús: „Faðirinn er sameinaður mér og ég föðurnum.“ (Jóhannes 10:38) Lærisveinarnir og Jesús nutu þessarar sömu einingar enda bað hann til Guðs fyrir þeim: „Ég hef veitt þeim dýrðina sem þú veittir mér til að þeir séu eitt eins og við erum eitt, ég sé sameinaður þeim og þú sameinaður mér.“ – Jóhannes 17:22, 23.
a Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir til dæmis í grein um Taj Mahal að „Shah Jahan Mógúlakeisari hafi byggt það“. En hann byggði það ekki sjálfur því að í áframhaldinu segir greinin að „meira en 20.000 verkamenn hafi verið ráðnir“ til verksins.