Hvað er frelsun?
Svar Biblíunnar
Í Biblíunni eru orðin „bjarga“ og „frelsa“ stundum notuð um það þegar einhverjum er bjargað frá hættu eða tortímingu. (2. Mósebók 14:13, 14; Postulasagan 27:20) Oftar er þó átt við frelsun frá synd. (Matteus 1:21) Þeir sem hefur verið bjargað frá syndinni eiga von um að lifa að eilífu þar sem syndin er orsök dauðans. – Jóhannes 3:16, 17. a
Hvernig fær maður frelsun?
Til að hljóta frelsun verður maður að trúa á Jesú og sýna það í verki með því að hlýða fyrirmælum hans. – Postulasagan 4:10, 12; Rómverjabréfið 10:9, 10; Hebreabréfið 5:9.
Biblían sýnir að trú og verk fari saman. Við verðum sem sagt að hlýða meginreglum Guðs til að trú okkar sé lifandi. (Jakobsbréfið 2:24, 26) Þetta merkir samt ekki að maður geti áunnið sér frelsun. Hún er „gjöf Guðs“ byggð á ‚einstakri góðvild‘ hans eða „náð“. – Efesusbréfið 2:8, 9, Biblían 2010.
Fær maður frelsun í eitt skipti fyrir öll?
Nei, ekki frekar en að maður sem hefur verið bjargað frá drukknun getur dottið eða hent sér aftur út í vatnið. Maður sem hefur verið bjargað frá synd gæti farið á mis við frelsunina sem hann fékk ef hann hættir að iðka trúna. Þess vegna hvetur Biblían kristna menn sem hafa hlotið frelsun „til að berjast af krafti fyrir trúnni“. (Júdasarbréfið 3) Hún áminnir einnig þá sem hafa frelsast að ‚halda áfram að vinna að björgun sinni af alvöru og með ótta‘. – Filippíbréfið 2:12.
Hver er frelsarinn – Guð eða Jesús?
Biblían segir að frelsun komi fyrst og fremst frá Guði og talar oft um hann sem „frelsara“. (1. Samúelsbók 10:19; Jesaja 43:11; Títusarbréfið 2:10; Júdasarbréfið 25) Og Guð frelsaði Ísraelsþjóðina til forna fyrir atbeina manna og Biblían nefnir þá „frelsara“. (Nehemíabók 9:27; Dómarabókin 3:9, 15; 2. Konungabók 13:5) b Biblían talar um Jesú sem „frelsara“ þar sem Guð sér mannkyninu fyrir frelsun frá synd með lausnarfórn Jesú Krists. – Postulasagan 5:31; Títusarbréfið 1:4. c
Munu allir fá frelsun?
Nei, það fá ekki allir frelsun. (2. Þessaloníkubréf 1:9) Þegar Jesús var spurður: „Eru fáir sem bjargast?“ svaraði hann: „Leggið hart að ykkur til að komast inn um þröngu dyrnar því að ég segi ykkur að margir reyna að komast inn en geta það ekki.“ – Lúkas 13:23, 24.
Ranghugmyndir um frelsun alls mannkyns
Ranghugmynd: Fyrra Korintubréf 15:22 kennir að allt mannkynið muni frelsast en þar segir að ‚allir verði lífgaðir vegna sambands síns við Krist‘.
Staðreynd: Samhengið sýnir að verið er að tala um upprisuna. (1. Korintubréf 15:12, 13, 20, 21, 35) Orðalagið að ‚allir verði lífgaðir vegna sambands síns við Krist‘ merkir einfaldlega að allir sem fá upprisu hljóti þessa blessun vegna þess sem Jesús Kristur gerði. – Jóhannes 11:25.
Ranghugmynd: Títusarbréfið 2:11 kennir að allt mannkynið bjargist því að þar segir að Guð hafi „opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum“. – Biblían 2010.
Staðreynd: Gríska orðið sem er þýtt „allir“ í þessu versi getur einnig merkt ‚alls konar‘. d Títusarbréfið 2:11 merkir því í raun að Guð geri alls konar fólki kleift að bjargast, þar á meðal fólki „af öllum þjóðum, ættflokkum, kynþáttum og tungum“. – Opinberunarbókin 7:9, 10.
Ranghugmynd: Síðara Pétursbréf 3:9 kennir frelsun alls mannkyns með því að segja að Guð ‚vilji ekki að neinn farist‘.
Staðreynd: Guð vill að fólk bjargist og hann hefur opnað leið til þess en hann þvingar engan til að fara þessa leið. Dagur dóms hans felur í sér að ‚óguðlegum verði eytt‘. – 2. Pétursbréf 3:7.
a Biblían talar um að manneskju hafi verið „bjargað“ jafnvel þótt frelsun hennar frá synd og dauða sé ekki orðin að veruleika. – Efesusbréfið 2:5; Rómverjabréfið 13:11.
b Í versunum sem vitnað er í nota sumar biblíuþýðingar orð eins og „sigurvegari,“ „lausnari,“ „hetja,“ „leiðtogi“ eða jafnvel „einhver“ í staðinn fyrir „frelsari“. En í hebreska frumtexta Biblíunnar er sama orð notað um þessa menn sem voru frelsarar og er notað annars staðar í Biblíunni þegar talað er um Jehóva Guð sem frelsara. – Sálmur 7:10.
c Nafn Jesú er dregið af hebreska nafninu Jehósúa sem merkir ‚Jehóva er hjálpræði‘.
d Sjá Vine’s Complete Expository Dictionary of Old and New Testament Words. Sama gríska orð er í Matteusi 5:11 þar sem Jesús segir að fólk myndi tala „alls konar illyrði“ gegn fylgjendum hans. – Viðeyjarbiblía.