Hvenær byrjaði Guð að skapa alheiminn?
Svar Biblíunnar
Biblían segir hvorki hvenær sköpun alheimsins hófst né hve lengi hún stóð. Hún segir einfaldlega: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Biblían tilgreinir ekki hvenær upphafið átti sér stað. En atburðarásin í 1. Mósebók tímasetur það á undan sköpunartímabilunum, eða „dögunum“, sex.
Voru sköpunardagarnir sex bókstaflegir 24 klukkustunda dagar?
Nei. Í Biblíunni getur orðið „dagur“ átt við mislöng tímaskeið allt eftir samhenginu. Til dæmis lýsir frásagan á einum stað öllu sköpunarferlinu sem einum degi. – 1. Mósebók 2:4.
Hvað gerðist á sköpunardögunum sex?
Guð breytti jörðinni frá því að vera „auðn og tóm“ í byggilega plánetu. (1. Mósebók 1:2) Síðan skapaði hann líf á jörðinni. Biblían lýsir sex atburðarásum sem gerðust á þessum dögum, eða tímaskeiðum, sköpunarinnar.
Dagur 1: Guð lét ljós ná til yfirborðs jarðar. Þannig hófst hringrás dags og nætur . – 1. Mósebók 1:3–5.
Dagur 2: Guð myndaði víðáttu milli vatnsins á yfirborði jarðar og vatnsins hátt yfir yfirborði hennar. – 1. Mósebók 1:6–8.
Dagur 3: Guð lét þurrlendið birtast. Hann skapaði líka gróðurinn. – 1. Mósebók 1:9–13.
Dagur 4: Guð gerði sólina, tunglið og stjörnurnar sýnilegar sem ljósgjafa frá yfirborði jarðarinnar. – 1. Mósebók 1:14–19.
Dagur 5: Guð skapaði sjávardýr og fleyg dýr. – 1. Mósebók 1:20–23.
Dagur 6: Guð skapaði landdýr og menn. – 1. Mósebók 1:24–31.
Þegar sjötta deginum lauk hvíldist Guð eftir verk sín, eða hætti að skapa. – 1. Mósebók 2:1, 2.
Stenst frásaga 1. Mósebókar vísindalega skoðun?
Biblían heldur því ekki fram ekki að frásagan af sköpun heimsins sé vísindalega ítarleg greinargerð. Hún lýsir sköpuninni með þeim hætti að lesendur allt frá biblíutímanum gátu áttað sig á atburðarásinni í stórum dráttum. Frásagan af sköpuninni stangast ekki á við vísindalegar staðreyndir. Stjarneðlisfræðingurinn Robert Jastrow skrifar: „Öll smáatriðin eru ólík en aðalatriðin í stjarnfræðilegu sögunni og sögu 1. Mósebókar eru eins. Atburðarásin allt fram að tilkomu mannsins gerist allt einu og með látum á ákveðnum tímapunkti.“
Hvenær voru sólin, tunglið og stjörnurnar skapaðar?
Sólin, tunglið og stjörnurnar voru þegar til sem hluti himinsins sem Guð skapaði „í upphafi“. (1. Mósebók 1:1) En birtan frá þeim náði ekki til yfirborðs jarðar vegna mjög þétts andrúmslofts. (1. Mósebók 1:2) Þó að dreifð birta hafi orðið sýnileg á fyrsta degi var enn ekki hægt að greina ljósgjafana. Á fjórða sköpunardeginum létti til í andrúmslofti jarðarinnar. Biblían segir að sól, tungl og stjörnur hafi farið að „bera jörðinni birtu“, sem greinilega lýsir því hvernig það hefði litið út frá sjónarhóli einhvers á jörðinni. – 1. Mósebók 1:17.
Hve gömul er jörðin samkvæmt Biblíunni?
Biblían segir ekkert um aldur jarðarinnar. Fyrsta Mósebók 1:1 segir einfaldlega að alheimurinn og þar með talin jörðin eigi sér upphaf. Þessi fullyrðing stangast hvorki á við vísindalegar staðreyndir né ályktanir vísindamanna um aldur jarðar.