UNGT FÓLK SPYR
Hvað get ég gert ef ég þoli ekki skólann?
Strangir kennarar. Hópþrýstingur. Próf sem stressa mann og endalaus heimavinna. Það er skiljanlegt að þú getir verið þreyttur á skólanum. Unglingsstelpa sem heitir Rachel a segir:
„Ég myndi vilja vera alls staðar annars staðar en í skólanum. Ég myndi vilja vera á ströndinni, með vinum mínum eða jafnvel hjálpa mömmu og pabba að elda eða þrífa!“
Ef þér líður eins og Rachel upplifirðu skólaárin kannski eins og fangavist sem þú þarft að afplána þangað til þú útskrifast. Er hægt að vera jákvæðari gagnvart skólanum?
Vissir þú? Þú hefur betri stjórn á aðstæðum og hættir að sjá skólagönguna sem þolraun ef þú þroskar með þér jákvæðara viðhorf til skólans. Þú getur litið á hann sem tækifæri til að þroska hæfileika sem nýtast þér þegar þú verður fullorðinn.
Beindu athyglinni að eftirfarandi til að sjá skólann í jákvæðara ljósi:
Menntun þín. Því meira sem þú lærir því betur ertu í stakk búinn til að leysa vandamál í framtíðinni, í vinnu og á öðrum sviðum lífsins. Þá þarftu ekki að reiða þig eins mikið á aðra. Spyrðu þig: Hvað læri ég í skólanum sem nýtist mér þótt ég sé stundum þreyttur á honum?
Meginregla Biblíunnar: „Varðveittu visku og skarpskyggni.“ – Orðskviðirnir 3:21.
Hægt er að fá frekari upplýsingar í greininni „Hvað get ég gert ef mér gengur illa í skóla?“
Venjur þínar. Í skólanum geturðu lært að skipuleggja tímann, hafa meiri sjálfsaga og temja þér vinnusemi. Þetta eru eiginleikar sem nýtast þér þegar þú ert orðinn fullorðinn. Spyrðu þig: Hvað læri ég í skólanum sem hjálpar mér að verða góður vinnukraftur og hafa meiri sjálfsaga? Hvaða framförum gæti ég tekið?
Meginregla Biblíunnar: „Af allri erfiðisvinnu hlýst ávinningur.“ – Orðskviðirnir 14:23.
Hægt er að fá frekari upplýsingar í greininni „Hvernig get ég vanið mig af því að slá hlutunum á frest?“
Félagsleikni. Samskipti við bekkjarfélaga þína geta kennt þér að sýna öðrum samkennd og virðingu. „Að læra að eiga samskipti við aðra er jafnmikilvægt og að læra mannkynssögu og vísindi,“ segir ungur maður sem heitir Joshua. „Sú færni nýtist þér út lífið.“ Spyrðu sjálfan þig: Hvað hef ég lært í skólanum sem gerir mig færari í samskiptum, þar á meðal við þá sem hafa ekki sama bakgrunn og skoðanir og ég?
Meginregla Biblíunnar: „Leggið ykkur fram um að eiga frið við alla.“ – Hebreabréfið 12:14.
Hægt er að fá frekari upplýsingar í greininni „Hvernig get ég orðið færari í að tala við aðra?“
Framtíð þín. Skólinn getur hjálpað þér að koma auga á hæfileika þína og setja þér markmið í samræmi við það. Ung kona sem heitir Brooke segir: „Þú gætir orðið þér úti um þjálfun á vissu sviði, eins og ég gerði, þannig að þegar þú útskrifast geturðu unnið við það.“ Spyrðu þig: Hvernig ætla ég að sjá fyrir mér eftir útskrift? Hvernig get ég séð til þess að menntunin stuðli að því að ég fái þannig vinnu?
Meginregla Biblíunnar: „Þú þarft að vita hvert þú stefnir.“ Contemporary English Version.
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.