UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég fengið löngun til að hreyfa mig?
Hvers vegna ætti ég að hreyfa mig?
Í sumum löndum hreyfir ungt fólk sig sífellt minna og það stofnar heilsu þess í hættu. Það er af góðri ástæðu að Biblían segir að ,líkamleg æfing sé gagnleg‘. (1. Tímóteusarbréf 4:8) Hugleiddu eftirfarandi:
Hreyfing getur aukið vellíðan þína. Við líkamlega áreynslu myndast endorfín í heila – það fær þig til að slaka á og líða vel. Sumir líta á hreyfingu sem náttúrulegt þunglyndislyf.
„Ef ég fer út að hlaupa á morgnanna verð ég ánægðari og afkastameiri á daginn. Að hlaupa hefur góð áhrif á skapið.“ – Regina.
Hreyfing hefur góð áhrif á útlitið. Hæfileg hreyfing styrkir líkamann, kemur þér í betra form og eykur sjálfstraust þitt.
„Það er frábært að geta gert tíu upphífingar – fyrir ári gat ég ekki einu sinni gert eina! En það besta er að maður veit að maður er að hugsa vel um líkama sinn.“ – Olivia.
Hreyfing getur lengt líf þitt. Hún er góð fyrir æða- og öndunarkerfið. Þolæfingar geta líka komið í veg fyrir kransæðasjúkdóma – einu algengustu dánarorsök bæði karla og kvenna.
„Þegar við hreyfum okkur reglulega sýnum við skapara okkar að við erum þakklát fyrir líkamann sem hann gaf okkur.“ – Jessica.
Kjarni málsins: Hreyfing getur haft mjög góð áhrif á þig, bæði núna og til langs tíma litið. „Maður hugsar aldrei að maður hefði betur sleppt því að fara í þessa löngu gönguferð eða hlaupatúr,“ segir stelpa sem heitir Tonya. „Ég sé aldrei eftir því að neita að hlusta á afsakanir mínar og fara að hreyfa mig.“
Hvað heldur aftur af mér?
Það gætu verið einhverjar af þessum ástæðum:
Enginn hvati. „Ég held að ungu fólki finnist það ósigrandi. Það er erfitt að ímynda sér að maður eigi eftir að glíma við heilsuvandamál. Manni finnst það bara vera vandamál eldra fólks.“ – Sophia.
Enginn tími. „Ég hef mikið að gera og verð því að gefa mér tíma til að borða hollt og fá nægan svefn. En mér hefur alltaf fundist erfiðara að finna tíma fyrir hreyfingu.“ – Clarissa.
Ekki með kort í ræktina. „Það er dýrt að halda sér í formi – það kostar að fara í ræktina.“ – Gina.
Til umhugsunar:
Hvað hindrar þig mest í að hreyfa þig? Það getur reynt töluvert á að sigrast á því en erfiðið margborgar sig.
Hvernig get ég fengið þá hreyfingu sem ég þarf?
Hér koma nokkrar tillögur:
Taktu ábyrgð á eigin heilsu. – Galatabréfið 6:5.
Forðastu afsakanir. (Prédikarinn 11:4) Þú þarft til dæmis ekki að kaupa þér kort í ræktina til að byrja að hreyfa þig. Veldu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og taktu frá tíma fyrir hana í hverri viku.
Til að fá hugmyndir að hreyfingu skaltu spyrja aðra hvað þeir geri. – Orðskviðirnir 20:18.
Gerðu nákvæma áætlun. Settu þér markmið og skráðu árangurinn þér til hvatningar. – Orðskviðirnir 21:5.
Finndu einhvern sem vill hreyfa sig með þér. Það er hvetjandi og hjálpar þér að halda þig við áætlun. – Prédikarinn 4:9, 10.
Gerðu ráð fyrir bakslagi og ekki gefast upp þegar það gerist. – Orðskviðirnir 24:10.
Gættu jafnvægis
Biblían hvetur bæði karla og konur að gæta hófs. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 11) Gættu því jafnvægis þegar kemur að hreyfingu. Þeir sem æfa óhóflega mikið virðast oft bara hugsa um útlitið. „Það er langt frá því að vera aðlaðandi þegar gaur lætur bera meira á vöðvunum sínum en gáfum,“ segir Julia.
Gættu þín einnig á slagorðum eins og þessum: „Þegar þú ert búinn á því skaltu gera tíu í viðbót.“ Slík ráð gætu haft slæm áhrif á líkamann og orðið til þess að þú missir sjónar á því sem er mikilvægara í lífinu. – Filippíbréfið 1:10.
Auk þess getur það sem ætti að hvetja þig áfram virkað öfugt á þig og dregið úr þér. Stelpa sem heitir Vera segir: „Margar stelpur geyma myndir af fólki sem þær vilja líkjast og skoða síðan myndirnar þegar þeim vantar hvatningu. En í staðinn fara þær að bera sig saman við myndirnar og það hefur ekki jákvæð áhrif. Það er betra að setja sér það að markmiði að bæta heilsuna en ekki bara útlitið.“