UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég fengið meira næði?
Hvers vegna skipta foreldrar sér af?
Foreldrar þínir segja að þeim sé bara annt um þig en þér finnst þau vera að gera innrás í einkalíf þitt. Tökum dæmi:
„Stundum tekur pabbi símann minn, krefst þess að fá aðgangsorðið og skoðar öll skilaboðin í honum,“ segir unglingsstúlka að nafni Erin. „Ef ég fer í vörn heldur hann að ég hafi eitthvað að fela.“
Denise, sem er rúmlega tvítug, segir að mamma hennar hafi verið vön að grandskoða símareikninginn. „Hún fór í gegnum símanúmeralistann, spurði hver ætti hvaða númer og hvað við hefðum rætt um.“
Unglingsstúlka, sem heitir Kayla, segir að mamma hennar hafi lesið dagbókina hennar. „Þar hafði ég skrifað heilmikið um hvernig mér leið – þar á meðal ýmislegt sem var um hana. Eftir það hætti ég að halda dagbók.“
Kjarni málsins: Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni og þú getur ekki stjórnað því hvernig þeir sinna ábyrgð sinni. Fara þau stundum yfir strikið í þeim efnum? Það kann að vera. Hins vegar getur þú gert ýmislegt til að þau þurfi ekki að skipta sér eins mikið af.
Það sem þú getur gert
Vertu hreinskilinn. Biblían hvetur okkur til að vera heiðarleg og ‚breyta vel í öllum greinum‘. (Hebreabréfið 13:18) Leggðu þig fram um að koma þannig fram við mömmu þína og pabba. Ef þú ert hreinskilinn og opinn við þau eru meiri líkur á að þau treysti þér og veiti þér meira næði.
Til umhugsunar: Hafa foreldrar þínir getað treyst þér hingað til? Heldurðu reglur um útivistartíma? Talarðu við þau um vini þína? Segirðu þeim frá hvað þú ert að gera?
„Ég þarf að koma til móts við foreldra mína. Ég ræði við þau um það sem er að gerast í lífi mínu. Ég segi þeim það sem þau vilja vita og þess vegna treysta þau mér og virða einkalíf mitt.“ – Delia.
Vertu þolinmóður. Í Biblíunni segir: „Prófið ykkur sjálf.“ (2. Korintubréf 13:5) Það tekur tíma að ávinna sér traust annarra en það er erfiðisins virði.
Til umhugsunar: Einu sinni voru foreldrar þínir líka unglingar. Heldurðu að reynsla þeirra hafi einhver áhrif á hversu vel þeir fylgjast með þér?
„Ég held að foreldrar muni eftir mistökunum sem þeir gerðu þegar þeir voru unglingar og vilji koma í veg fyrir að börnin þeirra endurtaki þau.“ – Daniel.
Settu þig í þeirra spor. Reyndu að sjá hlutina frá sjónarhóli foreldra þinna. Biblían segir að dugleg eiginkona ‚vaki yfir því sem fram fer á heimili hennar‘ og að góður faðir ali börn sín upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Orðskviðirnir 31:27; Efesusbréfið 6:4) Til að geta staðið undir þessari ábyrgð verða foreldrar þínir að fylgjast með þér.
Til umhugsunar: Hvað heldurðu að þú myndir gera ef þú værir foreldri? Myndirðu ekkert skipta þér af því sem sonur þinn eða dóttir væru að gera vitandi það sem þú veist um unglinga?
„Þegar maður er unglingur finnst manni foreldrarnir vera að ‚hnýsast‘ í einkalíf manns. Núna þegar ég er orðinn eldri skil ég að foreldrar verða að gera þetta. Það sýnir að þeir elska mann.“ – James.